Lýðræði er ekki fyrsta orðið sem kemur í hugann þegar starfið í útvarpsráði ber á góma. Stundum verða þar uppbyggilegar umræður og skoðanaskipti, en oft koma upp mál þar sem slík skoðanaskipti eru ekkert annað en leikaraskapur, sem meirihlutinn hefur aldrei ætlað sér að taka hið minnsta mark á. Dæmi um það er umfjöllunin um þá hugmynd menntamálaráðherra að flytja Rás 2 til Akureyrar og gera hana að miðstöð svæðisstöðva RÚV. Hann varpaði þeirri hugmynd fram í umræðu á Alþingi þar sem verið var að gagnrýna minnkandi þjónustu svæðisstöðvanna vegna fjárhagserfiðleika Ríkisútvarpsins.
Þegar hugmynd menntamálaráðherra kom til meðferðar útvarpsráðs lagði meirihlutinn til að fulltrúi Framsóknar leiddi starf nefndar sem útfærði málið og hafnaði algjörlega aðkomu annarra útvarpsráðsmanna. Engar upplýsingar fengust um starf nefndarinnar, þótt ítrekað væri eftir þeim leitað, þar til skýrsla og tillaga nefndarinnar var kynnt á síðasta fundi útvarpsráðs fyrir jól.
Ráðsmenn fengu annadagana um jól og áramót til þess að kynna sér tillögu hópsins, greinargerð hans og hugmynd um framkvæmdaáætlun, ræða við fólk innan og utan Ríkisútvarpsins og gera sér grein fyrir stefnumörkun og kostnaði. Það var ekkert áhlaupaverk, enda greinargerðin því miður ótrúlega illa unnin og rökstuðningur einkar fátæklegur. Það vekur í raun furðu að reyndir og vandaðir fréttamenn á borð við þau Ernu Indriðadóttur og Jóhann Hauksson skyldu fást til að leggja nafn sitt við þessi ósköp.
Niðurstaða mín var að skýrsla starfshópsins væri ágæt sem áfangaskýrsla og fyrsta skref í þeirri vinnu sem fara yrði fram áður en ráðist yrði í aðgerðir til þess að efla starf svæðisstöðvanna m.a. í tengslum við endurskipulagningu Rásar 2. Í skýrslunni er vissulega ýmislegt nýtilegt, en þó verður að segja að hún vekur fleiri spurningar en hún svarar. Og maður spyr sig hversu marktæk þessi vinna er skoðuð í samhengi við fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins og sífelldar kröfur um hagræðingu og sparnað.
Greinargerðin einkennist af órökstuddum fullyrðingum. Engin raunveruleg úttekt er lögð til grundvallar tillögu og greinargerð starfshópsins, engar tölur um þróun í starfsmannahaldi, engar tölur um þróun framlegðar svæðisstöðvanna, engar upplýsingar um nýtingu efnis eða hlustun.
Benda má á tilvitnun í skýrslunni í orð útvarpsstjóra þess efnis
að starfssvið svæðisstöðvanna hafi orðið þrengra en upphaflega stóð til. “Skýringanna má eflaust leita víða”, segir í tilvitnuninni og eðlilegt hefði verið að fara af fullri alvöru í þá leit til þess að undirbyggja tillögur til breytinga á starfsemi svæðisstöðvanna og tengslum þeirra við móðurstöðina í Efstaleiti. Hvers vegna “…hafa dagskrárverkefni ekki verið flutt í neinum umtalsverðum mæli frá höfuðbólinu í Reykjavík til starfsstöðvanna úti á landi sem hver um sig hefur hljóðver sem nýta mætti miklu betur en nú er gert”? eins og segir í tilvitnuðum orðum útvarpsstjóra. Hverju er um að kenna? Skipulagsleysi? Skorti á tæknikunnáttu? Fjárskorti? Viljaleysi? Og þá
viljaleysi hverra? Starfsfólks? Stjórnenda? Engin tilraun er gerð til að grafast fyrir um orsakir þessa.
Ýmislegt er sett fram í greinargerðinni án þess að það sé rökstutt. Dæmi úr kafla þar sem taldir eru upp viðmælendur starfshópsins:
“Almennt var sú skoðun ríkjandi meðal ofangreindra viðmælenda að æskilegt væri að framlag svæðisstöðva til útvarpsdagskrárinnar á landsrásum Ríkisútvarpsins yrði aukið frá því sem nú er. Starfshópurinn ætlar að um þá áherslubreytingu sé almenn sátt. Það vakti athygli starfshópsins að þrátt fyrir þessa almennu skoðun þá virtust viðmælendur fremur andvígir að gera þær breytingar sem nauðsynlegar eru til að auka framboð á efni frá landsbyggðinni”. Enginn rökstuðningur fylgir eða nánari útlistun og engar frekari fréttir er að hafa af þessari undirbúningsvinnu starfshópsins. Sögðu viðmælendur ekkert um hvaða leiðir þeir teldu færar til þess að ná þessu markmiði? Eða voru þeir ekki spurðir? Eftir að hafa rætt við nokkra af þessum viðmælendum er ljóst að þetta er gróf rangtúlkun á viðhorfum a.m.k. sumra þeirra.
