Heitar tilfinningar á Austurvelli

Undanfarna daga hefur hópur fólks komið saman á Austurvelli kl. 12 á hádegi hvern virkan dag til að mótmæla skemmdarverkum stjórnvalda á hálendi Íslands. Þetta er lítt skipulögð aðgerð áhugasamra einstaklinga sem vilja sýna hug sinn til fyrirhugaðrar virkjunar við Kárahnjúka og áætlaðs Norðlingaöldulóns sem stefnir Þjórsárverum í voða. Þarna hafa komið saman 40 til 90 manns, sumir á hverjum degi, aðrir sjaldnar. Fólk stendur þarna saman í 15-20 mínútur og syngur gjarna eitt eða tvö lög við texta sem hæfa tilefninu.

Það stórkostlega er að þetta er algjörlega sjálfsprottin aðgerð beint úr grasrótinni. Engin samtök standa þarna að baki, aðeins einstaklingar með heitar tilfinningar gagnvart Móður náttúru sem á er ráðist nú sem aldrei fyrr. Í dag var Guðmundur Páll Ólafsson náttúrufræðingur meðal mótmælenda og lýsti fyrir okkur reynslu sinni um síðustu helgi þegar hann fór með hópi fólks, mestmegnis ungum Austfirðingum, að athafnasvæðinu við Kárahnjúka. Þar er nú verið að ryðja fyrir vegi til undirbúnings virkjanaframkvæmdum og líklegt að ýtustjóranum hafi ekki liðið alltof vel þegar Guðmundur og félagar stungu niður litlum íslenskum fánum í vegarstæðið og allt í kringum ýtuna.

Það gladdi mig einnig að sjá nokkur af þeim sem lögðu hvað mest af mörkum þegar við haustið 1999 söfnuðum um 45 þúsund undirskriftum undir kröfu um lögformlegt mat á umhverfisáhrifum vegna Fljótsdalsvirkjunar. Ekki er vafi í mínum huga að sú aðgerð varð til þess að hætt var við þá virkjun sem hefði eyðilagt Eyjabakkana. Það reyndist þó skammgóður vermir þar sem stjórnvöld sneru sér af þeim mun meiri ákafa að undirbúningi Kárahnjúkavirkjunar sem hafa mun ennþá umfangsmeiri eyðileggingu í för með sér.

Það vildi svo til í dag að ég var búin að lofa að taka á móti tveimur Falun Gong iðkendum sem eru hér á landi núna að freista þess að fylgja eftir mótmælum sínum í tengslum við opinbera heimsókn Jang Zhemin í júní sl. Þau krupu við íhugun sína skammt frá mótmælendahópnum við styttu Jóns Sigurðssonar og voru altént ekki niðursokknari en það að þau höfðu sannarlega tekið eftir “kórnum” og var ekki laust við öfund í viðbrögðum þeirra þegar ég skýrði fyrir þeim hvað við vorum að gera. Og ekki að undra hjá fólki sem leyfist ekki að tjá hug sinn og halda fram skoðunum sínum án þess að eiga á hættu ofsóknir og illa meðferð kínverskra stjórnvalda. Orðaskipti okkar vöktu mig til þeirrar hugsunar að víst værum við lánsöm hér að geta tjáð hug okkar og skoðanir án þess að eiga á hættu líkamlegt ofbeldi af versta tagi. Engu að síður er ljóst að jafnvel hér á Íslandi er fjöldi fólks sem skirrist við að segja hvað sem er beinlínis af ótta við afleiðingar þess að vera andsnúinn stefnu ráðandi afla í þjóðfélaginu.

Hvað sem því líður halda mótmælin gegn eyðileggingunni á hálendinu áfram. Þar sem þetta er sjálfsprottin og óskipulögð aðgerð er framhaldið ekki fastmótað, en samkvæmt síðustu fréttum verður þessum mótmælum mjög líklega haldið áfram daglega út þennan mánuð og reynt að láta duglega til sín taka 1. október þegar Alþingi verður sett. Verið er að undirbúa kvæðalestur og stutt erindi næstu daga.

Allir sem vilja andæfa þessum framkvæmdum ættu að koma að fótskör Jóns Sigurðssonar á Austurvelli kl. 12 – 12.15 á morgun og næstu daga eftir því sem þeir hafa tök á. Því fleiri sem láta sjá sig þeim mun betra. Samstaðan gildir.

“Ríðum, ríðum, rekum yfir sandinn”

Ekki get ég ímyndað mér betra ráð en hestaferð til að gleyma öllum heimsins vandamálum, smáum og stórum. Allur fréttaþorsti hverfur út í buskann, hljóðvarp, sjónvarp og blöð tilheyra annarri veröld. Jafnvel skammsýni stjórnmálamanna og skemmdarverk á hálendinu að þeirra undirlagi víkur burt úr huganum meðan þeyst er um grundir, fetað eftir hraungötum og flogið eftir fjörusöndum. Í áningarstað er rætt um hesta og hestaferðir, rifjuð upp atvik dagsins, brandararnir fljúga og söngvarnir hljóma við gítarundirspil. Áhyggjur og leiðindi eru víðs fjarri.

Dagana 23. – 31. ágúst fórum við 20 saman hina árlegu haustferð með Bjarna Eiríki Sigurðssyni, margreyndum hestamanni og skólastjóra reiðskólans Þyrils í Víðidal. Þetta mun vera sjötta ferð okkar hjóna með Bjarna á þessar sömu slóðir, þ.e. Löngufjörurnar á Snæfellsnesi. Leiðin er orðin kunnugleg, en þó hefur hver ferð sitt svipmót, sem markast af veðri, ferðafélögum og uppákomum af ýmsu tagi. Og alltaf eru einhverjir nýliðar í hópnum sem skila sinni eigin upplifun til okkar hinna sem þykjumst orðin nokkuð roskin og reynd. Við köllum þetta “Rökkurreið á Löngufjörum” og hópurinn nefnist “Vanir menn”, þótt því fari reyndar fjarri að allir séu “vanir” í upphafi ferðar. Þeir eru hins vegar orðnir það í ferðalok, sjálfum sér til undrunar og ánægju.

