Mjólkuðu kýrnar sig kannski sjálfar?

Þegar ég var kennari fyrir – úps! – 40 árum (löngu fyrir kvennaverkfallið) og tók á móti börnum til skráningar í Digranesskóla í Kópavogi spjallaði ég alltaf svolítið við þau og spurði þau m.a. um foreldra þeirra, hvað þau störfuðu o.s.frv. Þau vissu nákvæmlega hvað pabbi gerði, en urðu óttalega vandræðaleg þegar ég spurði hvað mamma gerði og svöruðu svo einmitt svona: Mamma, hún gerir ekkert, hún er bara heima! Það var nefnilega töluvert algengt á þeim árum. Og þá spurði ég auðvitað: Nú, hver eldar matinn? Hver þvær þvottinn? Hver lagar til? o.s.frv. o.s.frv. o.s.frv. Og blessuð börnin uðru æ langleitari því auðvitað gerði mamma þetta allt saman og meira til og ég gat ekki annað en vonað að þetta spjall yki eitthvað á skilninginn og virðinguna fyrir mikilvægu starfi mömmu.

Tíu árum seinna sungu konur á Lækjartorgi:

“Ég spyr: Hver var að raka

hver var að spinna

kemba og tæja

og kúnum að sinna?

Spyr því það vantar alveg vitneskju um það.

Í fjósinu voru kýr og kálfar

mjólkuðu kýrnar sig kannski sjálfar?

Eða gerðu karlmenn það

rétt eins og allt annað?”

Og aftur sungu konur sama textann á Ingólfstorgi um daginn. Textinn sá arna er í fullu gildi því hann minnir okkur á þá staðreynd að sögubækur þegja að mestu leyti um hlut kvenna í lífi og starfi þjóðarinnar í mörg hundruð ár. Af lestri sögubóka mætti ætla að karlar hefðu einir komið að verki og konur hafi naumast verið til. M.a.s. þegar þær tóku sig til og buðu fram sérstaka kvennalista til sveitarstjórna á fyrsta áratug 20. aldarinnar og síðar til Alþingis þótti það ekki merkilegra en svo að þegar hið sama var gert á níunda áratugnum þekktu fæstir fordæmið! Sögubækur höfðu nefnilega þagað um það þunnu hljóði.

Ég held að ekki sé bara skilningsleysi um að kenna, heldur líka skorti á sanngirni og vilja og því miður gætir þess alltof oft enn þann dag í dag. Hvernig skyldi annars standa á því að sérlega kraftmikið og mikilvægt framlag Kvennalistans til baráttunnar fyrir bættum hag kvenna er svo oft sniðgengið í ræðum og riti bæði af konum og körlum? Hversu oft hefur maður ekki heyrt talað um kvennabaráttu og hina og þessa áfanga á þeirri leið, þar sem kvennaverkfallið 1975 og kjör Vigdísar er alltaf nefnt, réttilega að sjálfsögðu, en ótrúlega oft er skautað framhjá þætti Kvennalistans sem átti þó skelegga fulltrúa víða í sveitarstjórnum og á Alþingi í heil 16 ár. M.a.s. síðasta eintak kvenréttindablaðsins 19. júní minnist nokkurra kvennahópa og merkra áfanga í kvennabaráttu síðustu áratuga og tekst á yfirnáttúrlegan hátt að minnast ekki einu orði á Kvennalistann. Það er erfitt að skilja og sætta sig við þöggun af þessu tagi gagnvart svo merku stjórnmálaafli, sem kom mörgu góðu til leiðar og markaði djúp spor í sögu kvennabaráttunnar.

“Eða gerðu karlmenn það rétt eins og allt annað?”

Vinstri græn vilja kvenfrelsi

Landsfundur VG 21.-23. október sl. var að minni hyggju glæsilegur, kröftugur og skemmtilegur. Ég held að flestir þátttakendur í fundinum séu mér sammála um þá einkunnagjöf þótt eitthvað kunni að skorta á ánægju sumra með niðurstöður í einhverjum málum. Sjálf var ég harla ánægð með ályktanir og niðurstöður í umhverfismálunum þar sem ég beitti mér fyrst og fremst, en merkilegast var að upplifa kvenfrelsisyfirbragð fundarins, hlýða á vel heppnaðar umræður um kvenfrelsismál í ríflega tveggja tíma dagskrá og sjá svo langþráða yfirlýsingu um kvenfrelsi samþykkta sem kafla í stefnuyfirlýsingu VG sem staðið hefur óbreytt síðan á stofnfundinum 1999.

Þessi ánægjulega niðurstaða á sér langan aðdraganda og vandaðan undirbúning að baki eins og vera ber. Á fyrsta landsfundi VG á Akureyri haustið 1999 heyrðust þær raddir að ekki væri nægilega hugað að kvenfrelsi og jafnrétti kynjanna í stefnu og störfum þessa nýstofnaða flokks. Var þá ákveðið að ýta á flot vinnu í þeim málaflokki og fljótlega síðan efnt til hugmyndasmiðju um þetta efni. Starfshópurinn hélt ótal fundi, viðaði að sér gögnum og fékk til sín gesti, kynnti drög að stefnumörkun á flokksráðsfundum og kynnti loks niðurstöður sínar á landsfundinum í Reykjavík haustið 2001. Þetta efni var svo ákveðið að gefa út í bæklingi fyrir alþingiskosningarnar vorið 2003. Á landsfundinum í Hveragerði haustið 2003 var samþykkt tillaga flokksstjórnar um að stefnuyfirlýsingin frá stofnfundinum1999 yrði endurskoðuð með það að markmiði að styrkja enn frekar og samþætta áherslur kvenfrelsis og alþjóðahyggju stefnumálum flokksins. Niðurstöður þess starfs skiluðu sér svo inn í stefnuyfirlýsinguna með samþykkt landsfundarins í Reykjavík 21.-23. október sl.

Kaflinn er svohljóðandi:

“KVENFRELSI

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur að Ísland eigi að vera öflugur málsvari félagslegs réttlætis um allan heim. Hreyfingin vill samfélag þar sem bæði konur og karlar fá notið sín og hafnar því að fólki sé mismunað eftir kyni. Réttlátt samfélag er hagur allra – bæði kvenna og karla. Til þess af fullt formlegt og félagslegt réttlæti náist þurfa karlar að afsala sér forréttindum sem þeir hafa tekið í arf.

Kynjafræði á að vera sjálfsagður hluti af skólakerfinu. Forsenda kynjajafnréttis er að uppfræða komandi kynslóðir um ástandið í samfélaginu og hvetja ungt fólk til að axla ábyrgð og breyta.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur mikilvægt að laun séu ákvörðuð með tilliti til þess sem leyst er af hendi en ekki því hvort karl eða kona vinnur verkið. Tryggja verður kynjunum jafna möguleika til framfærslu og viðurkenna að samfélagið fær ekki staðist án vinnuframlags kvenna. Öflugt velferðarkerfi er ein af lykilforsendum kvenfrelsis. Í slíku velferðarkerfi er ekki gert ráð fyrir ólaunaðri umönnun kvenna heldur er vinnuframlag þeirra innan kerfisins metið til launa.

