Spítalavist

Í dag er 1. desember og a.m.k. háskólastúdentar og alþingismenn verja deginum til að minnast þess að þjóðin öðlaðist fullveldi þennan dag árið 1918. Undirrituð fagnar því tilefni einnig, en er þó öllu uppteknari af því að í dag eru nákvæmlega 4 vikur síðan ég steig fyrstu völtu sporin eftir mikla viðgerð á verkstæði Landspítala háskólasjúkrahúss í Fossvogi.

Fyrir allmörgum árum rann það upp fyrir mér að göngulag mitt var eitthvað að breytast og liðleiki að minnka. Ekki hafði ég þungar áhyggjur af því, afgreiddi málið sem hæglátlega aðvífandi elli, en jók þó heldur sundiðkun og teygjuæfingar til að vinna gegn hugsanlegum stirðleika. Og ekki kom til greina að draga af sér á skíðum eða blaki, hvað þá í hestamennskunni.

Allt kom þó fyrir ekki, grunsemdir jukust um að ekki væri allt með felldu og þegar verkir voru farnir að ræna nætursvefni varð ekki undan komist að leita álits sérfræðings. Dómur hans var sá að þetta ætti bara eftir að versna og á endanum yrði að skipta um mjaðmarlið. Blessaðir læknarnir, bæði heimilislæknar og sérfræðingur, gerðu sitt til að fresta þessari óhjákvæmilegu aðgerð og gera mér kleift að sinna sem lengst fullri vinnu og áhugamálum. Tvívegis fékk ég sterasprautur í liðinn sem gerðu gagn í nokkrar vikur, og ekki voru mér spöruð verkjalyf af ýmsu tagi.

Í hestaferðum síðasta sumars varð mér endanlega ljóst að fleiri slíkar færi ég ekki nema að undangenginni aðgerð. Bjóst við að nú tæki við margra mánaða bið, en ég var lánsöm og kallið kom fyrr en mig varði: 1. nóvember mátti ég koma til undirbúnings aðgerðar, og þar er nú ekki kastað til höndum. Við tók útfylling skjala af öllu mögulegu tagi, mælingar blóðs og blóðþrýstings, hjartalínurit, röntgenmyndatökur, viðtöl við lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraþjálfara og er ég nú hugsanlega að gleyma einhverju. Og slattakorn kostaði þetta allt saman eða hátt í 8 þúsund kr., því enn var ég ekki beint sloppin inn á spítalann þar sem allt er ókeypis – ennþá.

Um kvöldið og næsta morgun skrúbbaði ég mig hátt og lágt með sótthreinsandi sápu og síðan man ég lítið meira fyrr en þriðjudagurinn 2. nóvember var nánast að kvöldi kominn og ég rankaði við mér tengd slöngum og leiðslum við hina aðskiljanlegustu vökva, blóð, lyf og næringu. Mig rámar í þá hugsun mína, þar sem ég lá og horfði á blóðpokann á stöng til vinstri við mig, að vonandi væri þetta úr einhverri vel gerðri manneskju, helst úr góðum vini mínum sem ég vissi að brá sér til blóðgjafar örfáum dögum áður.

Það hressti sálartötrið að sjá stærðar blómvönd með hlýlegum batakveðjum frá vinnufélögunum á náttborðinu um kvöldið þegar mér var velt upp í rúmið á stofu 524. Ekki veitti af notalegum straumum frá góðu fólki þá daga sem í hönd fóru. Umönnun var góð, fumlaus, glaðvær og uppörvandi. Reyndar veigraði ég mér við því að þrýsta á bjöllu eftir aðstoð, ég vissi sem var að blessað fólkið hafði nóg að gera við að hagræða sjúklingum, gefa þeim lyf, hjálpa þeim á snyrtingu og styðja til sjálfshjálpar á alla lund. Og einhvern veginn fannst mér alltaf sem allir aðrir á 5. B hlytu að vera verr farnir en ég.

Í rauninni er stórmerkilegt að lesa sér til um þessa aðgerð sem felst í því að koma fyrir gervilið í slitinni mjöðm og ekki að undra þótt manni detti í hug viðgerð á verkstæði, þar sem varahluturinn “samanstendur af hágæða plastskál og stálkúlu á skafti sem er steypt föst með beinsementi í staðinn fyrir slitna liðinn”, eins og stendur í upplýsingabæklingi spítalans. Þetta er mikið inngrip og tekur tímann sinn fyrir líkamann að aðlagast þessum aðskotahlut, en setning í niðurlagi bæklingsins er uppörvandi: “Fáar aðgerðir skila jafn góðum árangri og gerviliðsaðgerð í mjöðm”. Trúlega lesa margir þessa setningu daglega meðan þeir eru að byggja sig upp.

Fram úr á fyrsta degi var dagskipanin á spítalanum og gekk nú ekki of vel, en svolitlir sigrar unnust á hverjum degi og ekki laust við afrekstilfinningu þegar gangurinn var stikaður á enda á þriðja degi eftir aðgerð. Dugnaðurinn skilaði sér í því að ég var send heim á fimmta degi eftir aðgerðina og verður að viðurkennast að mig langaði mjög að vera örlítið lengur í öruggum höndum þessa ágæta fagfólks á 5. B. En ég beit á jaxlinn þegar ég sá ástandið á deildinni og þörfina fyrir rúmið mitt og þó þau hefðu verið fleiri.

Deildin hinum megin við holið var lokuð, enda spítalanum gert að spara. Innst á ganginum lá ungur strákur allur vafinn og skrámaður eftir bílslys, og á miðjum ganginum lá fullorðin kona sem hafði dottið við að koma sér úr strætisvagni, tvíbrotin á læri og illa haldin af kvölum í baki. Hún fékk rúmið mitt.

