Gegn hernaðinum á hálendinu

Enginn bilbugur er á mótmælendum gegn hernaðinum á hálendinu. Hvern virkan dag safnast fólk saman við styttu Jóns Sigurðssonar á Austurvelli, meðtekur fræðslu af einhverju tagi, ræðir málin, syngur saman.

Hópurinn er mismunandi stór, einn daginn mættu aðeins 20, hinn næsta um 60. Nokkrir koma nánast hvern einasta dag. Þetta er orðið eins og í sundlaugunum á morgnana, ef einhver lætur sig vanta einhvern daginn er farið að velta vöngum yfir hvað geti hafa komið fyrir. Þó má sjá ný andlit á hverjum degi og víst að þeir skipta hundruðum sem einhvern tíma hafa mætt á vaktina. Og félögum fjölgar dag frá degi í Náttúruverndarsamtökum Íslands.

Veðrið er með ýmsu móti eins og geta má nærri, einn daginn rigndi eins og hellt væri úr fötu, en rigningin sú var lóðrétt og hlý og vonandi að enginn hafi kvefast af að þurfa að sitja blautur við skrifborðið það sem eftir var dagsins. Þessa dagana er septemberveðrið sem um hásumar væri.

Náttúrufræðingar hafa frætt hópinn um umhverfisáhrif virkjanaframkvæmda og hagfræðingur um arðsemi eða öllu heldur ekki arðsemi Kárahnjúkavirkjunar. Helgi Hjörvar, fulltrúi borgarinnar í stjórn Landsvirkjunar, kom til okkar í gær og fór yfir stefnu borgarinnar og sína eigin afstöðu og fékk margar spurningar úr hópnum. Hann treysti sér ekki til að svara þeirri spurningu hversu líklegt væri að hans mati að af báðum þessum framkvæmdum yrði. Hvað Kárahnjúkavirkjun varðar sagði hann að það væri allt undir Alcoa komið. Um kvöldið sýndi sjónvarpið myndir af framkvæmdum við Kárahnjúka. Þar rista menn landið í sundur af fullkomnu miskunnarleysi, böðlast á jarðýtum og trukkum yfir ósnortið víðernið og særa það óbætanlegum sárum. Allt þetta án þess að “guðinn” Alcoa hafi sagt sitt síðasta orð.

Í dag sagði Guðrún Ásmundsdóttir leikkona frá Sigríði í Brattholti, konunni sem barðist árum saman gegn sölu og virkjun Gullfoss. Og þótt hún tapaði fyrir dómstólum þá sæmdi þjóðin hana sigri, enda opnaði hún augu margra. Guðrún hafði viðað að sér fróðleik og sögum af Sigríði sem gaman var að heyra og hópurinn varði tvöföldum tíma í góða veðrinu á Austurvelli í dag. Fólk fylltist bjartsýni. Úr því að barátta einnar konu hafði svo mikil áhrif á sínum tíma, því skyldi ekki andóf hundruð manna nú til dags geta skilað árangri til varnar íslenskri náttúru.

Elísabet Jökulsdóttir sem hefur orðið nokkurs konar forsprakki andmælenda í þessari sjálfsprottnu baráttu sagði frá því í dag að nú væri þetta orðið aðalumræðuefni í heita pottinum á morgnana. Oft heyrðist gamla tuggan um það hvað þetta fólk væri að skipta sér af landssvæði sem það hefði fæst einu sinni augum litið. “Ég þarf ekki að sjá í mér hjartað til að vilja verja það”, er svar Elísabetar. Það vefst fyrir flestum að hrekja þann sannleika.