Íslendingum er það mikil nauðsyn að vegast á með orðsins brandi um hin margvíslegustu mál og sjaldan nokkur ládeyða í þeim efnum. Eftir margra vikna deilur um kjör öryrkja og dóm Hæstaréttar um tekjutengingu greiðslna við maka þeirra tók við annað stórmál, nefnilega forsendur fyrir þátttöku landans í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Deilan snerist um það hvort framlag Ríkisútvarpsins til Söngvakeppninnar (þ.e. Eurovision eða Júróvisjón ef einhver skyldi ekki kannast við íslenska heitið) skyldi sungið á móðurmálinu, sem skv. nýlegri ályktun Bandalags íslenskra listamanna er merkingarlaust og óskiljanlegt í eyrum útlendinga, eða á tungumáli sem gerir listamönnum kleift að “gera sig skiljanlega og koma listaverkum sínum á framfæri þannig að innihald þeirra skili sér óskert til neytenda”, svo að vitnað sé beint í hina merku ályktun BÍL.
Forsaga málsins er sú að útvarpsráð samþykkti á fundi sínum 24. október 2000 þá tillögu Marðar Árnasonar að framlag RÚV til söngvakeppninnar yrði flutt á íslensku í aðalkeppninni. Gæslumenn tjáningarfrelsis tóku þó ekki almennilega við sér fyrr en mörgum vikum síðar, en þá svo hraustlega að svo virtist sem ekki hefði í annan tíma önnur eins vá borið að höndum. Og þar kom að meiri hluti útvarpsráðs sá sitt óvænna og samþykkti á fundi 27. febrúar sl. gagnstæða tillögu frá Merði, m.a. vegna hinnar þungorðu ályktunar Bandalags íslenskra listamanna eða Federation of Icelandic Artists. Ályktun BÍL var reyndar furðu seint á ferðinni miðað við mikilvægi og alvöru málsins. Hún barst ekki Ríkisútvarpinu fyrr en 22. febrúar eða tæpum 4 mánuðum eftir að ljóst var hvílík höft hér átti að setja á tjáningarfrelsi listamanna, svo að aftur sé sótt í orðasjóð BÍL.
Tillaga Marðar Árnasonar hin síðari hljóðaði svo:
“Útvarpsráð samþykkir að listamaðurinn sem vann í forkeppni Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva ráði því sjálfur á hvaða tungumáli lag hans verður sungið í Kaupmannahöfn í vor.
Útvarpsráð samþykkir einnig að kanna að nýju forsendur og framkvæmd þessarar söngvakeppni meðal annars með samráði við samtök þeirra listamanna sem helst koma við sögu.”
Þetta samþykktu 5 útvarpsráðsmenn. Tveir ráðsmenn reyndust þrjóskari en aðrir. Formaður ráðsins sat hjá við atkvæðagreiðslu um afturbatatillöguna og lét bóka að hann teldi þennan viðsnúning varhugaverðan og alls ekki til eftirbreytni. Undirrituð greiddi hins vegar atkvæði gegn fyrri hluta tillögunnar, en með síðari hluta hennar með vísan til eftirfarandi bókunar:
“Undirrituð getur ekki fallist á að rétt sé að breyta reglum um flutning framlags Ríkisútvarpsins til Söngvakeppni sjónvarpsstöðva Evrópu nú að lokinni forkeppni. Hins vegar er sjálfsagt og réttmætt að fara yfir málið að aðalkeppni lokinni og endurskoða allar forsendur fyrir þátttöku með tilliti til þeirrar gagnrýni sem komið hefur fram á tilhögun keppninnar.
Útvarpsráð tók þá ákvörðun á fundi ráðsins 24. október sl. að keppnislagið yrði flutt á íslensku nú í ár og kom það skýrt fram þegar keppnin var auglýst. Þátttakendur vissu því fullvel að hverju þeir gengu. Þegar var ljóst að ekki voru allir sáttir við þessar forsendur keppninnar og var jafnvel látið að því liggja að einhverjir lagahöfundar tækju ekki þátt í henni af þeim sökum. M.a. með tilliti til þess er ósanngjarnt að breyta reglum á miðju ferli.
Meðal þeirra sem gagnrýnt hafa núgildandi keppnisreglur Ríkisútvarpsins eru Félag íslenskra tónlistarmanna og Bandalag íslenskra listamanna, sem hafa nýlega ályktað um málið og jafnvel látið það álit í ljósi að reglur RÚV um flutning keppnislagsins feli í sér atlögu að tjáningarfrelsi listamanna. Vegna þessarar gagnrýni er eðlilegt að fara yfir málið með fulltrúum listamanna að söngvakeppninni lokinni og freista þess að ná sátt um þátttökureglur til frambúðar.
Undirrituð er þeirrar skoðunar að gengi lagsins sem RÚV sendir til þátttöku í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöða ráðist af gæðum lagsins, útsetningu þess og flutningi, en er reiðubúin að hlusta á rök listamanna fyrir því að textinn vegi jafn þungt og margir vilja vera láta. Hins vegar er það fullkomin hringavitleysa að breyta forsendum keppninnar í miðju kafi og orkar jafnvel tvímælis lagalega. Því greiði ég atkvæði gegn fyrri hluta framkominnar tilllögu, en styð síðari hluta hennar.”