Hestarnir okkar

Það var ekki fyrr en árið 1987 að við Jónas létum undan miklum þrýstingi að kaupa hest handa Dóru, og þá var málið ekki tekið neinum vettlingatökum, heldur keyptir 2 hestar og fyrr en varði líka hesthús í Víðidalnum. Smám saman bættust svo fleiri hestar í hópinn, og þegar hér er komið sögu – í ágúst 2004 – eigum við 11 hesta í haga á Kaldbak og fóstrum að auki einn fyrir systur Katrínar. Elstu hestarnir tveir njóta næðis í ellinni, en 9 hestar eru í fullri notkun og fara með okkur í allar ferðir.

KÓNGUR og STÍGUR

Árið 1987 voru keyptir 2 hestar, Kóngur frá Akureyri, f. 1979, móðir Blanda Blönduósi, faðir Þráður frá Nýjabæ undan Sörla frá Sauðárkróki, sótrauður, glófextur og stjörnóttur, og Rökkvi sem var brúnn. Þeim síðarnefnda reið ég helst, en kunni ekki lag á honum frekar en öðrum hestum á þeim tíma, og var hann fljótlega seldur Siggu, vinkonu Dóru, sem tók við hann ástfóstri. Var þá keyptur Stígur Reykjavík, f. 1980, hét upphaflega Stóri-Jarpur, dökkjarpur og myndarlegur hestur. Stígur er undan Perlu frá Vík og Létti frá Vík. Faðir Léttis var Úlfsstaða-Blakkur og móðir Blesa í Flatatungu. Faðir Perlu var Svaði frá Kirkjubæ og móðir Perla frá Rauðhálsi. Ekki kunni ég nógu vel í upphafi að meðhöndla Stíg og lærði ekki almennilega að láta hann tölta fyrr en Helgi Leifur hafði tuktað hann svolítið til og kennt mér á hann. Hann var nokkuð þungur í taumi og enginn eðlistöltari, en gat vel tölt með nokkurri fyrirhöfn. Fallegur hestur, kraftmikill og duglegur með þægilegt brokk og reyndist vel í langferðum. Hann var býsna mikill karakter og þurfti að umgangast hann með virðingu, hafði þann sið að ýta rösklega við mér með hausnum þegar ég var að leggja á hann og stússa kringum hann eins og hann vildi segja mér að gjöra svo vel og taka eftir honum og koma fram við hann á tilhlýðilegan hátt. Hann var foringi í sér og passaði vel upp á sinn hóp í langferðum, stuggaði ákveðinn við hestum sem ekki tilheyrðu hans hópi. Veiktist hins vegar í fótum nokkru fyrir tvítugsaldurinn, varð hrösull og dugði ekki lengur til ferða, ekki einu sinni stuttra reiðtúra, svo að hann fær að eiga síðustu árin náðug í haga. Dró þá úr fasi Stígs og karaktereinkennum. Gengur ennþá stundum við taum undir barnabörnunum. Þeir Kóngur hafa verið samferða öll þessi ár og afskaplega samrýmdir og fékk því Kóngur frí frá hestaferðum á sama tíma og Stígur þótt hann hefði ekkert bilað í fótum. Jónas reið honum mest. Hann var grófur og hastur á brokkinu en gat vel tölt, bestur á lúshægu. Jónas var vanur að segja að hann tölti eins hægt og hann kæmist upp með án þess að stoppa!

KÁRI

Kári frá Eystra-Skagnesi, f. 1986, hefur lengi verið minn ferðahestur, en Katrín á hann. Hún hefur hins vegar lítið riðið út mörg síðustu ár svo að hann er alveg í okkar umsjá. Kári er grár, reyndar nú orðinn hvítur, prúður vel á fax og tagl. Faðir Kára var Taktur frá Vík, ff. Fönix frá Vík, fm. Krumma frá Presthúsum. Móðir var Mjöll frá Möðruvöllum, mf. Hrímnir Vilmundarstöðum, mm. Mósa Möðruvöllum. Kári var minn hestur í fyrstu löngu hestaferð okkar 1991, þá aðeins 5 vetra gamall, og stóð sig mjög vel þar sem ég var bara á honum og Stíg til skiptis. Ég hafði ekki vit á því þá að slíkt á ekki að bjóða hestum, allra síst svo ungum hesti sem Kára þá, og enginn sagði mér það þótt við værum með miklu hestafólki. Það virtist þó ekki koma að sök. Kári varð fyrir slysi og datt úr notkun í nokkur ár. Þeir Kóngur voru tveir saman í kerru á leið í hausthaga, þegar kerran slitnaði frá og hvolfdi. Við slysið sparkaðist stór hluti úr öðrum framhófnum á Kára og tók langan tíma að græða það ljóta og mikla sár, en það tókst svo vel að hann hefur nú í mörg ár verið með okkur í ferðum og reynst vel. Hann er jákvæður, viljugur og duglegur, aldrei neitt mál að ná honum, mjúkur og góður töltari og notalegur brokkari. Helsti gallinn er óróleiki í áningu, gengur helst hringinn í kringum mann og treður manni miskunnarlaust um tær. Kári virðist alltaf frekar glaður og óragur og hann fer ósköp vel með knapann.

