Áform um mengandi stóriðju og hrikaleg náttúruspjöll vegna virkjana í tengslum við þau áform virðast engan enda ætla að taka. Nú er það álversdraumurinn sem árum saman hefur verið otað að Austfirðingum. Í dag rennur út frestur til að skila athugasemdum til Skipulagsstofnunar við skýrslu um mat á umhverfisáhrifum álvers á Reyðarfirði. Eftirfarandi eru athugasemdir mínar við skýrsluna:
Skipulagsstofnun
Laugavegi 166
150 Reykjavík
Seltjarnarnesi, 6. júlí 2001
Efni: Athugasemdir við skýrslu Reyðaráls hf um mat á umhverfisáhrifum álvers á Reyðarfirði með allt að 420 þúsund tonna framleiðslugetu á ári.
Skipulagsstofnun hefur nú öðru sinni til umfjöllunar skýrslu um mat á umhverfisáhrifum álvers á Reyðarfirði. Hin fyrri kom fram síðari hluta árs 1999 og miðaðist við byggingu og rekstur verksmiðju með allt að 480 þúsund tonna framleiðslugetu. Að þessu sinni er framleiðslugetan miðuð við 420 þúsund tonn, en til viðbótar er nokkuð fjallað um rafskautaverksmiðju, sem ekki var áður nefnd til sögunnar, en er nú af framkvæmdaraðilum talin bráðnauðsynleg. Eykur sú viðbót verulega umsvif og mengun frá fyrirhuguðum rekstri og þyrfti augljóslega meiri undirbúning og umfjöllun.
Undirrituð sendi Skipulagsstofnun athugasemdir við hið fyrra mat, dagsettar 18. nóvember 1999, og gæti raunar endurtekið þær hér og nú í meginatriðum, þar sem grunnforsendur hafa á engan hátt breyst.
Verður að líta á alla þætti sem verksmiðjunni tengjast
Hér er verið að efna til reksturs risaverksmiðju til mengandi framleiðslu, sem ein og sér hefði gríðarlega mikil umhverfisáhrif. Óhugsandi er hins vegar og óeðlilegt að meta áhrif verksmiðjunnar einnar og sér, heldur verður að líta á alla þá þætti sem henni tengjast og hafa samanlagt feiknarleg og vítæk áhrif, náttúrufarsleg, samfélagsleg, atvinnuleg og efnahagsleg.
Árleg framleiðslugeta fullbyggðrar álverksmiðju á Reyðarfirði yrði umtalsvert meiri en samanlögð framleiðslugeta álverksmiðjanna í Straumsvík og á Grundartanga, sem er nú um 250 þúsund tonn á ári. Og jafnvel þótt þær nýttu til fulls þau leyfi sem þær hafa til aukins reksturs næði samanlögð framleiðslugeta þeirra ekki 400 þúsund tonnum. Þykir mörgum reyndar nóg um fyrirferð þessara verksmiðja og áhrif þeirra á umhverfið. Hvað mun þá um ferlíkið sem Reyðarál hf vill nú setja niður í einum staðviðrasamasta firði landsins?
Mikil sjónræn áhrif
Í matsskýrslunni eru birtar nokkrar tölvumyndir þar sem á allt að broslegan hátt er reynt að láta líta svo út sem hér verði um heldur hógværar og fyrirferðarlitlar byggingar að ræða, kúrandi undir reisulegum fjallahlíðum og í skjóli frá þéttbýlinu undir náttúrulegum bergvegg sem er svo vinsamlegur að vera á hentugum stað. Tilgangurinn leynir sér ekki, en hann helgar ekki meðalið. Verksmiðjubyggingarnar munu hafa mikil sjónræn áhrif, m.a. séðar frá friðlandinu á Hólmahálsi.
Áhrif á atvinnulíf og mannlíf
Það vekur í rauninni bæði skelfingu og furðu að mönnum skuli yfirleitt detta í hug að efna til slíkrar risaverksmiðju í tiltölulega mjög smáu samfélagi. Dæmi eru um það í öðrum löndum að efnt hafi verið til stórra verkefna á borð við þetta í þeim tilgangi að reyna að snúa við óæskilegri byggðaþróun og það jafnvel tekist um skeið. Rannsóknir, t.d. í Kanada og Skotlandi, sýna hins vegar neikvæð áhrif til lengri tíma litið og þá er vandinn jafnvel enn verri og óleysanlegri. Ekki verður séð að skýrsluhöfundar hafi nýtt sér rannsóknir og skýrslur byggðar á slíkri reynslu og er það verulega gagnrýni vert.
