Þegar ég var kennari fyrir – úps! – 40 árum (löngu fyrir kvennaverkfallið) og tók á móti börnum til skráningar í Digranesskóla í Kópavogi spjallaði ég alltaf svolítið við þau og spurði þau m.a. um foreldra þeirra, hvað þau störfuðu o.s.frv. Þau vissu nákvæmlega hvað pabbi gerði, en urðu óttalega vandræðaleg þegar ég spurði hvað mamma gerði og svöruðu svo einmitt svona: Mamma, hún gerir ekkert, hún er bara heima! Það var nefnilega töluvert algengt á þeim árum. Og þá spurði ég auðvitað: Nú, hver eldar matinn? Hver þvær þvottinn? Hver lagar til? o.s.frv. o.s.frv. o.s.frv. Og blessuð börnin uðru æ langleitari því auðvitað gerði mamma þetta allt saman og meira til og ég gat ekki annað en vonað að þetta spjall yki eitthvað á skilninginn og virðinguna fyrir mikilvægu starfi mömmu.
Tíu árum seinna sungu konur á Lækjartorgi:
“Ég spyr: Hver var að raka
hver var að spinna
kemba og tæja
og kúnum að sinna?
Spyr því það vantar alveg vitneskju um það.
Í fjósinu voru kýr og kálfar
mjólkuðu kýrnar sig kannski sjálfar?
Eða gerðu karlmenn það
rétt eins og allt annað?”
Og aftur sungu konur sama textann á Ingólfstorgi um daginn. Textinn sá arna er í fullu gildi því hann minnir okkur á þá staðreynd að sögubækur þegja að mestu leyti um hlut kvenna í lífi og starfi þjóðarinnar í mörg hundruð ár. Af lestri sögubóka mætti ætla að karlar hefðu einir komið að verki og konur hafi naumast verið til. M.a.s. þegar þær tóku sig til og buðu fram sérstaka kvennalista til sveitarstjórna á fyrsta áratug 20. aldarinnar og síðar til Alþingis þótti það ekki merkilegra en svo að þegar hið sama var gert á níunda áratugnum þekktu fæstir fordæmið! Sögubækur höfðu nefnilega þagað um það þunnu hljóði.
Ég held að ekki sé bara skilningsleysi um að kenna, heldur líka skorti á sanngirni og vilja og því miður gætir þess alltof oft enn þann dag í dag. Hvernig skyldi annars standa á því að sérlega kraftmikið og mikilvægt framlag Kvennalistans til baráttunnar fyrir bættum hag kvenna er svo oft sniðgengið í ræðum og riti bæði af konum og körlum? Hversu oft hefur maður ekki heyrt talað um kvennabaráttu og hina og þessa áfanga á þeirri leið, þar sem kvennaverkfallið 1975 og kjör Vigdísar er alltaf nefnt, réttilega að sjálfsögðu, en ótrúlega oft er skautað framhjá þætti Kvennalistans sem átti þó skelegga fulltrúa víða í sveitarstjórnum og á Alþingi í heil 16 ár. M.a.s. síðasta eintak kvenréttindablaðsins 19. júní minnist nokkurra kvennahópa og merkra áfanga í kvennabaráttu síðustu áratuga og tekst á yfirnáttúrlegan hátt að minnast ekki einu orði á Kvennalistann. Það er erfitt að skilja og sætta sig við þöggun af þessu tagi gagnvart svo merku stjórnmálaafli, sem kom mörgu góðu til leiðar og markaði djúp spor í sögu kvennabaráttunnar.
“Eða gerðu karlmenn það rétt eins og allt annað?”