Í dag fór fram borgaraleg ferming í 13. skipti hér á landi. Árið 1989 voru það 16 ungmenni sem létu ferma sig á þennan hátt, en síðan hefur þátttakan aukist ár frá ári. Nú voru þau 73 sem fengu afhent skírteini til staðfestingar á þátttöku í námskeiði Siðmenntar. Eins og nærri má geta á slíkur fjöldi marga aðstandendur og því dugði ekkert minna en stærsti salurinn í Háskólabíói fyrir þessa athöfn.
Elsta barnabarnið okkar var í hópnum sem útskrifaðist að þessu sinni og gafst því kærkomið tækifæri til að kynnast nánar en ella þessu fyrirbrigði sem hefur opnað mörgum leið til þess að marka með eftirminnilegum hætti skilin milli barnæsku og fullorðinsára. Því miður ber enn talsvert á ákveðinni tortryggni og jafnvel lítilsvirðingu gagnvart borgaralegri fermingu, sem e.t.v. byggist fyrst og fremst á því að fólk hefur ekki kynnt sér hvað um er að ræða. Kirkjuleg ferming er hið viðtekna form og kristilegt umburðarlyndi virðist ekki öllum jafn nærtækt þrátt fyrir kenningu Krists.
Fermingarnámskeið Siðmenntar er fólgið í 12 tvöföldum kennslustundum, þar sem fjallað er um hvað felst í því að vera fullorðin og taka ábyrgð á eigin hegðun og skoðunum. Fjallað er meðal annars um mannleg samskipti, siðfræði, að taka ákvarðanir, um mismunandi lífsskoðanir og lífsstíl, trúarheimspeki, tilfinningar, skaðsemi fíkniefna, ofbeldi og einelti, samskipti kynjanna, hvað gefur lífinu gildi, í hverju hamingjan felst, að bera virðingu fyrir sjálfum sér og umhverfi sínu og að vera unglingur í auglýsinga- og neyslusamfélagi. Þátttakendur eru ekki mataðir á svörum, heldur leiðbeint í leitinni að þeim. Frekari upplýsingar má fá á heimasíðu Siðmenntar, sidmennt.is
Athöfnin í Háskólabíói var bæði falleg og skemmtileg, einlæg og laus við yfirdrepsskap. Á dagskránni voru fjölmörg stutt atriði, tónlist, ávörp og ljóðalestur og að lokum afhending skírteina. Fermingarbörnin tóku virkan þátt í athöfninni, sungu, léku á píanó, þverflautur og klarinett, fluttu ávörp og lásu ljóð, bæði frumort og eftir vini sína. Þau stóðu sig með mikilli prýði og báru þess vitni að hafa fengið góðan stuðning og örvandi uppeldi.
Antoinette Nana Gyedu-Adomako félagsfræðingur og Óskar Dýrmundur Ólafsson sagnfræðingur fluttu ávörp. Antoinette er frá Ghana, en hefur búið nokkur ár hér á landi og flutti mál sitt á íslensku á sérlega lifandi og skemmtilegan hátt. Ávarp hennar setti skemmtilegan svip á athöfnina og minnti okkur á að “…hjörtum mannanna svipar saman í Súdan og Grímsnesinu”, eins og Tómas kvað forðum.
Sveinn Kristinsson kennari stjórnaði dagskránni og Jóhann Björnsson heimspekingur og leiðbeinandi á námskeiðinu afhenti fermingarbörnunum skírteini. Allt gekk þetta rösklega og fumlaust fyrir sig og gleðin ljómaði af hverju andliti í þessum stóra hópi ungmenna sem fyllti svið Háskólabíós í dagskrárlok.