“Fúlir á móti” Vinstri grænum

Þingmenn Vinstri grænna hafa alveg frá upphafi haldið uppi harðri en málefnalegri stjórnarandstöðu og óneitanlega oft gert stjórnarflokkunum lífið leitt. Ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna hafa í raun ekki átt önnur svör en þau að reyna að hæða þingmenn VG, leita leiða til að gera málflutning þeirra tortryggilegan og jafnvel hlægilegan, eins og þreyttir brandarar Framsóknarmanna um fjallagrös og hundasúrur eru til vitnis um. Síbyljan um að Vinstri grænir séu á móti öllu, jafnvel “fúlir á móti” þegar menn vilja vera alveg sérstaklega fyndnir, er þó hvað lífseigust og væntanlega notuð á þeirri gamalkunnu forsendu að ef eitthvað er endurtekið nógu oft verði því trúað.

Við þennan málflutning er býsna margt og mikið að athuga og þá fyrst og fremst það hversu röng sú staðhæfing er að Vinstri grænir séu á móti öllu. Staðhæfingunni mætti allt eins og jafnvel með meiri rétti snúa algjörlega við og fullyrða að einkum og sér í lagi stjórnarflokkarnir séu nánast í einu og öllu á móti hverju því sem Vinstri grænir hafa fram að færa.

Staðreyndin er auðvitað sú að á Alþingi Íslendinga er unnið að mörgum málum í fullkomnu bróðerni og þau mál líklega nokkru fleiri en hin sem ágreiningur er um. Um það vitna málalok og niðurstöður undanfarinna þinga. Þingmenn Vinstri grænna hafa lagt slíkum málum lið eins og aðrir. En skárra væri nú ef ekki skærist alloft í odda með flokkum með svo gjörólíka stefnu og sýn á samfélagið sem raunin er með Vinstrihreyfinguna – grænt framboð annars vegar og stjórnarflokkana hins vegar. Það væri nú meiri lufsuhátturinn ef þingmenn Vinstri grænna létu það möglunarlítið yfir sig og aðra ganga þegar ráðist er að náttúru landsins, leikreglur lýðræðisins vanvirtar, upplýsingum haldið frá Alþingi, vegið að rótum samhjálpar í íslensku samfélagi eða gagnrýnislaust lapið upp hvaðeina sem vestrænum þjóðarleiðtogum dettur í hug að segja og gera þegar alþjóðamálin eru annars vegar. Í slíkum málum m.a. hafa þingmenn VG haldið uppi hörðu andófi með kröftugum málflutningi sem stjórnarsinna svíður undan. Oft eiga þeir ekki önnur viðbrögð í handraðanum en fullyrðingarnar um að Vinstri grænir séu á móti öllu.

En hvað um þá sjálfa? Það vantar ekki að í hita umræðna kalla stjórnarliðar eftir hugmyndum Vinstri grænna og segja þá engar hafa og er þá harla augljóst að þeir leggja sig lítið eftir því að kynna sér þingmál annarra en sín eigin. Þingmenn Vinstri grænna hafa lagt fram fjölda þingmála um hin ólíkustu efni, umhverfis- og náttúruvernd, menntamál, heilbrigðismál og önnur velferðarmál, byggðamál, atvinnumál, utanríkismál, skattamál, samgöngumál og þannig mætti áfram telja. Mörg þessara mála eru til vitnis um ítarlega unna heildarsýn í viðkomandi málaflokki, s.s. um atvinnuþróun á grundvelli sjálfbærrar þróunar og uppbyggingu velferðarþjónustu svo að dæmi séu nefnd. Það hentar hins vegar ekki þingmönnum annarra flokka að ræða tillögur Vinstri grænna á málefnalegan hátt, heldur stökkva þeir viðstöðulaust í þá fúlu pytti að gera nákvæmlega það sem þeir saka aðra um. Þeir eru einfaldlega á móti öllu sem Vinstri grænir hafa til málanna að leggja.

Ofbeldi virkjanasinna

Notalegt páskafrí er að renna sitt skeið og við tekur hversdagurinn með öllu sínu amstri. Þingfundir hefjast að nýju á miðvikudag og nú ætlar ríkisstjórnin og þingmeirihlutinn að beita afli sínu og freista þess að troða lagaheimild til Kárahnjúkavirkjunar í gegnum þingið. Og nú lítur út fyrir að stuðningurinn verði enn breiðari á Alþingi en áður var talið. Samfylkingin kyssir á tær stjórnarherranna og býður upp á obbolítinn þjóðgarð í skiptum fyrir víðáttumestu náttúruspjöll af mannavöldum sem nokkru sinni hefur verið efnt til.

Ofurkapp öfgafullra stórvirkjana- og stóriðjusinna, stjórnmálamanna sem framkvæmdaraðila, virðist eiga sér lítil takmörk. Þeir þrjóskast við og þverskallast, þeir hagræða sannleikanum, neita að svara spurningum um forsendur og arðsemi og ljúga jafnvel blygðunarlaust ef þeim býður svo við að horfa. Þeir moka peningum í undirbúning, samningaferli og beinar framkvæmdir og láta alla gagnrýni sem vind um eyru þjóta, enda munar um minna en stuðning heillar ríkisstjórnar og flokka hennar.

Ofbeldi er rétta orðið yfir þessi ósköp. Ofbeldi af hálfu andstæðinga íslenskrar náttúru, ofbeldi framkvæmdaóðra verkfræðinga og vinnuvélafíkla, ofbeldi valdasjúkra stjórnmálamanna og meðvitundarlítilla aftaníossa þeirra.

Jafnvel þegar álversdraumurinn bíður hnekki er bitið í skjaldarrendur sem aldrei fyrr. Eftir allt bröltið og stóru orðin, loforðin og fullyrðingarnar er ekkert fast í hendi með orkusölu frá þessu virkjanaskrímsli. Norskir stóriðjufíklar reyndust ekki áhugasamari en svo eftir allar undirskriftirnar og alla fundina og ferðalögin fram og aftur, að allt í einu hættu þeir við og voru svo ekki almennilegri í garð “frænda” sinna en svo að formlega yfirlýsingu þurfti að draga út úr þeim með töngum. Og þá finnst nú ærið mörgum út í hött að ætla að þröngva Alþingi til að samþykkja heimild fyrir risavirkjun meðan enginn kaupandi er að orkunni. En Halldór og Valgerður og Arnbjörg og Einar Már þurfa á því að halda að geta veifað einhverjum árangri framan í kjósendur sína, og þá er jú eitt stykki virkjunarheimild í lögum skárri en ekkert.

Þess vegna lítur út fyrir að lagafrumvarpið um heimild til Kárahnjúkavirkjunar og reyndar einnig til virkjunar í Bjarnarflagi og til stækkunar Kröfluvirkjunar verði samþykkt og lögfest fyrir þinglok í þessum mánuði, enda engir til varnar í þinginu aðrir en þingmenn vinstri grænna. Málflutningur þeirra er ljósið í myrkrinu. Þeir berjast hetjulega með rökin öll á hreinu. En röksemdir hrína ekki á Halldóri og félögum, og Valgerður ypptir bara öxlum og andvarpar yfir ræðuhöldum vinstri grænna. Hún telur sig hafa efni á því og hlustar hvorki á rök né áskoranir samtaka náttúruverndar í landinu.

