Sjálfstæðismenn háðu sitt prófkjör um helgina og ef ég man rétt var það síðasti prófkjörsslagurinn fyrir komandi kosningar. Liggur við að ég segi því miður vegna þess að meðan prófkjörin standa sem hæst fer afar lítill tími í að lesa blöðin. Hin hliðin á peningnum er sú að þar með er ótrúlega miklu plássi varið í einskis nýtan orðaflaum í stað uppbyggilegra greina. Skyldu annars nokkrir lesa greinastúfa frambjóðenda eða stuðningsmanna þeirra, sem þekja síður Morgunblaðsins dögum saman fyrir prófkjör, aðrir en greinahöfundar og venslamenn þeirra? Skyldu einhverjir liggja yfir stuðningsauglýsingunum og fara í kjörklefanum að fordæmi persónanna sem setja nafn sitt undir mynd af einhverjum frambjóðandanum? Líklega er það svo úr því að það þykir svo vænleg leið að safna frægum nöfnum undir uppstillta mynd af viðkomandi.
Prófkjör er auðvitað býsna skemmtilegur kappleikur, einkum fyrir þá sem hafa hvorki vit né áhuga á stjórnmálum, en e.t.v. gaman af íþróttum. Og prófkjör er ekkert endilega verri leið en uppstilling, ef sú leið er í höndum fólks sem er illa læst á hæfileika hugsanlegra frambjóðenda og heildarhagsmuni flokksins. Hins vegar hefur prófkjör þá stórkostlegu galla að þau henta ekki jafnvel konum sem eru síður uppaldar á fótboltavelli en karlar og þau eru ekki á færi annarra en þeirra sem eru loðnir um lófana eða eiga fjársterka bakhjarla. Og maður hreinlega vorkennir fólki sem eys fé í auglýsingar og kaffiboð og jafnvel heilu hátíðirnar án þess að uppskera baun í bala eða þá það sem verra er, vonbrigði, skömm og reiði.
Einkennandi fyrir aðdraganda komandi kosninga, hvort sem menn eru að strekkja sig í prófkjörum eða sitja með sveittan skallann við að raða á lista, er síbyljan um endurnýjun í þingflokkum stjórnmálaflokkanna. Með endurnýjun eiga menn hins vegar eingöngu við yngingu í þingliðinu og tala með nokkurri vandlætingu um að meðalaldur þessa og hins þingflokksins sé nær fimmtugu og hreinlega renna augum til himins ef meðalaldurinn er yfir fimmtugt. “Ungt fólk þarf sína fulltrúa”, er sagt og étur það hver eftir öðrum án þess að rætt sé hvers vegna sú þörf er svo knýjandi. Hafa ekki allir þingmenn um fimmtugt einhvern tíma verið ungir eða eru foreldrar ungs fólks og hafa þar með vott af skilningi á þörfum arftaka sinna? Hins vegar hafa hinir ungu af eðlilegum ástæðum aldrei verið gamlir og skortir tilfinnanlega þekkingu og jafnvel áhuga t.d. á kjörum miðaldra að ekki sé minnst á aldraða. Það er mun meiri hætta á að hagsmunir hinna eldri séu fyrir borð bornir en hinna yngri og því væri rökréttara að krefjast fulltrúa gamals fólks en hins unga. Það gengur hins vegar ekki á tímum óskorinnar æskudýrkunar.
Annað vekur athygli í sambandi við þessa kröfu um fulltrúa ungs fólks og það er hvað sá hópur er eintóna og harla líkur innbyrðis, a.m.k. innan Sjálfstæðisflokksins. Þau mættu fjögur yngstu úr hópi prófkjörskandídata í Silfur Egils fyrir viku, 2 kvenkyns og 2 karlkyns, öll í sams konar jakkafötum, öll eins í háttum og út úr þeim öllum stóð sama frjálshyggjubunan. Þau voru brött og svolítið roggin og báru með sér að hafa gengið í stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins og hlustað á munnræpu Hannesar Hólmsteins. Tolla skyldi afnema og skatta skyldi lækka, en ekkert rætt um velferð og jöfnun lífskjara.
Og nú er niðurstaðan fengin hjá sjálfstæðismönnum í Reykjavík og niðurstaðan er: Upp með stráka, niður með konur! Forystumennirnir eru ekki í vandræðum með að réttlæta útreið kvenfólksins. Þetta snýst ekkert um kynin, sagði Davíð í Kastljósinu fyrir stundu, þetta snýst um einstaklinga. Sólveig stefndi of hátt að ætla sér 3. sætið og lenti í því að berjast um 4. sætið við konur, sem skapaði glufu fyrir Pétur! Jahá, verður sjálfsagt einhverjum á að hugsa án þess að skilja, en ekki orð um það meir, því Davíð hefur talað.
En hvers vegna náðu bara ungu strákarnir árangri, en ekki ungu stúlkurnar? Jú, þeir voru búnir að vinna svo vel og vera svo áberandi, en þær ekki eins, er skýring Davíðs. En bíðum við, er ekki Stefanía Óskarsdóttir búin að vinna vel og vera býsna áberandi? Hefur hún ekki kennt í stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins, verið formaður jafnréttisnefndar flokksins og jafnvel formaður Hvatar, félags sjálfstæðiskvenna? Hefur hún ekki verið þó nokkuð áberandi í útvarps- og sjónvarpsþáttum undanfarin ár á þeim forsendum að hún er þrælmenntaður stjórnmálafræðingur? Hefur hún ekki margsinnis setið á Alþingi sem fyrsti varaþingmaður flokksins á yfirstandandi kjörtímabili? Ójú, allt þetta hefur Stefanía Óskarsdóttir gert og er launað með því að setja hana í 15. sæti. En vel að merkja, hún er 40 ára gömul síðan í ágúst á þessu ári og þannig t.d. heilum 6 árum eldri en Birgir sem fékk 10. sætið.
Er ekki eina raunverulega niðurstaðan sú, að kjósendur Sjálfstæðisflokksins heimta frjálshyggjustráka og ansa ekki neinu jafnréttisþrugli og allra síst náttúruverndartuði Katrínar Fjeldsted? Verði þeim að góðu.