Nýjasta skoðanakönnun um fylgi stjórnmálaflokkanna er Vinstri grænum ekki nógu hagstæð þótt enn sé það ofar fylginu í síðustu kosningum. Könnunin nú sýnir 11% fylgi og hefur ekki mælst lægra síðan í kosningunum 1999 þegar það var 9.1%. Þetta eru mikil umskipti frá fyrri tíð þegar fylgið mældist allt að 30 %, en þróunin hefur verið á þessa leið síðustu vikurnar.
Ástæðurnar geta verið af ýmsum toga, en nærtækast er að kenna um sviðsljósinu sem síðustu vikur hefur nánast eingöngu skinið á persónur, en minna á málefni. Fjölmiðlar hafa verið uppteknir af prófkjörum og röðun á lista þar sem á ýmsu hefur gengið og tæpast hægt að segja að “..í góðsemi vegur þar hver annan”. Fjölmiðlar meta það örugglega rétt að þessi áflog falla í kramið hjá afar mörgum, jafnvel þeim sem annars hafa lítinn áhuga á stjórnmálum. Tilgangslaust er að ergja sig yfir því, heldur verður að bíta á jaxlinn og bíða af sér þetta gjörningaveður. Það hvarflar satt að segja ekki eitt andartak að mér að Vinstri grænir bæti ekki við sig fylgi þegar skiptir um átt og menn fara að takast á um málefni.
Vissulega blasir við annar veruleiki nú en í upphafi starfsemi Vinstri grænna. Aðstæður eru allt aðrar, að sumu leyti auðveldari, að öðru leyti ekki. Kannski skortir ögn á gamanið sem var svo ríkt í upphafi. Það er svo gaman að skapa og móta eitthvað nýtt, gaman að klæða hugsjónir í nýjan búning, gaman að ryðjast fram á leikvöllinn með nýja leikfléttu og nýja liðsmenn. Orð eins og “gaman” og “skemmtilegt” heyrðust oft í kosningabaráttu Vinstri grænna fyrir kosningarnar í maí 1999. Og það voru orð að sönnu. Ekki þó alltaf. Byrjunin var erfið og það var eins og aldrei ætlaði að takast að koma mönnum í skilning um hvers konar stjórnmálaafl væri hér á ferð. Svo gerðist það næstum eins og allt í einu að virkilega tók að blása í seglin. Og þá var gaman og Vinstri grænir fögnuðu sigri þetta vor með sex fulltrúa á Alþingi.
Þingmenn Vinstri grænna hafa sýnt mikinn dugnað og harðfylgi á kjörtímabilinu. Slík hefur eljan verið að margir halda að þingflokkurinn telji frekar 12 þingmenn en sex. Stefna og athafnir ríkisstjórnarinnar hafa kallað á harða stjórnarandstöðu sem Vinstri grænir hafa ekki skirrst við að veita og oftast langt umfram það sem aðrir þingflokkar stjórnarandstöðunnar hafa getað eða viljað. Oft hefur ráðherra og stjórnarliða sviðið undan gagnrýni og aðhaldi Vinstri grænna og brugðist við með ergilegum yfirlýsingum að þeir séu bara alltaf á móti. Ef til vill hefur þeim tekist að koma neikvæðum stimpli á Vinstri græna sem í upphafi höfðu á sér yfirbragð hins jákvæða uppbyggilega afls. Þann sess þarf að vinna aftur.