Bókun í útvarpsráði

Snemma árs 2000 lagði ég það til á fundi í útvarpsráði að leitað yrði álits Lagastofnunar Háskóla Íslands á réttmæti vinnubragða útvarpsstjóra við gerð samnings um árangursstjórnun. Tillagan var samþykkt en ekki var sopið kálið þótt í ausuna væri komið því álitið lét á sér standa. Þau undur og stórmerki gerðust svo loks í febrúar sl. að álitið barst rúmum tveimur árum eftir samþykkt útvarpsráðs. Álitið olli mér vonbrigðum af ýmsum ástæðum, enda þótt tekið væri í megindráttum undir þá gagnrýni sem fram hafði komið á sínum tíma. Um álitið var svo fjallað á fundi ráðsins 19. mars sl. Formaður ráðsins lýsti ánægju með það, en nokkrir ráðsmanna höfðu ýmislegt við það að athuga. Ásamt Önnu K. Gunnarsdóttur og Merði Árnasyni lagði ég fram eftirfarandi bókun um málið.

“Í byrjun árs 2000 lagði útvarpsstjóri fram á fundi útvarpsráðs samning um árangursstjórnun sem hann hafði gert við menntamálaráðherra og undirritað 30. desember 1999. Ekkert samráð var haft um gerð samningsins við útvarpsráð sem hefur þó það hlutverk lögum samkvæmt að taka „ákvarðanir um hversu útvarpsefni skuli haga í höfuðdráttum innan marka fjárhagsáætlunar“. Með tilliti til þessa þótti sumum ráðsmanna sem útvarpsstjóri hefði farið út fyrir valdsvið sitt og á fundi útvarpsráðs 18. janúar árið 2000 var samþykkt að leita álits Lagastofnunar Háskóla Íslands á því hvort samningurinn væri í samræmi við útvarpslög þar sem útvarpsráð kom þar hvergi nærri. Af ýmsum ástæðum lítur umbeðin álitsgerð nú loksins dagsins ljós, að rúmlega 2 árum liðnum og þegar samningurinn sem um ræðir er runninn út. Þá hefur sú breyting orðið á að í stað Lagastofnunar H.Í. tók fyrrverandi lagaprófessor, Sigurður Líndal, að sér verkið og kom þannig aðeins einn að álitsgerðinni en ekki tveir eins og reglur Lagastofnunar kveða á um. Rétt er þó að fram komi að útvarpsráð samþykkti þá ráðstöfun þar eð það virtist eina leiðin til að fá einhverja niðurstöðu. Þessi atriði rýra hins vegar gildi álitsgerðarinnar.

Álitsgjafi bendir ítrekað á að markmið árangurssamningsins séu í samræmi við lög um Ríkisútvarpið. Um það var ekki spurt og aldrei um það deilt. Rétt er að minna á að sú gagnrýni sem fram kom vegna samningsins snerist ekki um efni hans einkum, heldur hvernig að honum var unnið. Undir þá gagnrýni er tekið í lokaorðum álitsins. Niðurstaða álitsgjafa er að útvarpsstjóri hafi haft fulla heimild til að gera samninginn, en að það hefði verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti að kynna samninginn fyrir útvarpsráði og fá álit þess. Niðurstaðan er þannig í veigamiklum atriðum samhljóma áliti og gagnrýni meirihluta ráðsmanna þegar málið var kynnt á sínum tíma. Þó vekur undrun hversu vægt er til orða tekið í ljósi erindis um stöðu Ríkisútvarpsins innan stjórnkerfisins sem álitsgjafi, Sigurður Líndal, flutti á starfsmannaþingi Ríkisútvarpsins í apríl 1993. Í því erindi kom skýrt fram að stjórnsýsla Ríkisútvarpsins væri tvíþætt, annars vegar dagskrárstjórnin þar sem fulltrúum löggjafarvaldsins, útvarpsráði kjörnu á Alþingi, hefur verið tryggð yfirstjórn og hins vegar annar rekstur sem lýtur yfirstjórn útvarpsstjóra sem fulltrúi framkvæmdavaldsins, menntamálaráðherra, skipar. Útvarpsráð hefði bæði úrskurðarvald og reglusetningarvald sem væri til marks um að það hefði með höndum stjórnvald. Í ljósi þess hefði mátt ætla að niðurstaða álitsgjafa væri skýrt og afdráttarlaust sú að útvarpsráð hefði átt að koma með afgerandi hætti að gerð fyrrnefnds samnings útvarpsstjóra og menntamálaráðherra sem fjallar að stórum hluta frá ýmsum hliðum um framboð dagskrárefnis.

Við teljum enn sem áður að útvarpsstjóra beri skylda til að leggja samning eins og þann sem hér um ræðir undir útvarpsráð.

Í báðum skýringartextum álitsgjafa, bæði frá 1993 og 2002, kemur fram að valdmörk útvarpsstjóra og útvarpsráðs eru á ýmsan hátt óljós. Sú staða leggur aðilum á herðar þá skyldu að taka mjög tillit hvor til annars við yfirstjórn Ríkisútvarpsins. Það er von okkar að útvarpsstjóri gæti þessa í framtíðinni.”

Lýðræðisást meirihluta útvarpsráðs

Lýðræði er ekki fyrsta orðið sem kemur í hugann þegar starfið í útvarpsráði ber á góma. Stundum verða þar uppbyggilegar umræður og skoðanaskipti, en oft koma upp mál þar sem slík skoðanaskipti eru ekkert annað en leikaraskapur, sem meirihlutinn hefur aldrei ætlað sér að taka hið minnsta mark á. Dæmi um það er umfjöllunin um þá hugmynd menntamálaráðherra að flytja Rás 2 til Akureyrar og gera hana að miðstöð svæðisstöðva RÚV. Hann varpaði þeirri hugmynd fram í umræðu á Alþingi þar sem verið var að gagnrýna minnkandi þjónustu svæðisstöðvanna vegna fjárhagserfiðleika Ríkisútvarpsins.

Þegar hugmynd menntamálaráðherra kom til meðferðar útvarpsráðs lagði meirihlutinn til að fulltrúi Framsóknar leiddi starf nefndar sem útfærði málið og hafnaði algjörlega aðkomu annarra útvarpsráðsmanna. Engar upplýsingar fengust um starf nefndarinnar, þótt ítrekað væri eftir þeim leitað, þar til skýrsla og tillaga nefndarinnar var kynnt á síðasta fundi útvarpsráðs fyrir jól.

Ráðsmenn fengu annadagana um jól og áramót til þess að kynna sér tillögu hópsins, greinargerð hans og hugmynd um framkvæmdaáætlun, ræða við fólk innan og utan Ríkisútvarpsins og gera sér grein fyrir stefnumörkun og kostnaði. Það var ekkert áhlaupaverk, enda greinargerðin því miður ótrúlega illa unnin og rökstuðningur einkar fátæklegur. Það vekur í raun furðu að reyndir og vandaðir fréttamenn á borð við þau Ernu Indriðadóttur og Jóhann Hauksson skyldu fást til að leggja nafn sitt við þessi ósköp.

Niðurstaða mín var að skýrsla starfshópsins væri ágæt sem áfangaskýrsla og fyrsta skref í þeirri vinnu sem fara yrði fram áður en ráðist yrði í aðgerðir til þess að efla starf svæðisstöðvanna m.a. í tengslum við endurskipulagningu Rásar 2. Í skýrslunni er vissulega ýmislegt nýtilegt, en þó verður að segja að hún vekur fleiri spurningar en hún svarar. Og maður spyr sig hversu marktæk þessi vinna er skoðuð í samhengi við fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins og sífelldar kröfur um hagræðingu og sparnað.

