Skortir ögn á gamanið

Nýjasta skoðanakönnun um fylgi stjórnmálaflokkanna er Vinstri grænum ekki nógu hagstæð þótt enn sé það ofar fylginu í síðustu kosningum. Könnunin nú sýnir 11% fylgi og hefur ekki mælst lægra síðan í kosningunum 1999 þegar það var 9.1%. Þetta eru mikil umskipti frá fyrri tíð þegar fylgið mældist allt að 30 %, en þróunin hefur verið á þessa leið síðustu vikurnar.

Ástæðurnar geta verið af ýmsum toga, en nærtækast er að kenna um sviðsljósinu sem síðustu vikur hefur nánast eingöngu skinið á persónur, en minna á málefni. Fjölmiðlar hafa verið uppteknir af prófkjörum og röðun á lista þar sem á ýmsu hefur gengið og tæpast hægt að segja að “..í góðsemi vegur þar hver annan”. Fjölmiðlar meta það örugglega rétt að þessi áflog falla í kramið hjá afar mörgum, jafnvel þeim sem annars hafa lítinn áhuga á stjórnmálum. Tilgangslaust er að ergja sig yfir því, heldur verður að bíta á jaxlinn og bíða af sér þetta gjörningaveður. Það hvarflar satt að segja ekki eitt andartak að mér að Vinstri grænir bæti ekki við sig fylgi þegar skiptir um átt og menn fara að takast á um málefni.

Vissulega blasir við annar veruleiki nú en í upphafi starfsemi Vinstri grænna. Aðstæður eru allt aðrar, að sumu leyti auðveldari, að öðru leyti ekki. Kannski skortir ögn á gamanið sem var svo ríkt í upphafi. Það er svo gaman að skapa og móta eitthvað nýtt, gaman að klæða hugsjónir í nýjan búning, gaman að ryðjast fram á leikvöllinn með nýja leikfléttu og nýja liðsmenn. Orð eins og “gaman” og “skemmtilegt” heyrðust oft í kosningabaráttu Vinstri grænna fyrir kosningarnar í maí 1999. Og það voru orð að sönnu. Ekki þó alltaf. Byrjunin var erfið og það var eins og aldrei ætlaði að takast að koma mönnum í skilning um hvers konar stjórnmálaafl væri hér á ferð. Svo gerðist það næstum eins og allt í einu að virkilega tók að blása í seglin. Og þá var gaman og Vinstri grænir fögnuðu sigri þetta vor með sex fulltrúa á Alþingi.

Þingmenn Vinstri grænna hafa sýnt mikinn dugnað og harðfylgi á kjörtímabilinu. Slík hefur eljan verið að margir halda að þingflokkurinn telji frekar 12 þingmenn en sex. Stefna og athafnir ríkisstjórnarinnar hafa kallað á harða stjórnarandstöðu sem Vinstri grænir hafa ekki skirrst við að veita og oftast langt umfram það sem aðrir þingflokkar stjórnarandstöðunnar hafa getað eða viljað. Oft hefur ráðherra og stjórnarliða sviðið undan gagnrýni og aðhaldi Vinstri grænna og brugðist við með ergilegum yfirlýsingum að þeir séu bara alltaf á móti. Ef til vill hefur þeim tekist að koma neikvæðum stimpli á Vinstri græna sem í upphafi höfðu á sér yfirbragð hins jákvæða uppbyggilega afls. Þann sess þarf að vinna aftur.

Út af með konur – inn á með stráka!

Sjálfstæðismenn háðu sitt prófkjör um helgina og ef ég man rétt var það síðasti prófkjörsslagurinn fyrir komandi kosningar. Liggur við að ég segi því miður vegna þess að meðan prófkjörin standa sem hæst fer afar lítill tími í að lesa blöðin. Hin hliðin á peningnum er sú að þar með er ótrúlega miklu plássi varið í einskis nýtan orðaflaum í stað uppbyggilegra greina. Skyldu annars nokkrir lesa greinastúfa frambjóðenda eða stuðningsmanna þeirra, sem þekja síður Morgunblaðsins dögum saman fyrir prófkjör, aðrir en greinahöfundar og venslamenn þeirra? Skyldu einhverjir liggja yfir stuðningsauglýsingunum og fara í kjörklefanum að fordæmi persónanna sem setja nafn sitt undir mynd af einhverjum frambjóðandanum? Líklega er það svo úr því að það þykir svo vænleg leið að safna frægum nöfnum undir uppstillta mynd af viðkomandi.

Prófkjör er auðvitað býsna skemmtilegur kappleikur, einkum fyrir þá sem hafa hvorki vit né áhuga á stjórnmálum, en e.t.v. gaman af íþróttum. Og prófkjör er ekkert endilega verri leið en uppstilling, ef sú leið er í höndum fólks sem er illa læst á hæfileika hugsanlegra frambjóðenda og heildarhagsmuni flokksins. Hins vegar hefur prófkjör þá stórkostlegu galla að þau henta ekki jafnvel konum sem eru síður uppaldar á fótboltavelli en karlar og þau eru ekki á færi annarra en þeirra sem eru loðnir um lófana eða eiga fjársterka bakhjarla. Og maður hreinlega vorkennir fólki sem eys fé í auglýsingar og kaffiboð og jafnvel heilu hátíðirnar án þess að uppskera baun í bala eða þá það sem verra er, vonbrigði, skömm og reiði.