VÍKINGUR

Víkingur frá Hreðavatni, f. 1987, faðir Leó frá Stóra-Hofi, ff. Dreyri frá Álfsnesi, fm. Litla-Jörp frá Reykjum. Móðir Víkings var Nös frá Grund Vestur-Hópi og foreldrar hennar bæði Hindisvíkurhross. Við keyptum Víking 1992 af Sturlu í Keldunesi. Jónas átti leið þar um í hestaferð og fékk að prófa hann, leist vel á gripinn og samdi um kaup á honum ef mér líkaði hann. Skömmu seinna fór ég í Keldunes og mátti þá raunar bíða alllengi og spjalla við húsfreyju þar til Sturla birtist loks með Víking í taumi og hefur væntanlega riðið úr honum mestu lætin. Mér leist vel á hestinn og kaupin voru gerð. Hann reyndist hins vegar lengi vel ansi villtur og ódæll. Honum leist ekkert á sig í Víðidalnum til að byrja með og rauk oftar en einu sinni, tamningamenn héldu að Jónasi væri eitthvað illa við konu sína þegar þeir sáu hann glíma við Víking og hann sagði þeim að þetta ætti að verða minn hestur. Jónas teymdi Víking yfirleitt frá húsi í Víðidalnum, en hann sleit sig frá honum a.m.k. einu sinni nánast hvert eitt sinn og hljóp montinn aftur heim að húsi, en að hálfnaðri reiðleið tók ég við og reið honum heim og gætti þess vel að vera aftan við traustan hest. Loks náðum við fullkomnum sáttum og Víkingur hefur reynst mér afar vel. Það þarf að kunna á honum lagið, því hafa þeir kynnst sem hafa fengið hann að láni og fengið flugferð til jarðar af því að þeir gættu ekki að sér. Hann er þó alls ekki hrekkjóttur, heldur kraftmikill og svolítið snöggur upp á lagið. Víkingur er mjög fallegur hestur sem allir taka eftir, jarpur með geysiþykkt og mikið fax og tagl, fasmikill, viljugur, kröftugur og úthaldsgóður, mjúkur töltari, en brotnar oftast í brokk þegar hægir á honum. Bestur er hann á mjög hægu eða mjög hröðu tölti. Hann er mjög góður ferðahestur og duglegur að hlaupa fyrir ef á þarf að halda. Enn eitt sérkenni Víkings er að hann fór fljótt að grána á enni og er nú orðinn talsvert grár í vöngum.

PRÚÐUR

Prúður frá Syðra-Skörðugili f. 1987, faðir Sörli frá Sauðárkróki, ff. Fengur frá Eiríksstöðum, fm. Síða Sauðárkróki. Móðir Prúð frá Fjalli, mf. Skór frá Flatey, mm. Hugsýn frá Akranesi. Prúður kom til okkar 1994, Jónas ætlaði sér hann, en gaf mér hann svo 1995. Þá hafði ég aðeins prófað hann nokkrum sinnum, í fyrsta skipti í Sprengisandsferð 1994, og þótt hann góður, en ekkert sérstakur, að vísu mjög mjúkur og öruggur töltari, en við áttum eftir að ná saman. Fljótlega eftir að ég fór að ríða honum meira fann ég hvílíkur eðalhestur Prúður er, geysilega skrefdrjúgur og dúnmjúkur töltari, jafngóður og öruggur upp og niður brekkur og ása, yfir klungur og eftir moldargötum, á hlemmiskeiði eftir Löngufjörum eða Mælifellssandi. Hann hefur keppnisskap og setur í aukagír þegar hann heyrir hófatak að baki sér. Á sléttum grundum eða á söndunum nýtur hann sín best og finnst greinilega gaman að teygja úr sér, tekur stundum jafnvel skeiðhesta á sínu skrefdrjúga hraðatölti. Stórkostlegur hestur. Hann er fallegur og myndarlegur, brúnn, prúður á fax og tagl og margir telja sig þekkja Sörlasvipinn. Hann getur alveg verið reistur og glæsilegur, en vill teygja úr sér á hröðu tölti. Hann er skapmikill og á til leiðindi, einkum þegar lagt er af stað, gerist staður, skýtur jafnvel upp kryppu og þarf að dextra hann. Stundum líður mér reyndar ekkert vel á baki Prúðs, einkum í Víðidalnum þegar honum er auðfinnanlega farið að leiðast hjakkið þar og farið að langa út í haga. Tvisvar hefur hann fleygt mér af sér með látum, en ég fyrirgef honum allt þegar hann sýnir sitt besta. Hvert sinn sem ég sit Prúð hugsa ég einfaldlega: Mikið er þetta góður hestur!

GAUKUR

Gaukur frá Flagbjarnarholti f. 1993, faðir Páfi frá Kirkjubæ, ff. Angi frá Laugarvatni, fm. Hylling frá Kirkjubæ. Móðir Vaka frá Flagbjarnarholti, mf. Riddari frá Syðra-Skörðugili, mm. Irpa Flagbjarnarholti. Við fengum Gauk 1998. Jónas var mest með hann til að byrja með, en smám saman hefur hann orðið minn hestur. Flest gott er um Gauk að segja eftir að hann hefur fullorðnast og þjálfast. Hann átti til mikinn æsing til að byrja með, reif stundum af manni ráðin. Hann var svolítið ósjálfstæður, hneggjaði áhyggjufullur ef vinirnir voru ekki í för með honum, hneggjaði á heimleið úr reiðtúrum í Víðidalnum og hneggjar reyndar enn af áhyggjum t.d. þegar ég sit hann í ferðalögum og hann hefur ekki vinina hjá sér. Gaukur er stór hestur, alrauður, með frekar lítið fax, en myndar

legur og ber sig vel, getur verið vel reistur, en vill lengjast talsvert á ferðalögum. Stærðin kemur honum stundum í koll. Eftirminnilegt er þegar ég sat hann gegnum Búðahraun í fyrsta sinn og ætlaði að teyma hann gegnum hlið með vír þvert að ofan. Allir hestarnir gengu vandræðalaust í gegn, en Gaukur neitaði að beygja höfuðið og horfði þrjóskur yfir vírinn og varð lengi vel ekki haggað. Ef þetta kæmi fyrir núna mundi ég láta alla aðra fara í gegn og fara svolítið frá, þá yrði hann væntanlega fús að leggja eitthvað á sig til að verða ekki eftir. En loks fengum við hann til að beygja höfuðið til að þiggja mola úr lófa og um leið var honum hálfpartinn sparkað í gegn. Gaukur hefur mjög þægilegan gang, töltir vel og án afláts, er duglegur, röskur og þolinn. Hann bætir í rauninni við sig á hverju ári, reyndist t.d. mjög vel á Löngufjörum síðast, alveg óhræddur við sjóinn og skemmti sér greinilega á þeysireið eftir flæðarmálinu. Líklega á hann enn eftir að batna. Hann er mannelskur og allt að því kelinn.

