Vegna “fjölda áskorana” festi ég nú hér á skjá nokkra punkta um svolítið sérstakt ferðalag um Spán í síðari hluta septembermánaðar. Við fórum fjögur saman, við Jónas, Ingibjörg og Ævar, meðeigendur okkar að vildarjörðinni Kaldbak í Hrunamannahreppi, í tveggja vikna reisu milli paradora, en svo kallast hótel í uppgerðum köstulum, klaustrum og höllum frá gamalli tíð. Paradorar eru ríkisrekin hótel, það fyrsta var opnað 1928, en þau eru nú að nálgast hundraðið. Þetta eru afar sérstæðir gististaðir eins og nærri má geta, flestir að uppruna aldagamlir, en uppgerðir eru þeir búnir öllum nútíma þægindum. Einn kastalanna sem við gistum var upphaflega byggður fyrir Íslandsbyggð!
Hlutverkaskipan ferðalanga var þannig háttað að Ævar ók farartæki okkar af öryggi og vaxandi dirfsku og Jónas sat við hlið hans sem leiðsögumaður með hliðsjón af fangfylli af kortum og verður að segja þeim félögum til lofs að þeir villtust sjaldan. Við Ingibjörg gegndum hlutverki aftursætisráðgjafa og sendum þeim félögum bæði viðurkenningarorð og háðsglósur eftir atvikum. Að okkar mati stóðum við okkur vel í því.
RONDA
Við flugum til London og þaðan til Malaga þar sem við tókum bíl á leigu og ókum sem leið lá til Ronda. Paradorinn þar stendur á barmi 100 metra djúps gils sem sker sundur bæinn og rétt við aðalbrúna sem tengir bæjarhlutana. Það var gaman að rölta um götur gamla bæjarins í Ronda og fá sér bjór eða rauðvínsglas á verönd kráar í góða veðrinu sem fylgdi okkur hvern dag í þessari ferð. Skammt frá er einn elsti og mikilvægasti nautaatshringur Spánar sem dregur til sín alla bestu nautabana landsins. Þar gerði garðinn frægan fyrir meira en tveimur öldum Pedro Romero sem talinn er upphafsmaður þess stíls sem nútíma spánskir nautabanar tileinka sér. Við höfðum hins vegar lítinn áhuga á þessari þjóðaríþrótt Spánverja, ég hef einu sinni séð nautaat og langar ekki til að endurtaka þá reynslu.
ZAFRA
Daginn eftir lá leiðin til Zafra með viðkomu í Sevilla, helstu borg Andalúsíu. Þar er margt að skoða sem er þó að mestu allt á sama stað. Þar er feiknarstór og mögnuð dómkirkja kennd við heilaga Maríu, og þar er borgarkastali í márískum stíl og fagrir garðar sem gleðja augað.
Zafra er miklu minni bær, en reyndar stundum kallaður “litla Sevilla” og dregur til sín ferðafólk. Paradorinn er í fornum kastala og matsalurinn á torgi milli álma með himininn að þaki. Flott umhverfi, en maturinn ekki sérlega góður og var það því miður víða reynsla okkar.
GUADALUPE
Næstu tvær nætur gistum við í Guadalupe. Á leiðinni þangað stönsuðum við í Merida, höfuðborg Extremadura, aldagamalli borg sem átti sitt blómaskeið á rómverskum tíma og er sannarlega heimsóknar virði. Þar má m.a. sjá fornfrægt og vel varðveitt rómverskt leikhús, sem enn er notað til sýninga á sumrin. Einnig rústir af gríðarstóru hringleikahúsi og ýmsum öðrum merkum minjum.
Við áttum góða dvöl í Guadalupe, litlu þorpi sem óx upp í kringum klaustur frá 14. öld. Paradorinn var raunar upprunalega spítali, en í þessum litla bæ voru í öndverðu rekin sjúkrahús og lyfjaframleiðsla og þar varð til eitt stærsta bókasafn Spánar á þeirri tíð. Klaustrið er vel varðveitt og merkilegt að skoða og einnig sambyggða kirkju. Þarna er enn mikil og lifandi starfsemi og pílagrímar streyma til staðarins víða að úr hinni kaþólsku veröld. Messur voru sungnar oft á dag meðan við dvöldumst þarna og færi gafst á að fylgjast með brúðkaupi. Þótti okkur það ekki jafnast á við íslensk brúðkaup, en sinn er siður í landi hverju. Þá birtust nokkrir Spánverjar á hestum, allir náttúrulega hjálmlausir okkur til mikillar hneykslunar og ekki þótti okkur reiðmennskan að öðru leyti til eftirbreytni.