Einkennandi fyrir aðdraganda komandi kosninga, hvort sem menn eru að strekkja sig í prófkjörum eða sitja með sveittan skallann við að raða á lista, er síbyljan um endurnýjun í þingflokkum stjórnmálaflokkanna. Með endurnýjun eiga menn hins vegar eingöngu við yngingu í þingliðinu og tala með nokkurri vandlætingu um að meðalaldur þessa og hins þingflokksins sé nær fimmtugu og hreinlega renna augum til himins ef meðalaldurinn er yfir fimmtugt. “Ungt fólk þarf sína fulltrúa”, er sagt og étur það hver eftir öðrum án þess að rætt sé hvers vegna sú þörf er svo knýjandi. Hafa ekki allir þingmenn um fimmtugt einhvern tíma verið ungir eða eru foreldrar ungs fólks og hafa þar með vott af skilningi á þörfum arftaka sinna? Hins vegar hafa hinir ungu af eðlilegum ástæðum aldrei verið gamlir og skortir tilfinnanlega þekkingu og jafnvel áhuga t.d. á kjörum miðaldra að ekki sé minnst á aldraða. Það er mun meiri hætta á að hagsmunir hinna eldri séu fyrir borð bornir en hinna yngri og því væri rökréttara að krefjast fulltrúa gamals fólks en hins unga. Það gengur hins vegar ekki á tímum óskorinnar æskudýrkunar.

Annað vekur athygli í sambandi við þessa kröfu um fulltrúa ungs fólks og það er hvað sá hópur er eintóna og harla líkur innbyrðis, a.m.k. innan Sjálfstæðisflokksins. Þau mættu fjögur yngstu úr hópi prófkjörskandídata í Silfur Egils fyrir viku, 2 kvenkyns og 2 karlkyns, öll í sams konar jakkafötum, öll eins í háttum og út úr þeim öllum stóð sama frjálshyggjubunan. Þau voru brött og svolítið roggin og báru með sér að hafa gengið í stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins og hlustað á munnræpu Hannesar Hólmsteins. Tolla skyldi afnema og skatta skyldi lækka, en ekkert rætt um velferð og jöfnun lífskjara.

Og nú er niðurstaðan fengin hjá sjálfstæðismönnum í Reykjavík og niðurstaðan er: Upp með stráka, niður með konur! Forystumennirnir eru ekki í vandræðum með að réttlæta útreið kvenfólksins. Þetta snýst ekkert um kynin, sagði Davíð í Kastljósinu fyrir stundu, þetta snýst um einstaklinga. Sólveig stefndi of hátt að ætla sér 3. sætið og lenti í því að berjast um 4. sætið við konur, sem skapaði glufu fyrir Pétur! Jahá, verður sjálfsagt einhverjum á að hugsa án þess að skilja, en ekki orð um það meir, því Davíð hefur talað.

En hvers vegna náðu bara ungu strákarnir árangri, en ekki ungu stúlkurnar? Jú, þeir voru búnir að vinna svo vel og vera svo áberandi, en þær ekki eins, er skýring Davíðs. En bíðum við, er ekki Stefanía Óskarsdóttir búin að vinna vel og vera býsna áberandi? Hefur hún ekki kennt í stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins, verið formaður jafnréttisnefndar flokksins og jafnvel formaður Hvatar, félags sjálfstæðiskvenna? Hefur hún ekki verið þó nokkuð áberandi í útvarps- og sjónvarpsþáttum undanfarin ár á þeim forsendum að hún er þrælmenntaður stjórnmálafræðingur? Hefur hún ekki margsinnis setið á Alþingi sem fyrsti varaþingmaður flokksins á yfirstandandi kjörtímabili? Ójú, allt þetta hefur Stefanía Óskarsdóttir gert og er launað með því að setja hana í 15. sæti. En vel að merkja, hún er 40 ára gömul síðan í ágúst á þessu ári og þannig t.d. heilum 6 árum eldri en Birgir sem fékk 10. sætið.

Er ekki eina raunverulega niðurstaðan sú, að kjósendur Sjálfstæðisflokksins heimta frjálshyggjustráka og ansa ekki neinu jafnréttisþrugli og allra síst náttúruverndartuði Katrínar Fjeldsted? Verði þeim að góðu.

Frábær baráttufundur

Frábært, frábært, frábært! Þvílík stemning í troðfullu Austurbæjarbíói í kvöld. Þar slógu mörg hundruð hjartna með Þjórsárverum á baráttufundi sem haldinn var að undirlagi heimamanna úr Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Tilefni fundarins var að innan örfárra daga mun heilbrigðisráðherra sem staðgengill umhverfisráðherra kveða upp úrskurð um Norðlingaölduveitu. Með úrskurðinum ákveður hann hvort Landsvirkjun verður hleypt með framkvæmdir inn í Þjórsárver, eitt mikilvægasta lífríkissvæði hálendisins, friðlýst svæði samkvæmt íslenskum lögum og varið með alþjóðlegum skuldbindingum Ramsarsáttmála sem mikilvægt votlendissvæði og stærsta byggð heiðagæsar í heiminum. Frekar um það má lesa í pistli mínum 10. júní sl. þar sem birtar eru athugasemdir til Skipulagsstofnunar við matsskýrslu Landsvirkjunar um Norðlingaölduveitu. Einnig má benda á greinina “Verjum Þjórsárver” frá 26. júní sl.