HESTAR JÓNASAR

Hestar Jónasar eru fimm, Álmur, Logi, Garpur, Prins og Djarfur. Tveimur fyrstnefndu hef ég aldrei riðið, þeir eru eins manns hestar. Hina þrjá hef ég setið mismunandi mikið. Ég fer aðeins stuttlega yfir ætterni og einkenni, sögur af þeim verður Jónas að segja.

ÁLMUR frá Ármótum f. 1987 kom til okkar 4 vetra, hann er rauður, glófextur og prúður og töltir algjörlega út í eitt. Faðir Glói frá Langagerði, ff. Reginn Langagerði, fm. Jörp frá Bakkakoti. Móðir Álms var Komma frá Brekkum, mf. Fönix frá Vík, mm. Sunna frá Stórulág.

LOGI frá Húnavöllum, f. 1988, alrauður og algjör hríðskotabyssa á töltinu ef hann fær að ráða hraðanum. Faðir Aðall frá Kjartansstöðum, ff. Hervar frá Sauðárkróki, fm. Glöð frá Kjartansstaðakoti. Móðir Stör frá Akureyri, mf. Sleipnir frá Ásgeirsbrekku, mm. Ör frá Akureyri.

GARPUR frá Dýrfinnsstöðum, f. 1990, brúnn, frekar einrænn, lítt áberandi í stóði, en algjör skeiðgarpur og fer fallega. Faðir Hrafn frá Holtsmúla, ff. Snæfaxi Páfastöðum, fm. Jörp frá Holtsmúla. Móðir Birna frá Hofstöðum, mf. Sómi Hofstöðum, mm. Brúnka Hofstöðum.

PRINS frá Feti, f. 1994, rauðblesóttur, var seinn til, en er loksins orðinn góður ferðahestur og ber sig vel. Faðir Kraflar frá Miðsitju, ff. Hervar frá Sauðárkróki, fm. Krafla frá Miðsitju. Móðir Gifta frá Hurðarbaki, mf. Þröstur frá Kirkjubæ, mm. Róska Hjarðarholti.

DJARFUR frá Kálfholti, f. 1991, alrauður, frekar lítill, hágengur og fer mjög fallega. Faðir Toppur frá Eyjólfsstöðum, ff. Hrafn frá Holtsmúla, fm. Sara Eyjólfsstöðum. Móðir Nótt frá Kálfholti, mf. Nasi frá Sauðárkróki, mm. Yrpa Kálfholti.

Eftirminnileg sumarferð Vinstri-grænna

Vinstri-grænir fór sína árlegu sumarferð 6. – 8. ágúst sl. og mun hún áreiðanlega lifa lengi í minni ferðalanga. Stórbrotin náttúran lék þar aðalhlutverk auk þess sem máltækið góða “maður er manns gaman” sannaðist rækilega. Við vorum 70 sem fórum inn að Langasjó á laugardaginn í 2 vel búnum fjallabílum og 1 jeppa sem Björn og Þuríður lögðu til þegar í ljós kom að hvert sæti var fyllt í rútunum. Hilmar Gunnarsson og Broddi sonur hans sátu hvor í sinni rútu og miðluðu okkur bæði fræðslu og skemmtun og Þorsteinn Ólafsson fræddi jeppafólkið.

Veðrið hefði vissulega mátt vera blíðara inn við Langasjó, en okkur tókst þó að sjá og skynja þá ægifegurð og mikilfengleik sem umhverfið þarna býr yfir. Það gekk á með hryðjum roks og rigningar þegar við komum inn að Sveinstindi og í reynd varla hundi út sigandi. Eftir hetjulegar tilraunir til að njóta útsýnisins var því smalað í bílana og ekið í átt að Vatnajökli norðvestan með Langasjó alla leið upp á Breiðbak og þótti ýmsum leiðin allháskaleg. Þangað komin gátum við séð yfir á Tungná og glitt í Veiðivötn. Síðan var aftur ekið að Sveinstindi við suðvesturenda Langasjávar og hafði þá verulega ræst úr veðri svo að hægt var að ganga þar um og upp á hóla til að njóta útsýnisins sem er vægast sagt magnað. Má búast við að margir verði til þess að renna aftur inn að Langasjó til að njóta þessarar stórbrotnu náttúru í betra veðri og skyggni.

Öllum sem þrek og þor hafa er ráðlagt að ganga á Sveinstind þaðan sem er víðsýnt mjög og sagt að ætla til þess 1 – 3 stundir samanlagt. Tveim galvöskum félögum, þeim Steingrími J. og Þorvaldi Erni, fannst ómögulegt annað en að þreyta uppgöngu á Sveinstind þótt tíminn væri naumur og þeir runnu skeiðið beinustu leið upp á 25 – 30 mínútum! Þar biðu þeir þess stutta stund að vindur hreinsaði tindinn og sáu þá vítt um veröld alla.

Um kvöldið reiddu 2 konur úr sveitinni, þær Elísabet og Guðveig, fram firnagott holugrillað lambalæri með öllu tilheyrandi og jók það enn á gleði ferðalanga sem spiluðu og sungu og fóru með gamanmál eftir því sem andinn innblés. Entust reyndar sumir betur en aðrir fram eftir nóttu, en við nefnum engin nöfn.

Á sunnudagsmorguninn skildu leiðir, þar sem margir voru á eigin bílum. Langferðabíllinn fór hins vegar Fjallabaksleið nyrðri og skorti nú ekkert á birtuna og víðsýnið. Var sérlega gaman fyrir mig að fara víða sömu leiðir eða nálægt sem sem við riðum í Fáksferðinni skömmu áður. Stansað var víða á góðum útsýnisstöðum, komið við í Landmannalaugum og við Ljótapoll. Margir voru að kynnast þessu svæði í fyrsta sinn og mikil ánægja að ferðalokum.

Fegurð og fákar að Fjallabaki

Fáksferðin 2004 mun lifa í minningunni fyrir margra hluta sakir. Efst í huga eftir hverja ferð eru raunar alltaf hestarnir, samneytið við þá, hvernig þeir reyndust og hvað þeir gáfu manni. Þá eru það reiðleiðirnar sem oftast eru blanda af góðum götum og vondum, mjúkum og hörðum, og svo var enn í þetta sinn.