Veðrið var okkur hliðhollt að mestu þvert á allar spár. Reyndar rigndi víst upp á hvern dag, en sjaldnast þegar við vorum á ferð, og svo var hlýtt að vætan gerði okkur ekkert. Einn dag þurftum við þó að vera um kjurt vegna veðurhæðar þar sem við vildum ekki hætta á að léttustu knaparnir fykju af fákum sínum, auk þess sem það getur verið allerfitt að tjónka við lausu hrossin í miklum vindi. Er það í fyrsta skipti í öllum mínum hestaferðum sem veður hefur sett slíkt strik í reikninginn.

Alltaf má búast við einhverjum háska í svona ferðum og því er svolítil spenna í þátttakendum við vissar aðstæður. Sjálfri er mér alltaf hálfilla við að fara yfir gömlu bogabrúna yfir Hvítá og fegin þegar sá háski er að baki. Þá er ekki alveg hættulaust að fara yfir þjóðveg eitt sem við þurfum að gera einu sinni og verðum þá að reiða okkur á tillitssemi bílstjóra sem eru ekki allir jafn velviljaðir í garð hestamanna. Á mótum lands og fjöru leynast einnig víða hættur, sandbleytur og drullupyttir, auk þess sem sæta þarf sjávarföllum til að komast hjá sundreið yfir árnar sem renna þarna í sjó fram.

Mörgum finnst reyndar spennandi að sundríða, en það er ekki skynsamlegt með fjölda lausra hrossa í för. Í þetta sinn lentum við fimm okkar óvart á hrokasund í Búðarósnum og sluppum þokkalega frá því þrátt fyrir árekstra og óðagot. Það hefði verið gott að geta stansað og a.m.k. hellt úr stígvélunum og undið vettlingana, en til þess gafst ekki tóm þar sem lausu hrossin komu á fullri ferð yfir ósinn og beint niður á fjörurnar. Þeim urðum við að fylgja og stýra rétta leið heim að Görðum. Þar fór ca. hálfur lítri af sjó úr hvoru stígvéli á hlaðið hjá Svövu og Símoni. Allt fór þetta vel og gott var í dagslok að liggja vel og lengi í heita pottinum á Lýsuhóli.

Þetta reyndist síðasti dagurinn á hestbaki að þessu sinni. Veðrið magnaðist upp um kvöldið, það hvessti bæði og kólnaði. Vindurinn gnauðaði, regnið lamdi rúður og hestarnir röðuðu sér undir skjólgarðinn meðan knapar hentu gaman hver að öðrum fyrir óvænta sundreið, fall af baki, eltingaleik við óþæga hesta og annað í þeim dúr. Við sungum hvert lagið af öðru og ekki alltaf einum rómi. En í miðju kafi birtist Svava, húsfreyjan í Görðum, og sagði okkur að Ítalir sem sætu að snæðingi í borðstofunni væru hinir ánægðustu með “dinnermúsíkina”. Við færðumst í aukana við hólið og tókum “Volare” fyrir aðdáendur okkar sem birtust þá í gættinni og klöppuðu okkur lof í lófa. Daginn eftir leituðu þeir ráða hjá húsráðendum hvar þeir gætu nálgast geisladisk með eitt af þessum skemmtilegu lögum sem “kórinn” hefði sungið, og það var að sjálfsögðu “Ríðum, ríðum, rekum yfir sandinn”.

Sem þruma úr heiðskíru lofti

Skipulagsstofnun birti úrskurð sinn um Norðlingaöldumiðlun í gær, 13. ágúst, og er óhætt að segja að niðurstaðan kom sem þruma úr heiðskíru lofti. Ljóst er að hvers kyns rask á þessum slóðum er hættulegt lífríki Þjórsárvera sem er alþjóðlega mikilvægt votlendi á Ramsarskrá og lýst friðland síðan 1981. Bæði Þjórsárveranefnd og Náttúruvernd ríkisins höfðu í ítarlega rökstuddum umsögnum hafnað öllum hugmyndum Landsvirkjunar um miðlunarlón sem gengju á Þjórsárverin og því bjuggust flestir við að Skipulagsstofnun kæmist að sömu niðurstöðu. Í úrskurðinum fellst hins vegar stofnunin á tvo kosti miðlunar, annars vegar með lónshæð í 575 metrum og hins vegar í 578 metrum, að uppfylltum vissum skilyrðum. Reyndar var síðari kosturinn ekki settur fram í matsskýrslu Landsvirkjunar öðru vísi en til viðmiðunar og kemur því sérstaklega á óvart að Skipulagsstofnun skuli tiltaka þann kost í niðurstöðu sinni.

Eins og vænta mátti vekur úrskurður Skipulagsstofnunar misjöfn viðbrögð. Náttúruverndarsinnar eru undrandi og vonsviknir, en virkjanasinnar telja sig þess umkomna að hrósa happi. Ekki er þó útséð um málið á þessu stigi og rétt að hafa í huga að bæði Náttúruvernd ríkisins og sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps þurfa að veita leyfi fyrir framkvæmdum. Verður að vona í lengstu lög að til þessara framkvæmda komi ekki. Svo alvarleg atlaga að friðlandinu í Þjórsárverum væri áfall fyrir náttúruvernd í landinu og mundi skaða orðstír lands og þjóðar.

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sendi í dag frá sér eftirfarandi ályktun:

“Þjórsárverum ógnað

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs lýsir mikilli undrun og vonbrigðum með úrskurð Skipulagsstofnunar um Norðlingaöldumiðlun. Niðurstaðan er í raun óskiljanleg með tillliti til allrar umfjöllunar í úrskurðinum þar sem ítrekað kemur fram að framkvæmdir við Norðlingaöldumiðlun muni hafa í för með sér veruleg óafturkræf umhverfisáhrif. Það er einnig álit Þjórsárveranefndar og Náttúruverndar ríkisins sem Skipulagsstofnun ber að styðjast við.