Fundurinn var í einu orði sagt stórkostlegur og minnti raunar á annan eins sem haldinn var í troðfullu Háskólabíói fyrir réttum þremur árum til varnar Eyjabökkum. Þessi var ekki síðri þótt undirbúningur stæði aðeins í viku og væri furðu lítið auglýstur. Halla Guðmundsdóttir frá Ásum stjórnaði fundinum með glæsibrag, Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Falcon Scott, sonur Peters Scott sem “uppgötvaði” Þjórsárverin, Guðmundur Páll Ólafsson og Sigþrúður Jónsdóttir fluttu ávörp, sýndur var hluti kvikmyndar sem tekin var í Þjórsárverum í ferð Peters Scott þangað og lýsti Kristinn Haukur Skarphéðinsson því sem fyrir bar á einkar skemmtilegan hátt, Baldvin Halldórsson las ljóð, Jón Rúnar Arason söng , Vinabandið og CesarA sungu og röppuðu og Árnesingakórinn söng. Meðan á dagskrá stóð birtust myndir úr Þjórsárverum á tjaldinu að baki sviðsins. Í lok fundarins var samþykkt gneistandi ályktun til varnar Þjórsárverum sem fundargestir gátu undirritað á leiðinni út.

Verst að Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra var ekki á fundinum.

“Í dag er ég ríkur”

Í hátt á annan mánuð hefur fjöldi fólks látið til sín taka í baráttunni fyrir verndun íslenskrar náttúru, baráttunni gegn hrikalegustu náttúruspjöllum af manna völdum sem nokkru sinni hafa verið áformaðar á hálendi Íslands, þ.e. Kárahnjúkavirkjun og skerðingu Þjórsárvera.

Það er reyndar umhugsunarvert hvað fjölmiðlar hafa kosið að sniðganga þessar aðgerðir. Hildur Rúna Hauksdóttir tók það til bragðs að svelta sig til þess að vekja athygli á málstaðnum og m.a.s. um það þögðu íslenskir fjölmiðlar að mestu. Hins vegar tóku fjölmiðlar í útlöndum rækilega við sér og afleiðingarnar eru þessa dagana að koma í ljós: Mótmælaskeytunum rignir nú yfir Alcoa frá sárhneyksluðu fólki víða að úr heiminum og í dag bárust fréttir af því að efnt yrði til mótmæla við höfuðstöðvar Alcoa í Sviss.

Í hádeginu hvern virkan dag hittist fólk á Austurvelli, hlýðir á erindi, tónlist, upplestur og fréttir úr baráttunni. Það þjappar sér saman, syngur saman og hrópar saman. Mismunandi margir mæta, allt frá 20 til 100 manns og jafnvel 300 eins og daginn sem Alþingi var sett. Á 50. degi mótmælanna var dúkað borð á Austurvelli og hlaðið krásum til að næra munn og maga um leið og baráttuandann. Ekki sáu fjölmiðlar ástæðu til að birta fréttir af þeim myndræna atburði né heldur að fjalla um þessa ótrúlegu þrautseigju.

Hvern laugardag frá kl. 14 – 18 fyllist efri hæðin á Grand Rokk af fólki sem kemur til fræðslu- og baráttufundar. Flutt hafa verið frábær fræðsluerindi um náttúruna í hálendi Íslands, um Þjórsárverin og um áhrif Kárahnjúkavirkjunar, ef af henni verður. Nægir að nefna þar Sigrúnu Helgadóttur, Hilmar Malmquist, Þóru Ellen Þórhallsdóttur, Hafdísi Hönnu Ægisdóttur og Guðmund Sigvaldason. Umræður eru alltaf miklar og frjóar, og inn á milli skemmtir fjöldinn allur af frábæru listafólki.

Einnig hafa hagfræðingarnir Þorsteinn Siglaugsson og Sigurður Jóhannesson flutt erindi um fjárhagslegar forsendur fyrir þessu risavaxna verkefni sem Kárahnjúkavirkjun er og fært ákaflega sannfærandi rök fyrir því hvílíkt glapræði það væri að fara út í slíkt. Framkvæmdin mundi kosta á annað hundrað milljarða króna og að mati fjölmargra fjármálaspekinga getur sú fjárfesting aldrei borgað sig. Í það minnsta er áhættan svo mikil að ekkert fyrirtæki á samkeppnismarkaði legði út í slíka fjárfestingu. Landsvirkjun hins vegar nýtur verulegra styrkja frá þjóðinni eða öllu heldur ríkinu, og það eru þessir styrkir sem gera Landsvirkjun kleift að reikna út hagnað af framkvæmd á borð við Kárahnjúkavirkjun eða í það minnsta ekki tap. Landsvirkjun greiðir nefnilega hvorki tekjuskatta né eignaskatta og hún nýtur ábyrgðar ríkisins, Reykjavíkurborgar og Akureyrar á öllum sínum lántökum. Þá má heldur ekki gleyma því að Landsvirkjun metur ekki landið sem fer undir framkvæmdir inn í útreikninga sína og nýtur þar fulltingis ráðamanna. Öll þessi hlunnindi má meta til styrkja upp á tugi milljarða, þegar um Kárahnjúkavirkjun er að ræða.

