Námsstefna VG-smiðjunnar

VG-smiðjan stóð fyrir námsstefnu um Rammaáætlun, Reyðarál og Kárahnjúkavirkjun laugardaginn 21. apríl sl. Tilgangurinn var að gefa fólki kost á að fræðast um hinar hrikalegu framkvæmdir sem áformaðar eru á hálendinu norðan Vatnajökuls í því skyni að vinna orku til að knýja álverksmiðju á Reyðarfirði. En svo er að heyra að áhugamenn um þessi áform telji að þau muni snúa öllu á betri veg fyrir íbúa Austurlands og jafnvel landsmenn alla. Margir reyndust fræðslufúsir, því að um 70 manns sóttu námsstefnuna, sem var öllum opin.

Rammaáætlun

Tryggvi Felixson, framkvæmdarstjóri Landverndar, fór yfir starfið við Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem ríkisstjórnin hleypti af stokkunum fyrri hluta árs 1999. Þar er á ferðinni umfangsmikið, afar þarft og merkilegt verkefni, sem er eitt af því góða sem leitt hefur af þátttöku okkar í svokölluðu Ríó-ferli, þ.e.a.s. sem bein afleiðing af ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Ríó 1992. Tryggvi lýsti hvernig því starfi vindur fram, hvernig það skiptist milli starfshópa og hvenær og hvernig ætlunin er að leiða það til lykta. Svo virðist sem að flestu leyti sé vel að verki staðið, árlegur kostnaður er um 50 milljónir króna, og margir einstaklingar og stofnanir leggja hönd á plóg. Verður fróðlegt að kynnast áfangaskýrslu, sem væntanleg er um verkefnið í árslok 2002, þar sem kynna á hugmyndir um 25 virkjanir.

Erindi Tryggva var vel tekið og var hann margs spurður að því loknu. Ekki síst veltu menn fyrir sér hvert verður gildi Rammaáætlunar og hver stjórnsýsluleg staða hennar verður. Og auðvitað var spurt um samhengi hlutanna og tvískinnung stjórnvalda, þegar unnið er af fullum krafti að undirbúningi Kárahnjúkavirkjunar og virkjunum í jaðri Þjórsárvera í stað þess að bíða eftir niðurstöðum Rammaáætlunar.

Reyðarál

Geir A. Gunnlaugsson og Sigfús Jónsson fóru yfir niðurstöður mats á umhverfisáhrifum vegna álverksmiðju á Reyðarfirði með þeim fyrirvara þó að matsskýrslan verður ekki birt fyrr en í fyrsta lagi eftir 3 vikur. Ekkert skorti þó á fullyrðingar þeirra félaga um ágæti vinnunnar sem fram hefur farið og þeirra niðurstaðna sem hún hefur leitt í ljós. Þeir lögðu sig að sjálfsögðu fram við að draga fram jákvæða þætti þessa risaverkefnis og skautuðu létt yfir þá neikvæðari. Kynning Sigfúsar á könnun hans á félagslegum áhrifum á mannlíf og umhverfi þar eystra vakti mikla athygli og fyrirspurnir að erindunum loknum.

Augljóst var að fundargestir höfðu ýmislegt að athuga við þá fyrirætlun Reyðarálsmanna að reisa og reka álverksmiðju með allt að 420 þúsund tonna framleiðslugetu. Má raunar furðu sæta að menn skuli hafa farið svo langt með þessa hugmynd og eytt jafn gríðarlegu fé sem raun ber vitni í undirbúning jafn áhættusamrar framkvæmdar, þegar litið er til áhrifa hennar á atvinnulíf og mannlíf á Austurlandi. Það virðist t.d. ljóst að þessi nýja atvinnugrein hefði mikil neikvæð áhrif á aðrar greinar í fjórðungnum og er m.a.s. gert ráð fyrir að á annað hundrað starfa, sem nú eru fyrir hendi, leggist af ef álverksmiðjan kemst á skrið. Gert er ráð fyrir að það muni einkum bitna á loðnubræðslu og málmiðnaði, auk þess sem reiknað er með að fá verði erlent vinnuafl til að gegna drjúgum hluta þeirra starfa sem skapast. Marga hreinlega hryllir við þeirri tilhugsun að atvinnulíf og byggð á Austurlandi kunni í framtíðinni að vera háð þessari einu verksmiðju.

Kárahnjúkavirkjun

En hafi fundargestum verið um og ó þegar þeir hlýddu á mál þeirra Geirs og Sigfúsar þá féll þeim mörgum allur ketill í eld að hlusta á það sem ráðgjafar Landsvirkjunar, þeir Sigurður St. Arnalds, Gísli Gíslason og Kristinn Haukur Skarphéðinsson, höfðu að segja um fyrirhugaða Kárahnjúkavirkjun. Þar er verið að efna til svo tröllslegra framkvæmda að þær munu gjörbreyta landslagi og náttúru, ef af verður. Um það eru menn sammála, en hitt verður vafalaust langvinnt og heitt deiluefni, hvort landinu og náttúrunni sé fórnandi fyrir þann hagnað sem hugsanlega er að hafa. Á þessu svæði er náttúran lítt snortin af mannlegum völdum, þótt nú þegar hafi ýmsu verið bylt við undirbúning og rannsóknir vegna mats á umhverfisáhrifum, vegir lagðir og boruð göt í landið. Þrátt fyrir það er svæðið norðan Vatnajökuls stærsta ósnortna víðerni landsins og þótt víðar væri leitað og sá skaði óbætanlegur ef framkvæmdaáform ná fram að ganga. Þarna eru jarðfræðilegar náttúruminjar í voða, svo og gróðurlendi og dýralíf. Óviðjafnanlegt landslag biði af mikinn skaða, og hugmyndir um þjóðgarð á þessu svæði biðu alvarlegan hnekki.

Námsstefna VG-smiðjunnar varð mörgum kærkomið tækifæri til að átta sig á þessum risastóru verkefnum sem verið er að efna til. Matsskýrslurnar verða auglýstar í maímánuði og verða síðan aðgengilegar á heimasíðum Reyðaráls, www.reydaral.is, og Kárahnjúkavirkjunar, www.karahnjukar.is. Er ekki að efa að margir verða til þess að gera athugasemdir við það sem fram kemur í skýrslunum, enda er hér um slíkt stórmál að ræða, að það varðar ekki aðeins íbúa svæðisins og ekki aðeins landsmenn alla, heldur nær það langt út fyrir íslenska landsteina.