Það vekur ugg að Þjórsárverum, einni mestu gersemi í íslenskri náttúru, skuli nú enn og aftur ógnað af ásælni virkjanasinna. Þjórsárverin eru einstök gróðurvin í hálendi Íslands. Þau voru lýst friðland árið 1981 og tekin á Ramsarskrá árið 1990 sem alþjóðlega mikilvægt votlendi. Það er mat þingflokks Vg að ekki komi til álita að fórna Þjórsárverum, enda væri slíkt sannarlega skref aftur á bak. Verin hafa notið friðlýsingar í rúm 20 ár og nær væri að viðhalda framsýni þeirra sem að því stóðu og stækka friðlandið svo að umfang þess verði í samræmi við landfræðilegar og vistfræðilegar forsendur. Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hefur lagt sitt af mörkum í þeim efnum með því að flytja tillögu til þingsályktunar um stækkun friðlandsins og er það í samræmi við vilja heimananna, sem hafa í drögum að aðalskipulagi Gnúpverjahrepps lagt til slíka stækkun.

Þá vill þingflokkurinn minna á bráðabirgðaniðurstöðu tilraunamats rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, en þar er náttúruverndargildi Þjórsárvera staðfest og svæðið lýst eitt mikilvægasta náttúruverndarsvæði hálendisins. Þessi niðurstaða kemur heim og saman við umsögn Náttúruverndar ríkisins um fyrirhugaðar framkvæmdir og vill þingflokkur Vg lýsa yfir nauðsyn þess að stjórnvöld hraði gerð náttúruverndaráætlunar og slái öllum framkvæmdaáformum á hálendi Íslands á frest þar til slík áætlun liggur fyrir ásamt fullbúinni rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Þingflokkur Vg minnir á að þessu máli er ekki lokið og hvetur alla náttúruverndarsinna til að láta til sín taka. Vinstrihreyfingin – grænt framboð mun berjast fyrir verndun Þjórsárvera og stækkun friðlandsins þar af öllu afli bæði utan þings og innan.

Sú þjóð sem ekki hefur efni á að varðveita Þjórsárver til framtíðar er illa stödd.”

Glímt við kraftinn í Jökulsá

Stjórnmálastarfsemi er margþætt og margvísleg og hreint ekki eingöngu fólgin í fundahöldum, átökum og málamiðlunum eins og margir virðast halda. Hún er líka fólgin í samstarfi og samskiptum skoðanasystkina, ræktun kunningsskapar og vináttu.

Sumarferðir stjórnmálaflokkanna eru dæmi um slíkt.

Vinstri grænir hafa frá upphafi boðið upp á sumarferðir og hafa af því góða reynslu. Þótt aðaltilgangurinn sé að stefna saman fólki til aukinna kynna og ánægjulegrar samveru hafa þessar ferðir oftast tengst ákveðnum þáttum í stefnu VG. Þannig var eitt sinn efnt til ferðar um Eyjabakkana og svæðið kringum Kárahnjúka til þess að kynnast þeim svæðum sem best. Í fyrrasumar fór stór hópur í ferðalag um Þjórsárverin og hélt þar áhrifamikinn fund undir berum himni sem þátttakendum gleymist áreiðanlega seint. Sú stund rifjast væntanlega rækilega upp fyrir þátttakendum um þessar mundir þegar furðufregnir berast af úrskurði Skipulagsstofnunar um Norðlingaölduveitu.

Sumarferð VG nú í ár var 9. – 11. ágúst sl. Fyrir valinu að þessu sinni varð Skagafjörður þar sem félagar okkar gerðu garðinn frægan í sveitarstjórnarkosningunum í vor og enn frekar festu þeir sig á spjöld sögunnar eftir kosningar þegar þeir í félagi við Sjálfstæðismenn lýstu sig andvíga áformum um virkjun við Villinganes.

Ferð Vinstri-grænna tókst í alla staði einkar vel og áttu heimamenn ríkan þátt í því að hún mun lengi lifa í minni þátttakenda. Gist var í Lauftúni hjá sómahjónunum Indiríði og Jósafat, ýmist í tjöldum eða undir þaki. Þangað komu félagar víða að og áttu saman góðar stundir við náttúruskoðun og aðra afþreyingu. Heimamenn fylgdu okkur um héraðið og sátu veislu með okkur um kvöldið í hlöðunni í Lauftúni, þar sem margt var skrafað og enn meira sungið.

Laugardeginum var varið í stórbrotinni náttúru héraðsins, m.a. í mögnuðu umhverfinu að Merkigili sem sker sig austur úr Austurdalnum. Þar eru aðstæður slíkar að maður veltir því fyrir sér í undrun hvernig fólk hefur tekist á við lífsbaráttuna á þessum slóðum þar sem búið var til skamms tíma. Þá skoðuðum við svæði hinnar áformuðu Villinganesvirkjunar og sannfærðumst endanlega um réttmæti þeirrar afstöðu sveitarstjórnar Skagafjarðar að leggjast gegn þeim framkvæmdum. Og enn frekar sannfærðumst við sem fórum í flúðasiglingu síðar um daginn, en það er fullkomlega ólýsanleg reynsla og afar skemmtileg þrátt fyrir nokkra vosbúð. Glíman við kraftinn í ánni er einstök tilfinning og stórkostlegt að skoða gilið frá þessu sjónarhorni. Hrollinum var bægt frá í heita pottinum að lokinni siglingu og svo endanlega í söng og dansi um kvöldið.

Margt situr eftir í huganum að lokinni þessari skemmtilegu heimsókn í Skagafjörðinn og víst er að marga fýsir að koma þangað aftur og dvelja lengur við allt það fjölmarga sem sjá má og reyna á þessum slóðum. Skagfirðingar eru sem óðast að efla ferðaþjónustu í héraðinu og eiga þar marga góða kosti, þar er mikil og fjölbreytileg náttúrufegurð og söguleg minni á nánast hverri þúfu. Og þar er margt í boði til afþreyingar. Nægir að nefna Drangeyjarferðir, veiðiferðir, hestaferðir, vélsleðaferðir, skíðaferðir og gönguferðir, að því ógleymdu að líklega eru hvergi betri aðstæður til flúðasiglinga en í jökulsánum tveimur sem eiga báðar upptök sín í Hofsjökli og brjóta sér leið gegnum tilkomumikil gljúfur Austurdals og Vesturdals. Flúðasiglingar hafa slegið í gegn á síðustu árum sem afþreyingarkostur í ferðaþjónustu, og allt um það sérstaka fyrirbæri gátu lesendur Morgunblaðsins lesið í sunnudagsblaðinu 11. ágúst sl. Þar kom skýrt fram að sú ákvörðun nýrrar sveitarstjórnar Skagafjarðar að koma í veg fyrir virkjun við Villinganes á sér dygga fylgjendur innan ferðaþjónustunnar, ekki aðeins í Skagafirði, heldur um land allt.

