Það var ekki fyrr en árið 1987 að við Jónas létum undan miklum þrýstingi að kaupa hest handa Dóru, og þá var málið ekki tekið neinum vettlingatökum, heldur keyptir 2 hestar og fyrr en varði líka hesthús í Víðidalnum. Smám saman bættust svo fleiri hestar í hópinn, og þegar hér er komið sögu – í ágúst 2004 – eigum við 11 hesta í haga á Kaldbak og fóstrum að auki einn fyrir systur Katrínar. Elstu hestarnir tveir njóta næðis í ellinni, en 9 hestar eru í fullri notkun og fara með okkur í allar ferðir.
KÓNGUR og STÍGUR
Árið 1987 voru keyptir 2 hestar, Kóngur frá Akureyri, f. 1979, móðir Blanda Blönduósi, faðir Þráður frá Nýjabæ undan Sörla frá Sauðárkróki, sótrauður, glófextur og stjörnóttur, og Rökkvi sem var brúnn. Þeim síðarnefnda reið ég helst, en kunni ekki lag á honum frekar en öðrum hestum á þeim tíma, og var hann fljótlega seldur Siggu, vinkonu Dóru, sem tók við hann ástfóstri. Var þá keyptur Stígur Reykjavík, f. 1980, hét upphaflega Stóri-Jarpur, dökkjarpur og myndarlegur hestur. Stígur er undan Perlu frá Vík og Létti frá Vík. Faðir Léttis var Úlfsstaða-Blakkur og móðir Blesa í Flatatungu. Faðir Perlu var Svaði frá Kirkjubæ og móðir Perla frá Rauðhálsi. Ekki kunni ég nógu vel í upphafi að meðhöndla Stíg og lærði ekki almennilega að láta hann tölta fyrr en Helgi Leifur hafði tuktað hann svolítið til og kennt mér á hann. Hann var nokkuð þungur í taumi og enginn eðlistöltari, en gat vel tölt með nokkurri fyrirhöfn. Fallegur hestur, kraftmikill og duglegur með þægilegt brokk og reyndist vel í langferðum. Hann var býsna mikill karakter og þurfti að umgangast hann með virðingu, hafði þann sið að ýta rösklega við mér með hausnum þegar ég var að leggja á hann og stússa kringum hann eins og hann vildi segja mér að gjöra svo vel og taka eftir honum og koma fram við hann á tilhlýðilegan hátt. Hann var foringi í sér og passaði vel upp á sinn hóp í langferðum, stuggaði ákveðinn við hestum sem ekki tilheyrðu hans hópi. Veiktist hins vegar í fótum nokkru fyrir tvítugsaldurinn, varð hrösull og dugði ekki lengur til ferða, ekki einu sinni stuttra reiðtúra, svo að hann fær að eiga síðustu árin náðug í haga. Dró þá úr fasi Stígs og karaktereinkennum. Gengur ennþá stundum við taum undir barnabörnunum. Þeir Kóngur hafa verið samferða öll þessi ár og afskaplega samrýmdir og fékk því Kóngur frí frá hestaferðum á sama tíma og Stígur þótt hann hefði ekkert bilað í fótum. Jónas reið honum mest. Hann var grófur og hastur á brokkinu en gat vel tölt, bestur á lúshægu. Jónas var vanur að segja að hann tölti eins hægt og hann kæmist upp með án þess að stoppa!
KÁRI
Kári frá Eystra-Skagnesi, f. 1986, hefur lengi verið minn ferðahestur, en Katrín á hann. Hún hefur hins vegar lítið riðið út mörg síðustu ár svo að hann er alveg í okkar umsjá. Kári er grár, reyndar nú orðinn hvítur, prúður vel á fax og tagl. Faðir Kára var Taktur frá Vík, ff. Fönix frá Vík, fm. Krumma frá Presthúsum. Móðir var Mjöll frá Möðruvöllum, mf. Hrímnir Vilmundarstöðum, mm. Mósa Möðruvöllum. Kári var minn hestur í fyrstu löngu hestaferð okkar 1991, þá aðeins 5 vetra gamall, og stóð sig mjög vel þar sem ég var bara á honum og Stíg til skiptis. Ég hafði ekki vit á því þá að slíkt á ekki að bjóða hestum, allra síst svo ungum hesti sem Kára þá, og enginn sagði mér það þótt við værum með miklu hestafólki. Það virtist þó ekki koma að sök. Kári varð fyrir slysi og datt úr notkun í nokkur ár. Þeir Kóngur voru tveir saman í kerru á leið í hausthaga, þegar kerran slitnaði frá og hvolfdi. Við slysið sparkaðist stór hluti úr öðrum framhófnum á Kára og tók langan tíma að græða það ljóta og mikla sár, en það tókst svo vel að hann hefur nú í mörg ár verið með okkur í ferðum og reynst vel. Hann er jákvæður, viljugur og duglegur, aldrei neitt mál að ná honum, mjúkur og góður töltari og notalegur brokkari. Helsti gallinn er óróleiki í áningu, gengur helst hringinn í kringum mann og treður manni miskunnarlaust um tær. Kári virðist alltaf frekar glaður og óragur og hann fer ósköp vel með knapann.