Líkaminn má aldrei verða söluvara Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill að kynferðislegt sjálfstæði kvenna verði viðurkennt og telur að konur eigi skýlausan rétt til að ráða yfir eigin líkama, þar með talið taka ákvarðanir um barneignir.

Stjórnvöld eru skuldbundin til að tryggja konum og börnum öryggi gegn öllu ofbeldi og þeim ber jafnframt að tryggja að kynferðisofbeldi sé meðhöndlað sem lögbrot og karlar kallaðir til ábyrgðar. Kynferðisofbeldi birtist m.a. í nauðgunum, sifjaspellum, klámi, vændi, mansali, kynferðisáreitni og líkamlegu og andlegu ofbeldi gegn konum og börnum inni á heimilum þeirra..

Konur eru fátækasti hluti íbúa jarðar og stríð bitnar ekki síst á þeim og börnum. Brýnt er að veita konum öryggi, sýna þeim samstöðu og taka tillit til kynferðis við alla þróunaraðstoð. Viðurkenna verður mikilvægi kvenna í framþróun þriðja heimsins.”

Þá var einnig samþykktur nýr kafli um utanríkismál í anda samþykktar landsfundar fyrir tveimur árum

“SJÁLFSTÆÐ UTANRÍKISSTEFNA, FÉLAGSLEG ALÞJÓÐAHYGGJA

Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að móta sjálfstæða, íslenska utanríkis- og friðarstefnu. Ísland á að standa utan hernaðarbandalaga og hafna aukinni vígvæðingu. Íslendingar eru betur settir án hers, hvort sem hann er innlendur eða erlendur. Brýnt er að friðlýsa landið og lögsögu þess fyrir kjarnorku- sýkla- og efnavopnum og banna umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Beina verður aukinni athygli að umhverfisöryggi en nú er gert og vernda hafið fyrir úrgangi frá kjarnorkuverum og herstöðvum.

Við viljum efla starfsemi Sameinuðu þjóðanna og styrkja lýðræðislega starfshætti á vettvangi þeirra. Treysta ber stoðir þjóðaréttar í þágu friðar og mannréttinda og stuðla að aukinni þátttöku almennra félagasamtaka í stefnumörkun alþjóðamála. Íslensk stjórnvöld eiga að beita sér fyrir alþjóðlegum samningum um afvopnun og takmarkanir á vígbúnaði. Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill efla þátttöku Íslands í stofnunum Sameinuðu þjóðanna þar sem öll ríki eiga aðild, svo og í stofnunum eða samtökum, eins og Norðurlandaráði, Evrópuráðinu og Stofnuninni um öryggi og samvinnu í Evrópu.

Ísland á að styðja eindregið markmið Sameinuðu þjóðanna og ákvæði Mannréttindayfirlýsingarinnar með því að leggja sitt af mörkum til að útrýma fátækt og hungri, félagslegu ranglæti, misskiptingu auðs, kynþáttamismunun, mannréttindabrotum og hernaðarhyggju. Íslendingar eiga að stórauka framlag sitt til þróunarstarfs og leggja fátækum þjóðum lið á alþjóðavettvangi. Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill efla samstarf allra þjóða heims á grundvelli jafnréttis og gagnkvæmrar virðingar fyrir ólíkum skoðunum og menningu. Nauðsynlegt er að réttur allra jarðarbúa til að njóta góðs af framförum í heilbrigðisvísindum verði viðurkenndur og virtur.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill tefla félagslegri hnattvæðingu fram gegn hinni kapítalísku hnattvæðingu samtímans og vinna að friðsamlegri sambúð þjóða, fullum mannréttindum, kvenfrelsi, velferð og jöfnuði allra jarðarbúa. Koma verður með sérstakri skattlagningu eða alþjóðlegum reglum í veg fyrir spákaupmennsku með fjármagn heimshorna á milli. Við teljum að öll ríki heims eigi að hafa óskoraðan rétt og tækifæri til að nýta auðlindir sínar á skynsamlegan hátt í því augnamiði að byggja upp velferðarsamfélög sem standast kröfur um sjálfbæra þróun. Til þess að svo megi verða þarf að leysa hinar fátækari þjóðir af skuldaklafa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans, og endurskoða starfsemi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar frá grunni. Leikreglum heimsviðskipta þarf að gerbreyta svo það tryggi félagslegt jafnrétti og virðingu fyrir öllu umhverfi

Samskipti við Evrópusambandið ber að þróa í átt til samninga um viðskipti og samvinnu, m.a. á sviði menntamála, vinnumarkaðsmála og umhverfismála. Hugsanlegur ávinningur af aðild Íslands að ESB réttlætir ekki frekara framsal á ákvörðunarrétti um málefni íslensku þjóðarinnar og er aðild að Evrópusambandinu því hafnað. Hagsmunir fjármagns og heimsfyrirtækja eru í alltof ríkum mæli drifkraftar Evrópusamrunans, miðstýring, skrifræði og skortur á lýðræði einkennir um of stofnanir þess.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð lýsir stuðningi við hvers kyns friðsamlega baráttu fyrir félagslegu réttlæti án landamæra og jafnframt vilja sínum til að taka þátt í þeirri baráttu hérlendis sem erlendis.”

Reisubókarbrot frá Spáni

Vegna “fjölda áskorana” festi ég nú hér á skjá nokkra punkta um svolítið sérstakt ferðalag um Spán í síðari hluta septembermánaðar. Við fórum fjögur saman, við Jónas, Ingibjörg og Ævar, meðeigendur okkar að vildarjörðinni Kaldbak í Hrunamannahreppi, í tveggja vikna reisu milli paradora, en svo kallast hótel í uppgerðum köstulum, klaustrum og höllum frá gamalli tíð. Paradorar eru ríkisrekin hótel, það fyrsta var opnað 1928, en þau eru nú að nálgast hundraðið. Þetta eru afar sérstæðir gististaðir eins og nærri má geta, flestir að uppruna aldagamlir, en uppgerðir eru þeir búnir öllum nútíma þægindum. Einn kastalanna sem við gistum var upphaflega byggður fyrir Íslandsbyggð!

Hlutverkaskipan ferðalanga var þannig háttað að Ævar ók farartæki okkar af öryggi og vaxandi dirfsku og Jónas sat við hlið hans sem leiðsögumaður með hliðsjón af fangfylli af kortum og verður að segja þeim félögum til lofs að þeir villtust sjaldan. Við Ingibjörg gegndum hlutverki aftursætisráðgjafa og sendum þeim félögum bæði viðurkenningarorð og háðsglósur eftir atvikum. Að okkar mati stóðum við okkur vel í því.