Þeir sem völdu að ferðast saman í rútu norður Kjöl á föstudag og suður Sprengisand á sunnudag fengu extra skemmtun og reynslu. Á leið norður Kjöl nutum við m.a leiðsagnar Þorsteins Ólafssonar og Steingríms J. Sigfússonar og erum nú ekki aðeins fróðari um landslagið og söguna, heldur einnig um landbúnaðarmál bæði sunnan og norðan jökla. Ekki fékkst þó niðurstaða í það mikilvæga ágreiningsmál hvort sunnlenskt eða norðlenskt sauðfé væri hvítara og vænna.

Stórkostlegt var að aka fram Vesturdalinn á sunnudaginn og þaðan upp á Sprengisand, bregða sér í laugina í Laugafelli, æja í Nýjadal, virða fyrir sér útsýnið af Kistuöldu til Hágöngufjallanna á aðra hlið og Hofsjökuls á hina þar sem Arnarfell hið mikla vakir yfir Þjórsárverum. Leiðin þaðan niður í byggð er vörðuð virkjunum og stjórnaði sú staðreynd umræðum það sem eftir lifði ferðar.

Dansað í kringum gullkálfinn

Gullsólgna þjóð við gömul afreksminni

Geturðu unað sátt við örlög slík

að vera fátæk þegar þú ert rík

þú sem varst áður rík í fátækt þinni.

Ég vona að ég muni rétt þetta vers úr einu af kvæðum frænda míns, Braga Sigurjónssonar. Versið það arna hefur sótt á huga minn að undanförnu vegna sífelldra áfloga um stofnfjárhluti og stofnfjáreigendur, hlutabréf, fjárfestingar og valdatauma í fjármálastofnunum. Maður hefur svo sem oft áður fylgst agndofa með átökum á milli fjármagnseigenda, átökum um hluti sem eru líklegir til að skila gróða, átökum um yfirráð í hinu og þessu fyrirtækinu. Nú tekur þó út yfir allan þjófabálk. Og það er einkennilegt að upplifa vandræðaganginn í viðskiptaráðherra sem situr með hendur í skauti og horfir ráðalaus á atganginn í þeim sem skilmast um SPRON.

Oft eru þessir fjármálabraskarar sömu mennirnir og þeir sem spyrja með þjósti “Á hverju á þjóðin eiginlega að lifa?”, þegar fólk leyfir sér að andæfa gegn hernaðinum í náttúru landsins. Allt þarf að vera stórt og mikið og dýrt og auðvitað umfram allt strax, annars tekur einhver annar bitann frá þjóðinni eða hún hrökklast aftur inn í torfbæina. Málflutningurinn er ekki rismikill. Og peningavaldinu er blygðunarlaust beitt til að koma sínu fram.

Baráttan um SPRON minnir náttúrlega helst á margtilvitnaðan dans í kringum gullkálf og aðalpersónurnar verka dálítið eins og grínistar. Það hvarflar jafnvel að manni að þeir hafi af skömmum sínum hrundið þessari atburðarás af stað, þeir hafi velt fyrir sér veikleikanum í nýsettum lögum um sparisjóðina og ákveðið að hafa sem flesta að fíflum, ráðherra, alþingismenn, sparisjóðsstjóra og allt heila gillið og spila í leiðinni á peningafíkn stofnfjáreigenda. Skítt með hugsjónir. Ef málið væri ekki í raun grafalvarlegt væri oft og lengi hægt að hlæja að leikverkinu.

Það ku vera mikil kúnst að láta fjármagnið vinna fyrir sig. Blessunarlega eru margir óttalega gamaldags og langar ekki að læra þá kúnst. Síaukin peningahyggja í þessu litla samfélagi okkar er að skekkja kúrsinn á þjóðarskútunni. Og reyndar ekki bara peningahyggjan, heldur einnig sívaxandi einstaklingshyggja og yfirborðsmennska á kostnað samkenndar og samhjálpar. Verðmætamatið er brenglað, lífsgildin á leið út í móa. Þjóðin kann ekki að vera rík, hún sem var áður rík í fátækt sinni.

Hófatak dynur enn í eyrum

Sumarferð Fáks lauk í Skógarhólum á Þingvöllum föstudaginn 26. júlí sl. Á ýmsu gekk þessa 10 daga sem ferðin stóð og það tekur tímann sinn að venjast hversdagslífinu á nýjan leik. Hófatakið dynur enn í eyrum að ekki sé nú minnst á hrotukór knapanna um nætur sem varið var í fjallaskálum, gömlum bæjarhúsum eða félagsheimilum. Maður saknar þess jafnvel að þurfa ekki að velta fyrir sér alvarlegum vandamálum að morgni dags eins og þeim hvort reiðskórnir og úlpan séu orðin þurr, hvort veðrið kalli á síðar nærbuxur, ull og flís, og hvaða hest maður eigi að taka fyrsta legginn.

Ferðin hófst 17. júlí að Súlunesi í Melasveit. Hellirigning var þegar Fáksmenn tíndust í hlað og hrollur í á annað hundrað hestum sem voru auk þess órólegir innan um þennan fjölda ókunnugra hesta. Það var því eins og við manninn mælt að í stað þess að lesta sig pent og virðulega í upphafi hentist stóðið út um öll tún og sjávarbakka og virtist hluti hrossanna hreinlega ætla að leggja til sunds yfir álinn til Akraness. Ekki er hægt að segja að settlega hafi verið riðið þennan daginn, en allt hafðist þetta að lokum og um nóttina bitu þeir haga á Ytri-Skeljabrekku.