Eftirminnilegasta leiðin var frá Hvanngili í Bólstað undir Einhyrningi, leið sem ég hef ekki áður farið. Liggur hún um Álftavatn og Faxa, meðfram Torfakvísl, yfir Markarfljót að krossgötum í Króki, niður með Markarfljóti að Emstrubrú og þaðan í Bólstað undir Einhyrningi. Leiðin er nokkuð erfið, mikið riðið upp og niður bratta ása og fjöll, en útsýnið og fegurðin ógleymanleg. Þann dag hefði ég raunar kosið að geta farið ögn hægar til að njóta alls þessa betur.

Í þessari ferð var hins vegar einfaldlega ekki mögulegt að ríða hægt, a.m.k. ekki fyrir forreiðarmenn, og er þar komið að enn einu sem gerir Fáksferð 2004 eftirminnilega. Hún var nefnilega óvenju fjölmenn, 46 manns, þar af 3 með trússið, en öll hin ríðandi nema að nokkrir skiptust á um að vera á baki og að aka fylgdarbílum sem aðstoðuðu við áningu. Og hrossahópurinn var ekki smár, 176 talsins þegar flest var, og það var stórbrotin og grípandi sjón þegar hestalestin hlykkjaðist um hálsa og ása, upp og niður brekkur og á fleygiferð yfir vatnsmiklar ár. Þetta var óskaplega spennandi og skemmtilegt og í rauninni stórmerkilegt hvað allt gekk vel þrátt fyrir þennan mikla fjölda.

En það verður að segjast alveg eins og er að þetta er alltof stór hópur. Bæði verða lætin of mikil og hraðinn of mikill, sem þreytir hross og menn óþarflega mikið, auk þess sem hættara er við meiðslum t.d í áningu þar sem stundum slettist upp á vinskapinn og einn slær annan í látunum. Nokkrir hestar heltust á leiðinni, en jöfnuðu sig og nýttust áfram eftir að hafa fengið að hlaupa frjálsir með í 2 – 3 daga. Aðra þurfti að senda heim, en þó merkilega fáa, aðeins 5 af öllum þessum fjölda. Þá er þetta erfitt fyrir knapa, einkum forreiðarmenn sem ekki aðeins vísa veginn heldur þurfa einnig að reyna að halda aftur af lausu hrossunum. Þegar um slíkan fjölda er að ræða er forreiðin nánast eins og á flótta undan lausu hrossunum.

Þá er það vissulega svo að þetta er álag á land og náttúru, talsvert rót á áningarstöðum og erfiðara en ella að hindra laus hross í að hlaupa út úr lestinni. Að sjálfsögðu eru áningarstaðir valdir af kostgæfni á gróðurlausum svæðum, ef þess er nokkur kostur, og varast að ríða yfir viðkvæm gróðursvæði. Margt góðra reiðmanna á öflugum hestum hélt hins vegar vel utan um alla þætti og mikill kostur var að hafa fylgd tveggja jeppa sem víðast hvar slógu upp gerðum á 5 – 9 km. fresti til þess að áfangar yrðu ekki of langir og auðvelt yrði að stöðva í áningu. En slík var ferðin á hestalestinni að jeppafólkið mátti halda vel á spöðunum til að hafa við henni.

Ferðin tók 8 daga. Lagt var upp frá Leirubakka í Landsveit 18. júlí og riðið í Áfangagil, þaðan í Landmannahelli, þá Hólaskjól, Hvanngil, Bólstað undir Einhyrningi, Goðaland, þar sem gist var í 2 nætur, þaðan í Gunnarsholt og loks Leirubakka þar sem hringnum var lokað 25. júlí. Á þessum hring er farið bæði inn á Fjallabaksleið syðri og nyrðri og það verður að segjast eins og er að fegurðin að Fjallabaki er engu lík. Ég verð alltaf jafn heilluð þegar farið er um þetta svæði sem býður upp á andstæður í hrikaleik og ljúfri mýkt, silfurtærar ár og beljandi fljót, kuldalegan jökul, fagurgræna mosagróna ása og gilskorin fjöll. Veðrið lék við okkur allan tímann, var hlýtt og oft sól, en helst rigndi um nætur eins og til að rykbinda fyrir næsta dag. Þetta gat eiginlega ekki betra verið.

Sleifarlag viðurkennt

Ég get nú ekki annað sagt en að ég hafi fengið þokkalegan frið fyrir óþreyjufullum lesendum þessarar minnisbókar, en er mér þó fyllilega meðvitandi um eigið sleifarlag. Hef það mér til afsökunar að ég annast að mestu skrif og innsetningar á heimasíðu Vinstri grænna og finnst það bara nóg að sinni.

Stöku sinnum set ég þó hér inn persónulegar vangaveltur eða frásagnir og ein og ein grein hrýtur úr “penna” sem ég set þá í greinasafnið. Síðasta greinin fór inn í það fyrir stundu, “Stöndum vörð um Neyðarmóttökuna”.

Hestaferð í hitabylgju

Enn ein eftirminnileg Fáksferð er að baki, sumarferð Fáks 2003. Við lögðum upp frá Kaldbak í Hrunamannahreppi um miðjan dag 17. júlí í um 25 stiga hita. Líklega átti hitinn sinn þátt í því hversu vel gekk að hafa hemil á lausu hrossunum, en þau eru oft óþekk í upphafi ferðar, eiga þá eftir að samlagast og læra að treysta fararstjórn.

