Þurfa kjósendur frekar vitnanna við?

Stolt og reiði vegast á í huga mér eftir þau kaflaskil sem urðu við afgreiðslu Alþingis á frumvarpinu um álverksmiðju í Reyðarfirði. Eftir þá afgreiðslu hefur Alþingi ekki aðkomu að málinu nema einhverjar breytingar verði á síðustu stigum þess. Meirihluti Alþingis hefur sagt sitt síðasta orð: Álver skal rísa í Reyðarfirði, Jökla skal beisluð til orkuframleiðslu í þágu mengandi stóriðjuvers. Óafturkræf spellvirkin norðan Vatnajökuls virðast óhjákvæmileg.

Þingmenn Vinstri grænna gerðu lokatilraun til að hindra þetta skelfilega slys, lokatilraun til að tryggja landsmönnum rétt til að segja álit sitt í kosningum. Þeir lögðu fram breytingartillögu við álversfrumvarpið þess efnis að það yrði ekki að lögum fyrr en að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Kárahnjúkavirkjun yrði byggð eða ekki. Þessari tillögu hafnaði meirihluti Alþingis. Ekki einu sinni Samfylkingin, sem hefur reynt að skapa sér þá ímynd að hún sé alveg einstaklega lýðræðislega sinnuð, gat fengið sig til að styðja tillögu Vinstri grænna. Þingmenn Samfylkingarinnar sátu hjá við afgreiðslu tillögunnar, stjórnarflokkarnir greiddu atkvæði á móti. Allir þingflokkar aðrir en Vinstri grænir styðja hrikalegustu náttúruspjöll sögunnar og hafna því að tryggja lýðræðislegan rétt almennra kjósenda til að láta álit sitt í ljósi í slíku stórmáli.

Þurfa kjósendur frekar vitnanna við? Vinstrihreyfingin – grænt framboð er eini stjórnmálaflokkurinn sem er treystandi til að verja íslenska náttúru gegn vanhugsuðum yfirgangi og spjöllum af manna völdum.

Ég er stolt af baráttu Vinstri grænna og ég er stolt af starfi í grasrótinni sem hefur einkennst af baráttuvilja, hugmyndaauðgi og þrautseigju. Það hefur verið stórkostlegt að fylgjast með þessu þrotlausa starfi í meira en sex mánuði, daglegum mótmælum á Austurvelli, vikulegum fræðslufundum um áformaðar virkjanir og áhrif framkvæmda á umhverfi og náttúru, kortasendingum, myndasýningum, undirskriftasöfnun, stórbrotnum og tilfinningaþrungnum baráttufundum, fjölmennum mótmælaaðgerðum við Alþingishús og Ráðhús, að ógleymdri stemningunni í fjölmennri hálendisgöngu frá Hlemmi að Alþingishúsinu þar sem gjörningur, ræðuhöld og tónlistarflutningur stóð lengi dags.

Öll þessi barátta hefur verið jákvæð þrátt fyrir andstreymið. Áherslan hefur verið á fræðslu og friðsamleg mótmæli, þótt stöku sinnum hafi soðið upp úr. Við höfum látið til okkar heyra og sjást að svo miklu leyti sem það er hægt í þessu samfélagi þagnarinnar þar sem fjölmiðlar eru uppteknari af athöfnum valdhafa en síendurteknu andófi. En þrátt fyrir þrautseigjuna var erfitt að upplifa daginn sem meirihluti Alþingis lagði lokahönd á þetta voðaverk gagnvart íslenskri náttúru. Þá lyftist lokið af reiðipottinum.

En baráttunni er ekki lokið. Henni má ekki ljúka. Augu fjölmargra hafa opnast í baráttu liðinna mánaða. Á endanum munu nógu margir hafa séð ljósið. Áformin eru mörg og stór og ljót í ranni Landsvirkjunar og alltof margir stuðningsmenn slíkra framkvæmda, teymdir áfram í skammsýni og græðgi. Við eigum enn mikið að verja.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð er eini kostur þeirra sem setja umhverfis- og náttúruvernd á oddinn.

Þjóðin vill fá að kjósa um Kárahnjúkavirkjun

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur ein stjórnmálasamtaka barist óskipt og einarðlega fyrir verndun og viðgangi íslenskrar náttúru eftir eigin lögmálum svo sem framast er unnt. Vinstri grænir hafa þess vegna staðið nánast einir gegn áformum núverandi ríkisstjórnar og Landsvirkjunar um stórvirkjanir á hálendi Íslands bæði í Þjórsárverum sunnan Hofsjökuls og við Kárahnjúka norðan Vatnajökuls. Vinstri grænir vilja vinna að uppbyggingu þjóðgarða og öðrum kostum sem stuðla að nýtingu náttúruauðlinda á sjálfbæran hátt og af fullri virðingu og tillitssemi við viðkvæma og dýrmæta náttúru landsins. Það er í rauninni sorglegt umhugsunarefni hversu hægt gengur að opna augu margra landsmanna fyrir þeirri ábyrgð sem okkur er falin gagnvart náttúrunni og um leið þeim gjöfum sem hún færir okkur ef við stöndum við okkar hlut.

Baráttan um Kárahnjúkavirkjun hefur verið löng og hörð og sér ekki fyrir endann á henni þrátt fyrir gríðarlegan aflsmun og þrátt fyrir endalaus svik af hálfu stjórnvalda sem láta hervirki Landsvirkjunar til undirbúnings virkjanaframkvæmdum óátalin þvert á áður gefin loforð um að ekkert yrði gert fyrr en skrifað hefði verið undir samninga þar um. Lýðræðissinnar gagnrýna þá valdníðslu stjórnvalda að ætla að ráðast í mestu virkjanaframkvæmdir Íslandssögunnar án þess að leyfa þjóðinni að segja álit sitt í kosningum.

