Í hátt á annan mánuð hefur fjöldi fólks látið til sín taka í baráttunni fyrir verndun íslenskrar náttúru, baráttunni gegn hrikalegustu náttúruspjöllum af manna völdum sem nokkru sinni hafa verið áformaðar á hálendi Íslands, þ.e. Kárahnjúkavirkjun og skerðingu Þjórsárvera.
Það er reyndar umhugsunarvert hvað fjölmiðlar hafa kosið að sniðganga þessar aðgerðir. Hildur Rúna Hauksdóttir tók það til bragðs að svelta sig til þess að vekja athygli á málstaðnum og m.a.s. um það þögðu íslenskir fjölmiðlar að mestu. Hins vegar tóku fjölmiðlar í útlöndum rækilega við sér og afleiðingarnar eru þessa dagana að koma í ljós: Mótmælaskeytunum rignir nú yfir Alcoa frá sárhneyksluðu fólki víða að úr heiminum og í dag bárust fréttir af því að efnt yrði til mótmæla við höfuðstöðvar Alcoa í Sviss.
Í hádeginu hvern virkan dag hittist fólk á Austurvelli, hlýðir á erindi, tónlist, upplestur og fréttir úr baráttunni. Það þjappar sér saman, syngur saman og hrópar saman. Mismunandi margir mæta, allt frá 20 til 100 manns og jafnvel 300 eins og daginn sem Alþingi var sett. Á 50. degi mótmælanna var dúkað borð á Austurvelli og hlaðið krásum til að næra munn og maga um leið og baráttuandann. Ekki sáu fjölmiðlar ástæðu til að birta fréttir af þeim myndræna atburði né heldur að fjalla um þessa ótrúlegu þrautseigju.
Hvern laugardag frá kl. 14 – 18 fyllist efri hæðin á Grand Rokk af fólki sem kemur til fræðslu- og baráttufundar. Flutt hafa verið frábær fræðsluerindi um náttúruna í hálendi Íslands, um Þjórsárverin og um áhrif Kárahnjúkavirkjunar, ef af henni verður. Nægir að nefna þar Sigrúnu Helgadóttur, Hilmar Malmquist, Þóru Ellen Þórhallsdóttur, Hafdísi Hönnu Ægisdóttur og Guðmund Sigvaldason. Umræður eru alltaf miklar og frjóar, og inn á milli skemmtir fjöldinn allur af frábæru listafólki.
Einnig hafa hagfræðingarnir Þorsteinn Siglaugsson og Sigurður Jóhannesson flutt erindi um fjárhagslegar forsendur fyrir þessu risavaxna verkefni sem Kárahnjúkavirkjun er og fært ákaflega sannfærandi rök fyrir því hvílíkt glapræði það væri að fara út í slíkt. Framkvæmdin mundi kosta á annað hundrað milljarða króna og að mati fjölmargra fjármálaspekinga getur sú fjárfesting aldrei borgað sig. Í það minnsta er áhættan svo mikil að ekkert fyrirtæki á samkeppnismarkaði legði út í slíka fjárfestingu. Landsvirkjun hins vegar nýtur verulegra styrkja frá þjóðinni eða öllu heldur ríkinu, og það eru þessir styrkir sem gera Landsvirkjun kleift að reikna út hagnað af framkvæmd á borð við Kárahnjúkavirkjun eða í það minnsta ekki tap. Landsvirkjun greiðir nefnilega hvorki tekjuskatta né eignaskatta og hún nýtur ábyrgðar ríkisins, Reykjavíkurborgar og Akureyrar á öllum sínum lántökum. Þá má heldur ekki gleyma því að Landsvirkjun metur ekki landið sem fer undir framkvæmdir inn í útreikninga sína og nýtur þar fulltingis ráðamanna. Öll þessi hlunnindi má meta til styrkja upp á tugi milljarða, þegar um Kárahnjúkavirkjun er að ræða.
Þeir Þorsteinn og Sigurður eru ekki einu fjármálaspekingarnir sem hafa gagnrýnt þessi áform og varað eindregið við þessu glapræði. Og þegar ég var að hlusta á Sigurð á Grand Rokk í dag og heyrði hvað honum fannst þetta víðáttuvitlaus hugmynd og hversu gríðarlegir fjármunir væru í húfí og ég minntist þess hversu oft ég hafði heyrt eða lesið viðvaranir atvinnumanna í fjármálum, þá greip það mig si svona hversu stórkostlegt það væri ef þessir fjármálaspekingar tækju sig saman og mótmæltu kröftuglega svipað og við náttúruverndarsinnar höfum verið að gera. Væri það ekki frábært ef þeir t.d. stilltu sér upp við stjórnarráðshúsið með reiknivélar og stresstöskur og mótmælaspjöld gegn Kárahnjúkavirkjun dag hvern kl. 13.00 og syngju saman “Í dag er ég ríkur, í dag vil ég gefa”? Ætli það yrði ekki skrýtið upplitið á stjórnarliðinu!