Fyrsta daginn riðum við upp með gljúfrum Stóru-Laxár og náttuðum í Helgaskála. Næsta dag lá leiðin í Hólaskóg heldur leiðigjarnan veg, en hápunktur dagsins var Háifoss í Fossá efst í Þjórsárdal, einkar fallegur í djúpu gili. Og enn var hitinn slíkur að úlpan var bundin um mittið allan daginn. Í Hólaskógi er nýbyggður skáli með mjög góðri aðstöðu, m.a.s. sturtum, en það telst til munaðar í hestaferðum. Þriðji áfanginn var í Gljúfurleit og síðdegis þann dag dró loks úr hitanum sem verður líklega það sem kemur fyrst í hugann þegar ferðarinnar verður minnst. Hitinn fór ekki undir 20 stig fyrstu þrjá dagana og hélt talsvert aftur af mönnum og hestum.

Fjórða daginn héldum við í Bjarnalækjarbotna með viðkomu hjá fossinum Dynk í Þjórsá. Skálinn í Bjarnalækjarbotnum er ansi langt frá því að vera aðlaðandi, en umhverfið er skemmtilegt og götur þangað góðar. Fimmta daginn var stefnan tekin í dálitlum sveig til Kerlingarfjalla. Dagleiðin sú var löng og býsna ströng og nú voru menn og hestar fegnir að vera lausir við hitann, því að hvorki vott né þurrt, vatn né gras, var að fá mestalla leiðina. Þegar loksins sást í vatnsfall undir fjöllunum greikkuðu hestarnir sporin og var tilkomumikið að sjá hópinn dreifa sér og streyma niður brekkuna og svolgra í sig tært vatnið úr ánni. Þvílíkt sem þeir drukku, blessaðir klárarnir.

Ýmislegt hefur breyst í Kerlingarfjöllum síðan fyrir aldarfjórðungi þegar við vorum þar vikulangt með barnahópinn að skemmta okkur á skíðum. Nú festir ekki lengur nægan snjó til að hægt sé að renna sér þar á skíðum á sumrin. Nú heitir þetta hálendismiðstöðin í Ásgarði, húsum hefur fjölgað og aðstaðan breyst og batnað. Við hvíldum okkur og hrossin í einn dag sem var ágætt að öðru leyti en því að hestagerðið var of þröngt og þótt þeim væri séð fyrir nægu heyi og vatni voru þau ekki alveg ánægð og brutust út úr gerðinu seinni morguninn. Þá kom sér vel að einn nikótínfíkillinn þurfti að reykja naglann sinn eldsnemma og sá hvað gerðist. Hrossin náðust því fljótlega og tókst ekki að gera mikinn usla í grasi vöfðum brekkunum.

Frá Kerlingarfjöllum var stefnan markviss til byggða: Svínárnes, Helgaskáli, Kaldbakur. Veðrið var áfram milt og gott, en síðustu tvo dagana gerði hellirigningu í ferðalok. Það var því býsna niðurrigndur hópur sem safnaðist saman á Kaldbak síðdegis 25. júlí og gæddi sér á kaffi og tertum áður en kvaðst var með kossum og þökkum eftir einkar skemmtilega ferð um afréttir Skeiðamanna, Gnúpverja og Hrunamanna.

Okkar ágætu ferfættu vinir hvíla sig nú í heimahögum til næstu hestaferðar síðustu vikuna í ágúst.

Landsvirkjun eins og frekur krakki

Landsvirkjun virðist sérstaklega uppsigað við vernduð svæði þessa lands. Henni er nú að takast með sérlegum stuðningi ríkisstjórnar og meirihluta Alþingis að umbylta náttúrunni norðan Vatnajökuls og þar með töldu friðuðu svæði Kringilsárrana. Henni virðist einnig ætla að takast að troðast inn í friðlandið í Þjórsárverum. Og nú hefur hún lagt til atlögu við Laxársvæðið í Suður-Þingeyjarsýslu sem er verndað með sérstökum lögum. Landsvirkjun er ekkert heilagt. Hún er eins og frekur krakki sem hættir ekki að suða og tuða um nammi og dót þar til foreldrarnir láta undan og kaupa sér frið. Foreldrarnir í þessu dæmi, ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, eru því miður einstaklega undanlátssamir og hafa ekki minnsta áhuga á uppeldi þessa frekjudalls enda sjálfir illa haldnir af frekju og tillitsleysi.

Vonandi verður hægt að stöðva nýjustu fyrirætlanir Landsvirkjunar sem fram koma í drögum að matsáætlun vegna hækkunar stíflu í Laxárgljúfri, en frestur til að skila inn athugasemdum um hana rann út í dag, 11. júlí. Vegna langþráðra sumardaga er hætt við að fáir hafi brugðist við á þessu stigi, en fari málið lengra gefast tækifæri á síðari stigum.

Sjálf rankaði ég við mér á síðustu stundu og sendi eftirfarandi athugasemd:

Landsvirkjun

Háaleitisbraut 68

103 Reykjavík

Seltjarnarnesi 10. júlí 2003

Efni: Drög að tillögu að matsáætlun vegna hugmynda um hækkun stíflu efst í Laxárgljúfri í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu.

Undirrituð hefur kynnt sér drög að tillögu að áætlun um mat á umhverfisáhrifum vegna hækkunar stíflu í Laxá í Aðaldal og gerð inntakslóns sem sökkva mundi landi beggja vegna Laxár upp eftir Laxárdal.

Það sætir undrun að þessar hugmyndir skuli enn skjóta upp kolli á skjön við þrjátíu ára gamalt samkomulag um að ekki verði af frekari virkjunarframkvæmdum á þessu svæði.

Eins og réttilega er bent á í drögunum gilda um þetta svæði lög nr. 36/1974 um verndun Mývatns og Laxár. Samkvæmt þeim er hvers konar mannvirkjagerð og jarðrask óheimil á 200 m breiðum bakka meðfram Laxá báðum megin nema leyfi Umhverfisstofnunar komi til. Þar eru einnig ákvæði um að breytingar á hæð vatnsborðs stöðuvatna og rennsli straumvatna séu óheimilar nema til verndunar og ræktunar þeirra.

Það verður að teljast nánast óhugsandi að Umhverfisstofnun leyfi fyrirhugaðar framkvæmdir sem ganga svo algörlega í berhögg við lög um verndun Mývatns og Laxár.