Vinstri grænir hafa unnið þrotlaust að því innan og utan Alþingis að varpa ljósi á alla þætti málsins og reyna að sannfæra stjórnvöld um réttmæti þess að landsmenn fái að segja sitt um þessar framkvæmdir. Tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun samhliða alþingiskosningunum í maí er nú til meðferðar í þingnefnd og ætlunin að fá hana aftur inn á þingfund til afgreiðslu á næstu dögum. Verður fróðlegt að sjá þingmenn allra flokka opinbera lýðræðisást sína við atkvæðagreiðslu um tillögu Vinstri grænna.

Þingflokkur VG ákvað að kanna vilja landsmanna til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið og fékk Gallup til verksins. Niðurstöður könnunarinnar var kynnt fjölmiðlum í gær og vakti mikla athygli, en ekki virðast þeir þó skynja mikilvægi málsins eins og þeir unnu úr því. E.t.v. trufla almennar stjórnmálaskoðanir að einhverju leyti þá afgreiðslu.

Í könnuninni var spurt tveggja spurninga:

1.

Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvægustu málefni þjóðarinnar?

2.

Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun?

Niðurstöður könnunarinnar eru afdráttarlausar:

1.

79% svarenda eru hlynntir þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvægustu málefni þjóðarinnar, 15% eru andvígir og 7% svara hvorki né. 2. 64% svarenda eru hlynntir þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun, 30% eru andvígir, en 6% svara hvorki né.

Þegar litið er til afstöðu svarenda með tilliti til stuðnings við stjórnmálaflokka kemur í ljós afgerandi stuðningur meðal stuðningsmanna allra stjórnmálaflokka við þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvægustu málefni þjóðarinnar, minnstur þó meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokks, mestur meðal stuðningsmanna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Meiri munur kemur fram í svörum við spurningunni um Kárahnjúkavirkjun. Stuðningsmenn Vinstri grænna eru að miklum meiri hluta fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjuna, stuðningsmenn Samfylkingarinnar eru henni frekar hlynntir, en fylgjendur stjórnarflokkanna umtalsvert síður.

Ýmsar aðrar greiningar á niðurstöðum könnunarinnar skila forvitnilegum upplýsingum. Þannig eru konur talsvert hlynntari þjóðaratkvæðagreiðslu en karlar og yngra fólk fremur en eldra. Þessi munur kemur sérstaklega fram þegar spurningin snýst um Kárahnjúkavirkjun.

En hvernig sem litið er á hinar ýmsu greiningar er niðurstaðan ein og ljós: ÞJÓÐIN VILL FÁ AÐ KJÓSA UM KÁRAHNJÚKAVIRKJUN.

Konur leiða listann

Nú hafa Vinstri grænir birt framboðslista sína í öllum sex kjördæmum. Sá síðasti var samþykktur á fundi kjördæmisráðs í Suðvesturkjördæmi í gærkvöldi.

Ljóst er að verkefni uppstillinganefndar var nokkuð snúið og hefði kannski orðið einfaldara og auðveldara ef sú sem þetta skrifar hefði sýnt áhuga og vilja til að leiða listann eins og raunin var fyrir fjórum árum. Ég hins vegar var þeirrar skoðunar og er það svo sannarlega enn að það væri verkefni og tækifæri fyrir nýjan frambjóðanda og nýtt fólk án þess að ég sé þar með að lasta okkur sem stóðum í baráttunni fyrir fjórum árum. Ég taldi það einfaldlega farsælast fyrir flokkinn og líklegt til að hleypa meira lífi í starfið, sem hefur óneitanlega verið fremur dauflegt í okkar ágæta kjördæmi á þessum fjórum árum sem liðin eru frá kosningunum 1999. Við því er ekki mikið að segja, það eru gjarna örlög þingmannslausra kjördæma. Það kom svo í ljós að mikill áhugi reyndist með félagsmanna á skipan listans og ekkert einfalt að velja í efstu sætin. Þar þarf að taka tillit til margra þátta, svo sem kynferðis, aldurs, búsetu, menntunar og starfa. Það tók uppstillinganefndina marga fundi og mikla vinnu að komast að niðurstöðu sem allir áttu að geta sætt sig við.

Framboðslistann skipa að þessu sinni eftirtalin:

