Ógleymanleg er senan í sögu Guðrúnar Helgadóttur um tvíburana uppátækjasömu, Jón Odd og Jón Bjarna, þegar þeir fundu til góðsemi sinnar í garð þroskahefts lítilmagna og sögðu með sjálfsaðdáun hvor við annan: “Nú erum við aldeilis góðir”. Þessi sena sækir stundum á hugann þegar íslenskir athafnamenn baða sig í sviðsljósinu fyrir gjafmildi sína, nú síðast í söfnuninni “Neyðarhjálp úr norðri”.
Flest gott má vissulega segja um þessa viðamiklu og árangursríku söfnun. Fæstir vita sennilega að hún varð til vegna skammarlega nánasarlegra viðbragða ríkisstjórnarinnar sem lét sér sæma að rétta fram 5 milljónir króna til hjálparstarfs vegna hamfaranna ógurlegu í Austur-Asíu og móðgaðist svo yfir gagnrýninni sem hún fékk. Það varð til þess að fólk, sem kærir sig ekki um nafnbirtingar og sviðsljós, ákvað að vinna að söfnun fólksins í landinu til þess að bæta fyrir framkomu ríkisstjórnarinnar. Árangurinn skilar sér í nokkuð á annað hundrað milljónum króna til viðbótar við það sem áður hafði safnast.
Fjöldi manns vann að undirbúningi þessarar sérstöku söfnunar og fann fyrir frjóan jarðveg þar sem flestir landsmenn þekkja til náttúruhamfara og hvílíka neyð þær bera oft með sér, hafa jafnvel reynt á eigin skinni, og finna hjá sér sterka hvöt til að leggja eitthvað fram til að hjálpa öðrum í neyð. Það var athyglisvert að fylgjast með því hvernig hugmyndirnar spruttu fram ein af annarri, margar góðar, en sumar hæpnar. Fólk stóð að alls konar atburðum og safnaði áheitum, afrakstur leiksýninga, tónleika og kvikmynda skilaði sér í söfnunarsjóðinn, fyrirtæki skoruðu hvert á annað o.s.frv. Margt reyndar svipað og oft áður við fjársöfnun.
En hápunktur söfnunarinnar var satt að segja á ýmsan hátt óviðeigandi og hefði frekar átt við söfnun fjármagns til byggingar tónlistarhúss á hafnarbakkanum í Reykjavík en til neyðaraðstoðar vegna ólýsanlegra hörmunga af völdum náttúruhamfara. Flestallt í þættinum, sem sýndur var á þremur sjónvarpsstöðvum samtímis, gekk út á grín og fjör og hressileika, jafnvel algjör fíflalæti á stundum. Finnst mönnum e.t.v. í lagi að láta svona af því að hörmungarnar áttu sér stað svona langt í burtu?
Ofurhressir stjórnendur gátu vart hamið kæti sína og einn af ríkustu mönnum landsins reiddi fram 10 milljónir fyrir jakkaföt af öðrum ríkum manni og báðir voru rosalega fyndnir. Það vantaði bara að þeir horfðust í augu og segðu upphátt eins og Jón Oddur og Jón Bjarni forðum: “Nú erum við aldeilis góðir”. Æ, æ, þá var nú ánægjulegra að sjá litlu stúlkurnar sem höfðu safnað rúmlega 2000 krónum og heyra um strákinn sem gaf afmælispeningana sína í söfnunina.
En kannski hefði ekki safnast eins mikið fé, ef menn hefðu verið stillilegri og ef vellríku mennirnir hefðu ekki fengið tækifæri til að láta á sér bera. Tilgangurinn helgar víst meðalið.