RONDA

Við flugum til London og þaðan til Malaga þar sem við tókum bíl á leigu og ókum sem leið lá til Ronda. Paradorinn þar stendur á barmi 100 metra djúps gils sem sker sundur bæinn og rétt við aðalbrúna sem tengir bæjarhlutana. Það var gaman að rölta um götur gamla bæjarins í Ronda og fá sér bjór eða rauðvínsglas á verönd kráar í góða veðrinu sem fylgdi okkur hvern dag í þessari ferð. Skammt frá er einn elsti og mikilvægasti nautaatshringur Spánar sem dregur til sín alla bestu nautabana landsins. Þar gerði garðinn frægan fyrir meira en tveimur öldum Pedro Romero sem talinn er upphafsmaður þess stíls sem nútíma spánskir nautabanar tileinka sér. Við höfðum hins vegar lítinn áhuga á þessari þjóðaríþrótt Spánverja, ég hef einu sinni séð nautaat og langar ekki til að endurtaka þá reynslu.

ZAFRA

Daginn eftir lá leiðin til Zafra með viðkomu í Sevilla, helstu borg Andalúsíu. Þar er margt að skoða sem er þó að mestu allt á sama stað. Þar er feiknarstór og mögnuð dómkirkja kennd við heilaga Maríu, og þar er borgarkastali í márískum stíl og fagrir garðar sem gleðja augað.

Zafra er miklu minni bær, en reyndar stundum kallaður “litla Sevilla” og dregur til sín ferðafólk. Paradorinn er í fornum kastala og matsalurinn á torgi milli álma með himininn að þaki. Flott umhverfi, en maturinn ekki sérlega góður og var það því miður víða reynsla okkar.

GUADALUPE

Næstu tvær nætur gistum við í Guadalupe. Á leiðinni þangað stönsuðum við í Merida, höfuðborg Extremadura, aldagamalli borg sem átti sitt blómaskeið á rómverskum tíma og er sannarlega heimsóknar virði. Þar má m.a. sjá fornfrægt og vel varðveitt rómverskt leikhús, sem enn er notað til sýninga á sumrin. Einnig rústir af gríðarstóru hringleikahúsi og ýmsum öðrum merkum minjum.

Við áttum góða dvöl í Guadalupe, litlu þorpi sem óx upp í kringum klaustur frá 14. öld. Paradorinn var raunar upprunalega spítali, en í þessum litla bæ voru í öndverðu rekin sjúkrahús og lyfjaframleiðsla og þar varð til eitt stærsta bókasafn Spánar á þeirri tíð. Klaustrið er vel varðveitt og merkilegt að skoða og einnig sambyggða kirkju. Þarna er enn mikil og lifandi starfsemi og pílagrímar streyma til staðarins víða að úr hinni kaþólsku veröld. Messur voru sungnar oft á dag meðan við dvöldumst þarna og færi gafst á að fylgjast með brúðkaupi. Þótti okkur það ekki jafnast á við íslensk brúðkaup, en sinn er siður í landi hverju. Þá birtust nokkrir Spánverjar á hestum, allir náttúrulega hjálmlausir okkur til mikillar hneykslunar og ekki þótti okkur reiðmennskan að öðru leyti til eftirbreytni.

CÁCERES

Hvergi held ég að Ævar bílstjóri hafi komist í hann krappari en þegar aka þurfti smellþröngar göturnar upp á hæðina þar sem gamli bærinn í Cáceres gnæfir yfir borg nútímans. Það er sérkennilegt og dálítið magnað andrúmsloft í dimmum og drungalegum kastalanum sem hýsir paradorinn, og sama má segja um allan gamla bæinn. En það er gaman að rölta þar um milli borgarmúra, kirkna og turna. Þeir síðastnefndu eru reyndar færri en skyldi því Ísabella og Ferdinand létu eyðileggja mikinn fjölda turna í stjórnartíð sinni á 15. öld í því skyni að draga úr látlausum erjum höfðingja sem börðust þar um yfirráðin. Það ráð gafst víst vel.

CIUDAD RODRIGO

Á leiðinni til Ciudad Rodrigo sem er nálægt landamærum Spánar og Portúgal sáum við heilu flæmin af brunnum skógi. Sannarlega ömurleg sjón. Sama verður ekki sagt um litla gamla bæinn sem skartar 15. aldar kastala sem breytt hefur verið í parador á sérlega fallegan og vistlegan hátt. Og ekki spilla garðarnir sem teygja sig niður brekkurnar framan við kastalann, þar var ljúft að sitja í skugga trjánna og horfa til árinnar lengst niðri. Umhverfis gamla bæinn liggja virkismúrar sem hægt er að ganga eftir mestallan hringinn og njóta víðsýnis til allra átta. Þarna var gaman að vera og þá einkum á paradornum sjálfum.

ÁVILA

Í Salamanca sem við heimsóttum á leiðinni til Ávila er einn elsti og virtasti háskóli Evrópu og ungt fólk áberandi á götum bæjarins. Þar er líka eitt stærsta og glæstasta torg Spánar og ekki í kot vísað að hvíla þar lúna fætur og sötra capuccino í septembersólinni.

Í Ávila er einnig margt að sjá og magnaðastur er sjálfur borgarmúrinn að mestu reistur á 11. öld. Hann er ríflega tveggja kílómetra langur og með 88 virkisturnum. Ég er enn að iðrast þess að hafa ekki þrammað hringinn á múrnum, en var orðin nokkuð fótalúin eftir múrgöngu gærdagsins og langar göngur um steinstræti gamla bæjarins í Ávila og ákvað að hlífa ganglimunum. Dómkirkjan er frá 12. öld og einnig hluti af borgarmúrnum, en þær eru margar kirkjurnar og klaustrin í Ávila og flest tengd heilagri Teresu sem fæddist þar og starfaði á 16. öld.

SIGÜENZA

Við lögðum lykkju á leið okkar til Sigüenza og komum við í Segovia sem er sannarlega heimsóknar virði. Það finnst reyndar fleirum en okkur og því erfitt að finna bílastæði. Þar er feikna tilkomumikil dómkirkja nær fimm alda gömul og einkar fallegur kastali sem Mjallhvít og Þyrnirós og Öskubuska væru fullsæmdar af. Þessar byggingar standa hátt og sjást langar leiðir að. Merkasta mannvirkið er þó vatnsrið eitt mikið sem Rómverjar byggðu um 100 árum eftir Krist og flutti það vatn til borgarinnar allt fram á síðustu öld.

Sigüenza er hins vegar lítill bær en þar beið okkar parador í mikilfenglegum kastala sem gaman var að skoða hátt og lágt en var líka það eina sem virtist athyglisvert í þessum litla bæ.