Greinargerðin einkennist af órökstuddum fullyrðingum. Engin raunveruleg úttekt er lögð til grundvallar tillögu og greinargerð starfshópsins, engar tölur um þróun í starfsmannahaldi, engar tölur um þróun framlegðar svæðisstöðvanna, engar upplýsingar um nýtingu efnis eða hlustun.

Benda má á tilvitnun í skýrslunni í orð útvarpsstjóra þess efnis

að starfssvið svæðisstöðvanna hafi orðið þrengra en upphaflega stóð til. “Skýringanna má eflaust leita víða”, segir í tilvitnuninni og eðlilegt hefði verið að fara af fullri alvöru í þá leit til þess að undirbyggja tillögur til breytinga á starfsemi svæðisstöðvanna og tengslum þeirra við móðurstöðina í Efstaleiti. Hvers vegna “…hafa dagskrárverkefni ekki verið flutt í neinum umtalsverðum mæli frá höfuðbólinu í Reykjavík til starfsstöðvanna úti á landi sem hver um sig hefur hljóðver sem nýta mætti miklu betur en nú er gert”? eins og segir í tilvitnuðum orðum útvarpsstjóra. Hverju er um að kenna? Skipulagsleysi? Skorti á tæknikunnáttu? Fjárskorti? Viljaleysi? Og þá

viljaleysi hverra? Starfsfólks? Stjórnenda? Engin tilraun er gerð til að grafast fyrir um orsakir þessa.

Ýmislegt er sett fram í greinargerðinni án þess að það sé rökstutt. Dæmi úr kafla þar sem taldir eru upp viðmælendur starfshópsins:

“Almennt var sú skoðun ríkjandi meðal ofangreindra viðmælenda að æskilegt væri að framlag svæðisstöðva til útvarpsdagskrárinnar á landsrásum Ríkisútvarpsins yrði aukið frá því sem nú er. Starfshópurinn ætlar að um þá áherslubreytingu sé almenn sátt. Það vakti athygli starfshópsins að þrátt fyrir þessa almennu skoðun þá virtust viðmælendur fremur andvígir að gera þær breytingar sem nauðsynlegar eru til að auka framboð á efni frá landsbyggðinni”. Enginn rökstuðningur fylgir eða nánari útlistun og engar frekari fréttir er að hafa af þessari undirbúningsvinnu starfshópsins. Sögðu viðmælendur ekkert um hvaða leiðir þeir teldu færar til þess að ná þessu markmiði? Eða voru þeir ekki spurðir? Eftir að hafa rætt við nokkra af þessum viðmælendum er ljóst að þetta er gróf rangtúlkun á viðhorfum a.m.k. sumra þeirra.

Annað dæmi má taka af lokaorðum starfshópsins þar sem ein af grundvallarstoðum Ríkisútvarpsins er sögð vera að það sé “..leiðandi afl um gæði og þjónustu við alla landsmenn”. Og má slá því föstu að menn séu sammála um þetta atriði. En síðan segir: “Þeim tillögum sem hér eru lagðar fram er ætlað að styrkja þetta hlutverk stofnunarinnar enn frekar. Ef stofnuninni tekst ekki að þróa starfsemi rásarinnar í þessa átt er eðlilegt að spurt sé hvort þörf sé fyrir starfsemi Rásar 2 yfirleitt”. Út úr þessum orðum er ekki hægt að lesa annað en að Rás 2 þjóni ekki öllum landsmönnum eins og nú er í pottinn búið og að ef ekki verði farið að tillögum starfshópsins þá sé Rásin einfaldlega óþörf. Enn og aftur sér starfshópurinn ekki út fyrir þá einu leið sem hann mælir fyrir.

Hugmynd menntamálaráðherra, sem er tilefni þess að starfshópurinn fékk þetta verkefni, virðist sett fram til þess fyrst og fremst “…að efla starf RÚV á landsbyggðinni…” og í leiðinni “…að nýta krafta starfsmanna og húsrými RÚV á Akureyri með skipulegri hætti…”, eins og segir í bréfi ráðherra til útvarpsráðs. Hvorki menntamálaráðherra né starfshópurinn víkja hins vegar einu orði að undirrót þess vanda sem ýjað er að, nefnilega því að á undanförnum árum hefur verulega þrengt að báðum þeim þáttum í rekstri Ríkisútvarpsins sem hér koma við sögu, þ.e. Rás 2 og svæðisstöðvunum. Skipulagi hefur verið breytt, starfsfólki fækkað, dregið úr dagskrárgerð, dregið úr kröfum um tækniþjónustu, og þannig mætti áfram telja.

Ef allir eru sammála um að markmiðið sé “…að efla starf RÚV á landsbyggðinni…”, og ef stjórnendur RÚV og æðsti yfirmaður þess, menntamálaráðherra, telja sig hafa nauðsynlegt fjármagn til þess, þá væri að minni hyggju eðlilegast og best að svæðisstöðvarnar fengju einfaldlega aftur þann styrk sem þær höfðu áður en farið var að reyta af þeim fjaðrirnar. Og sama er að segja um Rás 2 sem sannarlega má muna sinn fífil fegri. Aðalatriðið er að efla starfið á svæðisstöðvunum með það að markmiði að styrkja dagskrá Ríkisútvarpsins í heild. Þetta snýst ekki bara um endurskipulagningu Rásar 2 og að gera RÚVAK að móðurstöð svæðisstöðvanna. Rás 1 á auðvitað að vera inni í myndinni og Sjónvarpið einnig.

Ég lagði áherslu á það í umræðunum á fundi útvarpsráðs 8. janúar að málið yrði unnið áfram og frekari gögn yrðu lögð til grundvallar endanlegri niðurstöðu. Augljóslega mundi niðurstaðan kosta verulegt fjármagn ef standa ætti almennilega að málum en miðað við þær kröfur um hagræðingu og sparnað sem dunið hafa á útvarpsráði, á stjórnendum og starfsfólki þætti mér ótrúlegt að hægt væri allt í einu að taka þetta mál út fyrir sviga og skipti engu hvað það kostaði.

Það varð þó fljótlega ljóst að fulltrúar stjórnarflokkanna í útvarpsráði voru ekki komnir til fundarins til þess að hlusta á álit og röksemdir minnihlutans. Á borðinu lá tillaga starfshópsins undirrituð af 4 fulltrúum stjórnarflokkanna og ekki hin minnsta tilraun var gerð til að vinna að sátt um málið, ekki hin minnsta. Meirihlutinn vissi um vald sitt og nennti ekki að ræða málið.

Að tillögunni samþykktri lét ég bóka eftirfarandi:

“Ég sit hjá við afgreiðslu tillögunnar þar sem verulega skortir á um stefnumörkun og engum spurningum hefur verið svarað um óhjákvæmilegan kostnað.

Skýrsla starfshóps um flutning Rásar 2 til Akureyrar er ágæt sem áfangaskýrsla og fyrsta skref í þeirri vinnu sem fara verður fram áður en ráðist verður í aðgerðir til þess að efla starf svæðisstöðvanna, m.a. í tengslum við endurskipulagningu Rásar 2.

Í skýrslunni er margt nýtilegt og t.d. er ljóst að margir deila þeirri skoðun með starfshópnum að nauðsynlegt sé að gera breytingar á stjórnun, gera hana markvissari og verkaskiptingu skýrari og m.a. þurfi að hafa sérstakan yfirmann yfir Rás 2.