1. Jóhanna B. Magnúsdóttir umhverfisfræðingur, Mosfellsbæ

2. Þórey Edda Elísdóttir verkfræðinemi, Hafnarfirði

3. Ólafur Þór Gunnarsson læknir, Kópavogi

4. Sigmar Þormar félagsfræðingur, Kópavogi

5. Jón Páll Hallgrímsson ráðgjafi og varaformaður Regnbogabarna, Hafnarfirði

6. Oddný Friðriksdóttir viðskiptafræðinemi, Kópavogi

7. Anna Ólafsdóttir Björnsson sagnfræðingur, Bessastaðahreppi

8. Sigurður Magnússon matreiðslumaður og form. Fél. matreiðslumanna, Hafnarfirði

9. Þóra Sigurþórsdóttir leirlistakona, Mosfellsbæ

10. Jens Andrésson vélfræðingur, Seltjarnarnesi

11. Anna Tryggvadóttir nemi, Seltjarnarnesi

12. Gestur Svavarsson íslenskufræðingur, Hafnarfirði

13. Guðbjörg Sveinsdóttir hjúkrunarfræðingur, Kópavogi

14. Ólafur Gunnarsson véltæknifræðingur, Mosfellsbæ

15. Ásdís Bragadóttir talkennari, Bessastaðahreppi

16. Dagur Kári Pétursson kvikmyndagerðarmaður, Danmörku

17. Indriði Einarsson stærðfræðinemi, Garðabæ

18. Svanur Halldórsson leigubifreiðastjóri, Kópavogi

19. Kristján Jónasson jarðfræðingur, Seltjarnarnesi

20. Kolbrún Valvesdóttir garðyrkjumaður, Kópavogi

21. Arnþór Helgason framkvæmdastjóri ÖBÍ, Seltjarnarnesi

22. Kristín Halldórsdóttir fyrrverandi alþingiskona, Seltjarnarnesi.

Mér líst vel á þennan lista. Ég er glöð og ánægð með að hér skuli vera konur í tveimur efstu sætunum og tel það flokknum til framdráttar að mál skuli hafa skipast með þeim hætti. Ég þekki Jóhönnu B. Magnúsdóttur og hennar verk, hún býr að mikilli og verðmætri þekkingu og reynslu, m.a. á sviði umhverfismála og ferðaþjónustu, hún kann allt um sjálfbæra þróun og með henni er gott að vinna. Ég veit það af eigin reynslu. Þóreyju Eddu þekki ég ekki persónulega, en hef heyrt margt gott um hana, og þjóðin veit hvers hún er megnug með stöngina í höndunum. Hún stekkur nú stangarlaus inn á vettvang stjórnmálanna, baráttuglöð og vinnufús. Ég fagna hennar innkomu, það er flokknum mikilvægt að fá til liðs svo unga konu sem er til alls líkleg. Önnur sæti eru einnig vel skipuð og sérstakt ánægjuefni hversu margt ungt fólk er á listanum, allt niður í 18 ára í 11. sætinu. Það er ljóst að mesta álagið verður á þeim tveimur, Jóhönnu og Þóreyju Eddu, í þeirri baráttu sem framundan er. Okkar hinna er að axla þá ábyrgð að styðja þær með ráðum og dáð. Vinstri grænir í SV-kjördæmi hafa allt að vinna í komandi kosningum. Það munaði sáralitlu að við fengjum okkar fulltrúa á þing í kosningunum 1999. Með samstilltu átaki og sannri baráttugleði ættum við að eiga a.m.k. einn fulltrúa í þingflokki Vinstri grænna á næsta kjörtímabili, jafnvel tvo. Að því munum við stefna.

Ofríki, ofbeldi, ranglæti

Hvað er það sem fær sæmilega upp alda og tiltölulega dagfarsprúða konu á sínum efri árum til að ögra lögum og reglum, takast á við laganna verði um fána borgar og þjóðar, syngja baráttusöngva og hrópa eins og lungun leyfa slagorð gegn áformum stjórnvalda, steytandi hnefann æst og reið? Rangindi, heimska og ofbeldi þeirra sem ráða, vanmáttur gagnvart kúgun og lítilsvirðingu, allt kallar þetta á slík viðbrögð, en fyrst og fremst er það ást og virðing gagnvart dýrmætri náttúru og djúpstæð sannfæring um að með heimskulegum ákvörðunum sé verið að eyðileggja að eilífu þær þjóðargersemar sem okkur hefur verið trúað fyrir.

Það er svo mikið um að vera þessa dagana að það gefst varla tími til að skrásetja viðburðina. Hæst ber baráttufundinn mikla í Borgarleikhúsinu sl. miðvikudag, 15. janúar, undir yfirskriftinni “Leggjum ekki landið undir – björgum þjóðarverðmætum.”

Ekki var nóg með að stuðningsfólk þjóðarverðmætanna troðfyllti húsið, það hreinlega yfirfylltist og margir urðu frá að hverfa. Sjálf lenti ég í því að standa allan tímann upp á endann án þess að geta hallað mér neins staðar upp að né tylla mér í tröppu, til þess gafst hreinlega ekki nokkur sentimetri. Dagskráin tók tvo og hálfan tíma og mér varð ekki svefnsamt langt fram eftir nóttu vegna þreytuverkja í baki og fótum. En það var þess virði því dagskráin var hreint út sagt frábær. Hvert einasta atriði fól í sér rökstuðning við málstaðinn og kallaðist bæði á við skynsemi og tilfinningar. Stemningin reis hátt og sum atriðin voru svo áhrifamikil að tárin hlutu að renna. Eitt hið áhrifamesta var þegar Diddú söng á sinn yndislega hátt um svanasöng á heiði meðan myndir frá Kárahnjúkasvæðinu runnu yfir skjáinn og sýndu okkur alla þá stórkostlegu blöndu fegurðar og hrikaleika sem þar er að finna.

Daginn eftir söfnuðust mótmælendur hundruðum saman við Ráðhúsið til að sýna hug sinn vegna umræðu og atkvæðagreiðslu um ábyrgðir Reykjavíkurborgar vegna Kárahnjúkavirkjunar. Þar var svolítið ólíkur bragur á mannsöfnuðinum en á baráttufundinum kvöldið áður. Samkenndin var hin sama, en nú hafði reiði tekið við af angurværðinni. Við örkuðum gegnum Ráðhúsið, yfir brúna og eftir Vonarstræti, kyrjandi slagorð á fullum styrk. Við hlóðum táknræna vörðu til varnar víðernunum, við drógum þjóðfánann og borgarfánann í hálfa stöng og stympuðumst við embættismenn og lögreglu, við sungum og hrópuðum slagorð og áheyrendapallarnir voru þéttsetnir allan tímann sem umræðan stóð. Þar stóðu menn og hömpuðu fánum með slagorðum, það var púað á meðmælendur virkjunar og klappað fyrir hinum. Í upphafi var reynt að hafa hemil á mannskapnum, því samkvæmt reglum má enga háreysti hafa þar í frammi, en loks gáfust forseti og laganna verðir upp á því og létu pú og klapp óátalið.