Þeir Þorsteinn og Sigurður eru ekki einu fjármálaspekingarnir sem hafa gagnrýnt þessi áform og varað eindregið við þessu glapræði. Og þegar ég var að hlusta á Sigurð á Grand Rokk í dag og heyrði hvað honum fannst þetta víðáttuvitlaus hugmynd og hversu gríðarlegir fjármunir væru í húfí og ég minntist þess hversu oft ég hafði heyrt eða lesið viðvaranir atvinnumanna í fjármálum, þá greip það mig si svona hversu stórkostlegt það væri ef þessir fjármálaspekingar tækju sig saman og mótmæltu kröftuglega svipað og við náttúruverndarsinnar höfum verið að gera. Væri það ekki frábært ef þeir t.d. stilltu sér upp við stjórnarráðshúsið með reiknivélar og stresstöskur og mótmælaspjöld gegn Kárahnjúkavirkjun dag hvern kl. 13.00 og syngju saman “Í dag er ég ríkur, í dag vil ég gefa”? Ætli það yrði ekki skrýtið upplitið á stjórnarliðinu!

Áflog um vonarsæti

Þessa dagana fjalla fjölmiðlar landsins af áfergju um slagsmál flokkssystkina um vonarsæti í næstu alþingiskosningum og hirða minna um hógværari starfsemi þeirra sem hafna slíku atferli. Þeir vita sem er að slík áflog ná betur athygli fjöldans en umfjöllun um málefni og markvisst flokksstarf. Óneitanlega virðist því prófkjör vænleg leið til að láta á sér bera séu menn á þeim buxunum. En að þau séu vænleg til að velja besta fólkið í verðug sæti vilja margir efast um.

Þessi sérkennilega glíma hefur um árabil tekið á sig ýmsar myndir mismunandi opinnar útfærslu og virðist í margra huga eins konar sport þar sem trúnaður við málstað er oft fjarri góðu gamni. Þannig eru mörg dæmi þess að fólk hafi kosið í prófkjöri hjá fleiri en einum flokki og eru frægastar sögur af Siglfirðingum sem nota öll tækifæri til að koma heimamönnum á lista hjá hvaða flokki sem býðst, en kjósa svo að sjálfsögðu það sem þeim sýnist í kosningunum sjálfum.

Ýmsar aðrar leiðir hafa verið reyndar, t.d. einhvers konar millistig prófkjörs og uppstillingar þar sem sérstaklega kjörnir fulltrúar greiða atkvæði á kjördæmisþingi um frambjóðendur á lista eins og t.d. Framsóknarflokkurinn gerir. Sú aðferð er nokkuð fljótvirk leið og setur a.m.k. engan á hausinn og verður því að teljast öllu manneskjulegri en venjulegt prófkjör þar sem þátttakendur engjast í snörunni vikum saman, skrifa andlausar greinar í tugatali, auglýsa sig, hringja í hundruð manna, halda smjaðursfundi og eyða ómældum fjármunum í að betla atkvæði fyrir sjálfa sig. Og þegar flautað er til leiksloka liggja margir sárir eftir og tekur vikur að bræða keppendur aftur saman í eitt lið, ef það þá tekst.

Prófkjör hefur satt að segja fáa kosti að mínu viti og afar stóra galla. Uppstillingarleiðin er ekki gallalaus kostur, en hún er skásti kosturinn ef að henni er unnið með hagsmuni heildarinnar í huga. Þá spyrja vafalaust einhverjir hvað verði um möguleika almennra kjósenda til að koma sínum óskafulltrúa að. Og þar stendur hnífurinn í kúnni. Þeir þyrftu að hafa miklu ríkari rétt í kosningunum sjálfum til að hafa áhrif á sætaröðun á framboðslista. Eins og er geta þeir vissulega bæði strikað út nöfn af þeim lista sem þeir merkja við og númerað frambjóðendur upp á nýtt, en slíkar merkingar hafa ekki nægilegt vægi. Það var því leitt að Alþingi skyldi ekki gera heiðarlega tilraun til að breyta þessu atriði til betri vegar, þegar kosningalögin voru síðast til umfjöllunar, og færa persónukjör meira inn í kosningarnar sjálfar.

“Land míns föður” hljómar enn

Mótmælin gegn náttúruspjöllum á hálendinu taka á sig ýmsar myndir og virðast síður en svo að fjara út. Allar götur síðan í síðustu viku ágústmánaðar hefur fólk safnast saman á Austurvelli, hlýtt á rapp og tónlist af ýmsu tagi, fræðsluerindi, upplestur á ritgerðum, bókarköflum og ljóðum. Oftast lýkur slíkri samverustund með því að sungið er saman “Land míns föður” eftir Jóhannes úr Kötlum eða eitthvað annað vel viðeigandi. Ekki er laust við að vegfarendur séu hálf feimnir við þetta baráttulið og ekki síst alþingismenn sem flestir þykjast helst ekki sjá né heyra.

Síðustu daga hefur Austurvallarhópurinn staðið vaktina í Borgartúni 20, þar sem fulltrúar Alcoa hafa setið fundi með fulltrúum stjórnmálaflokka og ýmissa samtaka á sviði náttúruverndar og landgræðslu. Þarna hafa menn, reyndar aðallega konur, staðið með spjöld af ýmsu tagi með skilaboðum til Alcoa, Landsvirkjunar og vegfarenda. Í dag fengum við svo óvænt boð um að senda nokkra úr hópnum inn á fund til að skýra ástæður þessara mótmæla. Sennilega var sá fundur með býsna ólíku sniði og þeir fyrirfram skipulögðu. Við vorum 6 í þessari snöggsoðnu sendinefnd og lá öllum svo mikið á hjarta að 50 mínútur voru fljótar að líða. Viðmælandi okkar var elskulegur karl, fulltrúi umhverfisdeildar Alcoa, og hann gerði svo sem sitt til að reyna að sannfæra okkur um ágæti fyrirtækis síns og þess verkefnis sem unnið er að. Ekki hafði hann erindi sem erfiði og ekki heldur gott að segja hvort okkur tókst að opna gátt í huga hans fyrir réttmæti skoðana okkar. En það var viss léttir að fá þetta tækifæri til að tjá þær skoðanir og viðhorf sem andmælendur Kárahnjúkavirkjunar og annarra náttúruspjalla á hálendinu standa fyrir.