Hins vegar vekur skýrsla starfshópsins fleiri spurningar en hún svarar. Mikið skortir á rökstuðning fyrir tillögu starfshópsins og framkvæmdaáætlun er marklaus þar sem kostnaðaráætlun skortir. Og menn hljóta að velta fyrir sér hversu marktæk þessi vinna er skoðuð í samhengi við fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins og sífelldar kröfur um hagræðingu og sparnað.

Það er ókostur að engin raunveruleg úttekt er lögð til grundvallar tillögu og greinargerðar starfshópsins, engar tölur um þróun í starfsmannahaldi, engar tölur um þróun framlegðar svæðisstöðvanna, engar upplýsingar um nýtingu efnis og hlustun.

Ekki hefur verið sýnt fram á að ætlaðar breytingar verði til hagsbóta fyrir notendur Ríkisútvarpsins. Því get ég á þessu stigi ekki stutt tillögu meirihluta útvarpsráðs.”

Hvað er til varnar íslenskri náttúru?

Aðeins tvö ár eru liðin frá því náttúruverndarsinnar unnu hörðum höndum að verndun Eyjabakkanna sem meirihluti Alþingis og aðrir stórvirkjanasinnar hugðust sökkva undir vatn sem einn lið í svokallaðri Fljótsdalsvirkjun. Með henni skyldi framleiða nægilegt afl til þess að knýja fyrsta hluta risaálvers í Reyðarfirði og ljóst að í framhaldi af því yrði stefnt að enn frekari náttúruspjöllum á hálendinu norðan Vatnajökuls og víðar til þess að sækja meira afl til álvinnslunnar.

Baráttan fyrir verndun Eyjabakkanna vannst að lokum þótt stjórnvöld vilji að sjálfsögðu ekki viðurkenna að það sé fyrir áhrif náttúruverndarsinna sem þessu mikilvæga svæði er hlíft að mestu leyti í þeim áformum sem nú eru á borðinu. Náttúruverndarsinnar gátu ekki lengi andað léttar, því ekki var verndun Eyjabakkanna fyrr í höfn en farið var að vinna að útfærslu hrikalegri virkjanahugmynda en nokkru sinni fyrr, svonefndri Kárahnjúkavirkjun. Um þau virkjanaáform vísast til fyrri greina minna í minnisbók, m.a. athugasemda við matsskýrslu Landsvirkjunar 7. júní sl., og í greinasafni, þar sem finna má greinina “Skýrslan er áfellisdómur” frá 8. 6. sl. Með tilliti til skýrslu Landsvirkjunar þurfti engum að koma á óvart að Skipulagsstofnun gaf þessum hugmyndum algjöra falleinkunn í úrskurði sínum 1. ágúst sl.

Svo sem vænta mátti varð úrskurður Skipulagsstofnunar ríkisstjórninni, meirihluta Alþingis og öðrum stórvirkjanasinnum tilefni hneykslunar og stóryrða. En þeim brá ekki öllum jafn mikið. Þeir vita hvar valdið liggur og víla ekki fyrir sér að nota það. “Það er stefna stjórnvalda að þessi virkjun verði byggð og þessi úrskurður Skipulagsstofnunar breytir engu þar um,” sagði Halldór Ásgrímsson í DV 3. ágúst sl. Í þeim orðum birtist valdhrokinn grímulaus og það var deginum ljósara að nú yrði Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra að finna “fagmenn” til að snúa við úrskurði Skipulagsstofnunar. Og það gekk eftir.

Úrskurður ráðherrans var kynntur 20. desember sl. og var svo sem búast mátti við. Umhverfisráðherra fellst á fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir með nokkrum skilyrðum sem vissulega skipta máli, en vega þó ákaflega létt í svo stórkarlalegu samhengi. Nokkur þeirra atriða voru jafnframt þess eðlis að þau virtust í rauninni ekki sett fram í fullri alvöru, heldur fremur sem eins konar skiptimynt svo að umhverfisráðherra gæti hafnað þeim og með því slegið um sig sem talsmaður verndarsjónarmiða.

Sérstaka athygli vekur að umhverfisráðherra hafnar því að vega þjóðhagsleg áhrif upp á móti neikvæðum umhverfisáhrifum. Landsvirkjun dró ekki dul á það í sinni skýrslu að framkvæmdirnar hefðu í för með sér veruleg umhverfisáhrif, en taldi þau “..innan viðunandi marka í ljósi þess efnahagslega ávinnings sem væntanleg virkjun mun skila þjóðinni…” Skipulagsstofnun tók þannig á þessari fullyrðingu að fyrir henni skorti bæði gögn og röksemdir. Umhverfisráðherra setur ofan í við báða aðila.

Ég er sammála túlkun umhverfisráðherra á þessu atriði. En jafnframt vekur hún alvarlega umhugsun og ugg. Þrátt fyrir fáeina agnúa sem ráðherra sníður af tillögum Landsvirkjunar í úrskurði sínum þá er hún með honum að fallast á virkjun sem ein og sér hefði í för með sér meiri umhverfisspjöll, jarðrask og óafturkræfar breytingar á landslagi og náttúrufari en nokkru sinni hefur verið efnt til hér á landi og þó víðar væri leitað. Með framkvæmdunum væri stærsta ósnortna víðerni Evrópu raskað og möguleikum til annars konar nýtingar spillt. Verði ráðist í framkvæmdirnar verður sú ákvörðun aldrei aftur tekin, svæðið norðan Vatnajökuls verður aldrei samt. Á þetta fellst umhverfisráðherra án þess einu sinni að reyna að réttlæta það með efnahagslegum og þjóðhagslegum ávinningi.

Við hljótum því að spyrja: Hvað er þá til varnar íslenskri náttúru? Um hvað telur umhverfisráðherra sér skylt að standa vörð, ef ekki “náttúruundur á landsmælikvarða og fágæt á heimsmælikvarða” að mati Náttúruverndar ríkisins? Er eitthvað á hálendi Íslands eða láglendi sem umhverfisráðherra vill fyrir hvern mun varðveita? Hvers konar umhverfisspjöll eru svo stór í augum umhverfisráðherra að þeim beri að hafna?

Hér sem oft áður leitar á hugann kvæði Steins Steinarr, Landsýn:

“Ísland, minn draumur, mín þjáning, mín þrá,

mitt þróttleysi og viðnám í senn.

Þessi vængjaða auðn með sín víðerni blá,

Hún vakir og lifir þó enn.

Sjá, hér er minn staður, mitt líf og mitt lán,

Og ég lýt þér, mín ætt og mín þjóð.

Ó, þú skrínlagða heimska og skrautklædda smán,

Mín skömm og mín tár og mitt blóð.”

Frelsi fylgir ábyrgð

Tjáningarfrelsið er vandmeðfarið. Þeim sem fá frelsi til þess að tjá sig í beinni útsendingu dagskrár í hljóðvarpi eða sjónvarpi er sýnt mikið traust. Þeim er treyst til þess að fara rétt með og vega ekki að heiðri annarra. Þótt þeir hafi frelsi til að lýsa eigin skoðunum hljóta þeir að lúta almennum siðareglum. Þeir fá vettvang út af fyrir sig sem öðrum gefst ekki á sama hátt til þess að svara fyrir sig ef á þá er ráðist, eins og t.d. gefst í dagblöðum, þar sem algengt er að menn skiptist á greinum og vegist oft hart á með orðum.