Það var býsna séstakt að sjá þrjá lögreglubíla við Ráðhúsið allan daginn og lögregluþjóna við öllu búna. Þeim leist augljóslega ekki á blikuna og hver veit nema þeir hafi haft táragas í skottinu ef þörf yrði á hörku. Og víst er að ýmsir voru gripnir óþreyju að láta frekar til sín taka.

Margir hafa hneykslast á þessum “ólátum” eins og mótmælaaðgerðirnar þennan dag hafa verið kallaðar. En í rauninni má undrast eða þakka fyrir eftir aðstæðum að þær urðu ekki hatrammari. Menn verða að reyna að skilja líðan þessa fólks sem skynjar sig beitt þvílíku ofríki, ofbeldi og ranglæti að það hlýtur að brjótast út á einhvern hátt. Margir úr þessum hópi hafa mánuðum saman mótmælt á friðsamlegan hátt án þess að fjölmiðlar hafi séð ástæðu til að gera þeirri þrautseigju verðug skil og ráðamenn hafa komist upp með að rakka mótmælin niður og sýna baráttufólkinu lítilsvirðingu. Var ekki bara kominn tími til að sýna fullan styrk?

Þessa baráttu verður að heyja

“Nú er þetta búið”, sagði kunningi minn í sundlauginni í morgun, “við erum búin að tapa og ég skrifa víst aldrei greinina sem ég ætlaði að skrifa og var m.a.s. kominn með þessa fínu fyrirsögn: Álæði. Það rímar svo skemmtilega við t.d. málæði og brjálæði.”

Ég verð að viðurkenna að mér hefur ekki verið rótt síðan á föstudag þegar Landsvirkjun og Alcoa munduðu sína penna og skjalfestu ætlun sína um hrikalegustu framkvæmdir og náttúruspjöll af mannavöldum fyrr og síðar hér á landi. Og ekki bætti kunningi minn úr með orðum sínum. Samt verður þessu ekki trúað fyrr en hver einasta vörn er brostin.

Bandaríska risafyrirtækið Alcoa vill reisa álverksmiðju á Reyðarfirði og kaupa rafmagn af Landsvirkjun frá risavirkjun við Kárahnjúka. Mánuðum saman hafa náttúruverndarsinnar unnið gegn þessum áformum með öllum tiltækum ráðum, þ.e.a.s. þeir eru fyrst og fremst að mótmæla Kárahnjúkavirkjun og þeim geigvænlegu náttúruspjöllum sem hún hefði í för með sér. Fæstir velta álverinu í sjálfu sér svo mikið fyrir sér nema að því leyti sem það er forsendan fyrir Kárahnjúkavirkjun.

Hópur fólks hefur mótmælt á Austurvelli og víðar í hádeginu dag hvern. Margir fundir hafa verið haldnir þar sem náttúruunnendur, náttúruvísindamenn, hagfræðingar og listamenn hafa frætt fundarmenn, sýnt myndir og lýst skoðunum. Geysifjölmennur og vel heppnaður baráttufundur var haldinn í Austurbæjarbíói í nóvemberbyrjun til verndar Þjórsárverum. Athyglisverðar auglýsingar birtust ítrekað í sjónvarpi með þeim boðskap að allir töpuðu á Kárahnjúkavirkjun. Mörg þúsund kort með áskorun um verndun hálendisins voru send þingmönnum, borgarfulltrúum, stjórnarmönnum Landsvirkjunar og fleirum. Sólstöðuhátíð var haldin á Austurvelli laugardaginn fyrir jól þar sem listamenn lögðu lóð á vogarskálarnar fyrir verndun hálendisins og forkunnar fagrar myndir töluðu sínu máli af stóru tjaldi. Hálendisblaðið, vel unnið, málefnalegt, fræðandi og fallegt blað kom út í desember. Mikill fjöldi greina um hálendismálin, Kárahnjúkavirkjun og Þjórsárver hefur litið dagsins ljós síðustu vikur og mánuði. Og enn á að reyna að sýna öræfunum samstöðu með baráttufundi miðvikudaginn 15. janúar.

Það skelfilega er að stóriðju- og stórvirkjanasinnar hlusta ekki á rökin, heldur bregðast við með lítilsvirðingu og sleggjudómum. Raunar er ég handviss um að þeim er alls ekki rótt vegna alls þessa andófs. Það hefur haft gríðarlega mikil áhrif og vakið marga til umhugsunar. En ráðherrar eru því marki brenndir að geta ekki skipt um skoðun hvað sem í skerst. Þeir hafa keyrt málið áfram með offorsi og hvatt Landsvirkjunarmenn til hryðjuverkanna í náttúrunni norðan Vatnajökuls, þar sem þeir hófu alls kyns framkvæmdir meðan ferli málsins var langt frá því lokið. Allt er gert til að búa svo um hnútana að ekki verði við snúið að kosningum loknum.

