Í Hrunarétt

Þegar ég var krakki skildi ég ekki hvaða gaman fólk hafði af réttunum á haustin. Reyndar man ég ekki til þess að Reykdælingar gerðu nein ósköp úr þessum degi, ég man ekki til þess að þar væri hver maður með fleyg á lofti né heldur að menn hópuðust saman til þess að syngja þegar drætti var lokið eins og fjölmiðlar segja okkur að sé alsiða í hverri einustu rétt. Mig minnir að menn hafi gengið að þessu eins og hverju öðru nauðsynjaverki og rekið síðan umsvifalaust hver sinn hóp til síns heima. En hvernig sem því var varið þá hafði réttardagurinn í Reykjadal á sér blæ angurværðar og jafnvel depurðar í mínum huga, dagurinn þegar féð var svipt frelsi sínu. Ég vissi auðvitað að á þessum tíma ársins réðust örlög ánna og lagðprúðra dilkanna og kveinandi jarmur þeirra fylgdi mér inn í svefninn að réttardegi loknum.

Svo fór ég eitt sinn í réttir Reykvíkinga með strákana mína litla, en það var harla óútskýranleg samkoma, þar sem sást ekki í sauðfé fyrir mannmergð. Síðan hef ég ekki komið í réttir fyrr en í gær að við brugðum okkur í Hrunarétt svona í tilefni þess að við erum orðin jarðeigendur þar um slóðir í félagi við tvær aðrar fjölskyldur. Ég kveið hálfpartinn fyrir, minnug dapurlegrar reynslu minnar frá bernskuárunum, en kannski er ég orðin harðbrjósta með árunum eða kannski raunsærri og skilningsbetri á lífsins gang. Altént var þetta skemmtileg reynsla.

Safnið kom af fjöllum daginn áður, menn giskuðu á um 6 þúsund fjár. Mannfólkið var sennilega ekki mikið færra og spókuðu sig þar m.a. landbúnaðarráðherra og bæði fyrrverandi og núverandi alþingismenn. Það þykir víst vænlegt til atkvæða að sýna sig í réttum. Þeir hafa því nóg að gera þessa dagana meðan réttir standa sem hæst.

Bændur komu til okkar hver af öðrum, sumir reyndar hættir búskap, og hristu höfuðið yfir fækkandi fé, það hefði nú verið eitthvað annað hér áður fyrr þegar menn sóttu 12 – 14 þúsund á fjall í 6 – 7 daga leitum. Enn þurfa menn að smala jafn stórt svæði þótt fénu hafi fækkað um a.m.k. helming. Ekki var rætt um hvort sú þróun væri eðlileg, hvort hún væri góð eða vond. Karlarnir hristu bara höfuð og söknuðu augljóslega umsvifanna sem fylgdu stærra safni, fannst afleitt að vera búnir að draga í sundur um hádegi. Ég sagði það ekki, en auðvitað er þessi þróun góð þegar litið er til þess að afréttirnar þola ekki þennan fjölda sauðfjár og kjötmarkaðir ekki heldur.

Okkur var sagt að börnin hlökkuðu meira til réttanna en sjálfra jólanna! Þau drógu ekki af sér við dráttinn, strákarnir kútveltust í drullunni á réttargólfinu, sem hefði auðvitað verið miklu meiri ef veðrið hefði ekki verið svo einstaklega gott, þurrvirði og a.m.k. 16 stiga hiti. Fólk mundi ekki annað eins. Ég dáðist að dugnaði þessa fólks við féð, ekki síst þegar ég var búin að glíma við að koma einum kröftugum dilk yfir þvera réttina og gat náttúrlega ekki verið þekkt fyrir að láta minn hlut. Lambið var á öndverðri skoðun og barðist svo hart um að ég er öll blá og marin á lærunum eftir horn þess.

Og svo var pelum hampað og raddböndin þanin og öll gamalkunnu lögin bárust vítt um sveitina sem ljómaði við sólu og hlýjum sunnanvindi. Þetta var gaman!