Sól og heiðríkja gladdi Vinstri græna ferðalanga á hlaðinu á Grænavatni laugardagsmorguninn 6. ágúst sl., en mývargurinn ætlaði okkur lifandi að drepa þar til við sáum þann kost vænstan að fara að dæmi Mývetninga og láta sem hann væri ekki til. Það tekst satt að segja furðu vel, en stöku sinnum þarf reyndar að krækja eina og eina flugu út úr nös eða eyra eða hrækja henni út í móa. Við sem mættum kl. 11 eins og fyrir var lagt máttum bíða alllengi eftir félögum okkar í samstarfsflokkum VG á Norðurlöndunum sem komið höfðu til fundarhalda hér á landi og notuðu tækifærið að fagna afmæli Steingríms með okkur á Gunnarsstöðum og slást svo í för með okkur í sumarferð VG í Suðurárbotna. Þeir töfðust við Dettifoss og Námaskarð og víðar og við hlutum að fyrirgefa þeim seinkunina vitandi um allar þessar náttúruperlur, enda væsti ekki um okkur í túninu á Grænavatni. En loks var lagt upp í þessa merku ferð á tveimur fjallatrukkum og fjórum jeppum, sá fimmti var þegar kominn inn í Botna hlaðinn harðfiski og hangikjöti og öðru góðgæti, og enn einn fjallajeppinn bættist svo við um kvöldið.
Ferðin inn eftir tók sinn tíma því margt var að skoða undir leiðsögn þeirra heimamanna, Hjörleifs Sigurðssonar, bónda og gangnaforingja á Grænavatni, og Ingólfs Á. Jóhannessonar frá Skútustöðum. Vegurinn er ekki beinlínis beinn og breiður og þaðan af síður sléttur og sumum þótti nóg um þegar leiðin lá hartnær lóðrétt niður malarkamba eða þar sem krækja þurfti milli hnullunga og hraunnibba. En bílstjórarnir sýndu mikla snilld og æðruleysi og við í “kvennarútunni” spöruðum ekki hvatningu né lofsyrði.
Margt var að sjá á leiðinni fyrir utan fagran fjallahringinn. Á einum stað er unnið að uppgreftri fornleifa og á öðrum mátti sjá leifar af aldagamalli fjárrétt sem á sínum tíma var ásteitingarsteinn Bárðdælinga og Mývetninga. Og einn staðurinn hét “á Hlemmi” að sögn Hjörleifs, enda var þar stærðar hlemmur fergður stórum steinum og kom þá í ljós gagnsemi stigans sem bundinn var á þak annars fjallabílsins. Honum var rennt niður um gat undir hlemmnum rétt nógu stóru til að maður gæti klifrað þar niður. Þau gerðu það nokkur og komust að raun um að þar niðri er býsna rúmgóður hellir sem uppgötvast hafði fyrir hreina tilviljun þegar verið var að tjakka upp bíl á melnum. Trúlega má finna marga slíka neðanjarðarhella á þessu svæði.
Eftir langþráða næringu við gangnakofana á Stóru-Flesju fóru ferðalangarnir í mislangar gönguferðir um svæðið, sumir gengu í allt að 5-6 tíma og gátu ekki nógsamlega dásamað Suðurána og bullandi uppsprettur hennar, hraunið og lyngmóana, veðrið og fjallasýnina. Sumir urðu jafnvel skáldmæltir og heyrðust tauta oní bringu sér:
Í Suðurárbotnum er sælan við völd
og svona ætti að vera hvert einasta kvöld
með hægviðri og sólskin við háfjallahring
og hangikjötsdreifarnar skálana um kring.
Síðasta línan ber þess að sjálfsögðu merki að vel var séð fyrir líkamlegri næringu ekki síður en andlegri og ekki skorti heldur misfagran söng þegar dimman var dottin á.
Ef til vill verður þó minnisstæðust sú stund þegar við ferðalangarnir frá sex löndum tókum saman höndum, mynduðum hring á bakka Suðurár og lutum höfði í einnar mínútu þögn til að minnast fórnarlamba kjarnorkusprengjunnar á Hiroshima þennan dag fyrir 60 árum.
Morguninn eftir stóðum við svo í lognværri blíðunni og hlýddum á Erling frá Grænavatni fara með ljóð sín innblásin af fegurð og mikilleik fjallasalarins og hinnar mögnuðu Suðurár. Því næst var ekið niður í Svartárkot í Bárðardal og um Engidal í Mývatnssveit niður hjá Stöng. Frábærri ferð lauk þar sem hún hófst á hlaðinu á Grænavatni.