Tvo síðustu laugardaga hefur verið efnt til fræðslu- og baráttufunda, þar sem skipst er á upplýsingum og lagt á ráðin milli þess sem listamenn skemmta fundargestum. Slíkir fundir eru áætlaðir næstu laugardaga á Grand Rokk á Smiðjustíg 4. Þar var síðasta laugardag gerð tilraun til að koma hóflegu skipulagi á aðgerðir þessa sjálfsprottna hóps sem tókst að laða 300 manns til mótmælastöðu á Austurvelli daginn sem Alþingi var sett. Þeir urðu býsna kindarlegir margir þingmannanna þegar þeir gengu úr Dómkirkjunni til Alþingishússins undir dynjandi söng útifundarmanna: “Land míns föður, landið mitt”.

Þessa dagana vekur hungurverkfall Hildar Rúnu Hauksdóttur hvað mesta athygli, en það hefur nú staðið í 3 daga. Markmiðið að beina athygli að málstaðnum hefur svo sannarlega náðst, fréttin er í öllum fjölmiðlum og má búast við athygli erlendra fjölmiðla einnig þegar þeir átta sig á því að hér er um að ræða móður hinnar heimsþekktu Bjarkar Guðmundsdóttur.

Þá hefur verið opnuð sýning á myndum frá landsvæðinu sem sökkt verður undir jökulvatn ef af Kárahnúkavirkjun verður. Stórkostlegar myndir eftir ýmsa frábæra ljósmyndara og náttúrufræðinga prýða nú veggi Kringlunnar næstu 10 daga og draga að sér gesti og gangandi. Má mikið vera ef þær duga ekki til að opna augu margra fyrir þeim skelfilegu skemmdarverkum sem þegar eru hafin á þessu einstæða landsvæði.

Það er sem sagt ýmislegt á döfinni í baráttunni gegn náttúruspjöllum á hálendi Íslands og eins víst að innan fárra vikna verði haldinn myndarlegur baráttufundur í líkingu við þann sem haldinn var í Háskólabíói haustið 1998. Sá fundur er fólki enn í fersku minni og opnaði augu margra fyrir nauðsyn þess að rísa upp til varnar fyrir íslenska náttúru. Nú sem aldrei fyrr er þörf fyrir slíka áminningu.

Alvöru þjóðgarður óskast

Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra hefur gengið þannig fram í starfi sínu að náttúruverndarsinnar eru hættir að undrast þótt ekki sé þeim hætt að blöskra. Margir vissu hins vegar ekki hvort þeir áttu að hlæja eða gráta þegar sú frétt barst að nú vildi ráðherran(n) stofna nefnd um þjóðgarð norðan Vatnajökuls og hygðist bjóða til nefndarsetu fulltrúum bæði stjórnarflokka og stjórnarandstöðu. Einmitt það er alveg nýtt í sögunni hjá ráðherrum núverandi ríkisstjórnar sem hafa ekki talið sig þurfa að sækja eitt né neitt til stjórnarandstöðunnar. Er Siv með þessu að viðurkenna að nú sé þörf fyrir fjölbreytt sjónarmið? Eða er hugmyndin sú að gera alla þingflokka samseka um þann þjóðgarðsbastarð sem hún stefnir að norðan Vatnajökuls?

Menn spyrja að vonum um trúverðugleika þessa útspils Sivjar í ljósi þess hvað verið er að gera og ætlunin er að gera á þessu dýrmæta svæði. Með samþykki ríkisstjórnarinnar er nú unnið að stórfelldum framkvæmdum á ósnortnum víðernum landsins norðan Vatnajökuls til undirbúnings Kárahnjúkavirkjunar þrátt fyrir að ekki er ennþá ljóst hvort af virkjuninni verður. “Það er einfaldlega allt undir Alcoa komið”, fullyrti einn af stjórnarmönnum Landsvirkjunar fyrir örfáum dögum. Enn er óljóst hvort Alcoa er tilbúið til að greiða það verð fyrir raforkuna frá Kárahnjúkavirkjun sem þarf til að hún standi undir sér fjárhagslega. Bandaríska álfyrirtækið Alcoa, sem hefur verið að loka álverksmiðjum í Bandaríkjunum að undanförnu þar sem launakostnaður og umhverfisvandamál hafa sligað reksturinn, hefur það sem sagt í hendi sér hvort af óbætanlegum náttúruspjöllum verður á hálendi Íslands eða ekki.