Undirrituð telur þær röksemdir afar veikburða sem settar eru fram í drögunum til stuðnings þessum fyrirætlunum. Þær geta ekki með nokkru móti réttlætt fyrirhugaðar framkvæmdir á þessu sérstæða og sérstaklega lögverndaða svæði.

Undirrituð leggur til að Landsvirkjun leggi þessar hugmyndir endanlega á hilluna og leiti annarra ráða til að leysa vanda við rekstur Laxárvirkjunar.

Virðingarfyllst,

Kristín Halldórsdóttir

kt. 201039-4529

Fornuströnd 2

170 Seltjarnarnesi

Ólgandi fjör í femínistum

19. júní er mikill merkisdagur þótt ekki þyki ástæða til að gefa gjörvallri þjóðinni frí til að halda upp á hann með verðugum hætti. En ég lít nánast á það sem skyldu mína að lyfta huga og sál þennan dag, hugsa til formæðra okkar og fyrirrennara og gleðjast yfir því sem áunnist hefur í réttindabaráttu kvenna síðustu 100 árin eða svo. Þó finnst mér alltaf ögn óþægilegt hvað þessi barátta er lokuð bók fyrir mörgum sem kunna ekki einu sinni skil á því að þennan dag, 19. júní árið 1915, staðfesti Danakonungur nýja stjórnarskrá Íslendingum til handa með kosningarétti og kjörgengi kvenna. Að vísu var það ekki fyrr en 5 árum síðar að síðustu leifunum af misræmi milli kynja var útrýmt, en 19. júní 1915 var stærsta skrefið stigið og því er sá dagur hafður í heiðri.

Síðan þessum mikilvæga áfanga var náð fyrir 88 árum hefur margt og mikið áunnist í baráttunni fyrir jöfnum rétti og jafnri stöðu kynjanna. Á ýmsu hefur þó gengið og alls ekki alltaf jafn skemmtilegt og uppörvandi. Kvennabaráttan er í rauninni eins og vatnið sem birtist okkur í ótal myndum. Hún rís og hnígur, en hún þornar aldrei upp. Stundum er hún eins og beljandi fljót í vorleysingum, stundum eins og ljúfur lækur, jafnvel kyrrlátt stöðuvatn sem gárast öðru hverju í svolítilli golu.

Mér er skiljanlega nærtækast að hugsa til áranna í Kvennalistanum sem voru bæði ótrúlega skemmtileg og árangursrík. Kannski eru margir búnir að gleyma hvernig ástandið var í aðdraganda kosninganna 1983. Þá voru þingmenn 60 talsins – þar af þrjár konur og þær höfðu aldrei verið fleiri í einu allar götur síðan konur fengu loks kosningarétt og kjörgengi. Aðeins 12 konur í það heila höfðu til þessa verið kjörnar á Alþingi, sú fyrsta árið 1922 og þá af sérstökum kvennalista. Það þóttu því undur og stórmerki þegar 9 konur náðu kjöri í kosningunum vorið 1983. Prósentutala kvenna á Alþingi Íslendinga jókst í einu vetfangi úr 5% í 15%. Konum fjölgaði síðan um hverjar kosningar þaðan í frá og skipuðu 37% þingsæta fyrir síðustu kosningar, en þá kom bakslagið og hlutfallið lækkaði í 30%. En árangur Kvennalistans fólst í fleiru en fjölgun kvenna á Alþingi og í sveitarstjórnum. Áherslur breyttust í stjórnmálunum og umræðan breyttist í samfélaginu. Fordæmi Kvennalistans hafði áhrif langt út fyrir vettvang stjórnmálanna.

Þessa stundina er talsvert rok og jafnvel fossaföll í kvennabaráttunni. Það er mikil ólga í konum sem birtist m.a. í nýstofnuðu Femínistafélagi og starfsemi þess félags og ekki síst á póstlistanum feministinn.is. Þar skvettist upp úr farveginum og gusurnar ganga. Þar er rætt um fegurðarsamkeppni, foreldraréttinn, staðalímyndir, kvenfjandsamlegar auglýsingar, klám, kosningabaráttu og kvenframbjóðendur, heimskulegar heimsbókmenntir o.fl. o.fl. Femínistarnir hafa stofnað hópa um hin ýmsustu málefni og þær fleygja ekki bara hugmyndunum fram í hrönnum, heldur framkvæma þær líka. Allar miða þær að því að vekja athygli á stöðu mála og nauðsyn þess að breyta og bæta. Og það tekst vegna þess að aðferðirnar eru áleitnar og nýstárlegar.

Bleiki liturinn er einkennislitur femínistanna og hann setur svo sannarlega svip á daginn í dag. Allir femínistar voru hvattir til að skarta bleiku í tilefni dagsins og undirrituð er hálf skömmustuleg yfir því að hafa ekki getað grafið eitt einasta snifsi í bleikum lit út úr skápum sínum eða skúffum til að sýna samstöðu. Mér fannst ég næstum þurfa að fara með veggjum í fjólubláu peysunni minni, en auðvitað skiptir hið innra meira máli en hið ytra og því lét ég mér nægja að dást að öllum hinum í bleiku bolunum og hugsa svo til genginna baráttukvenna.

Mér finnst hreinlega frábært að fylgjast með þessu ólgandi fjöri og hugmyndaflugi í femínistunum. Þarna er krafturinn og aflvakinn í kvennabaráttunni um þessar mundir og ótrúlegt annað en að upp spretti eitthvað sem skilar okkur enn fram eftir vegi. Þetta minnir óneitanlega á fyrstu árin okkar í Kvennalistanum.

Lítilsvirðing við lýðræðið

Þvílíkt ólán að ekki tókst að skipta um ríkisstjórn. Ekki bara vegna þess að tími var kominn á ferska vinda og aðrar áherslur en þjóðin hefur mátt búa við síðustu þrjú kjörtímabil, heldur ekki síður vegna þess að vinnubrögð leiðtoga stjórnarflokkanna bera þess glöggt vitni að þeir eru búnir að sitja of lengi. Þeir eru farnir að hegða sér eins og þeirra sé valdið langt umfram eðlileg mörk. Og kannski er þjóðin þegar orðin svo vön þessum stjórnarháttum að hún nenni ekki að bregðast við. Heldur ekki fjölmiðlarnir. Því er ver.