CÁCERES
Hvergi held ég að Ævar bílstjóri hafi komist í hann krappari en þegar aka þurfti smellþröngar göturnar upp á hæðina þar sem gamli bærinn í Cáceres gnæfir yfir borg nútímans. Það er sérkennilegt og dálítið magnað andrúmsloft í dimmum og drungalegum kastalanum sem hýsir paradorinn, og sama má segja um allan gamla bæinn. En það er gaman að rölta þar um milli borgarmúra, kirkna og turna. Þeir síðastnefndu eru reyndar færri en skyldi því Ísabella og Ferdinand létu eyðileggja mikinn fjölda turna í stjórnartíð sinni á 15. öld í því skyni að draga úr látlausum erjum höfðingja sem börðust þar um yfirráðin. Það ráð gafst víst vel.
CIUDAD RODRIGO
Á leiðinni til Ciudad Rodrigo sem er nálægt landamærum Spánar og Portúgal sáum við heilu flæmin af brunnum skógi. Sannarlega ömurleg sjón. Sama verður ekki sagt um litla gamla bæinn sem skartar 15. aldar kastala sem breytt hefur verið í parador á sérlega fallegan og vistlegan hátt. Og ekki spilla garðarnir sem teygja sig niður brekkurnar framan við kastalann, þar var ljúft að sitja í skugga trjánna og horfa til árinnar lengst niðri. Umhverfis gamla bæinn liggja virkismúrar sem hægt er að ganga eftir mestallan hringinn og njóta víðsýnis til allra átta. Þarna var gaman að vera og þá einkum á paradornum sjálfum.
ÁVILA
Í Salamanca sem við heimsóttum á leiðinni til Ávila er einn elsti og virtasti háskóli Evrópu og ungt fólk áberandi á götum bæjarins. Þar er líka eitt stærsta og glæstasta torg Spánar og ekki í kot vísað að hvíla þar lúna fætur og sötra capuccino í septembersólinni.
Í Ávila er einnig margt að sjá og magnaðastur er sjálfur borgarmúrinn að mestu reistur á 11. öld. Hann er ríflega tveggja kílómetra langur og með 88 virkisturnum. Ég er enn að iðrast þess að hafa ekki þrammað hringinn á múrnum, en var orðin nokkuð fótalúin eftir múrgöngu gærdagsins og langar göngur um steinstræti gamla bæjarins í Ávila og ákvað að hlífa ganglimunum. Dómkirkjan er frá 12. öld og einnig hluti af borgarmúrnum, en þær eru margar kirkjurnar og klaustrin í Ávila og flest tengd heilagri Teresu sem fæddist þar og starfaði á 16. öld.
SIGÜENZA
Við lögðum lykkju á leið okkar til Sigüenza og komum við í Segovia sem er sannarlega heimsóknar virði. Það finnst reyndar fleirum en okkur og því erfitt að finna bílastæði. Þar er feikna tilkomumikil dómkirkja nær fimm alda gömul og einkar fallegur kastali sem Mjallhvít og Þyrnirós og Öskubuska væru fullsæmdar af. Þessar byggingar standa hátt og sjást langar leiðir að. Merkasta mannvirkið er þó vatnsrið eitt mikið sem Rómverjar byggðu um 100 árum eftir Krist og flutti það vatn til borgarinnar allt fram á síðustu öld.
Sigüenza er hins vegar lítill bær en þar beið okkar parador í mikilfenglegum kastala sem gaman var að skoða hátt og lágt en var líka það eina sem virtist athyglisvert í þessum litla bæ.
