HM íslenska hestsins í Austurríki

Hvað eftir annað var íslenski fáninn dreginn að húni á meðan þjóðsöngurinn okkar hljómaði. Hvarvetna á áhorfendapöllunum veifuðu stoltir áhangendur íslenska fánanum, glöddust, klöppuðu, hrópuðu og sungu. Pallarnir skulfu undan hoppum og stappi. Loftið titraði af spenningi og gleði. Hvar á erlendri grundu gæti slík stemmning skapast vegna afreka Íslendinga nema á heimsmeistaramóti íslenska hestsins? Ég fullyrði: Hvergi!

Stadl Paura, lítill bær með meira en 200 ára sögu sem miðstöð hestamennsku í Austurríki, myndaði umgjörðina um heimsmeistaramót íslenska hestsins 12. – 19. ágúst sl. Fallegt umhverfi, frábært veður og góðar aðstæður að flestu leyti áttu sinn stóra þátt í að gera þennan viðburð ánægjulegan og eftirminnilegan. Ýmsum þótti að vísu fullheitt í veðri og marga svíður jafnvel ennþá í sólbrennd nef og herðar. Lengi enn munu líka margir minnast allt að 8 klukkustunda rútuferða í 30 – 40 stiga hita milli flughafna og mótsstaðar. En mótið sjálft var allrar fyrirhafnar virði.

Fjórtán þjóðir sendu þátttakendur til leiks. Auk Íslendinga og Austurríkismanna voru Þjóðverjar, Svíar, Svisslendingar, Norðmenn, Danir og Hollendingar þar öflugastir, en þarna áttu líka fulltrúa sína Finnar, Frakkar, Ítalir, Lúxemborgarar, Bandaríkjamenn og loks Bretar, sem vegna gin- og klaufaveikinnar gátu ekki komið með eigin hesta, en fengu reiðskjóta lánaða í Austurríki.

Sigurður Sæmundsson landsliðseinvaldur gat sannarlega andað léttar og hrósað sigri í mótslok. Íslendingar áttu sviðið með heimsmeistara í helstu greinunum, töltinu, fjórgangi og fimmgangi og auk þess í nýrri tegund skeiðs sem væntanlega verður keppnisgrein á mótum síðari tíma. Þá höfðu Íslendingarnir slíka yfirburði að þeir áttu þrjá efstu í samanlögðu greinunum, Vigni Jónasson á Klakki, Svein Ragnarsson á Brynjari og Hugrúnu Jóhannsdóttur á Súlu. Í fjórum af sex flokkum kynbótahrossa stóðu íslenskfæddu hrossin efst, í tveimur stóðu þau næstefst þannig að enn einu sinni sönnuðust yfirburðir íslenskra knapa á hestum fæddum og uppöldum í sínu rétta umhverfi – á Íslandi. Þá má benda á að aðeins þriðjungur keppnishestanna var fæddur á erlendri grundu, hinir komu allir frá Íslandi.

Alla dagana var mikið um að vera og margt að sjá, en spennan og skemmtunin náði að sjálfsögðu hámarki síðustu tvo dagana, þegar keppt var til úrslita. B-úrslitin næstsíðasta daginn voru býsna spennandi, og þar stóðu Íslendingar sig vel í slaktaumatölti, sem þeir hafa ekki lagt mikla áherslu á hingað til. Sveinn Ragnarsson sló í gegn á Brynjari og náði m.a.s. upp í 3. sæti í A-úrslitum daginn eftir. Árangurinn innsiglaði hann á eftirminnilegan hátt með því að ríða hringinn með íslenska fánann hátt á lofti í annarri hendi og blómvönd í hinni án þess að snerta taumana og Brynjar brást ekki á þessu fína tölti. Rétt áður hafði Sigurbjörn Bárðarson skeiðað á Gordon í fyrsta sæti í 100 metra skeiði. Styrmir sigraði glæsilega í fjórgangi á Farsæli og Vignir sigraði í fimmgangi á Klakki eftir spennandi keppni við Magnús Skúlason í sænska landsliðinu. Íslendingar voru nefnilega ekki aðeins í íslenska liðinu, heldur mátti sjá a.m.k. 9 þeirra meðal knapa annarra þjóða. Hafliði Halldórsson sigraði svo á Valiant í sögulegum úrslitum töltsins, sem ævinlega er síðasta grein mótsins. Og þvílík úrslit! Þar var allt lagt undir og áhorfendur bókstaflega trylltir af æsingi. Merkilegt hvað keppnishestarnir þoldu af hávaða og látum. Þegar hraðatöltið var í algleymingi var baráttan orðin slík að skeifur, botnar og hlífar flugu um völl, einn þýsku knapanna reið næstum niður einn íslensku hestanna og annar náði ekki beygju og lenti út af vellinum. Þar með missti sá af verðlaunasæti og lán að ekki hlaust af slys.

Íslensku knaparnir sýndu bæði frábæra reiðmennsku og góða framkomu. Stærstu stjörnurnar voru hins vegar hrossin sjálf, sem með fegurð, hæfileikum, vilja og getu fengu mann hvað eftir annað til að grípa andann á lofti. Mér segir svo hugur að mörgum knapanum sé nú þungt fyrir brjósti að hafa orðið að skilja félaga sinn og vin eftir, því hross sem einu sinni eru flutt héðan frá Íslandi eiga ekki afturkvæmt. En þau halda áfram að vera glæsilegir fulltrúar íslenska hestsins og Íslands sjálfs á erlendri grundu. Betri sendifulltrúa eigum við ekki.