Indlandsferð IV

Mörgum Vesturlandabúanum reynist erfitt að standast og umbera allt áreitið sem fylgir því að ferðast um Indland, sjá það sem auganu mætir, umbera betlarana, svara öllum spurningunum sem þeir fá yfir sig, sniðganga sölumennina, hrista af sér skóburstarana, venjast kúnum sem spranga um stræti og hnusa af matnum á útimörkuðunum og leggja frá sér mykjudellurnar á götur og gangstéttir. Áreitið er stöðugt og ágengnin ótrúleg. Sumum finnst þetta skelfilegt, öðrum heillandi. Ég tilheyri síðari hópnum, þótt stundum keyri óneitanlega um þverbak.

Allir að selja eitthvað

Eitt af því sem fólk þarf að hafa í huga og vara sig á er sú gríðarlega sölumennska sem Indverjum virðist svo í blóð borin að manni finnst allir vera að selja eitthvað, vörur, þjónustu, akstur, leiðsögn, og það eins dýrt og þeir mögulega komast upp með. Amet leiðsögumaður, sem ég hef vitnað til áður í Indlandspistlum mínum, ráðlagði hvernig best væri að haga sér ef maður vildi ekki eiga viðskipti við götusala. Ekki segja já og ekki segja nei, sagði hann. Hvað á maður þá að segja? spurði ég. Ekki neitt, sagði Amet, og alls ekki láta þá ná augnsambandi. Ég fór eftir þessu ráði eins og ég frekast gat, en götusalarnir eru ótrúlega ágengir, hvort sem þeir eru að bjóða vöru eða þjónustu. Ráðið dugði því ekki alltaf og gat verið verulega erfitt að hrista þá af sér.

Þeir sletta drullu

Leigubílstjórar eru vísir til að sleppa því að setja gjaldmælinn í gang, ef ekki er að gáð. Burðarmenn í flughöfnum og á járnbrautarstöðvum eru útsmognir að ná viðskiptum og plokka ferðamanninn. Skóburstararnir eru sér á parti og eiga það til að sletta drullu á skó ferðamanna til að sanna þá fullyrðingu sína að þeir þurfi á burstun að halda. Korta- og minjagripasalar hengja sig á ferðamenn og eru ótrúlega þrautseigir að ota sínu fram. En kannski er óþægilegast að standast betlarana sem eru firna ágengir og oft erfitt að greina á milli hvort þeir eru að leika eða raunverulega illa staddir. Ferðabækur ráðleggja þeim sem vilja láta gott af sér leiða að gefa frekar í valda sjóði. Slíkt komi frekar að tilætluðum notum en að gauka aurum að betlurum.

Þau prúttuðu grimmt

Fólkið sem var með okkur í ferðinni um Rajasthan var ekki jafn staðfastlega á móti því að eiga viðskipti við götusala eins og við. Sumir ferðafélaga okkar stóðu í sífelldu prangi, þeir létu götusalana fúslega trufla sig og drógust að hverri búðarholunni af annarri eins og mý að mykjuskán. Þeim virtist þykja gaman að prútta um verð og freista þess að gera góð kaup og birgðu sig upp af útskornum guðalíkneskjum, fílum og úlföldum, marglitum armböndum, skóm úr úlfaldaskinni og sjölum úr kasmírull – að sögn sölumannanna! Ég velti því fyrir mér hvort allt þetta dót sem þau drösluðu út úr landinu hafi í raun og veru veitt þeim einhverja ánægju þegar heim var komið.

Hins vegar er sannarlega hægt að kaupa margt eigulegt í Indlandi ef fólk er í verslunarhugleiðingum. Til dæmis fást kasmírsjöl og silkiklútar af vandaðri gerð og taka ekki alltof mikið pláss í farangri á heimleiðinni. Erfiðara er með ýmsa stærri hluti svo sem teppi sem fást af öllum stærðum og gerðum og mörg hver afar vönduð, falleg og eiguleg. Það er þó lítill friður til að skoða þau sér til ánægju því óðara og minnsti áhugi er sýndur svífa að sölumenn með heilu fyrirlestrana á vörum um framleiðslumáta og gæði hinna margvíslegu teppa og getur verið þrautin þyngri að sleppa frá því með sæmilega kurteislegu móti.

Sjal á hálfa milljón

Til eru sérstakar verslanir, svokallaðar “emporium”, sem ferðamönnum er ráðlagt að nýta sér ef þeir vilja vera vissir um að fá góða vöru á réttu verði. Við fórum í eina slíka í Udaipur og keyptum nokkra ósvikna silkiklúta til gjafa. Elskulegur piltur sá von í okkur til frekari viðskipta og sýndi okkur gersemar frá heimahéraði sínu, kasmírsjöl af margvíslegum gæðastaðli og verðið eftir því. Það er til marks um kurteislega ýtni hans og sölumannshæfileika að honum tókst að freista mín með ótrúlega fallegum kasmírsjölum með marglitu mynstri sem hann sagði að hefði tekið marga mánuði að sauma og sum jafnvel ár. Ég dró það ekki í efa eftir að hafa grandskoðað saumaskapinn. Þvílíkt handbragð! Og verðið var eftir því, það dýrasta var verðsett á tæplega hálfa milljón íslenskra króna!

Naumlega sloppið

Eitt þessara sjala var slík gersemi að ég gat ekki hætt að dást að því. Það var öllum hinum fallegra að mínum dómi, en uppsett verð hugnaðist ekki minni pyngju, þótt það væri ekki einu sinni í námunda við það alhæsta. Mér fannst ég býsna hefðarkonuleg sveipuð þessu dýrindi og ungi maðurinn smurði mig lofi og hætti ekki fyrr en hann fékk mig til að segja hvað ég gæti hugsað mér að greiða fyrir dýrgripinn. Honum lá við yfirliði þegar ég nefndi helmingi lægri tölu en upp var sett, en hann gafst ekki upp og við prúttuðum fram og til baka, sem á reyndar ekki að vera hægt í verslun af þessu tagi, og eiginmaðurinn skemmti sér heil ósköp yfir þessari klemmu sem ég var komin í. Á endanum lagði sölumaðurinn málið fyrir bróður sinn sem var verslunarstjóri, og þegar hann hristi höfuðið yfir þessu smánarlega tilboði mínu varð mér ljóst að ég hefði ekki verið svikin af þessari vöru. En ég var fegin að við náðum ekki saman, það er auðvitað ekkert vit að eyða tugum þúsunda í eitt stykki sjal, hversu ótrúlega fallegt og vandað sem það er. Þar slapp ég naumlega.

Og læt ég hér með Indlandspistlum lokið.