Næsta dag var riðið að Skjólbrekku og gekk vel í ágætu veðri og engar víðáttur til að trylla lausu hrossin. Daginn eftir tóku þau hins vegar heldur betur til fótanna um grasi gróna víðlenda bakka á leiðinni í Álftanes, þaðan svo um frábærar fjörur langleiðina að Álftárósi þar sem þeim var komið í haga. Leiðsögumaður okkar, Sigursteinn í Skjólbrekku, var svolítið gáttaður á fjörinu í þessum hestum okkar og minnist ég þess þegar þeir stöðvuðust loks á girðingu á bökkunum að hann vatt sér af baki og sagði: “Ja, þetta var fljótfarinn áfangi!”

Fjórða daginn var svo farið á fjöru út í Hjörsey, riðið um hana, heilsað upp á húsfreyjuna á þessari þriðju stærstu eyju við Ísland og fákarnir teknir til kostanna í fjörunum á bakaleiðinni. Eftirminnileg heimsókn þótt skyggni væri lítið.

Fimmta daginn var riðið upp í Grímsstaði þar sem alltaf er jafn fallegt og gott að koma. Það setti skugga á daginn að einn knapanna fékk óþyrmilega á baukinn þegar hesturinn hans rykkti upp hausnum svo að losnaði um tennur og urðum við að sjá af félaga okkar í bæinn til aðgerðar sem vonandi verður til þess að hann haldi öllum sínum tönnum. Þennan dag súldaði og rigndi jafnvel nokkuð svo að allir ofnar og naglar á Grímsstöðum voru vel þegnir. Merkilegt hvað þetta gamla hús tekur við mörgu fólki og hvað það þolir þegar mannskapurinn syngur og stappar og dansar svo að gólf svigna.

Sjötta daginn riðum við sérlega fallega leið inn að Langavatni í yndislegu veðri sem hafði góð áhrif á lausu hrossin, það vill alltaf koma í þau sperringur í þræsingi. Skálinn við Langavatn er ágætur þótt hann sé of lítill fyrir svona stóran hóp, en margir höfðu meðferðis tjöld og leystu málið þannig. Verra var að hestagerðið er mestan part útvaðin drulla.

Við höfðum ekki nóg að éta fyrir hestana við Langavatn og ætluðum að beita þeim vel og lengi á fyrsta grasbala morgunin eftir áður en við héldum yfir heiði með stefnuna á Munaðarnes. Það var hins vegar einhver tryllingur í lausu hrossunum sem brutust skyndilega út úr hringnum og þeyttust til baka einstigið eftir skriðunum sem þau komu daginn áður. Upphófst þá mikill eltingaleikur meðfram vatni, inn dali, upp hóla og hæðir, þar sem hrossin skiptust í hópa og náðust sum aftur að Langavatni, en önnur urðu ekki stöðvuð fyrr en þau höfðu ætt nánast alla dagleið gærdagsins til baka. Þrír knapanna eltu þau alla þá leið og verður hreysti og dugnaður hesta þeirra lengi í minnum hafður. Ekkert símasamband var til þeirra sem biðu með hin lausu hrossin inn við Langavatn og fór því nokkur hópur til að rekja slóðir um dali og hóla og freista þess að koma til liðs þremenningunum með strokuhestana. Of langt er að rekja allt sem gerðist þennan dag, en væntanlega verður hann upprifjunar- og umtalsefni ferðafélaganna í þessari Fáksferð um ókomin ár. Og víst er að ýmsir voru orðnir svangir og þreyttir þegar sest var að í félagsheimilinu við Þverárrétt nær miðnætti um kvöldið.

Leiðin frá Þverárrétt að Húsafelli er fjölbreytt og skemmtileg og sérstaklega fallegt að ríða inn Kjarrárdal, en einnig síðasta legginn að Húsafelli þar sem farið var um giljadrög og skóglendi.

Níunda daginn hvíldu menn og hestar í Húsafelli, en þann tíunda var stefnan tekin á Skógarhóla á Þingvöllum um 50 km. leið eftir Kaldadal. Var það glæsileg sjón að sjá hópinn koma í hlað á Skógarhólum, hrossin loksins farin að lesta sig fallega og knapar kátir og hressir.

Og nú eru blessaðir klárarnir okkar komnir í góðan haga að endurnærast fyrir næstu ferð, sem verður á Löngufjörum í ágústlok. Áreiðanlega líður þeim vel, en stundum velti ég fyrir mér: Skyldi ég hafa ofþreytt Prúð í Hjörseyjarferðinni? Gekk ég of nærri Víkingi daginn sem við fórum í björgunarleiðangur um fjöll og dali? Var ferðin yfir Síðufjallið full strembin fyrir Prinsinn? Og aumingja Kári sem lenti hvað eftir annað í hörku eltingarleik við óþæga hesta auk þess sem hann tók sjálfur strikið með strokuhestunum sem ruku alla leið frá Langavatni í Hraundal daginn þann. Ég er reyndar handviss um að þeir skemmtu sér allir vel ekki síður en ég.

Endemis klúður

Forseti Kína er á leiðinni til Íslands í opinbera heimsókn. Og forseti lands okkar og ríkisstjórn eru gengin af göflunum. Í því liði sér enginn út fyrir sinn fílabeinsturn. Nýbúin að taka á móti hernaðarsinnum ýmissa þjóða, girða í kringum þá og stinga byssum í belti íslenskra lögregluþjóna og guma af því hvað það hafi nú allt gengið vel þrátt fyrir 300 manna mótmælafund hinum megin við girðinguna, þá treysta þessi vösku stjórnvöld sér ekki til að hafa hemil á friðsamlegum mótmælendum undir fána Falun Gong ef þeir kynnu að fara yfir hundraðið.

Eftir því sem þessu máli vindur fram veit maður ekki hvort furðan eða hneykslunin, þykkjan eða jafnvel vorkunnsemin ber hæst í huganum. Þau sem neyðast til að verja þessi ósköp eru í sífelldri mótsögn við sig sjálf, fullyrða í einu orðinu að þetta sé friðsamt fólk og í hinu að þeir hafi ekki mannskap til að hafa hemil á því!