CUENCA

Næsti áfangastaður var býsna magnaður og reyndi á þolrif þeirra sem ekki eru alveg lausir við lofthræðslu. Paradorinn er í gömlu klaustri á gilbarmi og hinum megin við það liggur gamli bærinn. Til að komast yfir í hann er farin göngubrú ekkert sérlega traustleg að sjá og með tréfjölum sem sumar hverjar dúa undir fótum manns. Það borgaði sig ekki að gjóa augunum niður í djúpt gilið milli þverhníptra klettaveggjanna, nóg kitlaði í magann samt. Mér létti óskaplega eftir hverja ferð þar yfir. Hinum megin blasa við furðuleg svokölluð hangandi hús, byggð á blábrún gilsins og slúta svalir yfir hengiflugið. Þar er að finna nútíma listasafn og eitt besta veitingahús bæjarins, en til að njóta þess er eins gott að horfa ekki alltof mikið út um gluggann. Frá paradornum liggur stígur upp eftir fjallinu sem skartar sérkennilegum steinmyndunum og ægifögru útsýni yfir dalinn. Mjög eftirminnilegur staður Cuenca.

ALARCÓN

Og enn gátum við orðið undrandi og hrifin af aðstæðum og umhverfi þegar við komum í næsta áfangastað, smábæinn Alarcón (500 íbúar) á háum kletti að baki fremur lítils en myndarlegs kastala frá 9. öld. Þar er nú parador með 13 herbergjum á ystu brún þverhnípts klettsins. Mikið og fagurt útsýni er bæði þangað og þaðan, m.a. yfir ána Júcar sem rennur um dalinn fyrir neðan. Þangað leita hjarðir sauðfjár í fylgd hirðis að svala þorstanum. Kliður sauðabjallanna rauf kyrrðina í þessu litla friðsæla þorpi, annað heyrðist varla. Mjög sérstakur staður.

GRANADA

Borgin Granada er umkringd gróskumiklum dölum og fjöllum sem sum hver eru snævi krýnd. Við Jónas brugðum okkur eitt sinn á skíði í Sierra Nevada um páska fyrir allmörgum árum, sem var afar sérstök reynsla þótt brekkurnar þar jöfnuðust engan veginn á við Madonna á Ítalíu. Í þetta sinn var þar lítinn snjó að sjá enda ekki markmiðið að fara á skíði, heldur fyrst og fremst að skoða hið víðfræga hallarvirki Alhambra og garðana fögru í Generalife sem laða að sér ferðafólk hvaðanæva að úr heiminum. Og ekki að undra. Alhambra er stórkostlegt minnismerki um byggingar- og skreytistíl Máranna sem réðu Granada frá 1236 til 1492. Við getum verið þakklát öllum þeim sem á eftir hafa komið fyrir að hafa ekki eyðilagt þessar minjar. Þessum stað verður ekki lýst, hann verður einfaldlega að heimsækja og njóta töfrandi samspils rýmis, birtu og vatns, útskurðar og mósaíkskreytinga og ótrúlega fjölbreytts og fagurlega skipulagðs garðaskrúðs. Sökum dagaruglings misstum við af gistingu í paradornum sem gefur útsýni yfir garðana, en ekki var í kot vísað í Hótel Alhambra Palace, gömlu og virðulegu rétt neðan dýrgripanna á hæðinni. Þaðan er mikið útsýni yfir borgina og m.a. til hinnar mikilfenglegu dómkirkju kenndri við Maríu guðsmóður.

MÁLAGA

var síðasti áfangastaður okkar á Spáni. Við gistum í Parador de Gibralfaro sem stendur utan í háum kletti með frábæru útsýni yfir höfnina og sums staðar beint ofan í voldugan nautaatshring. Fátt annað markvert er að sjá í Málaga og ekkert sem gæti toppað skoðunarferð okkar í Granada. Við hvíldum okkur því þessar síðustu klukkustundir í septembersólinni á Spáni og létum fara vel um okkur á þessum notalega parador de Gibralfaro.

Morguninn eftir skiluðum við bílnum og flugum til London og síðan Íslands þar sem kuldi og hvassviðri tóku á móti okkur. Voru það mikil viðbrigði eftir lognið og 20 – 30 stiga hitann hvern dag vikurnar tvær á Spáni.

Um Kjöl og Löngufjörur

Það gengur víst ekki annað en að sætta sig við að hestaferðum sumarsins er lokið. Hestarnir eru að vísu enn á járnum og vonandi gefast tækifæri til að liðka þá í skreppitúrum, a.m.k. má reikna með að húsráðendur á Kaldbak fylgi gangnamönnum í Hrunamannahreppi áleiðis í göngur haustsins.

Mér leist ekki meira en svo á blikuna í vor þegar leið að vorferð Fáks, helgarferð á Löngufjörur í júníbyrjun. Ég ætlaði að fara með mína gömlu góðu félaga, Víking og Prúð, margreynda ferðahesta jafnt á fjörum sem í fjalllendi. Ég var þó ekki alveg sátt við göngulagið hjá Víkingi og lét prófa hann og röntgenmynda og skammast mín ekki fyrir að viðurkenna að ég grét oní faxið á mínum góða vini, þegar ljóst var að hann væri illa spattaður og færi ekki oftar í hestaferðir. Hann fær nú að jafna sig í högum á Kaldbak og að liðnum næsta vetri kemur væntanlega í ljós hvort honum verður yfirleitt riðið framar. Þegar svo Prúður minn heltist illa vegna mars í hófbotni var mér allri lokið og ákvað að sleppa alveg þessari vorferð. Prúði batnaði hins vegar og reyndist vel og sjálfum sér líkur í ferðum sumarsins.

Aðalferð Fáks var tveggja vikna ferð 18. -31. júlí norður Kjöl og suður aftur. Farið var frá Kjóastöðum í Fremstaver – Árbúðir – Hveravelli – Ströngukvísl – Galtará og að Hvíteyrum í Skagafirði, en gist í Lauftúni, þar sem hvílt var í einn dag og síðan farin sama leið aftur suður. Ég kom inn í ferðina í Lauftúni og reið með suður Kjöl, treysti mér ekki alveg til tveggja vikna reiðmennsku með nýfengna mjöðm úr áli og plasti, en í ljós kom að ég er ólíkt betur sett með þessa nýju en gömlu mjöðmina sem var mig lifandi að drepa í hestaferðunum síðasta sumar.

Ferðin nú var óvenju fámenn, sem gerði hana mun léttari og þægilegri en ella, þótt ágætt hefði verið og gaman að hafa svo sem 5 – 10 manns í viðbót. Kvöldin liðu við spjall og gamanmál, en ekkert sungið sem er algjört nýmæli í Fáksferðum. Ekki þurfti að slást um svefnpláss og hrotur spilltu ekki nætursvefni að ráði. Varð það með öðru tilefni til eftirfarandi vísu sem fæddist í Fremstaveri:

Feiknarlega Fáksmenn riðu um fjallasalinn

fetuðu þó hægt og pent hér niður dalinn

þvílíkt sem þeir þvaðrað gátu um hitt og þetta

en þegar sváfu mátti heyra saumnál detta.

