Mörg fjaran sopin

Nú get ég með sóma og sann horft í augu hesta minna, þeirra Víkings og Prúðs, og sagt með tilþrifum: “Við höfum marga fjöruna sopið saman!” Sú er niðurstaðan eftir fimmtu hestaferð okkar hjóna með Bjarna E. Sigurðssyni á Löngufjörurnar á Snæfellsnesi.

Þetta er sem sagt fimmta árið í röð sem við endum hestasumarið með vikuferð um Borgarfjörð og Snæfellsnes, mestmegnis á Löngufjörum, í fylgd með Bjarna og starfsfólki og nemendum reiðskóla hans, Þyrils. Oftast höfum við byrjað ferðina á Báreksstöðum rétt hjá Hvanneyri og riðið þaðan að Grímsstöðum undir Grímsstaðamúla, síðan í Lindartungu og út á fjörurnar frá Snorrastöðum. Eitt skipti hófum við ferðina á Oddsstöðum í Lundarreykjadal, og tvívegis höfum við farið fyrir Jökul, í annað skiptið byrjuðum við á Ingjaldshóli og í hitt skiptið enduðum við þar. Í þetta sinn byrjuðum við á hefðbundinn hátt en vorum svo heila fimm daga á fjörunum sjálfum, fórum vestur á Arnarstapa og langleiðina aftur til baka.

Ferðin núna var sérstök að því leyti að óvenju margir þátttakenda voru alls óvanir ferðum af þessu tagi og höfðu jafnvel lengst farið í fjögurra tíma reiðtúr um Heiðmörkina. Ég var því ögn kvíðin í upphafi að erfitt yrði að halda utan um lausu hrossin og ýmsir kæmu til með að mynnast við fósturjörðina eða saltan sjóinn. Þær hugrenningar fékk ég beint í hausinn aftur á verklegan hátt, sbr. upphafsorðin. Og það var algjört ævintýri að fylgjast með framförum og gleði nýliðanna sem efldust með degi hverjum og voru hver af öðrum síðustu dagana komnir í samkeppni um að halda uppi hraðanum í forreiðinni.

Skilyrðin á fjörunum voru líka mjög sérstök og allt öðru vísi en í fyrri ferðum okkar. Að sjálfsögðu er alltaf mikið af pollum, sem maður ríður einfaldlega beint yfir með tilheyrandi skvettum ef svo vill verkast. Nú kynntist ég hins vegar alveg nýrri tegund polla, sem erfitt var að vara sig á, en þeir voru í formi djúpra sjófylltra pytta sem buðu upp á óvænt bað hests og knapa og það henti mig sem sagt tvívegis. Í bæði skiptin lentum við upp fyrir haus með miklum skvettum og gusugangi. Engin slys hlutust af og í bæði skiptin tókst mér að halda mínum hesti, og því urðu þessi áhættuatriði nálægum vitnum til mikillar skemmtunar, í það minnsta eftir á. Og vegna þessa get ég nú sagt með sanni við mína ágætu hesta að við höfum marga fjöruna sopið saman.

Við fengum frábært veður alla dagana og sannreyndum hvað Veðurstofunni er lagið að spá vitlaust, því hún reyndi mikið að láta rigna á okkur. Sú rigning kom ekki fyrr en morguninn sem við vorum að láta hrossin á flutningabílana að ferðinni lokinni.

Þetta var sem sagt alveg stórkostleg og frábær ferð, enda óvíða skemmtilegra að njóta getu og hæfileika góðra hesta en á Löngufjörum. Eftir sitja í huganum ótal fallegar myndir og ein sú fegursta frá morgninum þegar við riðum frá Kolbeinsstöðum og niður með Haffjarðará að Stóra-Hrauni. Í morgunljómann var lagt af stað og allt logaði af dýrð eins og í ljóði Einars Ben. Morgunsólin glampaði á jöklinum og fimm svanir syntu á lygnu í ánni. Hestarnir virtust skynja að framundan væri skemmtileg glíma við hvítfyssandi haf og fjörusand og þurftu ekki hvatningu. “Betra á dauðlegi heimurinn eigi”.