Út af fyrir sig getur maður vel skilið að þetta fólk gæti hugsað sér að taka í lurginn á þessum forseta, því hann ber m.a. ábyrgð á hryllilegum pyntingum á fylgjendum Falun Gong, heilaþvotti, niðurlægingu og alls konar annarri grimmd. Þessum glæpamanni hefði aldrei átt að bjóða hingað. En fylgjendur Falun Gong eru friðsamt fólk og ekki þekkt fyrir ólæti þegar það kemur skoðunum sínum á framfæri. Aðeins þeir sem vita upp á sig sökina óttast fólk af þessu tagi.

Þvílíkt endemis klúður! Maður skammast sín hreinlega niður í hrúgu. Og það gera sem betur fer fjölmargir landsmenn. Þessu máli er hreint ekki lokið.

Þingflokkur VG samþykkti eftirfarandi ályktun vegna heimsóknar forseta Kína á fundi sínum 10. júní:

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs leggur áherslu á að gestkomandi fólk til Íslands verði ekki flokkað eftir skoðunum á stjórnmálum eða lífsviðhorfum og að ekki verði settar skorður við friðsamlegum aðgerðum í landinu. Ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að meina andófsmönnum gegn kínverskum stjórnvöldum að heimsækja Ísland vegna heimsóknar forseta Kína er ekki í samræmi við íslenskar hefðir um opna og lýðræðislega stjórnarhætti.

Á undanförnum mánuðum og misserum hefur verið hert margvísleg löggjöf sem lýtur að meintu öryggi íslenska ríkisins, m.a. í tengslum við Schengen samkomlagið um sameiginleg landamæri okkar og Evrópusambandsríkja.

Ástæða er til að vara við því að hert öryggiseftirlit af þessu tagi snúist upp í andhverfu sína á kostnað lýðræðis og mannréttinda.

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboð telur mikilvægt að skýrar reglur verði settar um komu fólks til landsins og allt sem lýtur að öryggisbúnaði og öryggisgæslu í landinu, þar á meðal vopnabúnað erlendra lífvarðasveita. Þá er mikilvægt að erlendum gestum verði jafnan gerð grein fyrir því að hingað komi þeir á forsendum Íslendinga.”

Þjórsárver ber að vernda

Á morgun, 11. júní, rennur út frestur til að skila athugasemdum inn til Skipulagsstofnunar við skýrslu Landsvirkjunar um mat á umhverfisáhrifum vegna Norðlingaölduveitu. Mikilvægt er að sem flestir gefi sér tíma þessa dýrmætu vordaga til að fletta matsskýrslunni og tjá hug sinn til þessara áforma sem ógna tilvist Þjórsárvera. Það hefur undirrituð þegar gert og sent Skipulagsstofnun eftirfarandi athugasemdir:

Skipulagsstofnun

Laugavegi 166

150 Reykjavík

Seltjarnarnesi 8. 6. 2002

Efni: Athugasemdir við skýrslu Landsvirkjunar um mat á umhverfisáhrifum vegna Norðlingaölduveitu sunnan Hofsjökuls í Þjórsárverum.

Ég undirrituð, Kristín Halldórsdóttir, leyfi mér hér með að gera athugasemdir við skýrslu Landsvirkjunar um mat á umhverfisáhrifum vegna Norðlingaölduveitu sunnan Hofsjökuls í Þjórsárverum. Ég hef kynnt mér efni skýrslunnar eftir föngum, en einnig aflað mér upplýsinga víða, m.a. á vettvangi Náttúruverndarráðs sem fjallaði um málið á nokkrum fundum síðasta árið sem það starfaði. Fékk ráðið m.a. til fundar við sig fulltrúa VSÓ Ráðgjafar og Landsvirkjunar, fulltrúa frá Náttúruvernd ríkisins og Þóru Ellen Þórhallsdóttur grasafræðing sem hefur manna mest stundað rannsóknir í Þjórsárverum á síðustu árum.

Margt er athugunarvert í matsskýrslu Landsvirkjunar og m.a. eftirfarandi:

• Sérstaka athygli vekur að þrátt fyrir leit er ekki að finna í skýrslunni tilvísun til þeirrar skerðingar sem þegar er orðin á þessu svæði vegna fyrri framkvæmda. Þá staðreynd verður að hafa í huga að Þjórsárver hafa þegar verið stórlega skert með 1. – 5. áfanga Kvíslaveitu. Norðlingaöldulóni er ekki á bætandi.

• Einkennilegar eru þær skilgreiningar sem Landsvirkjun hefur uppi í skýrslunni á stigum umhverfisáhrifa, þar sem talað er um lítil, nokkur, talsverð eða mikil áhrif. Í sumum tilvikum er viðurkennt að áhrifin kunni að verða óafturkræf! Hins vegar er forðast að nota skilgreiningu laga um mat á umhverfisáhrifum, þ.e. umtalsverð umhverfisáhrif sem þá eru um leið óafturkræf.

• Með tilliti til langvarandi og yfirgripsmikilla rannsókna Þóru Ellenar Þórhallsdóttur vekur undrun hversu lítið skýrsluhöfundar leyfa sér að gera úr hættunni á vindrofi og áfoki. Sú niðurstaða gengur þvert á upplýsingar Þóru Ellenar á fundi með Náttúruverndarráði fyrir rúmu ári. Í skýrslunni er talað um einfaldar fyrirbyggjandi mótvægisaðgerðir, en þær eru ekki frekar skýrðar.

• Mikla athygli vekur sú niðurstaða skýrslunnar að líftími Norðlingaöldulóns verði tiltölulega mjög skammur, lónið myndi hálffyllast á um 100 árum nema gripið yrði til mótvægisaðgerða. 100 ár eru örskammur tími í aldanna rás og mótvægisaðgerðir eru óskýrðar eins og fyrri daginn.

• Engin raunveruleg tilraun er gerð til þess að meta ástand svæðisins og þróun út frá svokölluðum núll-kosti. Hins vegar er fjallað um áhrif núll-kosts á hagkvæmni orkuvinnslu og að sjálfsögðu komist að þeirri niðurstöðu að þau verði neikvæð þar sem eingöngu er tekið mið af fjárhagslegum forsendum.

