Alvöru þjóðgarður óskast

Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra hefur gengið þannig fram í starfi sínu að náttúruverndarsinnar eru hættir að undrast þótt ekki sé þeim hætt að blöskra. Margir vissu hins vegar ekki hvort þeir áttu að hlæja eða gráta þegar sú frétt barst að nú vildi ráðherran(n) stofna nefnd um þjóðgarð norðan Vatnajökuls og hygðist bjóða til nefndarsetu fulltrúum bæði stjórnarflokka og stjórnarandstöðu. Einmitt það er alveg nýtt í sögunni hjá ráðherrum núverandi ríkisstjórnar sem hafa ekki talið sig þurfa að sækja eitt né neitt til stjórnarandstöðunnar. Er Siv með þessu að viðurkenna að nú sé þörf fyrir fjölbreytt sjónarmið? Eða er hugmyndin sú að gera alla þingflokka samseka um þann þjóðgarðsbastarð sem hún stefnir að norðan Vatnajökuls?

Menn spyrja að vonum um trúverðugleika þessa útspils Sivjar í ljósi þess hvað verið er að gera og ætlunin er að gera á þessu dýrmæta svæði. Með samþykki ríkisstjórnarinnar er nú unnið að stórfelldum framkvæmdum á ósnortnum víðernum landsins norðan Vatnajökuls til undirbúnings Kárahnjúkavirkjunar þrátt fyrir að ekki er ennþá ljóst hvort af virkjuninni verður. “Það er einfaldlega allt undir Alcoa komið”, fullyrti einn af stjórnarmönnum Landsvirkjunar fyrir örfáum dögum. Enn er óljóst hvort Alcoa er tilbúið til að greiða það verð fyrir raforkuna frá Kárahnjúkavirkjun sem þarf til að hún standi undir sér fjárhagslega. Bandaríska álfyrirtækið Alcoa, sem hefur verið að loka álverksmiðjum í Bandaríkjunum að undanförnu þar sem launakostnaður og umhverfisvandamál hafa sligað reksturinn, hefur það sem sagt í hendi sér hvort af óbætanlegum náttúruspjöllum verður á hálendi Íslands eða ekki.

Á sama tíma og stórvirkar vinnuvélar rista í sundur ósnortin víðernin norðan Vatnajökuls er þrýst á um gerð Norðlingaölduveitu sunnan Hofsjökuls. Sá þrýstingur er á vissan hátt skiljanlegri Kárahnjúkatryllingnum í ljósi fjárhagslegrar hagkvæmni og í ljósi niðurstöðu Skipulagsstofnunar í mati á umhverfisáhrifum vegna Norðlingaölduveitu, en sú niðurstaða vakti reyndar mikla furðu og vonbrigði náttúruverndarsinna. Niðurstaðan gekk í rauninni þvert á fullyrðingar stofnunarinnar í úrskurðinum sjálfum þar sem ítrekað var sagt að Norðlingaöldulón hefði í för með sér mikil óafturkræf umhverfisáhrif. Af öllum gögnum að dæma yrði um að ræða verulega röskun á friðlandinu í Þjórsárverum sem að sjálfsögðu má ekki verða. Hvor tveggja þessara aðgerða, skerðing Þjórsárvera og brjálæðið við Kárahnjúka, setur orðstír lands og þjóðar í hættu og stefnir í voða þeirri ímynd sem við byggjum svo margt á bæði í atvinnulífi landsmanna og ekki síður í vitund þjóðarinnar.

Grá fyrir járnum böðlast Landsvirkjun þannig um í skjóli núverandi ríkisstjórnar. Þeim liggur svo á að skemma þessi mikilvægu svæði að það er ekki hægt að bíða og sjá hvort yfirleitt verður af virkjun. Og það er ekki hægt að bíða eftir endanlegri gerð Rammaáætlunar um vernd og nýtingu vatnsfalla sem ríkisstjórnin hratt af stað fyrir nokkrum árum. Það er ekki einu sinni hlustað á það sem fram kemur í áfangaskýrslu um helstu virkjunarkosti, að það er verið að ráðast á þau svæði sem hæst náttúruverndargildi hafa, þau svæði sem okkur ber fyrst og fremst að vernda. Á það hlustar ekki Landsvirkjun og enn síður ríkisstjórnin.

Andspænis þessu ofbeldi í skjóli auðs og valds stendur fólk vaktina fyrir náttúru landsins með nokkra hundraðkalla, hugmyndaflug og heitar tilfinningar að vopni. Hvenær og hvernig á þessu að linna? Hvað er til ráða?

Í ljósi alls þessa er ekki að undra þótt margir líti á nefndarstarf á vegum umhverfisráðherra um þjóðgarð norðan Vatnajökuls sem helbera sýndarmennsku. Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hlýtur að vega og meta kosti og ókosti þess að taka þátt í starfi slíkrar nefndar. Þingflokkurinn hefur að sjálfsögðu fullan hug á því að taka þátt í raunhæfu samstarfi um verndun náttúru og umhverfis og er rétt að minna á ítrekaðan tillöguflutning þingmanna VG um verndun mikilvægra landssvæða á hálendinu. Þeir hafa lagt fram tillögur um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum og stofnun raunverulegs þjóðgarðs norðan Vatnajökuls í stað þeirra hrikalegu náttúruspjalla sem virkjun við Kárahnjúka hefði í för með sér. Stór hluti þjóðarinnar tekur undir þau sjónarmið, en því miður hefur núverandi ríkisstjórn lagst gegn þeirri stefnu.

Staðreyndin er auðvitað sú að það er afar mikilvægt að komist verði að niðurstöðu um framtíð svæðisins norðan Vatnajökuls, hvort sem af Kárahnjúkavirkjun verður eða ekki. Það væri skarð fyrir skildi ef við þá umfjöllun vantaði fulltrúa þess stjórnmálaflokks sem einn flokka hefur skýra og afdráttarlausa stefnu í náttúruverndarmálum. Það hefur hann sýnt frá upphafi með tillöguflutningi og afstöðu til einstakra mála, þegar fulltrúar annarra flokka hafa tvístrast í allar áttir eftir því hvert vindar blása. Enn er ekki endanlega frágengið að virkjað verði við Kárahnjúka og því ennþá mögulegt að stofna alvöru þjóðgarð á heimsmælikvarða á þessu sérstæða svæði. Slíkur þjóðgarður væri ekki aðeins mikilvægur frá sjónarhóli náttúruverndar, heldur yrði veruleg lyftistöng fyrir atvinnulíf í fjórðungnum og raunar á landinu öllu.