Annað dæmi má taka af lokaorðum starfshópsins þar sem ein af grundvallarstoðum Ríkisútvarpsins er sögð vera að það sé “..leiðandi afl um gæði og þjónustu við alla landsmenn”. Og má slá því föstu að menn séu sammála um þetta atriði. En síðan segir: “Þeim tillögum sem hér eru lagðar fram er ætlað að styrkja þetta hlutverk stofnunarinnar enn frekar. Ef stofnuninni tekst ekki að þróa starfsemi rásarinnar í þessa átt er eðlilegt að spurt sé hvort þörf sé fyrir starfsemi Rásar 2 yfirleitt”. Út úr þessum orðum er ekki hægt að lesa annað en að Rás 2 þjóni ekki öllum landsmönnum eins og nú er í pottinn búið og að ef ekki verði farið að tillögum starfshópsins þá sé Rásin einfaldlega óþörf. Enn og aftur sér starfshópurinn ekki út fyrir þá einu leið sem hann mælir fyrir.
Hugmynd menntamálaráðherra, sem er tilefni þess að starfshópurinn fékk þetta verkefni, virðist sett fram til þess fyrst og fremst “…að efla starf RÚV á landsbyggðinni…” og í leiðinni “…að nýta krafta starfsmanna og húsrými RÚV á Akureyri með skipulegri hætti…”, eins og segir í bréfi ráðherra til útvarpsráðs. Hvorki menntamálaráðherra né starfshópurinn víkja hins vegar einu orði að undirrót þess vanda sem ýjað er að, nefnilega því að á undanförnum árum hefur verulega þrengt að báðum þeim þáttum í rekstri Ríkisútvarpsins sem hér koma við sögu, þ.e. Rás 2 og svæðisstöðvunum. Skipulagi hefur verið breytt, starfsfólki fækkað, dregið úr dagskrárgerð, dregið úr kröfum um tækniþjónustu, og þannig mætti áfram telja.
Ef allir eru sammála um að markmiðið sé “…að efla starf RÚV á landsbyggðinni…”, og ef stjórnendur RÚV og æðsti yfirmaður þess, menntamálaráðherra, telja sig hafa nauðsynlegt fjármagn til þess, þá væri að minni hyggju eðlilegast og best að svæðisstöðvarnar fengju einfaldlega aftur þann styrk sem þær höfðu áður en farið var að reyta af þeim fjaðrirnar. Og sama er að segja um Rás 2 sem sannarlega má muna sinn fífil fegri. Aðalatriðið er að efla starfið á svæðisstöðvunum með það að markmiði að styrkja dagskrá Ríkisútvarpsins í heild. Þetta snýst ekki bara um endurskipulagningu Rásar 2 og að gera RÚVAK að móðurstöð svæðisstöðvanna. Rás 1 á auðvitað að vera inni í myndinni og Sjónvarpið einnig.
Ég lagði áherslu á það í umræðunum á fundi útvarpsráðs 8. janúar að málið yrði unnið áfram og frekari gögn yrðu lögð til grundvallar endanlegri niðurstöðu. Augljóslega mundi niðurstaðan kosta verulegt fjármagn ef standa ætti almennilega að málum en miðað við þær kröfur um hagræðingu og sparnað sem dunið hafa á útvarpsráði, á stjórnendum og starfsfólki þætti mér ótrúlegt að hægt væri allt í einu að taka þetta mál út fyrir sviga og skipti engu hvað það kostaði.
Það varð þó fljótlega ljóst að fulltrúar stjórnarflokkanna í útvarpsráði voru ekki komnir til fundarins til þess að hlusta á álit og röksemdir minnihlutans. Á borðinu lá tillaga starfshópsins undirrituð af 4 fulltrúum stjórnarflokkanna og ekki hin minnsta tilraun var gerð til að vinna að sátt um málið, ekki hin minnsta. Meirihlutinn vissi um vald sitt og nennti ekki að ræða málið.
Að tillögunni samþykktri lét ég bóka eftirfarandi:
“Ég sit hjá við afgreiðslu tillögunnar þar sem verulega skortir á um stefnumörkun og engum spurningum hefur verið svarað um óhjákvæmilegan kostnað.
Skýrsla starfshóps um flutning Rásar 2 til Akureyrar er ágæt sem áfangaskýrsla og fyrsta skref í þeirri vinnu sem fara verður fram áður en ráðist verður í aðgerðir til þess að efla starf svæðisstöðvanna, m.a. í tengslum við endurskipulagningu Rásar 2.
Í skýrslunni er margt nýtilegt og t.d. er ljóst að margir deila þeirri skoðun með starfshópnum að nauðsynlegt sé að gera breytingar á stjórnun, gera hana markvissari og verkaskiptingu skýrari og m.a. þurfi að hafa sérstakan yfirmann yfir Rás 2.
Hins vegar vekur skýrsla starfshópsins fleiri spurningar en hún svarar. Mikið skortir á rökstuðning fyrir tillögu starfshópsins og framkvæmdaáætlun er marklaus þar sem kostnaðaráætlun skortir. Og menn hljóta að velta fyrir sér hversu marktæk þessi vinna er skoðuð í samhengi við fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins og sífelldar kröfur um hagræðingu og sparnað.
Það er ókostur að engin raunveruleg úttekt er lögð til grundvallar tillögu og greinargerðar starfshópsins, engar tölur um þróun í starfsmannahaldi, engar tölur um þróun framlegðar svæðisstöðvanna, engar upplýsingar um nýtingu efnis og hlustun.
Ekki hefur verið sýnt fram á að ætlaðar breytingar verði til hagsbóta fyrir notendur Ríkisútvarpsins. Því get ég á þessu stigi ekki stutt tillögu meirihluta útvarpsráðs.”