“Land míns föður” hljómar enn

Mótmælin gegn náttúruspjöllum á hálendinu taka á sig ýmsar myndir og virðast síður en svo að fjara út. Allar götur síðan í síðustu viku ágústmánaðar hefur fólk safnast saman á Austurvelli, hlýtt á rapp og tónlist af ýmsu tagi, fræðsluerindi, upplestur á ritgerðum, bókarköflum og ljóðum. Oftast lýkur slíkri samverustund með því að sungið er saman “Land míns föður” eftir Jóhannes úr Kötlum eða eitthvað annað vel viðeigandi. Ekki er laust við að vegfarendur séu hálf feimnir við þetta baráttulið og ekki síst alþingismenn sem flestir þykjast helst ekki sjá né heyra.

Síðustu daga hefur Austurvallarhópurinn staðið vaktina í Borgartúni 20, þar sem fulltrúar Alcoa hafa setið fundi með fulltrúum stjórnmálaflokka og ýmissa samtaka á sviði náttúruverndar og landgræðslu. Þarna hafa menn, reyndar aðallega konur, staðið með spjöld af ýmsu tagi með skilaboðum til Alcoa, Landsvirkjunar og vegfarenda. Í dag fengum við svo óvænt boð um að senda nokkra úr hópnum inn á fund til að skýra ástæður þessara mótmæla. Sennilega var sá fundur með býsna ólíku sniði og þeir fyrirfram skipulögðu. Við vorum 6 í þessari snöggsoðnu sendinefnd og lá öllum svo mikið á hjarta að 50 mínútur voru fljótar að líða. Viðmælandi okkar var elskulegur karl, fulltrúi umhverfisdeildar Alcoa, og hann gerði svo sem sitt til að reyna að sannfæra okkur um ágæti fyrirtækis síns og þess verkefnis sem unnið er að. Ekki hafði hann erindi sem erfiði og ekki heldur gott að segja hvort okkur tókst að opna gátt í huga hans fyrir réttmæti skoðana okkar. En það var viss léttir að fá þetta tækifæri til að tjá þær skoðanir og viðhorf sem andmælendur Kárahnjúkavirkjunar og annarra náttúruspjalla á hálendinu standa fyrir.

Tvo síðustu laugardaga hefur verið efnt til fræðslu- og baráttufunda, þar sem skipst er á upplýsingum og lagt á ráðin milli þess sem listamenn skemmta fundargestum. Slíkir fundir eru áætlaðir næstu laugardaga á Grand Rokk á Smiðjustíg 4. Þar var síðasta laugardag gerð tilraun til að koma hóflegu skipulagi á aðgerðir þessa sjálfsprottna hóps sem tókst að laða 300 manns til mótmælastöðu á Austurvelli daginn sem Alþingi var sett. Þeir urðu býsna kindarlegir margir þingmannanna þegar þeir gengu úr Dómkirkjunni til Alþingishússins undir dynjandi söng útifundarmanna: “Land míns föður, landið mitt”.

Þessa dagana vekur hungurverkfall Hildar Rúnu Hauksdóttur hvað mesta athygli, en það hefur nú staðið í 3 daga. Markmiðið að beina athygli að málstaðnum hefur svo sannarlega náðst, fréttin er í öllum fjölmiðlum og má búast við athygli erlendra fjölmiðla einnig þegar þeir átta sig á því að hér er um að ræða móður hinnar heimsþekktu Bjarkar Guðmundsdóttur.

Þá hefur verið opnuð sýning á myndum frá landsvæðinu sem sökkt verður undir jökulvatn ef af Kárahnúkavirkjun verður. Stórkostlegar myndir eftir ýmsa frábæra ljósmyndara og náttúrufræðinga prýða nú veggi Kringlunnar næstu 10 daga og draga að sér gesti og gangandi. Má mikið vera ef þær duga ekki til að opna augu margra fyrir þeim skelfilegu skemmdarverkum sem þegar eru hafin á þessu einstæða landsvæði.

Það er sem sagt ýmislegt á döfinni í baráttunni gegn náttúruspjöllum á hálendi Íslands og eins víst að innan fárra vikna verði haldinn myndarlegur baráttufundur í líkingu við þann sem haldinn var í Háskólabíói haustið 1998. Sá fundur er fólki enn í fersku minni og opnaði augu margra fyrir nauðsyn þess að rísa upp til varnar fyrir íslenska náttúru. Nú sem aldrei fyrr er þörf fyrir slíka áminningu.