VÍKINGUR
Víkingur frá Hreðavatni, f. 1987, faðir Leó frá Stóra-Hofi, ff. Dreyri frá Álfsnesi, fm. Litla-Jörp frá Reykjum. Móðir Víkings var Nös frá Grund Vestur-Hópi og foreldrar hennar bæði Hindisvíkurhross. Við keyptum Víking 1992 af Sturlu í Keldunesi. Jónas átti leið þar um í hestaferð og fékk að prófa hann, leist vel á gripinn og samdi um kaup á honum ef mér líkaði hann. Skömmu seinna fór ég í Keldunes og mátti þá raunar bíða alllengi og spjalla við húsfreyju þar til Sturla birtist loks með Víking í taumi og hefur væntanlega riðið úr honum mestu lætin. Mér leist vel á hestinn og kaupin voru gerð. Hann reyndist hins vegar lengi vel ansi villtur og ódæll. Honum leist ekkert á sig í Víðidalnum til að byrja með og rauk oftar en einu sinni, tamningamenn héldu að Jónasi væri eitthvað illa við konu sína þegar þeir sáu hann glíma við Víking og hann sagði þeim að þetta ætti að verða minn hestur. Jónas teymdi Víking yfirleitt frá húsi í Víðidalnum, en hann sleit sig frá honum a.m.k. einu sinni nánast hvert eitt sinn og hljóp montinn aftur heim að húsi, en að hálfnaðri reiðleið tók ég við og reið honum heim og gætti þess vel að vera aftan við traustan hest. Loks náðum við fullkomnum sáttum og Víkingur hefur reynst mér afar vel. Það þarf að kunna á honum lagið, því hafa þeir kynnst sem hafa fengið hann að láni og fengið flugferð til jarðar af því að þeir gættu ekki að sér. Hann er þó alls ekki hrekkjóttur, heldur kraftmikill og svolítið snöggur upp á lagið. Víkingur er mjög fallegur hestur sem allir taka eftir, jarpur með geysiþykkt og mikið fax og tagl, fasmikill, viljugur, kröftugur og úthaldsgóður, mjúkur töltari, en brotnar oftast í brokk þegar hægir á honum. Bestur er hann á mjög hægu eða mjög hröðu tölti. Hann er mjög góður ferðahestur og duglegur að hlaupa fyrir ef á þarf að halda. Enn eitt sérkenni Víkings er að hann fór fljótt að grána á enni og er nú orðinn talsvert grár í vöngum.
PRÚÐUR
Prúður frá Syðra-Skörðugili f. 1987, faðir Sörli frá Sauðárkróki, ff. Fengur frá Eiríksstöðum, fm. Síða Sauðárkróki. Móðir Prúð frá Fjalli, mf. Skór frá Flatey, mm. Hugsýn frá Akranesi. Prúður kom til okkar 1994, Jónas ætlaði sér hann, en gaf mér hann svo 1995. Þá hafði ég aðeins prófað hann nokkrum sinnum, í fyrsta skipti í Sprengisandsferð 1994, og þótt hann góður, en ekkert sérstakur, að vísu mjög mjúkur og öruggur töltari, en við áttum eftir að ná saman. Fljótlega eftir að ég fór að ríða honum meira fann ég hvílíkur eðalhestur Prúður er, geysilega skrefdrjúgur og dúnmjúkur töltari, jafngóður og öruggur upp og niður brekkur og ása, yfir klungur og eftir moldargötum, á hlemmiskeiði eftir Löngufjörum eða Mælifellssandi. Hann hefur keppnisskap og setur í aukagír þegar hann heyrir hófatak að baki sér. Á sléttum grundum eða á söndunum nýtur hann sín best og finnst greinilega gaman að teygja úr sér, tekur stundum jafnvel skeiðhesta á sínu skrefdrjúga hraðatölti. Stórkostlegur hestur. Hann er fallegur og myndarlegur, brúnn, prúður á fax og tagl og margir telja sig þekkja Sörlasvipinn. Hann getur alveg verið reistur og glæsilegur, en vill teygja úr sér á hröðu tölti. Hann er skapmikill og á til leiðindi, einkum þegar lagt er af stað, gerist staður, skýtur jafnvel upp kryppu og þarf að dextra hann. Stundum líður mér reyndar ekkert vel á baki Prúðs, einkum í Víðidalnum þegar honum er auðfinnanlega farið að leiðast hjakkið þar og farið að langa út í haga. Tvisvar hefur hann fleygt mér af sér með látum, en ég fyrirgef honum allt þegar hann sýnir sitt besta. Hvert sinn sem ég sit Prúð hugsa ég einfaldlega: Mikið er þetta góður hestur!