Veðrið var frábært allan tímann, kom ekki dropi úr lofti og því stundum lélegt skyggni í moldargötunum. Prúður, Kári og Gaukur reyndust vel að vanda, og gaman var að kynnast nýjum hesti sem ég keypti í vor þegar ljóst var að Víkingur minn færi ekki fleiri langferðir. Stormur heitir sá nýi, leirljós 7 vetra undan Hágangi frá Sveinatungu og Fjöður frá Steinum í Borgarfirði. Hann reyndist vel og lofar góðu. Jónas var einnig með nýjan hest, Létti undan Flygli frá Votmúla, flottan hest og gangmikinn.

Svo riðum við Löngufjörurnar 20. – 27. ágúst og í þetta sinn héldum við okkur allan tímann við fjörurnar allt frá Stóra-Kálfalæk til Búða og tókum m.a. 2 daga til að kynnast fjörunum út af Skógarnesi, sem eru víðáttumiklar og bráðskemmtilegar. Við lentum að vanda í ýmsum ævintýrum og háska, m.a. miklum eltingaleik við lausu hrossin sem urðu fyrir ágangi og truflun annarra hestahópa og óvenju margir lentu í sjóbaði upp fyrir haus. Slíkt er bara til skemmtunar við upprifjun ferðar sem nú bætist í minningasjóðinn.

Hugsað til Hiroshima

Sól og heiðríkja gladdi Vinstri græna ferðalanga á hlaðinu á Grænavatni laugardagsmorguninn 6. ágúst sl., en mývargurinn ætlaði okkur lifandi að drepa þar til við sáum þann kost vænstan að fara að dæmi Mývetninga og láta sem hann væri ekki til. Það tekst satt að segja furðu vel, en stöku sinnum þarf reyndar að krækja eina og eina flugu út úr nös eða eyra eða hrækja henni út í móa. Við sem mættum kl. 11 eins og fyrir var lagt máttum bíða alllengi eftir félögum okkar í samstarfsflokkum VG á Norðurlöndunum sem komið höfðu til fundarhalda hér á landi og notuðu tækifærið að fagna afmæli Steingríms með okkur á Gunnarsstöðum og slást svo í för með okkur í sumarferð VG í Suðurárbotna. Þeir töfðust við Dettifoss og Námaskarð og víðar og við hlutum að fyrirgefa þeim seinkunina vitandi um allar þessar náttúruperlur, enda væsti ekki um okkur í túninu á Grænavatni. En loks var lagt upp í þessa merku ferð á tveimur fjallatrukkum og fjórum jeppum, sá fimmti var þegar kominn inn í Botna hlaðinn harðfiski og hangikjöti og öðru góðgæti, og enn einn fjallajeppinn bættist svo við um kvöldið.

Ferðin inn eftir tók sinn tíma því margt var að skoða undir leiðsögn þeirra heimamanna, Hjörleifs Sigurðssonar, bónda og gangnaforingja á Grænavatni, og Ingólfs Á. Jóhannessonar frá Skútustöðum. Vegurinn er ekki beinlínis beinn og breiður og þaðan af síður sléttur og sumum þótti nóg um þegar leiðin lá hartnær lóðrétt niður malarkamba eða þar sem krækja þurfti milli hnullunga og hraunnibba. En bílstjórarnir sýndu mikla snilld og æðruleysi og við í “kvennarútunni” spöruðum ekki hvatningu né lofsyrði.

Margt var að sjá á leiðinni fyrir utan fagran fjallahringinn. Á einum stað er unnið að uppgreftri fornleifa og á öðrum mátti sjá leifar af aldagamalli fjárrétt sem á sínum tíma var ásteitingarsteinn Bárðdælinga og Mývetninga. Og einn staðurinn hét “á Hlemmi” að sögn Hjörleifs, enda var þar stærðar hlemmur fergður stórum steinum og kom þá í ljós gagnsemi stigans sem bundinn var á þak annars fjallabílsins. Honum var rennt niður um gat undir hlemmnum rétt nógu stóru til að maður gæti klifrað þar niður. Þau gerðu það nokkur og komust að raun um að þar niðri er býsna rúmgóður hellir sem uppgötvast hafði fyrir hreina tilviljun þegar verið var að tjakka upp bíl á melnum. Trúlega má finna marga slíka neðanjarðarhella á þessu svæði.

Eftir langþráða næringu við gangnakofana á Stóru-Flesju fóru ferðalangarnir í mislangar gönguferðir um svæðið, sumir gengu í allt að 5-6 tíma og gátu ekki nógsamlega dásamað Suðurána og bullandi uppsprettur hennar, hraunið og lyngmóana, veðrið og fjallasýnina. Sumir urðu jafnvel skáldmæltir og heyrðust tauta oní bringu sér:

Í Suðurárbotnum er sælan við völd

og svona ætti að vera hvert einasta kvöld

með hægviðri og sólskin við háfjallahring

og hangikjötsdreifarnar skálana um kring.

Síðasta línan ber þess að sjálfsögðu merki að vel var séð fyrir líkamlegri næringu ekki síður en andlegri og ekki skorti heldur misfagran söng þegar dimman var dottin á.

Ef til vill verður þó minnisstæðust sú stund þegar við ferðalangarnir frá sex löndum tókum saman höndum, mynduðum hring á bakka Suðurár og lutum höfði í einnar mínútu þögn til að minnast fórnarlamba kjarnorkusprengjunnar á Hiroshima þennan dag fyrir 60 árum.

Morguninn eftir stóðum við svo í lognværri blíðunni og hlýddum á Erling frá Grænavatni fara með ljóð sín innblásin af fegurð og mikilleik fjallasalarins og hinnar mögnuðu Suðurár. Því næst var ekið niður í Svartárkot í Bárðardal og um Engidal í Mývatnssveit niður hjá Stöng. Frábærri ferð lauk þar sem hún hófst á hlaðinu á Grænavatni.

Ísland örum skorið

Oft er ansi hreint erfitt að vera náttúruverndarsinni. Maður fyllist stundum vonleysi og vanmætti gagnvart ótrúlegum yfirgangi og valdhroka stjórnvalda og hróplegum aðstöðumun þeirra sem vilja fyrir hvern mun virkja og menga í blindri trú á stundarhagnað og hinna sem hafa aðra framtíðarsýn.

Sem betur fer er þó líka oft uppörvandi og bjart fyrir augum í baráttunni fyrir verndun og virðingu fyrir náttúrunni og auðæfum hennar sem nýta má á annan hátt en rista hana niður og fjötra, nýta hana t.d. með því að njóta, læra, rannsaka og fræða. Þetta er auðvitað búið að segja svo ótal sinnum að það hljómar nánast eins og bergmál í djúpu gljúfri. Þess vegna er svo ánægjulegt og uppörvandi þegar baráttan tekur á sig nýjan svip og boðskapurinn er settur fram með nýjum hætti.

