Vinstri græn vilja kvenfrelsi

Landsfundur VG 21.-23. október sl. var að minni hyggju glæsilegur, kröftugur og skemmtilegur. Ég held að flestir þátttakendur í fundinum séu mér sammála um þá einkunnagjöf þótt eitthvað kunni að skorta á ánægju sumra með niðurstöður í einhverjum málum. Sjálf var ég harla ánægð með ályktanir og niðurstöður í umhverfismálunum þar sem ég beitti mér fyrst og fremst, en merkilegast var að upplifa kvenfrelsisyfirbragð fundarins, hlýða á vel heppnaðar umræður um kvenfrelsismál í ríflega tveggja tíma dagskrá og sjá svo langþráða yfirlýsingu um kvenfrelsi samþykkta sem kafla í stefnuyfirlýsingu VG sem staðið hefur óbreytt síðan á stofnfundinum 1999.

Þessi ánægjulega niðurstaða á sér langan aðdraganda og vandaðan undirbúning að baki eins og vera ber. Á fyrsta landsfundi VG á Akureyri haustið 1999 heyrðust þær raddir að ekki væri nægilega hugað að kvenfrelsi og jafnrétti kynjanna í stefnu og störfum þessa nýstofnaða flokks. Var þá ákveðið að ýta á flot vinnu í þeim málaflokki og fljótlega síðan efnt til hugmyndasmiðju um þetta efni. Starfshópurinn hélt ótal fundi, viðaði að sér gögnum og fékk til sín gesti, kynnti drög að stefnumörkun á flokksráðsfundum og kynnti loks niðurstöður sínar á landsfundinum í Reykjavík haustið 2001. Þetta efni var svo ákveðið að gefa út í bæklingi fyrir alþingiskosningarnar vorið 2003. Á landsfundinum í Hveragerði haustið 2003 var samþykkt tillaga flokksstjórnar um að stefnuyfirlýsingin frá stofnfundinum1999 yrði endurskoðuð með það að markmiði að styrkja enn frekar og samþætta áherslur kvenfrelsis og alþjóðahyggju stefnumálum flokksins. Niðurstöður þess starfs skiluðu sér svo inn í stefnuyfirlýsinguna með samþykkt landsfundarins í Reykjavík 21.-23. október sl.

Kaflinn er svohljóðandi:

“KVENFRELSI

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur að Ísland eigi að vera öflugur málsvari félagslegs réttlætis um allan heim. Hreyfingin vill samfélag þar sem bæði konur og karlar fá notið sín og hafnar því að fólki sé mismunað eftir kyni. Réttlátt samfélag er hagur allra – bæði kvenna og karla. Til þess af fullt formlegt og félagslegt réttlæti náist þurfa karlar að afsala sér forréttindum sem þeir hafa tekið í arf.

Kynjafræði á að vera sjálfsagður hluti af skólakerfinu. Forsenda kynjajafnréttis er að uppfræða komandi kynslóðir um ástandið í samfélaginu og hvetja ungt fólk til að axla ábyrgð og breyta.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur mikilvægt að laun séu ákvörðuð með tilliti til þess sem leyst er af hendi en ekki því hvort karl eða kona vinnur verkið. Tryggja verður kynjunum jafna möguleika til framfærslu og viðurkenna að samfélagið fær ekki staðist án vinnuframlags kvenna. Öflugt velferðarkerfi er ein af lykilforsendum kvenfrelsis. Í slíku velferðarkerfi er ekki gert ráð fyrir ólaunaðri umönnun kvenna heldur er vinnuframlag þeirra innan kerfisins metið til launa.

Líkaminn má aldrei verða söluvara Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill að kynferðislegt sjálfstæði kvenna verði viðurkennt og telur að konur eigi skýlausan rétt til að ráða yfir eigin líkama, þar með talið taka ákvarðanir um barneignir.

Stjórnvöld eru skuldbundin til að tryggja konum og börnum öryggi gegn öllu ofbeldi og þeim ber jafnframt að tryggja að kynferðisofbeldi sé meðhöndlað sem lögbrot og karlar kallaðir til ábyrgðar. Kynferðisofbeldi birtist m.a. í nauðgunum, sifjaspellum, klámi, vændi, mansali, kynferðisáreitni og líkamlegu og andlegu ofbeldi gegn konum og börnum inni á heimilum þeirra..

