Pólitíkin tekur oft á sig hinar undarlegustu myndir. Nú ber það hæst að einhverjir Samfylkingarpiltar hafa látið gera könnun á hugsanlegum afleiðingum þess að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir leiddi einhvern framboðslista Samfylkingarinnar í næstu Alþingiskosningum. Og sem vænta mátti sýnir niðurstaðan sterkar líkur á auknu fylgi við Samfylkinguna sem kæmi niður á fylgi allra hinna flokkanna, einkum þó Framsóknar og Vinstri grænna, þ.e. samstarfsflokka Samfylkingarinnar í R-listanum.
Og mikið óskaplega urðu fjölmiðlar fegnir svona persónubundinni umfjöllun, enda hundleiðir orðnir á hlutabréfa- og fjármagnstilfærslum Baugs sem er nánast það eina sem þeim hefur þótt bitastætt á innlendum vettvangi. Jafnvel innrás lögreglu í höfuðstöðvar Baugs og litlu síðar Eimskipa entist þeim ekki til áhuga nema skamma hríð. Brölt Landsvirkjunar og mótmæli náttúruverndarsinna fá svo minni umfjöllun en nýtt flugfélag til innanlandssamgangna í Noregi!
En hvort Ingibjörg Sólrún gerir þetta eða hitt, það er sko annað mál. Hver fréttatíminn af öðrum tekur málið til umfjöllunar, morgunútsendingar og Kastljós, Ísland í býtið, Ísland síðdegis, Ísland í dag og hvað allir þessir þættir nú heita, allir kalla til fulltrúa stjórnmálaflokka, sérfræðinga í stjórnmálum og áhugamenn um stjórnmál, og þeir velta málinu fyrir sér og fæstir því miður sérlega málefnalega. Andstæðingar í stjórnmálum nota tækifærið til hnútukasts og væna hver annan um annarleg sjónarmið. Fulltrúar Samfylkingar eru eins og púkinn á fjósbitanum, það hlakkar í þeim hversu vel bragðið hefur heppnast að þeirra dómi. En skyldi það verða flokknum til góðs, þegar öll kurl koma til grafar? Um það má efast.
Fulltrúar Samfylkingarinnar í borgarstjórn hafa verið hljóðir í allri umræðunni og undarlegt að fjölmiðlar skuli ekki ganga harðar að þeim. Varla eru þeir búnir að gleyma áherslunni sem lögð var á það að Ingibjörg Sólrún væri ekki fulltrúi Samfylkingar á R-listanum, hún væri utan kvóta og samnefnari þeirra sem stæðu að þessu kosningabandalagi. Undir þetta skrifuðu allir aðilar enda hafði svo verið í átta ár og ekki ástæða til breytinga. Þeir sem þekkja Ingibjörgu Sólrúnu vita að hún færi aldrei að þjóna tveimur herrum samtímis. Annað hvort verður hún áfram borgarstjóri eða hún fer í landsmálin. Og þá reynir á orðheldnina og trúverðugleikann.
Ingibjörg Sólrún hefur lítið látið til sín heyra í öllu þessu moldviðri, en þó gert sitt til þess að viðhalda fárinu með ögn tvíræðum andsvörum svo fá sem þau hafa þó verið. Augljóslega er hún sett í mikinn vanda og reyndar sýnir þetta glöggt hversu miskunnarlaus pólitíkin getur verið. Tillitssemi er ekki ofarlega á blaði í þeim bransa og það er í rauninni furðulegt hvernig menn leyfa sér að láta við eina manneskju. Hér er verið að gera Ingibjörgu Sólrúnu að algerri ofurhetju sem ein geti bjargað þjóðinni rétt eins og borginni úr klóm Sjálfstæðisflokksins! Og þá skal bara að henni þjarmað og þröngvað til að “nýta gullið tækifæri sem kemur ekki aftur”, eins og einhver spekingurinn sagði. Hvaða bull er þetta? Ingibjörg Sólrún er á besta aldri og tæplega það og á eftir mörg ár í pólitík og þá ekki síst ef hún heldur sínu striki og stendur við orð sín eins og hún hefur hingað til gert.
Ingibjörg Sólrún hefur vissulega sterk bein, en það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að leggja á eina manneskju. Vonandi hristir hún þetta fjargviðri af sér og stendur jafnsterk eftir. Trú mín er sú að hún verði áfram borgarstjóri næstu 4 árin. Vegna þess að hún er orðheldin og vegna þess að “…pólitískur styrkur Ingibjargar Sólrúnar byggist ekki síst á trúverðugleika”, eins og sérvalinn fulltrúi hennar í borgarstjórn, Dagur B. Eggertsson, skrifar í Morgunblaðið í gær.