Tilefni til umræðna um þessi efni gefast stöku sinnum í útvarpsráði. Sem betur fer ekki oft. Á fundi útvarpsráðs 18. desember síðastliðinn fannst mér ástæða til að vekja máls á tveimur slíkum. Það vakti reyndar athygli og jafnvel kátínu sumra viðstaddra að fórnarlömbin í tilvitnuðum dæmum eru þekktir einstaklingar úr Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki. Mig skiptir það engu, hér er um prinsipmál að ræða.

Guðni

Karl Th. Birgisson hefur verið fastur pistlahöfundur Spegilsins alllengi og tekið margt til umfjöllunar, stundum á snjallan hátt, en stundum farist miður eins og gengur. Þriðjudaginn 11. desember var Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra skotspónn hans á einkar ósmekklegan hátt og hreint ekki fyndinn sem auðheyrilega var þó ætlunin. Pistlahöfundi var greinilega í mun að koma því inn hjá hlustendum að Guðni væri haldinn þjóðernishyggju af verstu sort og sagði m.a.: “Þjóðernishyggja Guðna Ágústssonar kom til umræðu fyrir fáeinum árum þegar hann kærði þrjá blaðamenn fyrir siðanefnd Blaðamannafélagsins, en þeir höfðu vakið athygli á fullyrðingum um að hann væri félagi í miður geðslegum samtökum sem heita Norrænt mannkyn. Guðni hefur sjálfur í kjölfarið séð fyrir nægum staðfestingum á þjóðernishyggju sinni með yfirlýsingum um “Ísland fyrir Íslendinga”, margítrekaðri og sérstaklega ógeðfelldri rembu yfir öllu því sem íslenzkt er, hvort sem það er fólk eða fénaður, og ekki þurfti að koma á óvart sú skoðun hans um helgina að rithöfundarhæfileikar “ræktist” – já, að rithöfundarhæfileikar “ræktist” frá föður til sonar.”

Hér vantar mikilvægt atriði í málflutning Karls Th., nefnilega það að úrskurður siðanefndar féll Guðna í vil. En það passaði auðvitað ekki inn í þá mynd sem Karl Th. vildi festa í minni hlustenda. Ég lét bóka gagnrýni mína á pistlahöfund og einnig að mér þætti óeðlilegt að pistlahöfundur væri mjög lengi samfleytt í þætti.

Hannes

Hitt málið var nýlega í fréttum þegar upplýst var að deildarstjóri tónlistardeildar RÚV hefði ákveðið að útvarpa ekki beint frá árlegum tónleikum Bubba Morthens á Þorláksmessu vegna ósæmilegra ummæla Bubba um einstakling á tónleikum hans fyrir ári. Ég óskaði eftir því að þessi ákvörðun yrði rökstudd með dæmum og Óskar Ingólfsson deildarstjóri lék fyrir okkur útvarpsráðsmenn hluta af upptökunni. Ég held að engum hafi dulist að Bubbi fór þar yfir strikið í ummælum sínum um Hannes Hólmstein Gissurarson og hefði verið eðlilegt að ræða málið við hann sem fyrst að tónleikunum loknum. Það var hins vegar ekki gert og á fundi útvarpsráðs 18. desember kom í ljós, að deildarstjórinn hafði ekki einu sinni hlustað á upptökuna fyrr en mörgum mánuðum síðar þótt tilefni hefði sannarlega gefist. Það var því ekki fyrr en nýlega sem Bubbi fékk þá orðsendingu í tölvupósti að um beina útsendingu frá tónleikum hans gæti ekki orðið að ræða í ár þar sem hann hefði tjáð sig á ósæmilegan hátt fyrir ellefu mánuðum.

Mín skoðun er sú að Bubbi hafi brugðist trausti og unnið til áminningar. En fyrst og fremst geri ég alvarlega athugasemd við þau vinnubrögð sem viðhöfð voru í málinu og lét bóka það í fundargerð útvarpsráðs.

Frelsi eins takmarkast af rétti annars

Frelsi til orðs og æðis er sannarlega mikilvægt, og að minnsta kosti í hinum vestræna heimi er mikil áhersla lögð á rétt hvers manns til slíks frelsis. Á stundum er áherslan slík að jaðrar við ofstæki þannig að ekkert megi takmarka þetta frelsi. Það getur þó aldrei verið svo. Frelsi eins hlýtur að takmarkast af rétti annars til eigin æru.

Þaggað niður í Náttúruverndarráði

Flest bendir nú til þess að Siv Friðleifsdóttur umhverfisráðherra takist að losa sig við Náttúruverndarráð, sem hefur verið henni þyrnir í augum allt frá upphafi hennar ráðherratíðar. Frumvarp þess efnis að ráðið verði lagt niður er nú til meðferðar í umhverfisnefnd Alþingis og virðist eiga sér fáa til varnar. Það á sér sínar skýringar. M.a. ræður vafalaust nokkru að bæði frjáls félagasamtök og aðrir aðilar á sviði náttúruverndarmála renna hýru auga til þessara örfáu milljóna sem ráðið hefur haft til umráða og vonast eftir einhverjum molum á sitt borð, enda hefur það verið gefið í skyn. Hætt er þó við að hverjum og einum finnist lítið koma í sinn hlut þegar upp verður staðið.

Aðdragandi þessa máls er sá að þegar Náttúruvernd ríkisins var sett á stofn tók hún yfir stóran hluta af verkefnum Náttúruverndarráðs, en ráðið fékk nýtt hlutverk og var þá fyrst og fremst ætlað, eins og fram kemur í heiti þess, að vera umhverfisráðherra, Náttúruvernd ríkisins og öðrum til ráðgjafar um málefni náttúruverndar. Þá hefur ráðið m.a. haft með höndum undirbúning og umsjón Náttúruverndarþings, umsjón Friðlýsingarsjóðs o.fl.

Reyndar finnst mörgum sem ástæða væri til að skerpa og skýra hlutverk og verkefni Náttúruverndarráðs og m.a. að tryggja skilvirkari tengsl milli ráðsins og Náttúruverndar ríkisins. Náttúruverndarráð hefur rætt það atriði sérstaklega og telur að skýrt skilgreint samstarf milli ráðsins og Náttúruverndar ríkisins yrði til þess að styrkja náttúruvernd á Íslandi. Í leiðinni mætti svo velta vöngum yfir heiti Náttúruverndar ríkisins sem gjarna hefði mátt nefna öðru nafni vegna þess ruglings sem oft á sér stað í umfjöllun um náttúruverndarmál.

Minna hefur orðið úr starfi ráðsins en að var stefnt með lagabreytingunum. Ástæða þess er fyrst og fremst sú hversu illa hefur verið að ráðinu búið, rekstrarfé og allur aðbúnaður af skornum skammti. Mestu ræður afstaða umhverfisráðherra sem hefur lengst af haft horn í síðu ráðsins og tekið alla gagnrýni þess á störf hennar óstinnt upp.

Upp úr sauð þegar ráðinu varð það á sumarið 1999 að senda mjög gagnrýnið álit til fjölmiðla áður en ráðherra hafði gefist kostur á að kynna sér það. Hefur sú uppákoma vafalaust átt sinn þátt í því að á Náttúruverndarþingi 28. – 29. janúar 2000 varpaði ráðherra því inn í umræðuna að frjáls félagasamtök hefðu í raun tekið við hlutverki Náttúruverndarráðs og spurning hvort ráðið væri ekki orðið óþarft.