GAUKUR
Gaukur frá Flagbjarnarholti f. 1993, faðir Páfi frá Kirkjubæ, ff. Angi frá Laugarvatni, fm. Hylling frá Kirkjubæ. Móðir Vaka frá Flagbjarnarholti, mf. Riddari frá Syðra-Skörðugili, mm. Irpa Flagbjarnarholti. Við fengum Gauk 1998. Jónas var mest með hann til að byrja með, en smám saman hefur hann orðið minn hestur. Flest gott er um Gauk að segja eftir að hann hefur fullorðnast og þjálfast. Hann átti til mikinn æsing til að byrja með, reif stundum af manni ráðin. Hann var svolítið ósjálfstæður, hneggjaði áhyggjufullur ef vinirnir voru ekki í för með honum, hneggjaði á heimleið úr reiðtúrum í Víðidalnum og hneggjar reyndar enn af áhyggjum t.d. þegar ég sit hann í ferðalögum og hann hefur ekki vinina hjá sér. Gaukur er stór hestur, alrauður, með frekar lítið fax, en myndar
legur og ber sig vel, getur verið vel reistur, en vill lengjast talsvert á ferðalögum. Stærðin kemur honum stundum í koll. Eftirminnilegt er þegar ég sat hann gegnum Búðahraun í fyrsta sinn og ætlaði að teyma hann gegnum hlið með vír þvert að ofan. Allir hestarnir gengu vandræðalaust í gegn, en Gaukur neitaði að beygja höfuðið og horfði þrjóskur yfir vírinn og varð lengi vel ekki haggað. Ef þetta kæmi fyrir núna mundi ég láta alla aðra fara í gegn og fara svolítið frá, þá yrði hann væntanlega fús að leggja eitthvað á sig til að verða ekki eftir. En loks fengum við hann til að beygja höfuðið til að þiggja mola úr lófa og um leið var honum hálfpartinn sparkað í gegn. Gaukur hefur mjög þægilegan gang, töltir vel og án afláts, er duglegur, röskur og þolinn. Hann bætir í rauninni við sig á hverju ári, reyndist t.d. mjög vel á Löngufjörum síðast, alveg óhræddur við sjóinn og skemmti sér greinilega á þeysireið eftir flæðarmálinu. Líklega á hann enn eftir að batna. Hann er mannelskur og allt að því kelinn.
HESTAR JÓNASAR
Hestar Jónasar eru fimm, Álmur, Logi, Garpur, Prins og Djarfur. Tveimur fyrstnefndu hef ég aldrei riðið, þeir eru eins manns hestar. Hina þrjá hef ég setið mismunandi mikið. Ég fer aðeins stuttlega yfir ætterni og einkenni, sögur af þeim verður Jónas að segja.
ÁLMUR frá Ármótum f. 1987 kom til okkar 4 vetra, hann er rauður, glófextur og prúður og töltir algjörlega út í eitt. Faðir Glói frá Langagerði, ff. Reginn Langagerði, fm. Jörp frá Bakkakoti. Móðir Álms var Komma frá Brekkum, mf. Fönix frá Vík, mm. Sunna frá Stórulág.
LOGI frá Húnavöllum, f. 1988, alrauður og algjör hríðskotabyssa á töltinu ef hann fær að ráða hraðanum. Faðir Aðall frá Kjartansstöðum, ff. Hervar frá Sauðárkróki, fm. Glöð frá Kjartansstaðakoti. Móðir Stör frá Akureyri, mf. Sleipnir frá Ásgeirsbrekku, mm. Ör frá Akureyri.
GARPUR frá Dýrfinnsstöðum, f. 1990, brúnn, frekar einrænn, lítt áberandi í stóði, en algjör skeiðgarpur og fer fallega. Faðir Hrafn frá Holtsmúla, ff. Snæfaxi Páfastöðum, fm. Jörp frá Holtsmúla. Móðir Birna frá Hofstöðum, mf. Sómi Hofstöðum, mm. Brúnka Hofstöðum.
PRINS frá Feti, f. 1994, rauðblesóttur, var seinn til, en er loksins orðinn góður ferðahestur og ber sig vel. Faðir Kraflar frá Miðsitju, ff. Hervar frá Sauðárkróki, fm. Krafla frá Miðsitju. Móðir Gifta frá Hurðarbaki, mf. Þröstur frá Kirkjubæ, mm. Róska Hjarðarholti.
DJARFUR frá Kálfholti, f. 1991, alrauður, frekar lítill, hágengur og fer mjög fallega. Faðir Toppur frá Eyjólfsstöðum, ff. Hrafn frá Holtsmúla, fm. Sara Eyjólfsstöðum. Móðir Nótt frá Kálfholti, mf. Nasi frá Sauðárkróki, mm. Yrpa Kálfholti.