Um þessar mundir er mestur kraftur í baráttunni á vegum Náttúruvaktarinnar, sem hefur staðið fyrir fræðslufundum, tónleikum og ýmsum uppákomum og fengið önnur náttúruverndarsamtök til samstarfs. Föstudaginn 21. janúar sl. var kynnt frábært framtak 10 náttúruverndarsamtaka sem hafa gefið út Íslandskort undir heitinu ÍSLAND ÖRUM SKORIÐ. Þessi samtök eru Náttúruverndarsamtök Íslands, Fuglavernd, Náttúruvaktin, SUNN – Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, NAUST – Náttúruverndarsamtök Austurlands, Áhugahópur um verndun Þjórsárvera, Náttúruverndarsamtök Vesturlands, Umhverfisverndarsamtök Skagafjarðar, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Félag um verndun hálendis Austurlands.

Kynningarfundurinn á Hótel Borg var jákvæður, skemmtilegur og fræðandi. Rússíbanarnir slógu tóninn í upphafi með hressilegum tónlistarflutningi og síðan kom hvert framlagið af öðru sem lyfti huga og önd og blés í baráttuglæðurnar. Fundargestir troðfylltu salinn og stóðu upp og klöppuðu vel og lengi í fundarlok. Í þeirri baráttugleði sem gagntók mig á þessum fundi hélt ég á annan fund daginn eftir í Norræna húsinu sem fjallaði um Langasjó, en það virðist deginum ljósara að baráttan mun á næstu mánuðum og árum standa um þá einstöku náttúruperlu.

Það slævði nokkuð gleði mína og baráttuanda þegar ég heyrði viðtal við Sigríði Önnu Þórðardóttur umhverfisráðherra á Rás 2 skömmu síðar. Þar sannaðist sem við höfum ýms óttast, að hún ætlar ekki að reynast metnaðarfyllri fyrir náttúrunnar hönd en fyrirrennari hennar sem sneri umsögnum á hvolf og sveigði niðurstöður fagmanna eftir hentugleikum til að koma fram stóriðjustefnu stjórnvalda. Nýi umhverfisráðherrann var reyndar ekki sérlega skýr í orðum, en bergmálaði fullyrðingar fyrirrennarans þess efnis að verndun og nýting færi vel saman. En hvers konar nýting? Minna fór fyrir skilgreiningum á því. Þá prísaði ráðherra Rammaáætlun um virkjanakosti, en tók vara fyrir því að þar væri ekki um neina forgangsröðun að ræða. Og spurð um kortið ÍSLAND ÖRUM SKORIÐ þá tók nú steininn úr. Nokkurn veginn orðrétt sagði ráðherrann: Já, ég er búin að sjá þetta kort og ég verð að segja að mér finnst því miður verið að gefa í skyn að það verði farið í alla þessa kosti, en það er bara ekki rétt, það er ekki búið að taka ákvarðanir um nema aðeins lítinn hluta. Þetta sagði ráðherra þrátt fyrir að á kortinu er sérstaklega tekið fram að þar sé verið að sýna landið eins og það yrði ef stóriðjuáform stjórnvalda ættu fram að ganga.

Halldór brýst um í feninu

Hinir pólitísku umræðuþættir fjölmiðlanna hneigjast til að verða hver öðrum líkir, þ.e Sunnudagsþátturinn á Skjá einum og Silfur Egils á Stöð 2, enda iðulega fjallað um sömu málin sem hæst ber hverju sinni. Í dag voru það Íraksmálin og þó fyrst og fremst hver sagði hvað og hver braut lög, ef það voru þá brotin lög o.s.frv. Umbrot framsóknarmanna í sínu djúpa feni varpa ófögru ljósi á það hvert pólitísk hundstryggð getur leitt fólk, nú eða þá klaufaskapur gagnvart fjölmiðlungum sem eiga það til að ganga svo hart að viðmælendum sínum að þeir ugga ekki að sér og missa út úr sér orð og setningar sem þeir vilja svo ekki kannast við næsta dag – eða e.t.v. réttara sagt sem aðrir háttsettari vilja ekki að þeir hafi sagt.

Þessi þrætubók er orðin ansi löng og leiðigjörn og hefði fyrir löngu átt að leiða til niðurstöðu. Það þarf ekki mikla rökvísi til að lesa það út úr orðum allra sem eitthvað hafa komið nærri þessum málum, og þá fyrst og fremst ráðherra og þingmanna í utanríkismálanefnd Alþingis, að þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson bera ekki aðeins einir ábyrgð á því að þjóðin hefur mátt sitja undir því að vera yfirlýst vígfús og viljugur stuðningsaðili hernaðarins í Írak, heldur eru þeir orðnir berir að afglöpum í starfi sem í flestum lýðræðisríkjum yrðu til þess að þeir væru látnir segja af sér ráðherradómi.

Og nú situr Davíð utanríkisráðherra og sólar sig á Flórída á meðan Halldór forsætisráðherra brýst um í feninu og neitar að svara spurningum fjölmiðla, enda orðinn uppiskroppa með svör og kann e.t.v. ekki við að trufla Davíð í fríinu sínu. Þyrfti hann þó ekki að svara nema örfáum atriðum:

1. Finnst honum yfirlýstur stuðningur við hernað gegn öðru ríki vera meiriháttar málefni? JÁ eða NEI.

2. Ef honum finnst það vera meiriháttar málefni á þá ekki samkvæmt þingskapalögum að bera slíkan yfirlýstan stuðning undir utanríkismálanefnd Alþingis? (Halldór er með þingreyndustu mönnum og hlýtur að svara þessari spurningu einnig með einföldu JÁ-i.)

3. Skýrði hann utanríkismálanefnd Alþingis frá því að þeir Davíð hefðu ákveðið það sín á milli að þeir mundu að beiðni Bandaríkjamanna lýsa yfir stuðningi við árás á Írak þrátt fyrir að ekki hefði komið fram ný ályktun frá Öryggismálaráði Sameinuðu þjóðanna?

Án þess að nokkru hafi verið lekið í undirritaða bendir allt til þess að það sé mergurinn málsins, hann hafi hreint ekki borið þetta meiriháttar málefni undir utanríkismálanefnd og sé þar með orðinn ber að lögbroti. Bingó! Og ástæðan fyrir því að hann álpast ekki til að fara rétt að hlutunum er sú að þeir tveir, Halldór og Davíð, eru búnir að vera svo lengi við völd að þeir telja sig ekki þurfa að bera eitt né neitt undir aðra, þeir geti bara hringt hvor í annan og ákveðið hlutina sín á milli. Og það hvarflar ekki að þeim að axla ábyrgð gjörða sinna. Valdhrokinn yfirskyggir heilbrigða skynsemi. Þeir eru búnir að missa jarðsambandið.

“Nú erum við aldeilis góðir”

Ógleymanleg er senan í sögu Guðrúnar Helgadóttur um tvíburana uppátækjasömu, Jón Odd og Jón Bjarna, þegar þeir fundu til góðsemi sinnar í garð þroskahefts lítilmagna og sögðu með sjálfsaðdáun hvor við annan: “Nú erum við aldeilis góðir”. Þessi sena sækir stundum á hugann þegar íslenskir athafnamenn baða sig í sviðsljósinu fyrir gjafmildi sína, nú síðast í söfnuninni “Neyðarhjálp úr norðri”.