Og þjóðin hefur aldrei fengið að segja sitt álit. Þetta var ekki kosningamál 1999. Og nú á að tryggja að það verði ekki kosningamál í vor. Vera má þó að sumir flokkanna verði látnir gjalda afstöðu sinna manna á Alþingi þegar atkvæði voru greidd um Kárahnjúkavirkjun.

Margir undrast þrautseigju náttúruverndarsinna í þessu máli, sumir dást að henni, öðrum gremst. Baráttan er háð gegn gjörvallri ríkisstjórninni og gælufyrirtæki hennar, gegn miklum meirihluta Alþingis og gegn risastóru alþjóða fyrirtæki. Baráttan er háð við samansúrruð völd og gríðarlega fjárhagslega hagsmuni.

Útlitið er ekki bjart í augnablikinu. En þessa baráttu verður að heyja. Hana verður að heyja til varnar íslenskri náttúru og fyrir hönd afkomenda okkar. Að öðrum kosti gæti a.m.k. sú sem þetta skrifar ekki horft með góðri samvisku í augu barnabarna sinna.

Málefnin sigri að lokum

Á þessum tíma fyrir réttum 20 árum voru konur í óða önn að skrifa nýjan kafla í sögu íslenskra stjórnmála. Tvær konur höfðu árið áður verið kjörnar í borgarstjórn Reykjavíkur af lista Kvennaframboðs og aðrar tvær í bæjarstjórn Akureyrar. Framundan voru kosningar til Alþingis og allt á suðupunkti í þessari nýju stjórnmálahreyfingu. Átti nú þegar að stíga næsta skref og bjóða fram kvennalista til Alþingis? Við þekkjum svarið. Ævintýrið sem breytti mörgu í íslenskum stjórnmálum var rétt að hefjast.

Síðan er mikið vatn til sjávar runnið og enda þótt vissulega örli á ýmsu úr hugmyndafræði Kvennaframboðs og síðar Kvennalista í stjórnmálum nútímans hefur a.m.k. einn meginþáttur algjörlega verið fyrir borð borinn. Það var hin stefnufasta áhersla á málefni á kostnað persóna. Persónupólitík var eitur í beinum kvennalistakvenna og gegn henni beindust bæði skráðar og óskráðar reglur. Kvennalistakonur kusu sér aldrei formann, þær skiptust algjörlega meðvitað og markvisst á um að koma fram í fjölmiðlum og tala fyrir málefnum hreyfingarinnar og þær settu sér reglur um hámarks tíma sem hver kjörinn fulltrúi gæti setið á Alþingi eða í sveitarstjórn. Markmiðið var að búa ekki til atvinnustjórnmálamenn og þeim tókst að halda þeirri stefnu til streitu lengi vel.

Mér hefur oft orðið hugsað til þessara frjóu og skapandi tíma nú síðustu daga þegar gjörvallur stjórnmála- og fjölmiðlaheimurinn hefur snúist um eina persónu, okkar gömlu góðu kvennalistakonu, Ingibjörgu Sólrúnu. Hún var önnur tveggja kvenna sem settust í borgarstjórn árið 1982 og sat þar næstu 6 árin, kom síðan á þing fyrir Kvennalistann 1991 og sat þar til ársins 1994 þegar hún var boðin fram sem borgarstjóraefni R-listans. Alla tíð síðan hefur hún verið persónugervingur þess samstarfs allra annarra flokka í Reykjavík en Sjálfstæðisflokksins og það svo mjög að margir eiga bágt með að nefna nöfn annarra borgarfulltrúa en hennar. Þannig er komið fyrir þeirri hugsjónavinnu gegn persónupólitíkinni sem stunduð var með misjöfnum árangri þó á dögum Kvennalistans.

En Kvennalistinn stóð líka í margra huga fyrir úthugsaða hugmyndafræði og heiðarleg vinnubrögð og allt þetta fékk okkar ágæta Ingibjörg Sólrún í nesti með sér inn í borgarstjórastarfið. Nú er hún bendluð við svik og óheiðarleika í garð kjósenda og í garð samstarfsaðila sem fólu henni hlutverk sameiningartáknsins og létu sér ekki til hugar koma að njörva þyrfti hvert hugsanlegt framtíðarspor niður í skrifaðan sáttmála. Sínum augum lítur hver á silfrið og ég trúi því að hvorki svik né óheiðarleiki hafi verið í huga Ingibjargar Sólrúnar þegar hún tók umdeilt skref til framboðs fyrir nokkrum dögum.

Þegar Össur tók frumkvæðið úr höndum Ingibjargar Sólrúnar og upplýsti í fjölmiðli að hún tæki 5. sæti annars framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík þá vissi ég ekki frekar en margir aðrir hvaðan á mig stóð veðrið og enn síður eftir að Ingibjörg Sólrún lét draga út úr sér jáyrði um málið. Ég trúði ekki eigin eyrum og geri það í rauninni ekki enn nú þegar sú niðurstaða blasir við að hún mun hætta sem borgarstjóri. Hvað liggur að baki þessum óviturlegu vinnubrögðum þeirra Össurar?

Ingibjörg Sólrún er meira en í meðallagi greind og klók og hlaut að gera sér grein fyrir viðbrögðum samstarfsfólks í R-listanum. Þau eru að minni hyggju afskaplega skiljanleg þótt ég vildi óska að þau hefðu verið öðru vísi og leitt til annarrar niðurstöðu en nú blasir við. Vissulega hefur Ingibjörg Sólrún brugðist trausti þeirra sem fólu henni fararstjórn R-listans og hafa staðið þétt að baki hennar. Í viðbrögðum þeirra felst ekki ótti eins og þau Össur vilja vera láta, heldur fyrst og fremst réttlætiskennd, vonbrigði og auðvitað nokkur reiði og reyni nú hver að setja sig í þeirra spor. Sá veldur miklu sem upphafinu veldur.