Sérstakur umræðuhópur fjallaði um þetta álitaefni og komst að niðurstöðu sem staðfest var í ályktun Náttúruverndarþings þar sem sagði m.a.:

“Náttúruverndarþing telur að Náttúruverndarráð hafi gegnt veigamiklu hlutverki í umhverfis- og náttúruverndarmálum og þrátt fyrir ýmsar breytingar í stjórnskipan þessa málaflokks eigi ráðið að starfa áfram. Helstu verkefni ráðsins eigi að vera stefnumörkun og umfjöllun um grundvallaratriði í umhverfis- og náttúruvernd sbr. 4. og 9. gr. laga um náttúruvernd nr. 44/1999. Núverandi skipan ráðsins er heppileg þar sem saman fara tilnefning stofnana og kosning á Náttúruverndarþingi. Til að treysta góð tengsl ráðsins við stjórnvöld er heppilegt að umhverfisráðherra skipi formann. Mjög brýnt er að ráðinu séu tryggð örugg starfsskilyrði og fjármagn.”

Jafnframt lagði þingið áherslu á nauðsyn þess að styrkja stöðu frjálsra félagasamtaka og fylgja alþjóðlegum samþykktum um þau efni eftir í íslenskri löggjöf.

Frumvarp umhverfisráðherra gengur þannig þvert gegn skýrum vilja Náttúruverndarþings varðandi hlutverk og stöðu Náttúruverndarráðs. Það hefur raunar lengi verið ljóst að Siv Friðleifsdóttir vill ráðið feigt og hennar er mátturinn! Hún fetar dyggilega í fótspor þeirra samráðherra sinna sem bregðast þannig við gagnrýni eða afstöðu sem þeim er ekki þóknanleg að slíkur ráðgjafi sé ófaglegur og megi af leggjast. Siv gengur hins vegar lengra en fyrirmyndirnar, enda kannski ekki verið að ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur.

Að mínu mati er það til skaða ef Náttúruverndarráð verður lagt niður og þar með þaggað niður í einni þeirra radda sem nú mynda kór til varnar íslenskri náttúru. Umræðan hér á landi um náttúruvernd er ekki svo langt á veg komin að við megum við slíku. Frjáls félagasamtök eru nauðsynleg og brýnt að styrkja þau og styðja, en þau geta ekki komið í stað stjórnskipaðs ráðs með skilgreint hlutverk og skyldur.

Átakamiðjan send út í móa

Landsfundur Samfylkingarinnar kom þannig fyrir sjónir utanaðkomandi að þar hafi farið fram býsna vel heppnuð hópefling. Fundurinn var greinilega vel sóttur, formaðurinn fékk mikinn stuðning og styrk, fundargestir virðast hafa lagt sig fram um að sýna samheldni og eindrægni, palestínski heiðursgesturinn vakti mikla athygli og samúð. Þannig leit þetta mjög þokkalega út utan frá séð. Þegar dýpra er skyggnst er þó margt umhugsunarvert. Formaðurinn talaði um í ræðu sinni að landsfundur stjórnmálaflokks væri í senn “samstilling, mannfagnaður og átakamiðja”. Samstillingin virðist hafa tekist á þessum landsfundi, mannfagnaður var þetta sennilega góður, en átakamiðjan var greinilega send út í móa.

Ekkert kom á óvart í ræðu formanns sem virtist hönnuð og flutt til þess að laða fram klapp á réttum stöðum. Það tókst út af fyrir sig þokkalega að því er virtist af fréttamyndum, og nú hef ég mannað mig upp í að lesa alla ræðuna á heimasíðu Samfylkingarinnar og þótt Össur sé ágætur ræðumaður er ég sannfærð um að ekki hefur hann verið einn í ráðum við ræðusmíðina.

En þótt mikið væri klappað á ég bágt með að trúa að allir hafi fagnað af heilum hug, t.d. þegar formaðurinn ítrekaði stuðninginn við utanríkisráðherra með tilliti til aðgerðanna í Afganistan. Sú afstaða hugnast ekki öllum á þeim bæ, svo mikið veit ég.

Þá var nálgun foringjans að umhverfismálum ótrúlega aumleg þar sem þeim var einfaldlega sópað til hliðar. Og enn aumlegra var þegar nýkjörinn formaður framkvæmdastjórnar reyndi í sjónvarpsviðtali að verja það sem formaðurinn sagði í ræðu sinni um afstöðuna til Kárahnjúkavirkjunar: “Varðandi virkjun við Kárahnjúka eru uppi ýmis sjónarmið í samfélaginu öllu. Nú er það að mínu mati meginmálið að láta feril umhverfismats ganga sinn gang og skila niðurstöðum sem hægt er að byggja á hina pólitísku afstöðu. Þetta var sameiginleg og einróma ákvörðun þingflokks og framkvæmdastjórnar á fundi 9.september. Ég veit að hjá þeim félögum okkar sem láta sig Kárahnjúkavirkjun mestu varða er sátt um þessa leið.” Á að trúa þessu? Hafa flokksmenn og foringjar þeirra ekki lesið matsskýrslu Landsvirkjunar og niðurstöður Skipulagsstofnunar? Halda menn virkilega að umhverfisráðherra muni leggja fram einhver þau rök sem réttlæti þau hrikalegu náttúruspjöll sem lýst er í þessum gögnum? Og hvað svo ef umhverfisráðherra finnur að eigin mati boðleg rök hjá þeim fagmönnum, erlendum og innlendum, sem ég veit að eru nú í vinnu hjá henni að leita þeirra? Ætla Össur, Þórunn Sveinbjarnar og Stefán Jón að kyngja þeim? Af landsfundinum bárust engar fréttir af heitum umræðum um þessi mál.

Menn virðast heldur ekki hafa kippt sér áberandi upp við mótsagnir í málflutningi formannsins, eins og þær að tala fyrir skattalækkunum samtímis því að krefjast aukinna fjárframlaga til menntunar- og velferðarmála og aukins aðhalds í ríkisfjármálum án þess að skýra það á nokkurn hátt hvar það aðhald ætti að koma fram.

Þannig var ýmislegt gamalkunnugt í ræðu formanns og ekki allt jafn gott og fagurt og sumt jafnvel hlægilegt, eins og þegar hann talaði um hinn “gullna þríhyrning” sem ætti að vera myndaður af kröftugri menntastefnu, framsýnni efnahagsstefnu og góðri velferðarþjónustu. Skyldi þeim fundargestum ekki hafa brugðið sem vita að þetta heiti “gullni þríhyrningurinn” er notað um eiturlyfjahringa í Suðaustur-Asíu?

Fundarmenn létu sér hins vegar allt þetta vel líka og þannig var tónninn sleginn fyrir þennan átakalitla mannfagnað. Ef upp komu ágreiningsmál var þeim einfaldlega vísað til frekari umfjöllunar og síðari tíma afgreiðslu. Ekki ætla ég þó að gagnrýna þann farveg sem Evrópumálin voru sett í, hann er auðvitað afskaplega lýðræðislegur. Og ég hef fulla samúð með fylkingarfólki í nafnamálinu. Nafn stjórnmálaflokks skiptir nefnilega heilmiklu máli og betra að það segi til um innihaldið. Eðlilegast væri t.d. í þessu tilviki að viðurkenna staðreyndir og samþykkja tillögu Guðmundar Árna og Lúðvíks. Krötum hefur nefnilega tekist bærilega það sem þeir ætluðu sér frá upphafi, þ.e. að stækka gamla Alþýðuflokkinn. Því fyrr sem menn gangast við eigin innræti þeim mun betra.

