Þessa dagana fjalla fjölmiðlar landsins af áfergju um slagsmál flokkssystkina um vonarsæti í næstu alþingiskosningum og hirða minna um hógværari starfsemi þeirra sem hafna slíku atferli. Þeir vita sem er að slík áflog ná betur athygli fjöldans en umfjöllun um málefni og markvisst flokksstarf. Óneitanlega virðist því prófkjör vænleg leið til að láta á sér bera séu menn á þeim buxunum. En að þau séu vænleg til að velja besta fólkið í verðug sæti vilja margir efast um.
Þessi sérkennilega glíma hefur um árabil tekið á sig ýmsar myndir mismunandi opinnar útfærslu og virðist í margra huga eins konar sport þar sem trúnaður við málstað er oft fjarri góðu gamni. Þannig eru mörg dæmi þess að fólk hafi kosið í prófkjöri hjá fleiri en einum flokki og eru frægastar sögur af Siglfirðingum sem nota öll tækifæri til að koma heimamönnum á lista hjá hvaða flokki sem býðst, en kjósa svo að sjálfsögðu það sem þeim sýnist í kosningunum sjálfum.
Ýmsar aðrar leiðir hafa verið reyndar, t.d. einhvers konar millistig prófkjörs og uppstillingar þar sem sérstaklega kjörnir fulltrúar greiða atkvæði á kjördæmisþingi um frambjóðendur á lista eins og t.d. Framsóknarflokkurinn gerir. Sú aðferð er nokkuð fljótvirk leið og setur a.m.k. engan á hausinn og verður því að teljast öllu manneskjulegri en venjulegt prófkjör þar sem þátttakendur engjast í snörunni vikum saman, skrifa andlausar greinar í tugatali, auglýsa sig, hringja í hundruð manna, halda smjaðursfundi og eyða ómældum fjármunum í að betla atkvæði fyrir sjálfa sig. Og þegar flautað er til leiksloka liggja margir sárir eftir og tekur vikur að bræða keppendur aftur saman í eitt lið, ef það þá tekst.
Prófkjör hefur satt að segja fáa kosti að mínu viti og afar stóra galla. Uppstillingarleiðin er ekki gallalaus kostur, en hún er skásti kosturinn ef að henni er unnið með hagsmuni heildarinnar í huga. Þá spyrja vafalaust einhverjir hvað verði um möguleika almennra kjósenda til að koma sínum óskafulltrúa að. Og þar stendur hnífurinn í kúnni. Þeir þyrftu að hafa miklu ríkari rétt í kosningunum sjálfum til að hafa áhrif á sætaröðun á framboðslista. Eins og er geta þeir vissulega bæði strikað út nöfn af þeim lista sem þeir merkja við og númerað frambjóðendur upp á nýtt, en slíkar merkingar hafa ekki nægilegt vægi. Það var því leitt að Alþingi skyldi ekki gera heiðarlega tilraun til að breyta þessu atriði til betri vegar, þegar kosningalögin voru síðast til umfjöllunar, og færa persónukjör meira inn í kosningarnar sjálfar.