Það gengur víst ekki annað en að sætta sig við að hestaferðum sumarsins er lokið. Hestarnir eru að vísu enn á járnum og vonandi gefast tækifæri til að liðka þá í skreppitúrum, a.m.k. má reikna með að húsráðendur á Kaldbak fylgi gangnamönnum í Hrunamannahreppi áleiðis í göngur haustsins.
Mér leist ekki meira en svo á blikuna í vor þegar leið að vorferð Fáks, helgarferð á Löngufjörur í júníbyrjun. Ég ætlaði að fara með mína gömlu góðu félaga, Víking og Prúð, margreynda ferðahesta jafnt á fjörum sem í fjalllendi. Ég var þó ekki alveg sátt við göngulagið hjá Víkingi og lét prófa hann og röntgenmynda og skammast mín ekki fyrir að viðurkenna að ég grét oní faxið á mínum góða vini, þegar ljóst var að hann væri illa spattaður og færi ekki oftar í hestaferðir. Hann fær nú að jafna sig í högum á Kaldbak og að liðnum næsta vetri kemur væntanlega í ljós hvort honum verður yfirleitt riðið framar. Þegar svo Prúður minn heltist illa vegna mars í hófbotni var mér allri lokið og ákvað að sleppa alveg þessari vorferð. Prúði batnaði hins vegar og reyndist vel og sjálfum sér líkur í ferðum sumarsins.
Aðalferð Fáks var tveggja vikna ferð 18. -31. júlí norður Kjöl og suður aftur. Farið var frá Kjóastöðum í Fremstaver – Árbúðir – Hveravelli – Ströngukvísl – Galtará og að Hvíteyrum í Skagafirði, en gist í Lauftúni, þar sem hvílt var í einn dag og síðan farin sama leið aftur suður. Ég kom inn í ferðina í Lauftúni og reið með suður Kjöl, treysti mér ekki alveg til tveggja vikna reiðmennsku með nýfengna mjöðm úr áli og plasti, en í ljós kom að ég er ólíkt betur sett með þessa nýju en gömlu mjöðmina sem var mig lifandi að drepa í hestaferðunum síðasta sumar.
Ferðin nú var óvenju fámenn, sem gerði hana mun léttari og þægilegri en ella, þótt ágætt hefði verið og gaman að hafa svo sem 5 – 10 manns í viðbót. Kvöldin liðu við spjall og gamanmál, en ekkert sungið sem er algjört nýmæli í Fáksferðum. Ekki þurfti að slást um svefnpláss og hrotur spilltu ekki nætursvefni að ráði. Varð það með öðru tilefni til eftirfarandi vísu sem fæddist í Fremstaveri:
Feiknarlega Fáksmenn riðu um fjallasalinn
fetuðu þó hægt og pent hér niður dalinn
þvílíkt sem þeir þvaðrað gátu um hitt og þetta
en þegar sváfu mátti heyra saumnál detta.
Veðrið var frábært allan tímann, kom ekki dropi úr lofti og því stundum lélegt skyggni í moldargötunum. Prúður, Kári og Gaukur reyndust vel að vanda, og gaman var að kynnast nýjum hesti sem ég keypti í vor þegar ljóst var að Víkingur minn færi ekki fleiri langferðir. Stormur heitir sá nýi, leirljós 7 vetra undan Hágangi frá Sveinatungu og Fjöður frá Steinum í Borgarfirði. Hann reyndist vel og lofar góðu. Jónas var einnig með nýjan hest, Létti undan Flygli frá Votmúla, flottan hest og gangmikinn.
Svo riðum við Löngufjörurnar 20. – 27. ágúst og í þetta sinn héldum við okkur allan tímann við fjörurnar allt frá Stóra-Kálfalæk til Búða og tókum m.a. 2 daga til að kynnast fjörunum út af Skógarnesi, sem eru víðáttumiklar og bráðskemmtilegar. Við lentum að vanda í ýmsum ævintýrum og háska, m.a. miklum eltingaleik við lausu hrossin sem urðu fyrir ágangi og truflun annarra hestahópa og óvenju margir lentu í sjóbaði upp fyrir haus. Slíkt er bara til skemmtunar við upprifjun ferðar sem nú bætist í minningasjóðinn.