Sú jákvæða mynd, sem dregin er upp í skýrslunni af áhrifum á atvinnulíf og mannlíf allt á Austurlandi, verkar ekki trúverðug og gæti allt eins snúist í andhverfu sína. Tilgangurinn er sagður sá að skjóta fleiri stoðum undir atvinnulífið og vinna gegn fólksfækkun á Austurlandi. Staðreyndin er þó sú að frekar hefur skort vinnuafl en atvinnu á þessu landsvæði á undanförnum árum og hefur m.a. þurft að sækja það til útlanda. Þessi eina “stoð”, risaálver á Reyðarfirði, gæti því augljóslega dregið máttinn úr öðrum atvinnugreinum og sömuleiðis úr öðrum byggðarlögum austan- og norðaustanlands. Þennan þátt málsins þyrfti að kanna miklu betur og gera öllum hlutaðeigandi skýra grein fyrir líklegum áhrifum á einstök byggðarlög. Framkvæmdaraðilar og stjórnmálamenn verða þá að svara því undanbragðalaust, hvort þetta sé sú stefna í atvinnu- og byggðamálum sem þeir vilja vinna að og bera ábyrgð á. Margt í skýrslunni bendir mjög til neikvæðra áhrifa hvað þetta varðar, þótt reynt sé að berja í brestina.
Önnur störf “hverfa”
Viðurkennt er í skýrslunni að framkvæmdir tengdar fyrirhugaðri verksmiðju svo og verksmiðjureksturinn sjálfur muni óhjákvæmilega draga að sér vinnuafl úr öðrum greinum atvinnulífsins á Austurlandi. Á opnum fundi sem haldinn var um þessi efni 21. apríl sl. svöruðu fulltrúar Reyðaráls hf spurningum um þetta efni á þann veg að þessar tilfærslur mundu fyrst og fremst bitna á loðnubræðslu og málmiðnaði og að um 120 störf “kynnu að hverfa” eins og það var orðað. Hvernig sú tala er fundin er algjörlega óskýrt og viðbúið að hún gæti reynst allt önnur og væntanlega hærri. Hér er því að vissu leyti verið að skapa ný vandamál í stað þeirra sem þessari framkvæmd er ætlað að leysa. Með henni er í raun verið að auka á einhæfni atvinnulífsins, leggja alltof mörg egg í eina körfu og tefla framtíð byggðarlagsins í umtalsverða hættu með því að gera það svo háð einu stórfyrirtæki.
Ýtt undir óhagstæða kynjaskiptingu
Því skal svo enn og aftur haldið til haga (sbr. athugasemdir undirritaðrar við fyrri skýrslu árið 1999) að hér er fyrst og fremst verið að skapa störf við hæfi karla þrátt fyrir þá staðreynd, sem viðurkennd er í skýrslunni, að einmitt á þessu landsvæði eru nú þegar mun fleiri störf við hæfi karla í boði. Gildir einu þótt skýrsluhöfundar rembist á allt að því hlægilegan hátt við að reyna að sanna hið gagnstæða m.a. með myndefni og einstökum athugasemdum. Má þar t.d. benda á myndir á bls. 132 og mynd 8.2 á bls. 85 með sérkennilega drýldnum texta: “Konur hasla sér jafnt og þétt völl í áliðnaði”. Sú þróun er þó að flestra mati með hraða snigilsins, enda mála sannast að konur eru ekkert sérlega velkomnar á þennan vettvang hvað sem sagt er. Með tilliti til þessa eru þessi áform afar óskynsamleg aðgerð í byggðamálum og geta í raun aukið óhagstæða kynjaskiptingu á svæðinu.