Á sama tíma og stórvirkar vinnuvélar rista í sundur ósnortin víðernin norðan Vatnajökuls er þrýst á um gerð Norðlingaölduveitu sunnan Hofsjökuls. Sá þrýstingur er á vissan hátt skiljanlegri Kárahnjúkatryllingnum í ljósi fjárhagslegrar hagkvæmni og í ljósi niðurstöðu Skipulagsstofnunar í mati á umhverfisáhrifum vegna Norðlingaölduveitu, en sú niðurstaða vakti reyndar mikla furðu og vonbrigði náttúruverndarsinna. Niðurstaðan gekk í rauninni þvert á fullyrðingar stofnunarinnar í úrskurðinum sjálfum þar sem ítrekað var sagt að Norðlingaöldulón hefði í för með sér mikil óafturkræf umhverfisáhrif. Af öllum gögnum að dæma yrði um að ræða verulega röskun á friðlandinu í Þjórsárverum sem að sjálfsögðu má ekki verða. Hvor tveggja þessara aðgerða, skerðing Þjórsárvera og brjálæðið við Kárahnjúka, setur orðstír lands og þjóðar í hættu og stefnir í voða þeirri ímynd sem við byggjum svo margt á bæði í atvinnulífi landsmanna og ekki síður í vitund þjóðarinnar.

Grá fyrir járnum böðlast Landsvirkjun þannig um í skjóli núverandi ríkisstjórnar. Þeim liggur svo á að skemma þessi mikilvægu svæði að það er ekki hægt að bíða og sjá hvort yfirleitt verður af virkjun. Og það er ekki hægt að bíða eftir endanlegri gerð Rammaáætlunar um vernd og nýtingu vatnsfalla sem ríkisstjórnin hratt af stað fyrir nokkrum árum. Það er ekki einu sinni hlustað á það sem fram kemur í áfangaskýrslu um helstu virkjunarkosti, að það er verið að ráðast á þau svæði sem hæst náttúruverndargildi hafa, þau svæði sem okkur ber fyrst og fremst að vernda. Á það hlustar ekki Landsvirkjun og enn síður ríkisstjórnin.

Andspænis þessu ofbeldi í skjóli auðs og valds stendur fólk vaktina fyrir náttúru landsins með nokkra hundraðkalla, hugmyndaflug og heitar tilfinningar að vopni. Hvenær og hvernig á þessu að linna? Hvað er til ráða?

Í ljósi alls þessa er ekki að undra þótt margir líti á nefndarstarf á vegum umhverfisráðherra um þjóðgarð norðan Vatnajökuls sem helbera sýndarmennsku. Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hlýtur að vega og meta kosti og ókosti þess að taka þátt í starfi slíkrar nefndar. Þingflokkurinn hefur að sjálfsögðu fullan hug á því að taka þátt í raunhæfu samstarfi um verndun náttúru og umhverfis og er rétt að minna á ítrekaðan tillöguflutning þingmanna VG um verndun mikilvægra landssvæða á hálendinu. Þeir hafa lagt fram tillögur um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum og stofnun raunverulegs þjóðgarðs norðan Vatnajökuls í stað þeirra hrikalegu náttúruspjalla sem virkjun við Kárahnjúka hefði í för með sér. Stór hluti þjóðarinnar tekur undir þau sjónarmið, en því miður hefur núverandi ríkisstjórn lagst gegn þeirri stefnu.

Staðreyndin er auðvitað sú að það er afar mikilvægt að komist verði að niðurstöðu um framtíð svæðisins norðan Vatnajökuls, hvort sem af Kárahnjúkavirkjun verður eða ekki. Það væri skarð fyrir skildi ef við þá umfjöllun vantaði fulltrúa þess stjórnmálaflokks sem einn flokka hefur skýra og afdráttarlausa stefnu í náttúruverndarmálum. Það hefur hann sýnt frá upphafi með tillöguflutningi og afstöðu til einstakra mála, þegar fulltrúar annarra flokka hafa tvístrast í allar áttir eftir því hvert vindar blása. Enn er ekki endanlega frágengið að virkjað verði við Kárahnjúka og því ennþá mögulegt að stofna alvöru þjóðgarð á heimsmælikvarða á þessu sérstæða svæði. Slíkur þjóðgarður væri ekki aðeins mikilvægur frá sjónarhóli náttúruverndar, heldur yrði veruleg lyftistöng fyrir atvinnulíf í fjórðungnum og raunar á landinu öllu.

Í Hrunarétt

Þegar ég var krakki skildi ég ekki hvaða gaman fólk hafði af réttunum á haustin. Reyndar man ég ekki til þess að Reykdælingar gerðu nein ósköp úr þessum degi, ég man ekki til þess að þar væri hver maður með fleyg á lofti né heldur að menn hópuðust saman til þess að syngja þegar drætti var lokið eins og fjölmiðlar segja okkur að sé alsiða í hverri einustu rétt. Mig minnir að menn hafi gengið að þessu eins og hverju öðru nauðsynjaverki og rekið síðan umsvifalaust hver sinn hóp til síns heima. En hvernig sem því var varið þá hafði réttardagurinn í Reykjadal á sér blæ angurværðar og jafnvel depurðar í mínum huga, dagurinn þegar féð var svipt frelsi sínu. Ég vissi auðvitað að á þessum tíma ársins réðust örlög ánna og lagðprúðra dilkanna og kveinandi jarmur þeirra fylgdi mér inn í svefninn að réttardegi loknum.

Svo fór ég eitt sinn í réttir Reykvíkinga með strákana mína litla, en það var harla óútskýranleg samkoma, þar sem sást ekki í sauðfé fyrir mannmergð. Síðan hef ég ekki komið í réttir fyrr en í gær að við brugðum okkur í Hrunarétt svona í tilefni þess að við erum orðin jarðeigendur þar um slóðir í félagi við tvær aðrar fjölskyldur. Ég kveið hálfpartinn fyrir, minnug dapurlegrar reynslu minnar frá bernskuárunum, en kannski er ég orðin harðbrjósta með árunum eða kannski raunsærri og skilningsbetri á lífsins gang. Altént var þetta skemmtileg reynsla.