Flokkarnir skoða sig í spegli

Stjórnmálaflokkarnir efna einn af öðrum til landsfundar þetta haustið. Sjálfstæðisflokkurinn hóf leikinn í Laugardalshöllinni um miðjan október, Vinstri grænir héldu sinn fund í Borgartúni 6 skömmu síðar og Samfylkingin heldur sinn landsfund nú um helgina og dugir ekki minna en Hótel Saga með ýmsum sölum. Er býsna fróðlegt að bera þessa landsfundi saman, umgjörð þeirra, uppsetningu og innihald. Það þarf hvorki mikinn speking né spákonu til að lesa sitt af hverju út úr þessum þáttum um flokkana sjálfa, störf þeirra og stefnu, og kannski ekki síst hvernig þeir sjálfir líta á sig. Segja má að þeir séu að skoða sig í spegli. Og ég varð þess mjög vör að þátttakendum í landsfundi VG líkaði það sem þeir sáu.

Vinstri grænir héldu annan landsfundinn á sinni stuttu en viðburðaríku ævi dagana 19. – 21. október sl. Sá fyrsti var haldinn á Akureyri í október 1999 og var afar skemmtilegur og vel heppnaður, enda glatt yfir fólki vegna góðs árangurs í kosningunum þá um vorið. Gaman er að bera þessa tvo fyrstu landsfundi saman og skynja þann aukna kraft og sjálfstraust sem einkenndi síðari fundinn. Gleðin var engu minni en í upphafi, enda hefur hreyfingunni sífellt aukist máttur og megin og stuðningur vaxið meðal kjósenda.

Síðustu vikurnar fyrir fundinn 19. – 21. október sl. minntu helst á ærlega síldarsöltunartörn hjá okkur sem stóðum í undirbúningnum, en allt small saman á síðustu stundu eins og venjan er hjá okkur Frónbúum, hvort sem um er að ræða eitt stykki Smáralind eða landsfund Vinstri grænna, án þess að ég sé nú að bera slíkt saman. Fundurinn sjálfur heppnaðist með miklum ágætum að allra dómi, var starfsamur og skemmtilegur og skilaði baráttunni fram á veginn, eins og til var ætlast.

Salurinn í gömlu Rúgbrauðsgerðinni kom landsfundargestum þægilega á óvart, hafði gjörbreytt um svip og öllu þar við snúið. Glæsilegir borðar með merki VG prýddu súlur, veggi og ræðupúlt, og að baki því var breiðtjald með stórfallegri mynd af Langasjó. Konurnar í Vox feminae undir stjórn Margrétar Pálmadóttur slóu tóninn þegar þær gengu syngjandi inn í salinn og dreifðu blómblöðum á borðin. Allt yfirbragð sýndi og sannaði hvað hægt er að gera þegar hugmyndaríkar konur og laghentir karlar leggja saman krafta sína.

Kjörnir fulltrúar með atkvæðisrétt voru nær 160 talsins, en auk þeirra sóttu fjölmargir aðrir fundinn sem var öllum opinn. Það vakti athygli margra að Styrmir Gunnarsson ritstjóri Morgunblaðsins var viðstaddur setningarathöfnina og fylgdist síðan með almennum umræðum langt fram eftir kvöldi. Daginn eftir voru leiðari blaðsins og miðopna helguð vinstri grænum.

Sérstök dagskrá á laugardaginn um þema landsfundarins, “Byggjum framtíð á fjölbreytni”, laðaði einnig að sér marga gesti. Þar sátu 6 gestir á palli og lögðu fjölbreytt viðhorf í púkkið svo að úr varð mjög skemmtileg umræða. Þá má ekki gleyma Kristínu Halvorsen formanni SV í Noregi, sem heillaði bæði landsfundargesti og fjölmiðla.

Áhrifin af þessum fundi eru svona enn að gerjast í kollinum á mér og ég velti því fyrir mér hverjar eru helstu ástæður þess að Vinstri grænum vegnar svo vel. Menn hafa óneitanlega misjafnar væntingar til stjórnmálastarfsemi og misjafnar skoðanir á því hvað skiptir máli. Eru það stefnumálin eða eru það talsmenn þeirra?

Umfjöllun fjölmiðla um stjórnmál markast býsna mikið af áhuga þeirra á ágreiningi og átökum, og líklega er nokkuð til í því að það sé vænlegast til að vekja athygli. Slíkt finna þeir reyndar ekki innan raða Vinstri grænna, en þeim mun meira af hörðum skoðanaskiptum þeirra við fulltrúa annarra flokka.

Sama er að segja um eindregna kröfu fjölmiðla og fjöldans um sterka foringja, og er það mat margra að sterkur leiðtogi Vinstri grænna eigi stóran hlut í velgengni VG. Ég viðurkenni þá staðreynd, en um leið veldur hún mér nokkru angri. Mér finnst þessi krafa og fullyrðingar um að flokkurinn byggist bara á einum manni eða kannski tveimur bæði ósannar og ósanngjarnar. Góður leiðtogi skiptir miklu, en flokkur getur ekki átt allt sitt undir einum manni. Vinstri grænir eiga því láni að fagna að hafa góðan leiðtoga sem nýtur einróma trausts og stuðnings, en sama er að segja um aðra fulltrúa flokksins á Alþingi og annars staðar. Um allt land er áhugasamt og gott fólk að vinna að málefnum flokksins. Á landsfundinum var unnið í hverju horni og mikil þátttaka bæði í starfshópum og almennum umræðum. Það er í rauninni lítilsvirðing við alla þá fjölmörgu áhugasömu og virku einstaklinga innan hreyfingarinnar að halda því fram að hún byggist á einum manni. Hún byggist ekki síður á skýrri málefnastöðu og baráttugleði almennra félagsmanna.

Vinstri grænir sigla góðan byr þessa dagana og ég held að þeir hafi enn bætt stöðu sína með þessum góða landsfundi. Þar voru engin átök um menn eða málefni og ágreiningsefni leyst með góðum vilja og samstarfsanda. Mín skoðun er sú að mikill meirihluti þeirra sem kjósa að starfa með Vinstri grænum geri það vegna þess að þeir hafa hugsjónir og einlægan vilja til að vinna saman að réttlátu þjóðfélagi í gjöfulu landi.

Rás 2 í hrakningum

Í ályktun landsfundar VG um menningarmál má lesa eftirfarandi setningu: “Landsfundurinn lýsir eindreginni andstöðu við fram komnar hugmyndir um að leggja niður Rás 2 undir því yfirskini að hún skuli flutt til Akureyrar.” Setningin endurspeglar áhyggjur margra vegna yfirlýsingar menntamálaráðherra á Alþingi þess efnis að rétt væri að breyta Rás 2 í miðstöð svæðisútvarpa með aðsetri á Akureyri. Sjálfstæðismenn hafa árum saman haft horn í síðu Rásar 2 og ályktað við hvert tækifæri að hana skuli selja, en vinir þeirra í Framsókn hafa þvælst fyrir framgangi þess baráttumáls. Ýmsir gruna því ráðherra um græsku og að hann sé nú að freista þess að snúa á vini sína í Framsókn með því að senda Rásina til Akureyrar og fá henni þar nýtt hlutverk.