Nú er það að sönnu enginn héraðsbrestur þótt Ingibjörg Sólrún stígi upp úr stól borgarstjóra og ég skil vel að hún sé orðin þreytt á stöðunni. Alltof algengt er að menn hangi of lengi í starfi sem þeir eru orðnir leiðir á og baráttuglöð kona eins og Ingibjörg Sólrún vill keppa að nýjum vinningum. Hún er metnaðarfull, hugmyndarík og rökföst og á sannarlega erindi í landsmálin algjörlega burtséð frá afstöðu hennar til einstakra mála sem mér hugnast vissulega ekki alltaf. En mikið vildi ég að þau vettvangsskipti hefðu borið öðru vísi að.

Að mínu viti snýst allt þetta mál fyrst og fremst um trúnað og traust og því miður hafa slík hugtök og meiningin að baki þeirra beðið hnekki. Nú eru margir reiðir og sárir, aðrir vonsviknir og leiðir. Við skulum vona að málefnin hafi sigur að lokum.

Lifandi keðja frá Jóni til Halldórs

Kárahnjúkamálið er efst á baugi þessa dagana hjá náttúruverndarsinnum og ekki að undra eftir vel heppnaða aðgerð á Austurvelli í dag. Frétt um hvað til stæði barst sem eldur í sinu með tölvupósti í gær og morgun og það nægði til að draga fjölda fólks að fótskör Jóns Sigurðssonar um hádegisbilið.

Elísabet Jökulsdóttir skipulagði lifandi keðju frá Jóni að dyrum hins nýja skála Alþingishússins og þannig voru á annað þúsund kort með áskorun um þjóðgarð í stað Kárahnjúkavirkjunar handlönguð til Maríu Ellingsen sem afhenti þau Halldóri Blöndal þingforseta. Kortin sýna myndir af náttúrunni sem fer undir vatn ef virkjunin verður að veruleika. Þingforseti tók vel á móti þessu uppreisnarliði, gekk á röðina og heilsaði fólki með handabandi þar til honum hefur líklega orðið ljóst að það tæki hann alltof langan tíma að heilsa öllum fjöldanum, þá sneri hann við og stillti sér upp til móttöku í dyrum skálans. Að lokinni þessari athöfn tóku fjallabílstjórar við og þeyttu flautur sínar góða stund og fólkið á vellinum klappaði og hrópaði “Aldrei, aldrei Kárahnjúkavirkjun! Verjum, verjum Þjórsárver.” Síðar fór einhver hópur með kortabunka til forseta Íslands og því næst til borgarstjóra og borgarfulltrúa.

Það stórkostlega við alla þessa baráttu gegn náttúruspjöllum á hálendinu, sem staðið hefur frá því seint í ágúst, er hvernig allar þessar margvíslegu aðgerðir hafa sprottið beint upp úr grasrótinni og orðið að veruleika fyrir samstillt átak sem hefur í rauninni þarfnast lítillar skipulagningar. Fólki bara dettur eitthvað í hug og framkvæmir hugmyndir sínar með dyggum stuðningi hópsins eftir getu hvers og eins.

Upphaflega beindist baráttan eingöngu gegn náttúruspjöllunum, en síðustu vikur hefur umræðan snúist æ meira um fjárhagslega þætti málsins og það er að mörgu leyti gott vegna þess að sú umræða hefur meiri áhrif á ráðamenn, hún bítur meira, menn eiga erfiðara með að hrekja þau rök og hún virðist vera farin að ná allrækilega til þeirra sem láta sig lítt varða náttúru landsins, en þeim mun meira efnahags- og atvinnumál. Eitt finnst mér þó gleymast um of í allri þeirri umræðu, úr því menn endilega vilja hafa þessi fjárhagslegu rök, og það er arðsemi þess að vernda náttúruna. Virkjanasinnar liggja á því lúalagi að setja dæmið upp sem annað hvort Kárahnjúkavirkjun og álver í Reyðarfirði eða vaxandi atvinnuleysi og versnandi þjóðarhagur. Þannig er þetta bara alls ekki.

Hver er sérstaða Íslands? Hvað vegur þyngst í samkeppninni um athygli umheimsins og markar undirstöðu ekki bara þjóðarvitundar, heldur einnig atvinnulífs og útflutnings bæði þjónustu og vöru af margvíslegu tagi? Það er fyrst og fremst sérstæð náttúra landsins, hreinleiki og óbeisluð náttúruöfl. Þetta er það sem ferðamenn sækjast eftir og þetta er það sem selur vörurnar okkar, hvort sem það eru matvæli eða eitthvað annað. Þetta er það sem Ísland er þekkt fyrir.

Með því að vanvirða náttúruna og leggja hana í fjötra, skerða víðernin, þagga niður í fossum og gljúfrum, kaffæra einstæðar jarðmyndanir og háfjallagróður, er verið að saga undan okkur greinina sem þjóðin situr á.

E. s. Ekki var ég par ánægð með kvöldfréttir fréttastofu útvarpsins sem sagði ítarlega frá samningabröltinu milli Alcoa og allra hinna og spurði bæjarstjóra Fjarðabyggðar um ánægju hans og hamningjusemi, en nefndi ekki einu orði aðgerðir náttúruverndarsinna um sama leyti. Fréttastofa sjónvarpsins stóð sig ólíkt betur að þessu sinni.