Flest gott má vissulega segja um þessa viðamiklu og árangursríku söfnun. Fæstir vita sennilega að hún varð til vegna skammarlega nánasarlegra viðbragða ríkisstjórnarinnar sem lét sér sæma að rétta fram 5 milljónir króna til hjálparstarfs vegna hamfaranna ógurlegu í Austur-Asíu og móðgaðist svo yfir gagnrýninni sem hún fékk. Það varð til þess að fólk, sem kærir sig ekki um nafnbirtingar og sviðsljós, ákvað að vinna að söfnun fólksins í landinu til þess að bæta fyrir framkomu ríkisstjórnarinnar. Árangurinn skilar sér í nokkuð á annað hundrað milljónum króna til viðbótar við það sem áður hafði safnast.

Fjöldi manns vann að undirbúningi þessarar sérstöku söfnunar og fann fyrir frjóan jarðveg þar sem flestir landsmenn þekkja til náttúruhamfara og hvílíka neyð þær bera oft með sér, hafa jafnvel reynt á eigin skinni, og finna hjá sér sterka hvöt til að leggja eitthvað fram til að hjálpa öðrum í neyð. Það var athyglisvert að fylgjast með því hvernig hugmyndirnar spruttu fram ein af annarri, margar góðar, en sumar hæpnar. Fólk stóð að alls konar atburðum og safnaði áheitum, afrakstur leiksýninga, tónleika og kvikmynda skilaði sér í söfnunarsjóðinn, fyrirtæki skoruðu hvert á annað o.s.frv. Margt reyndar svipað og oft áður við fjársöfnun.

En hápunktur söfnunarinnar var satt að segja á ýmsan hátt óviðeigandi og hefði frekar átt við söfnun fjármagns til byggingar tónlistarhúss á hafnarbakkanum í Reykjavík en til neyðaraðstoðar vegna ólýsanlegra hörmunga af völdum náttúruhamfara. Flestallt í þættinum, sem sýndur var á þremur sjónvarpsstöðvum samtímis, gekk út á grín og fjör og hressileika, jafnvel algjör fíflalæti á stundum. Finnst mönnum e.t.v. í lagi að láta svona af því að hörmungarnar áttu sér stað svona langt í burtu?

Ofurhressir stjórnendur gátu vart hamið kæti sína og einn af ríkustu mönnum landsins reiddi fram 10 milljónir fyrir jakkaföt af öðrum ríkum manni og báðir voru rosalega fyndnir. Það vantaði bara að þeir horfðust í augu og segðu upphátt eins og Jón Oddur og Jón Bjarni forðum: “Nú erum við aldeilis góðir”. Æ, æ, þá var nú ánægjulegra að sjá litlu stúlkurnar sem höfðu safnað rúmlega 2000 krónum og heyra um strákinn sem gaf afmælispeningana sína í söfnunina.

En kannski hefði ekki safnast eins mikið fé, ef menn hefðu verið stillilegri og ef vellríku mennirnir hefðu ekki fengið tækifæri til að láta á sér bera. Tilgangurinn helgar víst meðalið.

Sundið hressir og bætir

Hænufet á dag kemur heilsunni í lag, tautaði ég mér til hughreystingar vikurnar í desember meðan ég þrammaði hring eftir hring á heimilinu milli þess sem ég gerði fyrirskipaðar æfingar í liggjandi stöðu og fannst satt að segja lítið ganga að fá skrokkinn í lag eftir liðskiptaaðgerðina 2. nóvember sl. Erfitt var að svara endalausum spurningum um hvernig gengi, því mér fannst þetta ekkert ganga. Vildi þó ekki vera neikvæð og kom mér upp stöðluðu svari um að þetta þokaðist í rétta átt. Og auðvitað gerði það svo, þótt þolinmæðin mældist niður undir núlli. Samt reyndi ég að leggja svolítið lið við undirbúning jólanna og vona hið besta um batnandi hag. Svona eru sjálfsagt margir sem taka góða heilsu sem sjálfsagðan hlut. Verst þótti mér að komast ekki út að ganga, en færðin var slík og fréttir af brotnu fólki eftir byltur á hálu svelli, að ég lagði ekki í nein slík ævintýri, fannst ekki á krömina bætandi.

Með hækkandi sól á nýju ári kom þorið og þrótturinn og nú var gerð tilraun til að aka bílnum og fara í sund. Og auðvitað sannaðist enn og aftur þvílík blessun það er allt þetta vatn sem við eigum hér á landi, ekki síst heita vatnið í sundlaugunum sem mýkir og styrkir. Eftir örfá skipti er ég farin að synda allar aðferðir og sparka duglega frá mér og finnst ég eflast með hverjum degi. Nú er þetta sko farið að ganga. Hver veit nema ég verði komin á hestbak eftir nokkrar vikur! Það er ekki ofsögum sagt af lækningamætti sundiðkunar í vel volgu vatni eins og tíðkast að hafa í sundlaugum hér, en ekki kalt og hart vatn eins og er víðast erlendis.

Íslenskar sundlaugar eru alveg sérstakar og heilla ekki aðeins okkur, heldur einnig útlendinga sem kynnast þeim. Íslensk-sænsk kunningjakona mín sem þekkir vel íslenskar sundlaugar og lætur ekki hjá líða að fá sér sundsprett þegar hún heimsækir landið, skipulagði eitt sinn sérstaka ferð fyrir sænskt áhugafólk um söfn og kallaði ferðina “Söfn og sund”. Hún fór með fólkið um landið, lét það gista á stöðum þar sem það gat kynnt sér íslensk söfn, borðað íslenskan mat, einkum fisk, og farið í sund á hverjum degi. Er skemmst frá því að segja að þátttakendur gátu ekki nógsamlega lofað reynslu sína. Þeim þótti gaman að skoða söfnin, enda sérstakt áhugamál þeirra, þau voru mjög ánægð með íslenska fiskinn, en mest af öllu lofuðu þau sundið og fannst stórmerkilegt að kynnast öllum þessum sundlaugum vítt og breitt um landið.

Líklega erum við mörg farin að líta á það sem sjálfsagðan hlut að hafa allar þessar sundlaugar. Svo er ekki, og man ég t.d. þegar litla sundlaugin á Laugum í Suður-Þingeyjarsýslu sem ég ólst upp við var sú eina á stóru svæði. Þar voru haldin námskeið vikum saman á hverju vori fyrir börn alls staðar að úr næstu sveitum og jafnvel frá Húsavík sem ekki kom sér upp sundlaug fyrr en mörgum árum seinna.

Við mættum oftar minnast þess hvílík forréttindi og munaður það er að hafa slíkar gnægtir vatns, bæði af góðu drykkjarvatni og heitu vatni til upphitunar og til að svamla í okkur til heilsubótar. Það á örugglega sinn stóra þátt í því “að bæta lífi við árin”.

