Á hestum kringum jökla

Það tekur tímann sinn að jafna sig á því að Fáksferð sumarsins er lokið, að átta sig á því á morgnana að maður vakni upp í sínu eigin góða rúmi, en ekki á dýnu í fjallakofa eða félagsheimili, að verkefni dagsins séu óháð veðri og vindum, að hestarnir bíði ekki úti í næsta haga. Viðbrigðin eru mikil og ekki laust við söknuð í huga.

Í þetta sinn var lagt upp frá innsta bæ í Fljótshlíð 20. júlí og riðið næstu daga í kringum Eyjafjallajökul og Mýrdalsjökul og endað í Gunnarshólma í Landeyjum 28. júlí. Hópurinn var alveg mátulega stór og félagsskapurinn góður, en það er afar mikilvægt í ferðum sem þessum. Þá er atlæti til munns og maga í Fáksferðum víðfrægt, en um það hafa í nokkur ár séð hjónin Rósa og Ómar með dyggri aðstoð Snúllu. Þau spara sér hvergi ómak við matseld og notalegheit.

Eins og nærri má geta kemur ýmislegt upp á í langri ferð 25 ríðandi manna með tæpt hundrað hesta, sem eiga það til að vilja fara eigin leiðir, einkum fyrstu dagana meðan þeir eru að samlagast og læra að lesta sig. Hross eru margvísleg í lund og annarri gerð, og oft eru með í ferð einstaklingar sem sífellt leitast við að stinga sér út úr rekstrinum og taka með sér aðra hesta. Erfiðast er við slíkt að eiga þar sem eru miklar brekkur og gil eða þegar farið er yfir ár eða vötn. Allt hefst þetta þó með góðri samvinnu ferðafélaga.

Spennan er alltaf mikil í ferðum sem þessari, og hver einasti dagur hefur sitt svipmót í minningunni, hvort sem það markast af veðri eða landslagi eða einhverju atviki. Fyrstu tvær dagleiðirnar voru stuttar eða áttu að vera það, aðeins 25 – 30 km. Kílómetrarnir urðu þó fleiri hjá þeim sem þurftu að eltast við óþekka hesta upp og niður fjallahlíðar norðan Einhyrnings, en þeir komu sigri hrósandi í áfangastað með “skálkana” í taumi. Þennan dag var Prúður minn í vondu skapi og gerði mér þann óleik að henda mér af baki í annað skipti í okkar sambúð. Hann á til dálítið róttæka ólund, en er að öðru leyti slíkur gæðagammur að ég fyrirgef honum fúslega dyntina. Hann sýndi ekkert nema allt sitt besta það sem eftir var ferðarinnar. Um kvöldið var mikið sungið í Hvanngili og ekki spillti að skálavörðurinn Örn Bjarnason trúbadúr lumar á meinfyndnum textum og sparar ekki strengjaplokkið.

Þriðja daginn var heldur betur sprett úr spori yfir Mælifellssand, sem ég hef reyndar riðið tvisvar áður og aldrei fengið betra leiði. Hraustleg rigning nóttina áður gerði sandinn þéttan og góðan undir fót og kom algjörlega í veg fyrir sandryk sem getur orðið til mikilla óþæginda. Síðan var riðin ákaflega falleg leið niður Álftaversafrétt, reyndar svolítið háskaleg á köflum þar sem lausu hestarnir fóru í loftköstum niður brekkurnar. Var þá betra að vera á traustum hesti og hafa taumhaldið í lagi. Næturstaður hestanna var sérlega fallegur í góðri girðingu við Hólmsá, þar sem gangnamenn á Álftaversafrétti eiga sér skjól, en við gistum í félagsheimilinu Tunguseli og liðkuðum aðeins dansfæturna fyrir svefninn.

Fjórða dagleiðin var nokkuð löng og strembin. Þá riðum við sandana austan Mýrdalsjökuls og ætluðum að njóta fjalla- og jöklasýnar, en fengum þungskýjað og rigningu í dagslok. Sandarnir voru þungir yfirferðar og nokkrar jökulár þurfti að þvera. Ein þeirra var býsna stríð og tókst að skella einum klárnum og knapanum með. Sá blotnaði upp að hálsi og mátti ríða þannig til kvölds, en væri hann spurður um kulda glotti hann við tönn eins og sönnum Íslendingi sæmir og kvaðst ekki kvarta. Næturstaður hestanna var í Kerlingardal, en þeir höfðu aðra skoðun en við á því hvar þeir skyldu fylla sig og hvílast og endaði dagurinn með eltingaleik um lautir og hlíðar þar sem víraflækjur lágu í leyni úti um allt. Þvílíkt sem búið er að dreifa um þetta land af gaddavírsflækjum sem menn nenna ekki að hirða upp eftir sig.

Það var gott að vakna upp í rjómablíðu í Vík í Mýrdal og ganga um þennan vinalega bæ og út með gróðri vöfðu Reynisfjallinu. Svo héldum við inn á Höfðabrekkuheiði og inn á afrétt Mýrdælinga og fórum þar ótrúlega fallegar og skemmtilegar leiðir sem fáir aðrir en heimamenn fara, enda nutum við þess að vera undir fararstjórn Valdimars Jónssonar sem er Mýrdælingur að uppruna. Ógleymanlegur dagur.

Næstu tvær nætur gistum við á Brekkum í Mýrdal og gáfum hestunum góðan tíma til hvíldar. Fórum reyndar í góðan reiðtúr í yndislegu veðri út í Dyrhólaey sem við könnuðum í krók og kring og gátum leyft okkur bæði slökun og góða spretti þar sem við vorum ekki með laus hross þann daginn.

Sjöunda daginn riðum við svo með Eyjafjöllum alla leið að Fitjamýri með útúrdúr yfir Holtsósinn. Guðmundur í Skálakoti stjórnaði ferð okkar af öndverðum bakka gegnum gemsa með Hannes rekstrarstjóra á hinum endanum og tókst það bærilega nema hvað lausu hestarnir höfðu engan gemsa og tóku strikið með miklum buslugangi þvert á öll fyrirmæli. Þetta uppátæki þeirra varð til þess að ekki fór ég þurr upp úr Holtsósnum nú frekar en fyrir nokkrum árum þegar við lentum reyndar óforvarandis á hrokasund. Slík óvænt atvik eru hins vegar ómissandi krydd í tilveruna, enda væri fátt til frásagnar ef allar ferðir væru bara sléttar og felldar.

Veðurstofan spáði heldur illyrmislega fyrir síðasta daginn okkar, sem við ætluðum að nota til að ríða léttan eftir bökkunum við Markarfljót. Hún var ekkert að skafa utan af hlutunum, slagveður skyldi það heita og jafnvel ofsaveður með köflum. Lánið var að við höfðum stífan vindinn í bakið eða á hlið mestalla leiðina að Gunnarshólma og úrkomuna herti ekki verulega fyrr en eftir að við höfðum komið öllum í áningarstað. Morguninn eftir var komið besta veður og hestarnir þurrir og hvíldir að sjá. Okkar hestar voru svo komnir í heimahaga í Kaldbak um miðjan dag og fá nú að njóta iðjuleysis fram að síðustu hestaferð sumarsins í ágústlok.