Vegið að starfsheiðri

Baráttan um virkjun eða ekki virkjun við Kárahnjúka tekur á sig ýmsar myndir og atburðir líðandi stundar bera með sér að forsvarsmenn Landsvirkjunnar hafa gjörsamlega tapað allri dómgreind. Fremstur fer Jóhannes Sigurgeirsson stjórnarformaður og sérlegur fulltrúi Framsóknar. Nú nægir honum ekki lengur að sífra yfir pirrandi náttúruverndarsinnum, heldur vílar hann ekki fyrir sér að ráðast að einstökum vísindamönnum sem hafa leyft sér að komast að öðrum niðurstöðum en honum eru þóknanlegar.

Ríkisútvarpið brást að mínu mati við umfjöllun þessa sérstaka máls. Jóhannes Sigurgeirsson vó að starfsheiðri vísindamanna í fréttum Sjónvarpsins að kvöldi fimmtudagsins 5. desember, en það var ekki fyrr en í kvöldfréttum á sunnudag sem einum þeirra gafst kostur á að svara til um málið og fréttastofan gerði ekkert til að varpa ljósi á málið að öðru leyti. Í tilefni af þessu lagði ég fram eftirfarandi bókun á fundi útvarpsráðs í morgun.

“Ég tel það mjög alvarlegt hvernig forsvarsmenn Landsvirkjunar hafa komist upp með að vega ítrekað opinberlega að starfsheiðri vísindamanna og hreinlega farið með rangt mál án þess að þeim hafi gefist á sama hátt kostur á að svara fyrir sig eða að fréttamenn grafist fyrir um sannleikann í málinu. Er ég þá m.a. að vitna til endurtekinna fullyrðinga stjórnarformanns Landsvirkjunar þess efnis að Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor, fari rangt með tölur um vatnsborðssveiflu Hálslóns. Staðreyndin er sú að tölurnar, sem sanna málflutning Þóru Ellenar Þórhallsdóttur, er að finna á heimasíðu Landsvirkjunar. Það er mjög alvarlegt að vega að starfsheiðri vísindamanna með þeim hætti sem forsvarsmenn Landsvirkjunar hafa gert. Ég tel að fréttamenn hafi brugðist þeirri skyldu sinni að leiða sannleikann í ljós.”

Athugasemd minni var vísað til forstöðumanns fréttasviðs.

Fréttastjóri Sjónvarps

Umfjöllun um ráðningu fréttastjóra Sjónvarps í stað Boga Ágústssonar, sem nýlega var ráðinn í nýja stöðu yfirmanns fréttasviðs, gekk ekki alveg átakalaust fyrir sig á fundi útvarpsráðs í morgun og óvenju langt mál er um hana ritað í fundargerð. Þar er birt í heilu lagi greinargerð Mannafls um úrvinnslu umsókna, en niðurstaðan af þeirri vinnu er að 3 umsækjenda uppfylli best hæfniskröfur, þ.e. Elín Hirst, Logi Bergmann Eiðsson og Sigríður Árnadóttir þannig upp talin í stafrófsröð. Einnig eru birt ítarleg meðmæli Boga Ágústssonar, forstöðumanns fréttasviðs, með Elínu Hirst í starf fréttastjóra Sjónvarps. Að lokinni umræðu í útvarpsráði voru greidd atkvæði sem féllu þannig að fjórir greiddu Sigríði Árnadóttur atkvæði, en þrír Elínu Hirst. Upphófust þá bókanir þeirra sem vildu gera grein fyrir afstöðu sinni.

Þrír fulltrúar sjálfstæðismanna, þau Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, formaður útvarpsráðs, Þórunn Gestsdóttir og Anna Kristín Jónsdóttir lögðu fram eftirfarandi bókun:

“Í tilefni af umsögn útvarpsráðs um umsækjendur í starf fréttastjóra Sjónvarps óska undirrituð eftir að fært verði til bókar eftirfarandi:

Að mati okkar uppfylla þrír umsækjendur hæfniskröfur. Það eru þau Elín Hirst, G. Pétur Matthíasson og Logi Bergmann Eiðsson. Við mat á umsækjendum er einkum þrennt sem mestu máli skiptir. Menntun, reynsla af starfi í sjónvarpi og stjórnunarreynsla. Allir ofangreindra umsækjenda hafa umtalsverða reynslu af starfi við sjónvarp. Tvö þeirra, Elín og G. Pétur hafa lokið háskólaprófi og tvö þeirra, Elín og Logi hafa reynslu af stjórnun í sjónvarpi. Bæði eru þau nú varafréttastjórar Sjónvarpsins. Elín hefur þó umtalsvert meiri stjórnunarreynslu enda fyrrverandi fréttastjóri Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Með vísan til ofangreinds teljum við Elínu best uppfylla hæfniskröfur í starf fréttastjóra Sjónvarpsins og munum mæla með ráðningu hennar.”

