Það er talsverð þolinmæðisvinna að jafna sig og verða vel sjálfbjarga eftir aðgerð af því tagi sem ég lýsti í síðasta pistli. Dagurinn líður við æfingar ýmist liggjandi, standandi eða gangandi milli þess sem maður leyfir sér að liggja bara og lesa bækur eins og maður sé komin í sumarfrí. Þar er hver konfektmolinn af öðrum: Svo fögur bein, 101 dagur í Bagdad, Rauði úlfur, Hótel Kalifornía, Furðulegt hátterni hunds um nótt, Níu þjófalyklar, The Warlord´s Son (mætti þýða á íslensku), Uppvöxtur litla trés (ekki í fyrsta sinn) og sjálfur Don Kíkóti. Ekki slæmt að fá loksins samfelldan tíma til að lesa bækur líkt og maður gerði langt fram eftir aldri, enda laus þá við truflun afþreyingar á borð við t.d. sjónvarp.
Svo er auðvitað ekki hægt að stilla sig um að fylgjast örlítið með pólitíkinni sem er þó tæpast heilsubætandi þegar verst lætur. Pólitísk umræða er stundum svo ferlega ómerkileg að manni ofbýður. Er sérlega ömurlegt að hlusta á suma núverandi ráðherra opinbera stjórnlaus geðvonskuköst á meðan aðrir verða sér til skammar með aulafyndni sem helst ætti heima á fylliríissamkundum. Sífellt styrkist sú trú mín að það sé bæði brýnt og hreinlega óhjákvæmilegt að skipta sem fyrst um stjórnendur landsmála og gefa báðum stjórnarflokkunum langt frí og þá fyrst og fremst núverandi ráðherrum sem bera öll einkenni valdhroka, yfirlætis og firringar. Ekki veitti af að senda þá og reyndar marga aðra stjórnmálamenn í endurhæfingu og starfskynningu.
Sumir þyrftu að prófa að lifa á meðaltekjum öryrkja eða aldraðra í nokkra mánuði og svona í leiðinni ættu þeir að líta inn á námskeið í orðheldni. Aðrir gætu skráð sig atvinnulausa og reynt að lifa á tekjum sem þeim eru skammtaðar ofan á þá andlegu nauð að teljast ekki gjaldgeng á vinnumarkaði. Enn aðrir gætu lært talsvert á því að sinna “friðargæslu” í t.d. Írak eða Palestínu eða hjálparstarfi í Afríku á vegum Rauða krossins. Kannski yrði sú reynsla til þess að engum þeirra dytti oftar í hug að játast undir stríðsæsingar að óathuguðu máli.
Svo er að sjálfsögðu algjörlega nauðsynlegt að einhverjir kynni sér almennilega íslenska heilbrigðiskerfið sem nú er í stórkostlegri hættu af völdum misvitra manna með niðurskurðarhnífa í höndunum og einkavæðingartrúboð í kollinum. Þeir hafa þjarmað svo að heilbrigðisþjónustunni að hún er farin að mismuna fólki stórlega og er nú að miklu leyti að verða bráðaþjónustukerfi, eins og a.m.k. þrír núverandi ráðherrar hafa nýlega fengið að reyna. Þeir þurftu ekki að bíða eftir aðhlynningu né aðgerð þar sem þeir urðu skyndilega veikir og þurftu skjóta meðferð. Sjúklingar, sem geta beðið af því að þeir eru ekki í bráðri lífshættu, líða hins vegar fyrir skemmdarstarfsemi illa upplýstra ráðamanna sem nenna ekki að setja sig í spor annarra. Ég vil þeim ekki svo illt að þeir þurfi að lenda á margra mánaða biðlista eftir aðgerð, en þeir ættu að hlusta á fólk með slíka reynslu.
Tvær konur kannast ég við sem voru skornar upp við meinum sínum sama dag og ég. Önnur var búin að vera slæm í hné mánuðum saman og var hætt að bera sig um nema í hjólastól. Hún er komin yfir áttrætt og hefur sannarlega unnið alla sína ævi fyrir góðu atlæti í ellinni. Kjörorðið “að bæta lífi við árin” hljómar eins og öfugmæli þegar fólki á þessum aldri er gert að eyða mánuðum og árum í kvöl og pínu. Hin var utan af landi og hafði beðið lengi eftir gerviliðsaðgerð í mjöðm, hún var orðin svo slæm að hún hafði orðið að styðjast við hækjur síðustu mánuði. Þarf varla að spyrja að líðan hennar og vinnufærni né hvernig það er að bíða í óvissu um úrlausn langa vegu frá langþráðri læknishjálp.
Þannig eru dæmin svo ótal, ótal mörg. Fólk er látið bíða eftir aðgerð mánuðum og jafnvel árum saman, þrautum pínt og margt óvinnufært, það bryður verkjalyf og kvíðir jafnvel næturhvíldinni sem oft kallar á verstu verkina. Og eftir margra mánaða óþægindi fyrir aðgerð tekur við margra mánaða endurhæfing eftir aðgerð til að ná starfsorku og lífsfærni á nýjan leik. Nú veit ég ekki hvað aðgerðir af þessu tagi kosta í peningum, en hitt veit ég að aðdragandi þeirra er langur og kostar einstaklinginn ekki aðeins margar stundir kvíða, óvissu og þrauta, heldur einnig mikið fé, jafnvel tugi þúsunda árlega í læknisþjónustu og verkjalyf sem samfélagið tekur sáralítinn þátt í.
Hvaða vit er eiginlega í þessu? Snýst þetta bara um peninga? Og er þá dæmið reiknað til enda? Hverjir hagnast og hverjir eru að tapa? Hvað með hina títtnefndu þjóðhagslegu hagkvæmni?
Læknisaðgerð með tilheyrandi spítalavist er allnokkur reynsla og mörgum reyndar þung raun, en það fer auðvitað eftir stærð og eðli aðgerðar og svo batahorfum. Nýleg reynsla mín er ekki svo slæm miðað við margra annarra, aðgerðin að vísu stór og óþægileg, en batahorfur góðar þótt talsvert reyni á þolinmæðina sem endast þarf í margar vikur. Aðdáun mín á læknislistinni og allri umönnun sjúkra hefur vaxið umtalsvert við þessa reynslu. Þeir sem ráða fjárveitingum til heilbrigðiskerfisins verðskulda hins vegar enga aðdáun og verður að viðurkennast að árvissar kröfur þeirra um mörg hundruð milljóna króna niðurskurð vekur meiri hneykslun og reiði en nokkru sinni fyrr. Ég nenni ekki einu sinni að hugsa svo jákvætt að þeim fyrirgefist af því að þeir viti ekki hvað þeir gjöra. Ég held að sumir viti það einmitt nákvæmlega. Þeir eru að framfylgja pólitískri stefnu sem ekki hefur rúm fyrir samkennd og samhjálp.