Oft er ansi hreint erfitt að vera náttúruverndarsinni. Maður fyllist stundum vonleysi og vanmætti gagnvart ótrúlegum yfirgangi og valdhroka stjórnvalda og hróplegum aðstöðumun þeirra sem vilja fyrir hvern mun virkja og menga í blindri trú á stundarhagnað og hinna sem hafa aðra framtíðarsýn.
Sem betur fer er þó líka oft uppörvandi og bjart fyrir augum í baráttunni fyrir verndun og virðingu fyrir náttúrunni og auðæfum hennar sem nýta má á annan hátt en rista hana niður og fjötra, nýta hana t.d. með því að njóta, læra, rannsaka og fræða. Þetta er auðvitað búið að segja svo ótal sinnum að það hljómar nánast eins og bergmál í djúpu gljúfri. Þess vegna er svo ánægjulegt og uppörvandi þegar baráttan tekur á sig nýjan svip og boðskapurinn er settur fram með nýjum hætti.
Um þessar mundir er mestur kraftur í baráttunni á vegum Náttúruvaktarinnar, sem hefur staðið fyrir fræðslufundum, tónleikum og ýmsum uppákomum og fengið önnur náttúruverndarsamtök til samstarfs. Föstudaginn 21. janúar sl. var kynnt frábært framtak 10 náttúruverndarsamtaka sem hafa gefið út Íslandskort undir heitinu ÍSLAND ÖRUM SKORIÐ. Þessi samtök eru Náttúruverndarsamtök Íslands, Fuglavernd, Náttúruvaktin, SUNN – Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, NAUST – Náttúruverndarsamtök Austurlands, Áhugahópur um verndun Þjórsárvera, Náttúruverndarsamtök Vesturlands, Umhverfisverndarsamtök Skagafjarðar, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Félag um verndun hálendis Austurlands.
Kynningarfundurinn á Hótel Borg var jákvæður, skemmtilegur og fræðandi. Rússíbanarnir slógu tóninn í upphafi með hressilegum tónlistarflutningi og síðan kom hvert framlagið af öðru sem lyfti huga og önd og blés í baráttuglæðurnar. Fundargestir troðfylltu salinn og stóðu upp og klöppuðu vel og lengi í fundarlok. Í þeirri baráttugleði sem gagntók mig á þessum fundi hélt ég á annan fund daginn eftir í Norræna húsinu sem fjallaði um Langasjó, en það virðist deginum ljósara að baráttan mun á næstu mánuðum og árum standa um þá einstöku náttúruperlu.
Það slævði nokkuð gleði mína og baráttuanda þegar ég heyrði viðtal við Sigríði Önnu Þórðardóttur umhverfisráðherra á Rás 2 skömmu síðar. Þar sannaðist sem við höfum ýms óttast, að hún ætlar ekki að reynast metnaðarfyllri fyrir náttúrunnar hönd en fyrirrennari hennar sem sneri umsögnum á hvolf og sveigði niðurstöður fagmanna eftir hentugleikum til að koma fram stóriðjustefnu stjórnvalda. Nýi umhverfisráðherrann var reyndar ekki sérlega skýr í orðum, en bergmálaði fullyrðingar fyrirrennarans þess efnis að verndun og nýting færi vel saman. En hvers konar nýting? Minna fór fyrir skilgreiningum á því. Þá prísaði ráðherra Rammaáætlun um virkjanakosti, en tók vara fyrir því að þar væri ekki um neina forgangsröðun að ræða. Og spurð um kortið ÍSLAND ÖRUM SKORIÐ þá tók nú steininn úr. Nokkurn veginn orðrétt sagði ráðherrann: Já, ég er búin að sjá þetta kort og ég verð að segja að mér finnst því miður verið að gefa í skyn að það verði farið í alla þessa kosti, en það er bara ekki rétt, það er ekki búið að taka ákvarðanir um nema aðeins lítinn hluta. Þetta sagði ráðherra þrátt fyrir að á kortinu er sérstaklega tekið fram að þar sé verið að sýna landið eins og það yrði ef stóriðjuáform stjórnvalda ættu fram að ganga.