• Í nýgerðri bráðabirgðaskýrslu um tilraunamat Faghóps I vegna Rammaáætlunar um greiningu virkjunarkosta er Norðlingaöldulón talið hafa í för með sér umtalsverð óæskileg og óafturkræf umhverfisáhrif. Aðeins Kárahnjúkavirkjun og virkjun á öllu vatnasvæði Jökulsár á Fjöllum voru taldar hafa meiri umhverfisáhrif. Þessar staðreyndir virðast ekki hafa truflandi áhrif á áform Landsvirkjunar um Norðlingaölduveitu frekar en á hinum svæðunum og sannast hér enn og aftur að umhverfisþáttur virkjanaframkvæmda vegur létt í mati Landsvirkjunar.

• Í lokakafla skýrslu Landsvirkjunar eru niðurstöður dregnar saman og er þar lítið gert úr umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Í lokaorðum er sagt að Landsvirkjun telji “…að matsskýrslan sýni að framkvæmd komi ekki til með að hafa umtalsverð neikvæð áhrif á umhverfið og að nýting og verndun Þjórsárvera geti farið saman”.

Undirrituð hafnar algjörlega þessari niðurstöðu Landsvirkjunar.

Þjórsárver eru víðfeðmasta og tegundaríkasta hálendisvinin á Íslandi. Sérstaða og tilvist þessa svæðis felst í samspili margra þátta við ákveðnar aðstæður. Þar er stærsta og fjölbreyttasta freðmýri landsins með tilliti til búsvæða og lífvera. Þar eru flæðiengjar, tjarnastararflóar, gulstararflóar, brokflóar, flár með rústum og tjörnum, mela-, heiða- og háfjallagróður. Þetta er einstök gróðurvin í hálendi Íslands og gegnir mikilvægu hlutverki sem búsvæði og fræbanki fyrir nærliggjandi svæði. Í Þjórsárverum er stærsta varpland heiðagæsar í heiminum og eru fræðimenn á einu máli um að svæðið hafi úrslitaáhrif á tilvist og viðhald heiðagæsastofnsins. Landslag er stórbrotið, fjölbreytt og fagurt víðerni með Hofsjökul og ekki síst Arnarfell hið mikla sem einstakan bakgrunn. Þeim sem áð hefur í hlíðum Arnarfells hins mikla á góðum degi gleymist ekki sú stund. Slíka stund hefur undirrituð tvívegis upplifað.

Þjórsárver voru lýst friðland árið 1981 og tekin á Ramsarskrá árið 1990 sem alþjóðlega mikilvægt votlendi einkum með tilliti til fuglalífs. Slíkt er náttúruverndargildi Þjórsárvera að þau má fyrir hvern mun ekki skerða meira en orðið er. Réttara væri að stækka friðlandið eins og lagt hefur verið til. Þetta er tvímælalaust einstakt svæði á heimsmælikvarða sem ber að varðveita til framtíðar.

Með tilliti til þess sem að framan segir leggur undirrituð eindregið til að Skipulagsstofnun leggist gegn áformum Landsvirkjunar um Norðlingaölduveitu.

Virðingarfyllst,

Kristín Halldórsdóttir

201039-4529

Fornuströnd 2

170 Seltjarnarnesi

Sitt er hvað Geldinganesið og Kárahnjúkar

Sjálfstæðisflokkurinn er skrýtin skepna og seint mun ég skilja hvers vegna þessi skepna er svo stór sem hún er. Helsta skýringin er sú að fólk skynji eitthvert skjól og öryggi í Sjálfstæðisflokknum af því að hann er svona stór og af því að hann hefur svo oft og lengi verið við völd og af því að menn óttast að ganga gegn eigin hagsmunum, ef þeir halda sig ekki þeim megin sem vald fjármagns og samtryggingar er vísast.

Reyndar skynja ég aldrei Sjálfstæðisflokkinn sem flokk, heldur sem regnhlífarsamtök eða kannski miklu fremur eiginhagsmunabandalag. Vissulega eru sameiginlegar áherslur meðal fulltrúa þessa bandalags og þær þá helstar að tryggja einstaklingum sem mest frelsi til athafna. Sú stefna er sett ofar öflugri samhjálp og eðlilegri forsjá, sem miðar að því að tryggja heilbrigði og öryggi einstaklingsins og farsæld samfélagsins í heild.

Eitt virðist þó ofar öllu í stefnu og starfi Sjálfstæðisflokksins og það er vald til að stjórna og ráða. Ráðamönnum í flokknum líður óskaplega illa ef þeir hafa ekki völd. Renni þeim valdataumar úr höndum leggjast þeir í krampakennda baráttu til að ná þeim aftur og spara hvorki fé né fyrirhöfn. Það sjáum við best þessa dagana þegar reykvískir sjálfstæðismenn fara hamförum til þess að reyna að endurheimta borgina úr greipum Reykjavíkurlistans. Auglýsingar og myndbönd bera þess glögg merki að yfir þeim hafa legið ímyndarsmiðir, auglýsingahönnuðir og sérfræðingar í gerð myndbanda.

Margt sérkennilegt ber fyrir augu og eyru í þessari baráttu, og sumt af því virðist “gera sig” eins og sagt er. Þó ekki myndbandið um borgarstjóraefnið, áhorfendur fá það á tilfinninguna að Björn sé ekki með hugann við aksturinn og hljóti að vera lélegur stjórnandi. Hins vegar hefur myndasagan um fljúgandi torfuna slegið í gegn hjá mörgum, sem súpa hveljur þegar þeir sjá hvers Reykjavíkurlistinn er megnugur og hvernig hann hyggst nota vald sitt. Hamingjan góða, þetta er bara stærðar torfa af vænum jarðvegi sem Ingibjörg Sólrún & Co ætla að slíta upp af Geldinganesinu og demba í sjóinn við Ánanaustin til þess eins að stækka Vesturbæinn og búa til sparkvöll handa KR-ingum! Þvílíkt og annað eins!

