Námsstefna sett

Setning námsstefnu VG-smiðjunnar um Rammaáætlun, Reyðarál og Kárahnnjúkavirkjun 21. apríl 2001 í Borgartúni 6:

Góðir fundargestir! Gleðilegt sumar!

Ég býð ykkur öll velkomin á þennan fund VG-smiðjunnar, fund, sem við höfum kosið að kalla námsstefnu, vegna þess að hér er ætlunin að fræðast og tileinka sér vitneskju um þau risastóru verkefni sem hafa verið í undirbúningi á Austurlandi um alllanga hríð og reyndar tekið miklum breytingum í tímans rás.

Hér eru engin smámál á ferðinni og brýnt að kynna sér þau út í hörgul og nota sinn lögvarða rétt til að láta sig þau varða. Hér er stefnt að byggingu og rekstri enn stærri álverksmiðju en þær sem fyrir eru í landinu og afkastameiri en þær til samans. Og hér eru á borðinu áform um umfangsmestu vatnsaflsvirkjun sem um getur í landi okkar og meiri vatnaflutninga, meira jarðrask og meiri landslagsbreytingar en áður hafa þekkst. Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að þessar miklu framkvæmdir munu hafa gríðarlega mikil áhrif, ef af þeim verður, áhrif á náttúru og umhverfi, áhrif á atvinnulíf, efnahagslíf og mannlíf.

Skáldið og athafnamaðurinn Einar Benediktsson hefði orðið kátur yfir þessum stórvöxnu hugmyndum. Hann sem orti óþreyjufullur um aflið “frá landsins hjartarót, sem kviksett er í klettalegstað fljótsins”. Hann fyllti flokk þeirra manna sem vilja fyrir hvern mun beisla náttúruöflin hvar sem því verður við komið. “Hér mætti leiða líf úr dauðans örk / og ljósið tendra í húmsins eyðimörk / við hjartaslög þíns afls í segulæðum.” orti Einar, bergnumin af feiknarafli Dettifoss.

Steinn Steinarr hefði ekki orðið jafn hrifinn. Hann fyllti flokk þeirra sem sjá allt önnur verðmæti í vötnum og fossum og víðernum landsins. “Þessi vængjaða auðn með sín víðerni blá, hún vakir og lifir þó enn”, orti Steinn og er ekki einn á þeim báti skálda og rithöfunda þjóðarinnar, látinna og lifandi, sem gjalda varhug við ofnotkun á afli tækninnar.

Menn kunnu ekki til verka á blómaskeiði Einars Benediktssonar á sama hátt og nú. Tækninni hefur fleygt fram og nú hanna menn risavirkjanir og skipuleggja vatnaflutninga sem aldrei fyrr. Og menn ýmist dást að eða hryllir við.

En það er fleira sem hefur breyst en tæknin til að hanna og framkvæma. Viðhorfin hafa breyst og möguleikar almennings til að hafa eitthvað að segja um framgang mála. Aðstöðumunurinn er eftir sem áður mikill og stór. Annars vegar eru öflug og fjársterk fyrirtæki, oftar en ekki með þéttan pólitískan stuðning ríkisstjórnar og jafnvel þrýsting að baki, og hins vegar févana einstaklingar, félög og samtök með lítið annað en sannfæringuna að liði. Sannfæringin og samtakamátturinn hafa reyndar oft reynst sú þúfa sem velt getur þungu hlassi eins og dæmin sanna.

En hvað um það, með lögum um mat á umhverfisáhrifum er okkur tryggður rétturinn til að fylgjast með og tjá okkur um gang mála. Það er gríðarlega mikils virði að nýta þann rétt. Það er til lítils að fá okkur amboð í hendur, ef við notum þau ekki.

Á tölvuöld er auðveldara en nokkru sinni að fylgjast með, og ég vænti að margir hér inni hafi heimsótt heimasíður þeirra aðila sem hér eru komnir til að fræða okkur. En þær fréttir og myndir sem þar birtast segja ekki nándar nærri allt, heldur verða kannski fyrst og fremst til að kveikja áhuga á að fá meira að vita. Það tækifæri gefst hér á þessari námsstefnu. Markmið hennar er ekki að efna til harðra skoðanaskipta og deilna, heldur að fræðast og leggja grunn að áliti okkar hvers og eins á þessum stórbrotnu áformum, sem hafa svo gríðarleg áhrif á náttúru og umhverfi lands og þjóðar.

Ég segi þessa námsstefnu setta.