Bókun mín var svohljóðandi:

“Meðal umsækjenda um starf fréttastjóra Sjónvarpsins eru nokkrir ágætlega hæfir einstaklingar sem ekki er alveg einfalt að velja á milli. Sérstakt ánægjuefni er að í þessum hópi eru þrautreyndar fréttakonur með mikla stjórnunarreynslu og gefst nú tækifæri til að rétta nokkuð hlut kvenna í stjórnunarstörfum hjá Ríkisútvarpinu. Þegar nú Bogi Ágústsson, fréttastjóri Sjónvarpsins til margra ára, hefur verið gerður að yfimanni alls fréttasviðs Ríkisútvarpsins er rétt að líta til þess að aukið og bætt samstarf fréttastofanna er meginmarkmiðið með þeim skipulagsbreytingum sem nú er verið að gera á fréttasviðinu. Í ljósi þess tel ég farsælast að fela Sigríði Árnadóttur, með margra ára reynslu af stjórnunarstöðum og mikil og góð tengsl á fréttastofu Útvarpsins, hlutverk fréttastjóra Sjónvarps og styð hana til þess starfs.”

Gissur Pétursson, fulltrúi Framsóknarflokksins, lagði fram eftirfarandi bókun:

“Við stofnsetningu fréttasviðs og ráðningu sérstaks framkvæmdastjóra þess var að því stefnt að auka samstarf fréttastofu Sjónvarps og Útvarps. Til að tryggja að það samstarf gangi vel og snurðulaust fyrir sig er nauðsynlegt að treysta samgang milli deildanna með því að starfsmenn eigi kost á verkefnum sem hæfa hæfni þeirra og kunnáttu á báðum stöðum. Meðal umsækjenda um starf fréttastjóra Sjónvarps er Sigríður Árnadóttir, varafréttastjóri Útvarpsins. Sigríður hefur um langt árabil verið einn af traustustu fréttamönnum Útvarpsins og getið sér afar gott orð fyrir fagmennsku og óhlutdrægni í stöfum sínum. Hún hefur jafnframt mikla reynslu af stjórnunarstörfum á fréttastofu. Ríkisútvarpið væri vel að því komið að fá að njóta starfskrafta hennar sem fréttastjóra Sjónvarpsins fyrir utan hversu vel það mun styrkja þær skipulagsbreytingar á fréttasviði sem unnið hefur verið að innan stofnunarinnar.”

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Mörður Árnason og Anna Kristín Gunnarsdóttir tóku undir bókanir okkar Gissurar. En málinu er ekki þar með lokið. Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri hefur síðasta orðið, en reyndar búast flestir við að hann muni hlýða rödd Sjálfstæðisflokksins nú sem endranær.

Stjórnarformaður með skeifu

Það var dálítið magnað að sjá og heyra stjórnarformann Landsvirkjunar í sjónvarpsfréttum fimmtudaginn 5. desember. Rödd hans titraði, hann var sorgmæddur á svipinn og svei mér ef hann var ekki með skeifu. Hvers vegna? Jú, þessi valdamikli maður, stjórnarformaður Landsvirkjunar, með gjörvalla ríkisstjórnina á bak við sig og milljarða á milljarða ofan að ráðskast með var að kvarta undan mótmælendum Kárahnjúkavirkjunar.

Tilefni viðtalsins við Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformann Landsvirkjunar, var sú staðreynd að erlend fyrirtæki hafa undanfarna daga og vikur hvert á fætur öðru hætt við að gera tilboð í stíflu og aðrennslisgöng í stöðvarhús við Kárahnjúka vegna fyrirhugaðra virkjunarframkvæmda Landsvirkjunar. Upphaflega ætluðu 5 samsteypur fyrirtækja að bjóða í verkin. Ein samsteypan heltist fljótlega úr lestinni og síðan hafa a.m.k. 3 fyrirtæki dregið sig út úr hinum samsteypunum. Ljóst er að annað hvort hefur þeim ekki litist á fjárhagsdæmið eða umhverfisþáttinn.

Og stjórnarformaður Landsvirkjunar er gramur og er ekkert að skafa utan af hlutunum. Fréttamaðurinn hefur eftir honum að hann segist vita til þess að andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar hafi unnið gegn málinu erlendis m.a. hjá þeim fyrirtækjum sem bjóða í gerð mannvirkja tengdum virkjuninni. Hann segir að hér innanlands hafi baráttan verið mjög hatrömm gegn framkvæmdum Landsvirkjunar og nánast öllum brögðum beitt. “Við erum að sjá dæmi um það að vísindamenn virðast vera tilbúnir að nánast að fórna starfsheiðrinum til þess að koma í veg fyrir framkvæmdir. Þannig að það er alveg rétt, það hefur verið hart barist á móti framkvæmdunum”, segir stjórnarformaðurinn og bætir svo við í vælutóni: “Við erum náttúrulega að vinna í umboði löglega kjörinna stjórnvalda landsins.”

Það er auðvitað hárrétt hjá stjórnarformanni Landsvirkjunar, þeir eru að vinna í umboði stjórnvalda. Þeir hins vegar búa í lýðræðisþjóðfélagi og verða að lifa við það að fólk neyti réttar síns til að hafa skoðanir og vinna þeim fylgi eftir megni. Þegar aðstöðumunurinn er hafður í huga er það beinlínis hlægilegt að sjá stjórnarformann Landsvirkjunar eins og skólastrák sem lagður er í einelti og heyra hann kveinka sér undan þeim sem beita sér gegn Kárahnjúkavirkjun, sem margir hagfræðingar telja fullkomið efnahagslegt glapræði. Og þeir Landsvirkjunarmenn vita það jafnvel og náttúruverndarsinnar að virkjunin sú hefði í för með sér hrikalegustu landspjöll sem nokkru sinni hefur verið efnt til hér á landi. Æ fleiri gera sér grein fyrir þessari vitfirringu, og það er þess vegna sem stjórnarformanni Landsvirkjunar er farið að líða illa eins og sást svo glöggt í sjónvarpsviðtalinu.