Frábært, frábært, frábært! Þvílík stemning í troðfullu Austurbæjarbíói í kvöld. Þar slógu mörg hundruð hjartna með Þjórsárverum á baráttufundi sem haldinn var að undirlagi heimamanna úr Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
Tilefni fundarins var að innan örfárra daga mun heilbrigðisráðherra sem staðgengill umhverfisráðherra kveða upp úrskurð um Norðlingaölduveitu. Með úrskurðinum ákveður hann hvort Landsvirkjun verður hleypt með framkvæmdir inn í Þjórsárver, eitt mikilvægasta lífríkissvæði hálendisins, friðlýst svæði samkvæmt íslenskum lögum og varið með alþjóðlegum skuldbindingum Ramsarsáttmála sem mikilvægt votlendissvæði og stærsta byggð heiðagæsar í heiminum. Frekar um það má lesa í pistli mínum 10. júní sl. þar sem birtar eru athugasemdir til Skipulagsstofnunar við matsskýrslu Landsvirkjunar um Norðlingaölduveitu. Einnig má benda á greinina “Verjum Þjórsárver” frá 26. júní sl.
Fundurinn var í einu orði sagt stórkostlegur og minnti raunar á annan eins sem haldinn var í troðfullu Háskólabíói fyrir réttum þremur árum til varnar Eyjabökkum. Þessi var ekki síðri þótt undirbúningur stæði aðeins í viku og væri furðu lítið auglýstur. Halla Guðmundsdóttir frá Ásum stjórnaði fundinum með glæsibrag, Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Falcon Scott, sonur Peters Scott sem “uppgötvaði” Þjórsárverin, Guðmundur Páll Ólafsson og Sigþrúður Jónsdóttir fluttu ávörp, sýndur var hluti kvikmyndar sem tekin var í Þjórsárverum í ferð Peters Scott þangað og lýsti Kristinn Haukur Skarphéðinsson því sem fyrir bar á einkar skemmtilegan hátt, Baldvin Halldórsson las ljóð, Jón Rúnar Arason söng , Vinabandið og CesarA sungu og röppuðu og Árnesingakórinn söng. Meðan á dagskrá stóð birtust myndir úr Þjórsárverum á tjaldinu að baki sviðsins. Í lok fundarins var samþykkt gneistandi ályktun til varnar Þjórsárverum sem fundargestir gátu undirritað á leiðinni út.
Verst að Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra var ekki á fundinum.