Stolt og reiði vegast á í huga mér eftir þau kaflaskil sem urðu við afgreiðslu Alþingis á frumvarpinu um álverksmiðju í Reyðarfirði. Eftir þá afgreiðslu hefur Alþingi ekki aðkomu að málinu nema einhverjar breytingar verði á síðustu stigum þess. Meirihluti Alþingis hefur sagt sitt síðasta orð: Álver skal rísa í Reyðarfirði, Jökla skal beisluð til orkuframleiðslu í þágu mengandi stóriðjuvers. Óafturkræf spellvirkin norðan Vatnajökuls virðast óhjákvæmileg.
Þingmenn Vinstri grænna gerðu lokatilraun til að hindra þetta skelfilega slys, lokatilraun til að tryggja landsmönnum rétt til að segja álit sitt í kosningum. Þeir lögðu fram breytingartillögu við álversfrumvarpið þess efnis að það yrði ekki að lögum fyrr en að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Kárahnjúkavirkjun yrði byggð eða ekki. Þessari tillögu hafnaði meirihluti Alþingis. Ekki einu sinni Samfylkingin, sem hefur reynt að skapa sér þá ímynd að hún sé alveg einstaklega lýðræðislega sinnuð, gat fengið sig til að styðja tillögu Vinstri grænna. Þingmenn Samfylkingarinnar sátu hjá við afgreiðslu tillögunnar, stjórnarflokkarnir greiddu atkvæði á móti. Allir þingflokkar aðrir en Vinstri grænir styðja hrikalegustu náttúruspjöll sögunnar og hafna því að tryggja lýðræðislegan rétt almennra kjósenda til að láta álit sitt í ljósi í slíku stórmáli.
Þurfa kjósendur frekar vitnanna við? Vinstrihreyfingin – grænt framboð er eini stjórnmálaflokkurinn sem er treystandi til að verja íslenska náttúru gegn vanhugsuðum yfirgangi og spjöllum af manna völdum.
Ég er stolt af baráttu Vinstri grænna og ég er stolt af starfi í grasrótinni sem hefur einkennst af baráttuvilja, hugmyndaauðgi og þrautseigju. Það hefur verið stórkostlegt að fylgjast með þessu þrotlausa starfi í meira en sex mánuði, daglegum mótmælum á Austurvelli, vikulegum fræðslufundum um áformaðar virkjanir og áhrif framkvæmda á umhverfi og náttúru, kortasendingum, myndasýningum, undirskriftasöfnun, stórbrotnum og tilfinningaþrungnum baráttufundum, fjölmennum mótmælaaðgerðum við Alþingishús og Ráðhús, að ógleymdri stemningunni í fjölmennri hálendisgöngu frá Hlemmi að Alþingishúsinu þar sem gjörningur, ræðuhöld og tónlistarflutningur stóð lengi dags.
Öll þessi barátta hefur verið jákvæð þrátt fyrir andstreymið. Áherslan hefur verið á fræðslu og friðsamleg mótmæli, þótt stöku sinnum hafi soðið upp úr. Við höfum látið til okkar heyra og sjást að svo miklu leyti sem það er hægt í þessu samfélagi þagnarinnar þar sem fjölmiðlar eru uppteknari af athöfnum valdhafa en síendurteknu andófi. En þrátt fyrir þrautseigjuna var erfitt að upplifa daginn sem meirihluti Alþingis lagði lokahönd á þetta voðaverk gagnvart íslenskri náttúru. Þá lyftist lokið af reiðipottinum.
En baráttunni er ekki lokið. Henni má ekki ljúka. Augu fjölmargra hafa opnast í baráttu liðinna mánaða. Á endanum munu nógu margir hafa séð ljósið. Áformin eru mörg og stór og ljót í ranni Landsvirkjunar og alltof margir stuðningsmenn slíkra framkvæmda, teymdir áfram í skammsýni og græðgi. Við eigum enn mikið að verja.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð er eini kostur þeirra sem setja umhverfis- og náttúruvernd á oddinn.