Efnt til þenslu og stórfelldrar röskunar
Umfang framkvæmda og tímasetning auka svo enn á mjög varhugaverð áhrif á efnahags- og atvinnulíf. Á örfáum árum er ætlunin að efna til svo gríðarlegra framkvæmda og umsvifa á þessu landsvæði að ekki verður annað séð en að hvarvetna annars staðar verði nánast að leggja þjóðfélagið í dvala svo að það fari ekki á hvolf.
Allt á að gerast á sama tíma, sem út af fyrir sig er ekki óeðlilegt nema fyrir þær sakir hversu umfangsmiklar, dýrar og mannaflafrekar allar þessar framkvæmdir eru: Stærstu virkjanaframkvæmdir sem nokkru sinni hafa verið áformaðar, lagning háspennulína, bygging álvers af stærstu gerð, hafnargerð, miklar vegaframkvæmdir, jarðgangagerð, bygging íbúða o.s.frv., allt á þetta að gerast á 5 – 10 árum! Verði af þessum áformum blasir við þensla og stórfelld röskun í atvinnulífi landsmanna. Um þennan þátt málsins er aðeins örlítið fjallað í skýrslunni og af furðulegu kæruleysi.
Sótt að lífeyrissjóðunum
Ekkert er heldur fjallað að gagni um fjármögnunarþátt allra þessara framkvæmda, sem munu samanlagt kosta a.m.k. 300 milljarða króna og raunar umtalsvert meira, eða líklega nær 400 milljörðum, þegar öll kurl verða komin til grafar og tillit hefur m.a. verið tekið til gengisþróunar og verðbólgu. Nefnt er að reiknað sé með “að um 40% af fjárfestingum Noralverkefnisins verði af innlendum uppruna”. Vitað er að forsvarsmenn verkefnisins sækja nú fast að lífeyrissjóðum landsins sem kallað hefur á harða andstöðu þeirra sem efast um ágæti þessara hugmynda. Það er mörgum alvarlegt kvíðaefni ef gæslumenn lífeyrissjóðanna ætla að leyfa sér að hætta sparifé landsmanna og tryggingu þeirra til elliáranna í fjárfestingu í framkvæmdum af þessu tagi.
Loksins vothreinsun
Í 6. kafla skýrslunnar er fjallað um losun mengunarefna út í andrúmsloftið og fyrirhugaðar ráðstafanir til að takmarka hana. Tvennt er þar sem horfir til verulegra bóta frá fyrri áætlunum. Annars vegar er það förgun kerbrota sem ætlunin er að urða á landi með frárennsli í sjó í stað förgunar í flæðigryfjum eins og hingað til hefur verið gert. Þó er ljóst að enn betur mætti gera með sérstakri hreinsun á frárennsli og hugsanlega endurnýtingu kerbrota.
Í öðru lagi eru svo ráðstafanir til að draga úr losun mengunarefna út í andrúmsloftið sem hingað til hefur verið takmörkuð eingöngu með búnaði til þurrhreinsunar. Nú á hins vegar að takmarka hana enn frekar með vothreinsun sem dregur verulega úr loftmengun af völdum brennisteinstvíoxíðs. Tregða við að nýta þann kost hefur lengi sætt mikilli gagnrýni sem hefur nú væntanlega orðið til þess að menn sjá sér ekki lengur fært að hafna þeirri leið sem kostar umtalsvert meira.
Alþjóðasamningar sniðgengnir
Svo sem nærri má geta og staðfest er í skýrslunni hefur fyrirhuguð álframleiðsla í för með sér mikla losun mengunarefna út í andrúmsloftið, eða að fullbyggðri verksmiðju samtals um 770 þúsund tonn ígilda koltvíoxíðs, sem þýðir hátt í 40% aukningu frá því sem var árið 1990. Þannig yrði freklega gengið gegn Rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kyotobókunin að sjálfsögðu gjörsamlega sniðgengin. Í því efni skýtur Reyðarál sér á bak við stefnu núverandi ríkisstjórnar. Sú stefna er óábyrg og hættuleg og getur reynst íslenskum stjórnvöldum fjötur um fót í erlendu samstarfi að öðrum brýnum hagsmunamálum á sviði umhverfismála.