Safnið kom af fjöllum daginn áður, menn giskuðu á um 6 þúsund fjár. Mannfólkið var sennilega ekki mikið færra og spókuðu sig þar m.a. landbúnaðarráðherra og bæði fyrrverandi og núverandi alþingismenn. Það þykir víst vænlegt til atkvæða að sýna sig í réttum. Þeir hafa því nóg að gera þessa dagana meðan réttir standa sem hæst.

Bændur komu til okkar hver af öðrum, sumir reyndar hættir búskap, og hristu höfuðið yfir fækkandi fé, það hefði nú verið eitthvað annað hér áður fyrr þegar menn sóttu 12 – 14 þúsund á fjall í 6 – 7 daga leitum. Enn þurfa menn að smala jafn stórt svæði þótt fénu hafi fækkað um a.m.k. helming. Ekki var rætt um hvort sú þróun væri eðlileg, hvort hún væri góð eða vond. Karlarnir hristu bara höfuð og söknuðu augljóslega umsvifanna sem fylgdu stærra safni, fannst afleitt að vera búnir að draga í sundur um hádegi. Ég sagði það ekki, en auðvitað er þessi þróun góð þegar litið er til þess að afréttirnar þola ekki þennan fjölda sauðfjár og kjötmarkaðir ekki heldur.

Okkur var sagt að börnin hlökkuðu meira til réttanna en sjálfra jólanna! Þau drógu ekki af sér við dráttinn, strákarnir kútveltust í drullunni á réttargólfinu, sem hefði auðvitað verið miklu meiri ef veðrið hefði ekki verið svo einstaklega gott, þurrvirði og a.m.k. 16 stiga hiti. Fólk mundi ekki annað eins. Ég dáðist að dugnaði þessa fólks við féð, ekki síst þegar ég var búin að glíma við að koma einum kröftugum dilk yfir þvera réttina og gat náttúrlega ekki verið þekkt fyrir að láta minn hlut. Lambið var á öndverðri skoðun og barðist svo hart um að ég er öll blá og marin á lærunum eftir horn þess.

Og svo var pelum hampað og raddböndin þanin og öll gamalkunnu lögin bárust vítt um sveitina sem ljómaði við sólu og hlýjum sunnanvindi. Þetta var gaman!

Gegn hernaðinum á hálendinu

Enginn bilbugur er á mótmælendum gegn hernaðinum á hálendinu. Hvern virkan dag safnast fólk saman við styttu Jóns Sigurðssonar á Austurvelli, meðtekur fræðslu af einhverju tagi, ræðir málin, syngur saman.

Hópurinn er mismunandi stór, einn daginn mættu aðeins 20, hinn næsta um 60. Nokkrir koma nánast hvern einasta dag. Þetta er orðið eins og í sundlaugunum á morgnana, ef einhver lætur sig vanta einhvern daginn er farið að velta vöngum yfir hvað geti hafa komið fyrir. Þó má sjá ný andlit á hverjum degi og víst að þeir skipta hundruðum sem einhvern tíma hafa mætt á vaktina. Og félögum fjölgar dag frá degi í Náttúruverndarsamtökum Íslands.

Veðrið er með ýmsu móti eins og geta má nærri, einn daginn rigndi eins og hellt væri úr fötu, en rigningin sú var lóðrétt og hlý og vonandi að enginn hafi kvefast af að þurfa að sitja blautur við skrifborðið það sem eftir var dagsins. Þessa dagana er septemberveðrið sem um hásumar væri.

Náttúrufræðingar hafa frætt hópinn um umhverfisáhrif virkjanaframkvæmda og hagfræðingur um arðsemi eða öllu heldur ekki arðsemi Kárahnjúkavirkjunar. Helgi Hjörvar, fulltrúi borgarinnar í stjórn Landsvirkjunar, kom til okkar í gær og fór yfir stefnu borgarinnar og sína eigin afstöðu og fékk margar spurningar úr hópnum. Hann treysti sér ekki til að svara þeirri spurningu hversu líklegt væri að hans mati að af báðum þessum framkvæmdum yrði. Hvað Kárahnjúkavirkjun varðar sagði hann að það væri allt undir Alcoa komið. Um kvöldið sýndi sjónvarpið myndir af framkvæmdum við Kárahnjúka. Þar rista menn landið í sundur af fullkomnu miskunnarleysi, böðlast á jarðýtum og trukkum yfir ósnortið víðernið og særa það óbætanlegum sárum. Allt þetta án þess að “guðinn” Alcoa hafi sagt sitt síðasta orð.

Í dag sagði Guðrún Ásmundsdóttir leikkona frá Sigríði í Brattholti, konunni sem barðist árum saman gegn sölu og virkjun Gullfoss. Og þótt hún tapaði fyrir dómstólum þá sæmdi þjóðin hana sigri, enda opnaði hún augu margra. Guðrún hafði viðað að sér fróðleik og sögum af Sigríði sem gaman var að heyra og hópurinn varði tvöföldum tíma í góða veðrinu á Austurvelli í dag. Fólk fylltist bjartsýni. Úr því að barátta einnar konu hafði svo mikil áhrif á sínum tíma, því skyldi ekki andóf hundruð manna nú til dags geta skilað árangri til varnar íslenskri náttúru.