Konur eru fátækasti hluti íbúa jarðar og stríð bitnar ekki síst á þeim og börnum. Brýnt er að veita konum öryggi, sýna þeim samstöðu og taka tillit til kynferðis við alla þróunaraðstoð. Viðurkenna verður mikilvægi kvenna í framþróun þriðja heimsins.”

Þá var einnig samþykktur nýr kafli um utanríkismál í anda samþykktar landsfundar fyrir tveimur árum

“SJÁLFSTÆÐ UTANRÍKISSTEFNA, FÉLAGSLEG ALÞJÓÐAHYGGJA

Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að móta sjálfstæða, íslenska utanríkis- og friðarstefnu. Ísland á að standa utan hernaðarbandalaga og hafna aukinni vígvæðingu. Íslendingar eru betur settir án hers, hvort sem hann er innlendur eða erlendur. Brýnt er að friðlýsa landið og lögsögu þess fyrir kjarnorku- sýkla- og efnavopnum og banna umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Beina verður aukinni athygli að umhverfisöryggi en nú er gert og vernda hafið fyrir úrgangi frá kjarnorkuverum og herstöðvum.

Við viljum efla starfsemi Sameinuðu þjóðanna og styrkja lýðræðislega starfshætti á vettvangi þeirra. Treysta ber stoðir þjóðaréttar í þágu friðar og mannréttinda og stuðla að aukinni þátttöku almennra félagasamtaka í stefnumörkun alþjóðamála. Íslensk stjórnvöld eiga að beita sér fyrir alþjóðlegum samningum um afvopnun og takmarkanir á vígbúnaði. Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill efla þátttöku Íslands í stofnunum Sameinuðu þjóðanna þar sem öll ríki eiga aðild, svo og í stofnunum eða samtökum, eins og Norðurlandaráði, Evrópuráðinu og Stofnuninni um öryggi og samvinnu í Evrópu.

Ísland á að styðja eindregið markmið Sameinuðu þjóðanna og ákvæði Mannréttindayfirlýsingarinnar með því að leggja sitt af mörkum til að útrýma fátækt og hungri, félagslegu ranglæti, misskiptingu auðs, kynþáttamismunun, mannréttindabrotum og hernaðarhyggju. Íslendingar eiga að stórauka framlag sitt til þróunarstarfs og leggja fátækum þjóðum lið á alþjóðavettvangi. Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill efla samstarf allra þjóða heims á grundvelli jafnréttis og gagnkvæmrar virðingar fyrir ólíkum skoðunum og menningu. Nauðsynlegt er að réttur allra jarðarbúa til að njóta góðs af framförum í heilbrigðisvísindum verði viðurkenndur og virtur.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill tefla félagslegri hnattvæðingu fram gegn hinni kapítalísku hnattvæðingu samtímans og vinna að friðsamlegri sambúð þjóða, fullum mannréttindum, kvenfrelsi, velferð og jöfnuði allra jarðarbúa. Koma verður með sérstakri skattlagningu eða alþjóðlegum reglum í veg fyrir spákaupmennsku með fjármagn heimshorna á milli. Við teljum að öll ríki heims eigi að hafa óskoraðan rétt og tækifæri til að nýta auðlindir sínar á skynsamlegan hátt í því augnamiði að byggja upp velferðarsamfélög sem standast kröfur um sjálfbæra þróun. Til þess að svo megi verða þarf að leysa hinar fátækari þjóðir af skuldaklafa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans, og endurskoða starfsemi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar frá grunni. Leikreglum heimsviðskipta þarf að gerbreyta svo það tryggi félagslegt jafnrétti og virðingu fyrir öllu umhverfi

Samskipti við Evrópusambandið ber að þróa í átt til samninga um viðskipti og samvinnu, m.a. á sviði menntamála, vinnumarkaðsmála og umhverfismála. Hugsanlegur ávinningur af aðild Íslands að ESB réttlætir ekki frekara framsal á ákvörðunarrétti um málefni íslensku þjóðarinnar og er aðild að Evrópusambandinu því hafnað. Hagsmunir fjármagns og heimsfyrirtækja eru í alltof ríkum mæli drifkraftar Evrópusamrunans, miðstýring, skrifræði og skortur á lýðræði einkennir um of stofnanir þess.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð lýsir stuðningi við hvers kyns friðsamlega baráttu fyrir félagslegu réttlæti án landamæra og jafnframt vilja sínum til að taka þátt í þeirri baráttu hérlendis sem erlendis.”