Undanfarna daga hefur hópur fólks komið saman á Austurvelli kl. 12 á hádegi hvern virkan dag til að mótmæla skemmdarverkum stjórnvalda á hálendi Íslands. Þetta er lítt skipulögð aðgerð áhugasamra einstaklinga sem vilja sýna hug sinn til fyrirhugaðrar virkjunar við Kárahnjúka og áætlaðs Norðlingaöldulóns sem stefnir Þjórsárverum í voða. Þarna hafa komið saman 40 til 90 manns, sumir á hverjum degi, aðrir sjaldnar. Fólk stendur þarna saman í 15-20 mínútur og syngur gjarna eitt eða tvö lög við texta sem hæfa tilefninu.
Það stórkostlega er að þetta er algjörlega sjálfsprottin aðgerð beint úr grasrótinni. Engin samtök standa þarna að baki, aðeins einstaklingar með heitar tilfinningar gagnvart Móður náttúru sem á er ráðist nú sem aldrei fyrr. Í dag var Guðmundur Páll Ólafsson náttúrufræðingur meðal mótmælenda og lýsti fyrir okkur reynslu sinni um síðustu helgi þegar hann fór með hópi fólks, mestmegnis ungum Austfirðingum, að athafnasvæðinu við Kárahnjúka. Þar er nú verið að ryðja fyrir vegi til undirbúnings virkjanaframkvæmdum og líklegt að ýtustjóranum hafi ekki liðið alltof vel þegar Guðmundur og félagar stungu niður litlum íslenskum fánum í vegarstæðið og allt í kringum ýtuna.
Það gladdi mig einnig að sjá nokkur af þeim sem lögðu hvað mest af mörkum þegar við haustið 1999 söfnuðum um 45 þúsund undirskriftum undir kröfu um lögformlegt mat á umhverfisáhrifum vegna Fljótsdalsvirkjunar. Ekki er vafi í mínum huga að sú aðgerð varð til þess að hætt var við þá virkjun sem hefði eyðilagt Eyjabakkana. Það reyndist þó skammgóður vermir þar sem stjórnvöld sneru sér af þeim mun meiri ákafa að undirbúningi Kárahnjúkavirkjunar sem hafa mun ennþá umfangsmeiri eyðileggingu í för með sér.
Það vildi svo til í dag að ég var búin að lofa að taka á móti tveimur Falun Gong iðkendum sem eru hér á landi núna að freista þess að fylgja eftir mótmælum sínum í tengslum við opinbera heimsókn Jang Zhemin í júní sl. Þau krupu við íhugun sína skammt frá mótmælendahópnum við styttu Jóns Sigurðssonar og voru altént ekki niðursokknari en það að þau höfðu sannarlega tekið eftir “kórnum” og var ekki laust við öfund í viðbrögðum þeirra þegar ég skýrði fyrir þeim hvað við vorum að gera. Og ekki að undra hjá fólki sem leyfist ekki að tjá hug sinn og halda fram skoðunum sínum án þess að eiga á hættu ofsóknir og illa meðferð kínverskra stjórnvalda. Orðaskipti okkar vöktu mig til þeirrar hugsunar að víst værum við lánsöm hér að geta tjáð hug okkar og skoðanir án þess að eiga á hættu líkamlegt ofbeldi af versta tagi. Engu að síður er ljóst að jafnvel hér á Íslandi er fjöldi fólks sem skirrist við að segja hvað sem er beinlínis af ótta við afleiðingar þess að vera andsnúinn stefnu ráðandi afla í þjóðfélaginu.
Hvað sem því líður halda mótmælin gegn eyðileggingunni á hálendinu áfram. Þar sem þetta er sjálfsprottin og óskipulögð aðgerð er framhaldið ekki fastmótað, en samkvæmt síðustu fréttum verður þessum mótmælum mjög líklega haldið áfram daglega út þennan mánuð og reynt að láta duglega til sín taka 1. október þegar Alþingi verður sett. Verið er að undirbúa kvæðalestur og stutt erindi næstu daga.
Allir sem vilja andæfa þessum framkvæmdum ættu að koma að fótskör Jóns Sigurðssonar á Austurvelli kl. 12 – 12.15 á morgun og næstu daga eftir því sem þeir hafa tök á. Því fleiri sem láta sjá sig þeim mun betra. Samstaðan gildir.