Elísabet Jökulsdóttir sem hefur orðið nokkurs konar forsprakki andmælenda í þessari sjálfsprottnu baráttu sagði frá því í dag að nú væri þetta orðið aðalumræðuefni í heita pottinum á morgnana. Oft heyrðist gamla tuggan um það hvað þetta fólk væri að skipta sér af landssvæði sem það hefði fæst einu sinni augum litið. “Ég þarf ekki að sjá í mér hjartað til að vilja verja það”, er svar Elísabetar. Það vefst fyrir flestum að hrekja þann sannleika.

Ofurhetja óskast

Pólitíkin tekur oft á sig hinar undarlegustu myndir. Nú ber það hæst að einhverjir Samfylkingarpiltar hafa látið gera könnun á hugsanlegum afleiðingum þess að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir leiddi einhvern framboðslista Samfylkingarinnar í næstu Alþingiskosningum. Og sem vænta mátti sýnir niðurstaðan sterkar líkur á auknu fylgi við Samfylkinguna sem kæmi niður á fylgi allra hinna flokkanna, einkum þó Framsóknar og Vinstri grænna, þ.e. samstarfsflokka Samfylkingarinnar í R-listanum.

Og mikið óskaplega urðu fjölmiðlar fegnir svona persónubundinni umfjöllun, enda hundleiðir orðnir á hlutabréfa- og fjármagnstilfærslum Baugs sem er nánast það eina sem þeim hefur þótt bitastætt á innlendum vettvangi. Jafnvel innrás lögreglu í höfuðstöðvar Baugs og litlu síðar Eimskipa entist þeim ekki til áhuga nema skamma hríð. Brölt Landsvirkjunar og mótmæli náttúruverndarsinna fá svo minni umfjöllun en nýtt flugfélag til innanlandssamgangna í Noregi!

En hvort Ingibjörg Sólrún gerir þetta eða hitt, það er sko annað mál. Hver fréttatíminn af öðrum tekur málið til umfjöllunar, morgunútsendingar og Kastljós, Ísland í býtið, Ísland síðdegis, Ísland í dag og hvað allir þessir þættir nú heita, allir kalla til fulltrúa stjórnmálaflokka, sérfræðinga í stjórnmálum og áhugamenn um stjórnmál, og þeir velta málinu fyrir sér og fæstir því miður sérlega málefnalega. Andstæðingar í stjórnmálum nota tækifærið til hnútukasts og væna hver annan um annarleg sjónarmið. Fulltrúar Samfylkingar eru eins og púkinn á fjósbitanum, það hlakkar í þeim hversu vel bragðið hefur heppnast að þeirra dómi. En skyldi það verða flokknum til góðs, þegar öll kurl koma til grafar? Um það má efast.

Fulltrúar Samfylkingarinnar í borgarstjórn hafa verið hljóðir í allri umræðunni og undarlegt að fjölmiðlar skuli ekki ganga harðar að þeim. Varla eru þeir búnir að gleyma áherslunni sem lögð var á það að Ingibjörg Sólrún væri ekki fulltrúi Samfylkingar á R-listanum, hún væri utan kvóta og samnefnari þeirra sem stæðu að þessu kosningabandalagi. Undir þetta skrifuðu allir aðilar enda hafði svo verið í átta ár og ekki ástæða til breytinga. Þeir sem þekkja Ingibjörgu Sólrúnu vita að hún færi aldrei að þjóna tveimur herrum samtímis. Annað hvort verður hún áfram borgarstjóri eða hún fer í landsmálin. Og þá reynir á orðheldnina og trúverðugleikann.

Ingibjörg Sólrún hefur lítið látið til sín heyra í öllu þessu moldviðri, en þó gert sitt til þess að viðhalda fárinu með ögn tvíræðum andsvörum svo fá sem þau hafa þó verið. Augljóslega er hún sett í mikinn vanda og reyndar sýnir þetta glöggt hversu miskunnarlaus pólitíkin getur verið. Tillitssemi er ekki ofarlega á blaði í þeim bransa og það er í rauninni furðulegt hvernig menn leyfa sér að láta við eina manneskju. Hér er verið að gera Ingibjörgu Sólrúnu að algerri ofurhetju sem ein geti bjargað þjóðinni rétt eins og borginni úr klóm Sjálfstæðisflokksins! Og þá skal bara að henni þjarmað og þröngvað til að “nýta gullið tækifæri sem kemur ekki aftur”, eins og einhver spekingurinn sagði. Hvaða bull er þetta? Ingibjörg Sólrún er á besta aldri og tæplega það og á eftir mörg ár í pólitík og þá ekki síst ef hún heldur sínu striki og stendur við orð sín eins og hún hefur hingað til gert.

Ingibjörg Sólrún hefur vissulega sterk bein, en það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að leggja á eina manneskju. Vonandi hristir hún þetta fjargviðri af sér og stendur jafnsterk eftir. Trú mín er sú að hún verði áfram borgarstjóri næstu 4 árin. Vegna þess að hún er orðheldin og vegna þess að “…pólitískur styrkur Ingibjargar Sólrúnar byggist ekki síst á trúverðugleika”, eins og sérvalinn fulltrúi hennar í borgarstjórn, Dagur B. Eggertsson, skrifar í Morgunblaðið í gær.