Nú er ég ekki meðal aðdáenda uppfyllinga af einu eða öðru tagi og held að R-listafólk hefði átt að horfa til annarra lausna en að flytja skóflustungur milli staða, þó að ég sé fullkomlega sammála um nauðsyn þess að tryggja hafnaraðstöðu til framtíðar við Geldinganesið. Hins vegar finnst mér heldur verra ef Sjálfstæðismenn skora mark í þessu máli, því þeirra hlutur er með eindæmum kjánalegur og ótrúverðugur. Þetta eru fulltrúar þess flokks sem ásamt Framsókn vill efna til stórkostlegustu óafturkræfu náttúruspjalla á hálendi Íslands fyrr og síðar. Það er sko sitt hvað Geldinganesið og Kárahnjúkar með stórkostleg víðernin norðan Vatnajökuls. Að tala um náttúruspjöll á Geldinganesi er bara rugl og öfugmæli í samanburði við þau ósköp sem þessir flokkar standa fyrir á þeim forsendum að uppbygging atvinnulífs – og vel að merkja atvinnulífs gærdagsins – á Austurlandi sé ofar allri náttúruvernd. Hvernig getur nokkur manneskja fallið fyrir málflutningi þeirra um verndun Geldinganess og að það eigi að vera fyrir fólkið? Þetta er það sem kallað er að tala tungum tveim og sitt með hvorri.

Íslandsklukkan í Efstaleiti

Ég fórnaði heilu sunnudagssíðdegi og þar með samvistum við hestana mína til þess að geta sótt málþing Bandalags íslenskra listamanna um Ríkisútvarpið 14. apríl sl. Og sé ekki eftir því. Loksins gaf að heyra kröftug andóf gegn nöldrinu yfir afnotagjöldunum og síbyljunni um sölu Rásar 2 og nauðsyn þess að gera RÚV að hlutafélagi. Þarna voru flutt mörg góð framsöguerindi og sum aldeilis bráðskemmtileg. Þó var erfitt að átta sig á raunverulegum vilja hins nýja menntamálaráðherra, Tómasar Inga Olrich, sem annað veifið talaði um nauðsyn þess að hafa öflugt Ríkisútvarp og hitt veifið að reka það í formi hlutafélags. Aðeins útvarpsstjóri, Markús Örn Antonsson, reyndist sammála honum um rekstur RÚV í formi hlutafélags, því flestir aðrir sem til máls tóku lögðu áherslu á menningarhlutverk RÚV sem ekki samrýmist sjónarmiðum arðsemi og gróða. Segja má að mál flestra framsögumanna hafi kristallast í einni setningunni sem lesa má í svolitlum bæklingi sem fylgdi málþingsgögnum og höfð eftir Þórarni Eyfjörð leikstjóra: “Það er blátt áfram skylda þeirra sem finnst íslensk menning andartaks virði að standa vörð um sterkt ríkisútvarp.” Erlendi gesturinn, John Barsby, forseti breska blaðamannsambandsins virtist á sama máli.

Steinunn Sigurðardóttir, Hörður Áskelsson og Þorvaldur Þorsteinsson lífguðu upp á framsögurnar með hnyttnum samlíkingum og svolítilli fortíðarþrá. Hörður líkti Ríkisútvarpinu við Íslandsklukkuna og lýsti áhyggjum af hljómnum í klukkunni í Efstaleiti, hann heyrðist æ verr í gegnum sívaxandi skarkala. Þorvaldur varpaði því fram að þjóðin hefði aldrei fengið að kynnast því sem Ríkisútvarpið hefði getað verið, það hefði aldrei fengið að vera alvöru ríkisútvarp og sjónvarp. Steinunn dvaldi við gamla daga þegar allir fylgdust með framhaldssögum og leikritum og hún óskaði útvarpsráði í orðsins fyllstu merkingu út í hafsauga, þ.e. til Kolbeinseyjar. Í staðinn vill hún fá fagráð og ýmsir tóku í sama streng án þess að það væri frekar rætt eða útfært.

Því miður runnu boðaðar pallborðsumræður gjörsamlega út í sandinn. Þeir sem báðu um orðið virtust ekki hafa áttað sig á að framsöguerindum væri lokið og fluttu margra mínútna ræður hver á fætur öðrum. Aðeins útvarpsstjóri og John Barsby fengu örfáar spurningar hvor, aðrir málshefjendur sátu og börðust við syfju meðan sjálfskipaðir ræðumenn möluðu. Sjálf brann ég inni með fyrirspurnir sem ég hefði gjarna viljað fá reifaðar í pallborði. Önnur laut að hinu fyrirlitna útvarpsráði, sem ýmsir vilja feigt og fá fagráð í staðinn. Fróðlegt væri að fá útfærslu á þeirri hugmynd, þ.e. hvernig menn hugsa sér slíkt fagráð, hverjir eigi að tilnefna í það, hvert hlutverk þess ætti að vera o.s.frv. Hin varðaði síaukna kostun efnis í útvarpi og sjónvarpi. Ég hef miklar áhyggjur af vaxandi þunga á kostun, sem rýrir að mínum dómi gildi og trúverðugleika hins kostaða efnis, og hefði gjarna viljað heyra sjónarmið þeirra sem í pallborði sátu, bæði listamannanna og hins erlenda gests.

En þótt pallborðið væri bæði leiðinlegt og misheppnað situr eftir í huganum ánægja og feginleiki með þetta framtak BÍL. Fundarsalurinn var þéttsetinn og þarna gafst fundargestum færi á að skrá sig stofnfélaga í samtökum sem fengið hafa nafnið “Velunnarar RÚV”. Málþingið og hin nýstofnuðu samtök gefa tilefni til bjartsýni og vonar um betri hljóms í klukkunni í Efstaleiti.

“Ríkisútvarpið á að vera hornsteinn, en ekki myllusteinn”, segir Matthías Johannessen í bæklingi BÍL. “Það á að hafa metnað, ekki bara afþreyingarmetnað. Það á ekki að eltast við einkaljósvaka. Það á ekki að græða, það á að rækta.” Og Matthías endar með svofelldum orðum: “Það kostar að vera Íslendingur, hefur verið sagt. Og við eigum að hafa þrek til að taka þeirri áskorun”.