Núll-umfjöllun um núll-kost
Gagnrýna verður harðlega litla og máttlausa umfjöllun skýrslunnar um svokallaðan núll-kost, þar sem rétt lauslega er farið yfir líklega stöðu mála ef ekki yrði af Noralverkefninu. Þar er fátt eitt nefnt til ráða og t.d. ekki minnst á skógræktina sem er í örum vexti á Héraði. Þykir þó mörgum vel horfa með æ fleiri störf í þeirri atvinnugrein á næstu árum og til framtíðar. Sama er að segja um lífræna ræktun, sem á í raun rætur sínar á Héraði. Þá er dregin upp heldur ókræsileg mynd af ferðaþjónustu og ekki minnst einu orði á þær hugmyndir sem fram hafa komið um þjóðgarð norðan Vatnajökuls sem yrði atvinnuskapandi og mikil lyftistöng fyrir Austurland ef myndarlega væri staðið að verki. Þeir möguleikar takmarkast verulega, ef áform um virkjanir og verksmiðjurekstur verða að veruleika.
Fyrirhuguð orkuöflun óverjandi aðgerð
Hins vegar er í skýrslunni varið drjúgu rými til að réttlæta álframleiðslu almennt, en alveg sérstaklega hér á landi með því að vatnsorkuver tryggi þeirri framleiðslu vistvænni svip. Er þá af fullkominni lítilsvirðingu gengið framhjá þeirri staðreynd að fyrirhuguð orkuöflun hefði í för með sér meiri óafturkræf náttúruspjöll en áður eru dæmi um hér á landi.
Síðastnefnt er einmitt þyngsta og veigamesta ástæða þess að áform um risaálver á Reyðarfirði eru óverjandi með öllu. Til þess að framleiða þá orku sem þarf til að knýja þetta álver er ætlun Landsvirkjunar að reisa svokallaða Kárahnjúkavirkjun, sem hafa mundi í för með sér meiri og víðtækari spjöll á náttúru landsins en nokkru sinni fyrr hefur verið efnt til. Með þeirri virkjun væri þó ekki allt fengið, heldur þyrfti að afla orkunnar víðar að og er þá horft til gufuaflsins við Kröflu og í Bjarnarflagi með tilheyrandi línulögnum og raski. Það er ótrúleg ósvífni að bera það á borð í fullri alvöru að bygging og rekstur þessa risaálvers sé verðugt framlag Íslands til umhverfismála á heimsvísu án þess að taka með í reikninginn þau hrikalegu óafturkræfu náttúruspjöll sem öll þessi orkuöflun hefði í för með sér. Að öðru leyti vísa ég um það efni til athugasemda minna, dagsettra 6. júní 2001, við skýrslu Landsvirkjunar um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar. Þess verður að vænta að Skipulagsstofnun leggist gegn þeim áformum á þeirri forsendu að svo víðtæk og alvarleg spjöll í náttúru landsins séu með engu móti réttlætanleg.
Veigamestu rökin gegn álverinu
Með vísan til þess sem þegar er sagt legg ég til að Skipulagsstofnun hafni þessari skýrslu, fyrst og fremst vegna eftirfarandi þátta:
1) Óhjákvæmilegt er að vega saman alla þá þætti sem tengjast byggingu og rekstri fyrirhugaðrar álverksmiðju. Orkuöflun til reksturs verksmiðjunnar hefði í för með sér gríðarleg óafturkallanleg og óbætanleg spjöll á óviðjafnanlegri náttúru með hátt verndargildi. Slík eyðilegging er með öllu óverjandi.
2) Verksmiðjan mundi fullbyggð losa 770 þúsund tonn mengandi efna út í andrúmsloftið og þannig fara langt umfram viðmiðanir Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og sniðganga þá stefnu sem mörkuð var í Kyotobókuninni.
3) Fullyrðingar skýrsluhöfunda um jákvæð áhrif framkvæmda og verksmiðjureksturs eru ekki studdar sannfærandi rökum og þyrfti að fara miklu betur ofan í alla þætti þeirrar hliðar þessa máls. Með hliðsjón af reynslu annarra þjóða af sambærilegum aðgerðum kynnu þessar aðgerðir að hafa veruleg neikvæð áhrif á atvinnulíf og samfélag þvert á boðaðan tilgang.
Kristín Halldórsdóttir
201039-4529
Fornuströnd 2
170 Seltjarnarnesi