Þannig eru málefni Ríkisútvarpsins enn eina ferðina í brennidepli. Þessi ein helsta menningarstofnun þjóðarinnar á við stórfelldan vanda að etja og það á fleiru en einu sviði. Fjárhagsvandinn er bæði alvarlegur og sýnilegur og stafar af þrennu:

Í fyrsta lagi hafa afnotagjöld ekki fengist hækkuð nema óverulega á undanförnum árum og eru nú ekki einu sinni helmingur á við áskriftargjöld að Stöð 2. Hafa menntamálaráðherra og meirihluti Alþingis staðið gegn eðlilegum hækkunum afnotagjalda í takt við þróun verðlags og launa og bera þannig ábyrgð á veigamestu orsök þess fjárhagsvanda sem stofnunin á við að glíma.

Í öðru lagi var Ríkisútvarpinu gert að taka á sig kostnað vegna lífeyrisskuldbindinga á sínum tíma og hefur það í för með sér allt að 200 milljón kr. útgjöld árlega.

Loks er tilfinnanlegur samdráttur í tekjum af auglýsingum sem hefur í för með sér a.m.k. 100 millj. kr. samdrátt tekna á þessu ári. Þannig stefndi í a.m.k. 300 millj. króna halla í árslok og í ljósi þess sáu stjórnendur sig knúna til niðurskurðar í dagskrá og þjónustu.

Útvarpsráði er fyrst og fremst ætlað að leggja línur í dagskrá og hafa síðasta orðið um þau efni. Það verður því að taka ábyrgð á aðgerðum sem hafa í för með sér breytingar á dagskrá t.d. vegna fjárskorts, en tillögur að slíku koma frá stjórnendum. Það var ekki skemmtiverk að standa að þessum aðgerðum sem komu niður á öllum deildum Ríkisútvarpsins, og eins og vænta mátti þótti aðstandendum hverrar deildar fyrir sig sinn hlutur sýnu verstur.

Mesti hvellurinn varð þó út af niðurskurði til svæðisstöðvanna sem varð til þess að leggja varð niður morgunútsendingar þeirra. Síðar kom svo í ljós að sú ráðstöfun leiddi ekki af sér þann sparnað sem ætlaður var vegna þess að þar með töpuðust staðbundnar auglýsingar sem hafa að miklu leyti staðið undir kostnaði, en ráðsmönnum var ekki gerð grein fyrir þeim þætti málsins fyrr en síðar. Varð því að ráði að taka morgunútsendingar stöðvanna upp aftur frá 1. desember nk.

Steingrímur J. Sigfússon tók málið upp utan dagskrár á Alþingi og deildi hart á menntamálaráðherra fyrir að standa þannig að málum að uppbyggingarstarf svæðisstöðvanna væri að koðna niður. Ráðherra þóttist hins vegar vilja þeim allt hið besta og varpaði fram þeirri hugmynd að flytja Rás 2 norður til Akureyrar og breyta henni í miðstöð svæðisstöðvanna. Nokkrir þingmanna lýstu sig jákvæða gagnvart hugmyndinni. Og þar með var boltinn rúllaður af stað og ráðherra sendi útvarpsráði bréf og bauð því að skoða málið og skila áliti fyrir 1. desember á þessu ári. Þau tímamörk ein og sér segja sitt um viðhorf ráðherrans til samráðs og góðra vinnubragða.

Ýmsir hafa tjáð sig um þessa hugmynd ráðherra í fjölmiðlum og manna á meðal og þá einkum þeir sem vinna að dægurtónlist á einhvern hátt. Er ljóst að þeir líta á Rás 2 sem einu frjálsu útvarpsstöðina, sem sinnir að einhverju marki flutningi dægurtónlistar og þeim hinum sömu líst ekki á flutninginn og telja að þar með væri í rauninni verið að leggja Rásina niður og afhenda einkastöðvunum fánann. Þær eru hins vegar að margra dómi allar meira og minna rammflæktar í hagsmunatengsl og mundu aldrei sinna flutningi dægurtónlistar af þeim metnaði sem Rás 2 hefur gert.

Ekki er að undra þótt fólk bregðist við á þennan hátt þegar litið er til þess sem menntamálaráðherra sagði í umræðum á Alþingi, og ítrekaði síðar í bréfi til útvarpsráðs, að hann teldi eðlilegt að hugað yrði að nýjum úrræðum til að efla starf RÚV á landsbyggðinni og m. a. á þann veg “…að Rás 2 verði breytt í miðstöð svæðisútvarpa með aðsetri á Akureyri.” Og fólk spyr: Hvernig á að breyta? Hvað á að flytja? Á að skáka til starfsfólki og flytja norður allt plötusafnið sem á ekki sinn líka? Er dægurtónlistarhlutverk Rásar 2 í uppnámi?

Útvarpsráð hefur þegar fjallað um málið á 2 fundum. Á hinum fyrri var lögð fram greinargerð frá útvarpsstjóra um þróun Rásar 2 og álitsgerð forstöðumanna svæðisstöðvanna þriggja, á Akureyri, Ísafirði og Egilsstöðum. Greinargerð útvarpsstjóra leiðir m.a. í ljós vinsældir svæðisútsendinga og jafnframt að svæðisstöðvarnar leggja drjúgt til dagskrár á landsrásunum. Hins vegar hefur þrengt að þeim að undanförnu og starfsmönnum m.a. fækkað úr tíu í sex á Akureyri, sem rímar ekki beinlínis við skyndilegan áhuga æðsta yfirmanns RÚV á eflingu svæðisstöðvanna.

Forstöðumenn svæðisstöðvanna gera sér augljóslega grein fyrir því að hugmynd menntamálaráðherra gengur ekki upp. Þeir sjá hins vegar tækifærið sem nú gefst til að endurnýja og efla svæðisstöðvarnar og Rás 2 með aukinni samvinnu og betri tengingu. “Að mati forstöðumanna svæðisstöðva er þungamiðja þessa máls ekki að flytja Rás tvö norður til Akureyrar, heldur að auka hlut svæðisstöðvanna í dagskrá rásarinnar”, segir í áliti þeirra og skal tekið undir það.

Á fundi útvarpsráðs 6. nóv. sl. kom fram að formaður, Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, hafði að beiðni ráðsins átt fund með menntamálaráðherra til að freista þess að fá eitthvað nánar um hugmyndir hans í þessu efni. Ekkert var á þeirri frásögn að græða, en formaður lagði til að útvarpsstjóri setti á laggirnar nefnd til að skoða málið og móta tillögur og að fulltrúi Framsóknarflokksins, Gissur Pétursson, yrði fulltrúi ráðsins í nefndinni. Undirrituð lagði til að fulltrúar ráðsins yrðu tveir og reyndar var Mörður Árnason snöggur að bjóða sig fram til þess, en meiri hluti ráðsins hafnaði því og studdi tillögu formanns.

Vonandi verður hægt að nýta þetta tækifæri til að efla bæði Rás 2 og svæðisstöðvarnar, en vitlausasta leiðin til þess væri að þrengja Rás 2 niður í það að vera bara miðstöð svæðisstöðvanna eins og augljóslega felst í hugmynd menntamálaráðherra.

Þess ber svo að geta að í þessu máli sem endranær hef ég lagt megináherslu á að málin séu skoðuð í víðtæku samráði og allar breytingar gerðar í nánu samstarfi við þá sem best þekkja til, þ.e. almennt starfsfólk Ríkisútvarpsins. Því miður er hætta á hinu gagnstæða. Mikill misbrestur í samskiptum stjórnenda og almenns starfsfólks er einmitt það mein sem er að naga stofnunina innan frá og hættulegri framtíð hennar en fjárhagsvandinn sem lýst var í upphafi máls.