CUENCA
Næsti áfangastaður var býsna magnaður og reyndi á þolrif þeirra sem ekki eru alveg lausir við lofthræðslu. Paradorinn er í gömlu klaustri á gilbarmi og hinum megin við það liggur gamli bærinn. Til að komast yfir í hann er farin göngubrú ekkert sérlega traustleg að sjá og með tréfjölum sem sumar hverjar dúa undir fótum manns. Það borgaði sig ekki að gjóa augunum niður í djúpt gilið milli þverhníptra klettaveggjanna, nóg kitlaði í magann samt. Mér létti óskaplega eftir hverja ferð þar yfir. Hinum megin blasa við furðuleg svokölluð hangandi hús, byggð á blábrún gilsins og slúta svalir yfir hengiflugið. Þar er að finna nútíma listasafn og eitt besta veitingahús bæjarins, en til að njóta þess er eins gott að horfa ekki alltof mikið út um gluggann. Frá paradornum liggur stígur upp eftir fjallinu sem skartar sérkennilegum steinmyndunum og ægifögru útsýni yfir dalinn. Mjög eftirminnilegur staður Cuenca.
ALARCÓN
Og enn gátum við orðið undrandi og hrifin af aðstæðum og umhverfi þegar við komum í næsta áfangastað, smábæinn Alarcón (500 íbúar) á háum kletti að baki fremur lítils en myndarlegs kastala frá 9. öld. Þar er nú parador með 13 herbergjum á ystu brún þverhnípts klettsins. Mikið og fagurt útsýni er bæði þangað og þaðan, m.a. yfir ána Júcar sem rennur um dalinn fyrir neðan. Þangað leita hjarðir sauðfjár í fylgd hirðis að svala þorstanum. Kliður sauðabjallanna rauf kyrrðina í þessu litla friðsæla þorpi, annað heyrðist varla. Mjög sérstakur staður.
GRANADA
Borgin Granada er umkringd gróskumiklum dölum og fjöllum sem sum hver eru snævi krýnd. Við Jónas brugðum okkur eitt sinn á skíði í Sierra Nevada um páska fyrir allmörgum árum, sem var afar sérstök reynsla þótt brekkurnar þar jöfnuðust engan veginn á við Madonna á Ítalíu. Í þetta sinn var þar lítinn snjó að sjá enda ekki markmiðið að fara á skíði, heldur fyrst og fremst að skoða hið víðfræga hallarvirki Alhambra og garðana fögru í Generalife sem laða að sér ferðafólk hvaðanæva að úr heiminum. Og ekki að undra. Alhambra er stórkostlegt minnismerki um byggingar- og skreytistíl Máranna sem réðu Granada frá 1236 til 1492. Við getum verið þakklát öllum þeim sem á eftir hafa komið fyrir að hafa ekki eyðilagt þessar minjar. Þessum stað verður ekki lýst, hann verður einfaldlega að heimsækja og njóta töfrandi samspils rýmis, birtu og vatns, útskurðar og mósaíkskreytinga og ótrúlega fjölbreytts og fagurlega skipulagðs garðaskrúðs. Sökum dagaruglings misstum við af gistingu í paradornum sem gefur útsýni yfir garðana, en ekki var í kot vísað í Hótel Alhambra Palace, gömlu og virðulegu rétt neðan dýrgripanna á hæðinni. Þaðan er mikið útsýni yfir borgina og m.a. til hinnar mikilfenglegu dómkirkju kenndri við Maríu guðsmóður.
MÁLAGA
var síðasti áfangastaður okkar á Spáni. Við gistum í Parador de Gibralfaro sem stendur utan í háum kletti með frábæru útsýni yfir höfnina og sums staðar beint ofan í voldugan nautaatshring. Fátt annað markvert er að sjá í Málaga og ekkert sem gæti toppað skoðunarferð okkar í Granada. Við hvíldum okkur því þessar síðustu klukkustundir í septembersólinni á Spáni og létum fara vel um okkur á þessum notalega parador de Gibralfaro.
Morguninn eftir skiluðum við bílnum og flugum til London og síðan Íslands þar sem kuldi og hvassviðri tóku á móti okkur. Voru það mikil viðbrigði eftir lognið og 20 – 30 stiga hitann hvern dag vikurnar tvær á Spáni.