Spítalareynsla og pólitík

Það er talsverð þolinmæðisvinna að jafna sig og verða vel sjálfbjarga eftir aðgerð af því tagi sem ég lýsti í síðasta pistli. Dagurinn líður við æfingar ýmist liggjandi, standandi eða gangandi milli þess sem maður leyfir sér að liggja bara og lesa bækur eins og maður sé komin í sumarfrí. Þar er hver konfektmolinn af öðrum: Svo fögur bein, 101 dagur í Bagdad, Rauði úlfur, Hótel Kalifornía, Furðulegt hátterni hunds um nótt, Níu þjófalyklar, The Warlord´s Son (mætti þýða á íslensku), Uppvöxtur litla trés (ekki í fyrsta sinn) og sjálfur Don Kíkóti. Ekki slæmt að fá loksins samfelldan tíma til að lesa bækur líkt og maður gerði langt fram eftir aldri, enda laus þá við truflun afþreyingar á borð við t.d. sjónvarp.

Svo er auðvitað ekki hægt að stilla sig um að fylgjast örlítið með pólitíkinni sem er þó tæpast heilsubætandi þegar verst lætur. Pólitísk umræða er stundum svo ferlega ómerkileg að manni ofbýður. Er sérlega ömurlegt að hlusta á suma núverandi ráðherra opinbera stjórnlaus geðvonskuköst á meðan aðrir verða sér til skammar með aulafyndni sem helst ætti heima á fylliríissamkundum. Sífellt styrkist sú trú mín að það sé bæði brýnt og hreinlega óhjákvæmilegt að skipta sem fyrst um stjórnendur landsmála og gefa báðum stjórnarflokkunum langt frí og þá fyrst og fremst núverandi ráðherrum sem bera öll einkenni valdhroka, yfirlætis og firringar. Ekki veitti af að senda þá og reyndar marga aðra stjórnmálamenn í endurhæfingu og starfskynningu.

Sumir þyrftu að prófa að lifa á meðaltekjum öryrkja eða aldraðra í nokkra mánuði og svona í leiðinni ættu þeir að líta inn á námskeið í orðheldni. Aðrir gætu skráð sig atvinnulausa og reynt að lifa á tekjum sem þeim eru skammtaðar ofan á þá andlegu nauð að teljast ekki gjaldgeng á vinnumarkaði. Enn aðrir gætu lært talsvert á því að sinna “friðargæslu” í t.d. Írak eða Palestínu eða hjálparstarfi í Afríku á vegum Rauða krossins. Kannski yrði sú reynsla til þess að engum þeirra dytti oftar í hug að játast undir stríðsæsingar að óathuguðu máli.

Svo er að sjálfsögðu algjörlega nauðsynlegt að einhverjir kynni sér almennilega íslenska heilbrigðiskerfið sem nú er í stórkostlegri hættu af völdum misvitra manna með niðurskurðarhnífa í höndunum og einkavæðingartrúboð í kollinum. Þeir hafa þjarmað svo að heilbrigðisþjónustunni að hún er farin að mismuna fólki stórlega og er nú að miklu leyti að verða bráðaþjónustukerfi, eins og a.m.k. þrír núverandi ráðherrar hafa nýlega fengið að reyna. Þeir þurftu ekki að bíða eftir aðhlynningu né aðgerð þar sem þeir urðu skyndilega veikir og þurftu skjóta meðferð. Sjúklingar, sem geta beðið af því að þeir eru ekki í bráðri lífshættu, líða hins vegar fyrir skemmdarstarfsemi illa upplýstra ráðamanna sem nenna ekki að setja sig í spor annarra. Ég vil þeim ekki svo illt að þeir þurfi að lenda á margra mánaða biðlista eftir aðgerð, en þeir ættu að hlusta á fólk með slíka reynslu.

Tvær konur kannast ég við sem voru skornar upp við meinum sínum sama dag og ég. Önnur var búin að vera slæm í hné mánuðum saman og var hætt að bera sig um nema í hjólastól. Hún er komin yfir áttrætt og hefur sannarlega unnið alla sína ævi fyrir góðu atlæti í ellinni. Kjörorðið “að bæta lífi við árin” hljómar eins og öfugmæli þegar fólki á þessum aldri er gert að eyða mánuðum og árum í kvöl og pínu. Hin var utan af landi og hafði beðið lengi eftir gerviliðsaðgerð í mjöðm, hún var orðin svo slæm að hún hafði orðið að styðjast við hækjur síðustu mánuði. Þarf varla að spyrja að líðan hennar og vinnufærni né hvernig það er að bíða í óvissu um úrlausn langa vegu frá langþráðri læknishjálp.

Þannig eru dæmin svo ótal, ótal mörg. Fólk er látið bíða eftir aðgerð mánuðum og jafnvel árum saman, þrautum pínt og margt óvinnufært, það bryður verkjalyf og kvíðir jafnvel næturhvíldinni sem oft kallar á verstu verkina. Og eftir margra mánaða óþægindi fyrir aðgerð tekur við margra mánaða endurhæfing eftir aðgerð til að ná starfsorku og lífsfærni á nýjan leik. Nú veit ég ekki hvað aðgerðir af þessu tagi kosta í peningum, en hitt veit ég að aðdragandi þeirra er langur og kostar einstaklinginn ekki aðeins margar stundir kvíða, óvissu og þrauta, heldur einnig mikið fé, jafnvel tugi þúsunda árlega í læknisþjónustu og verkjalyf sem samfélagið tekur sáralítinn þátt í.

Hvaða vit er eiginlega í þessu? Snýst þetta bara um peninga? Og er þá dæmið reiknað til enda? Hverjir hagnast og hverjir eru að tapa? Hvað með hina títtnefndu þjóðhagslegu hagkvæmni?

Læknisaðgerð með tilheyrandi spítalavist er allnokkur reynsla og mörgum reyndar þung raun, en það fer auðvitað eftir stærð og eðli aðgerðar og svo batahorfum. Nýleg reynsla mín er ekki svo slæm miðað við margra annarra, aðgerðin að vísu stór og óþægileg, en batahorfur góðar þótt talsvert reyni á þolinmæðina sem endast þarf í margar vikur. Aðdáun mín á læknislistinni og allri umönnun sjúkra hefur vaxið umtalsvert við þessa reynslu. Þeir sem ráða fjárveitingum til heilbrigðiskerfisins verðskulda hins vegar enga aðdáun og verður að viðurkennast að árvissar kröfur þeirra um mörg hundruð milljóna króna niðurskurð vekur meiri hneykslun og reiði en nokkru sinni fyrr. Ég nenni ekki einu sinni að hugsa svo jákvætt að þeim fyrirgefist af því að þeir viti ekki hvað þeir gjöra. Ég held að sumir viti það einmitt nákvæmlega. Þeir eru að framfylgja pólitískri stefnu sem ekki hefur rúm fyrir samkennd og samhjálp.