Þeir lofuðu miklu, Davíð og Halldór, í ákafa sínum að halda völdum og þeir runnu saman alls hugar fegnir að loknum kosningum. Þeim nægðu örfáir dagar til að ráða ráðum sínum og svo skýrðu þeir glaðhlakkalegir frá niðurstöðunum. Furðulegast var að hlusta á Davíð segja frá hvernig hann ráðstafar fólki í embætti í áföngum og eftir hentugleikum, einum í sendiráð í París, öðrum í embætti forseta Alþingis. Og brosmildir fjölmiðlamenn jánka bara og flýta sér á skrifstofur sínar til að segja þessar makalausu fréttir án þess svo mikið sem ýja að því að nokkuð sé athugavert við ráðstafanir af þessu tagi. Vita þeir ekki að það er Alþingi Íslendinga sem kýs sér forseta? Sjá þeir ekkert athugavert við það að nýkjörnum alþingismanni með ráðherranafnbót sé vippað bara si sona til Parísar. Var kjósendum nokkuð sagt frá því?

Í aðdraganda alþingiskosninga fyrir 16 árum setti Kvennalistinn stjórnmálamenn og –fræðinga úr jafnvægi með því uppátæki sínu að boða stólaskipti á næsta kjörtímabili. Kvennalistinn hafði þá átt 3 fulltrúa á Alþingi í 4 ár eftir framboð í 3 kjördæmum. 1987 voru boðnir fram listar í öllum kjördæmum og tvær þeirra sem setið höfðu þingið í 4 ár leiddu hvor sinn lista. Með hliðsjón af þeirri hugmyndafræði að ekki væri ætlunin að hlaða undir atvinnumennsku í stjórnmálum var því lýst yfir að við þessar “vönu” myndum víkja fyrir frambjóðendum í næstu sætum að hálfnuðu kjörtímabili.

Blessaðir karlarnir í öllum gömlu flokkunum fengu heldur betur fyrir hjartað. Þvílík ósvífni af þessum kerlingum! Atlaga við lýðræðið, sagði einhver. Stenst varla kosningalögin, sagði annar. Stangast á við stjórnarskrá, sagði enn einn. Lærðir menn og prófessorar voru kallaðir til álitsgjafar og létu hafa sig í að draga í efa réttmæti þessara yfirlýsinga og gera þetta athæfi tortryggilegt á allan hátt. “Það er nauðsynlegt að rétt yfirvöld láti þetta mál til sín taka, svo að ekki skapist réttaróvissa”, sagði leiðarahöfundur Mogga alvöruþrunginn. Mér, sem lenti í opinberum rökræðum vegna þessa máls, varð mæta vel ljóst hvað olli þessum viðbrögðum. Þetta var ógnun við starfshætti gömlu flokkanna og skapaði hættu á því að kjósendum þætti þetta góð leið til að þurfa ekki að þola sömu karlana í þingsætum sínum áratugum saman.

Auðvitað tókst þeim ekki að hindra okkur í að viðhafa þessi vinnubrögð, sem ég er enn sannfærð um að voru tilraunarinnar virði. Ég man að í öllum þeim umræðum sem sköpuðust um þetta tiltæki benti ég á þá staðreynd að margoft hefðu þingmenn ekki setið nema hluta þess kjörtímabils sem þeir buðu sig fram til. Munurinn væri aðeins sá að þeir hefðu ekki lýst þeirri ætlan sinni yfir fyrirfram, heldur gripu tækifærið ef þeim bauðst öruggara og betur launað djobb, t.d. bankastjóra eða sendiherra. Enginn prófessor hafði gert athugasemd við slíkt athæfi. Og núna, árið 2003, hvarflar ekki að nokkrum fjölmiðli né álitsgjafa að fetta fingur út í ráðsmennsku stjórnarherranna. Og Morgunblaðið hefur ekki nokkrar áhyggjur af neinni réttaróvissu.

Sjálf tel ég þessa framkomu lítilsvirðingu við lýðræðið.

Hin hliðin á kosningabaráttunni

Merkilegt hvað tíminn flýgur þegar mikið er að gera. Síðast hef ég skrifað hér í minnisbók 7. mars sl. Þá var kosningabaráttan að komast á skrið og ekki að sökum að spyrja, allur tími fór í það starf eins og venjulega og nú fékk ég að kynnast því hinum megin frá, ef svo má að orði komast. Allar götur frá 1983 hef ég verið á kafi í framboðsmálum og 4 sinnum leitt lista í Reykjaneskjördæmi, sem nú hefur fengið nafnið Suðvesturkjördæmi og misst frá sér Suðurnesin. Í þetta sinn fékk ég að verma heiðurssætið og stundaði baráttuna frá höfuðstöðvum í Reykjavík.

Það var býsna fróðlegt að kynnast þessari hlið baráttunnar sem fólst í margháttaðri þjónustu við öll kjördæmin. Steinþór Heiðarsson var kosningastjóri á landsvísu og sá m.a. að mestu leyti um auglýsingar og útgáfumál. Við unnum reyndar náið saman og lögðum starfinu um allt land allt það lið sem við máttum. Það var í mörg horn að líta og hefði ekki veitt af a.m.k. tvöföldum mannskap, en stakkinn þarf að sníða eftir vexti og fjárhagurinn leyfði ekki meira. Auk útgáfumála og auglýsinga þurfti að halda ótal fundi með kosningastjórum og frambjóðendum, sjá til þess að kosningaskrifstofurnar fengju nóg af bæklingum, barmmerkjum og flöggum, ýta á eftir hönnun og halda utan um reikninga. Mikill tími fór í að taka við erindum af öllu mögulegu tagi, m.a. beiðnum um fulltrúa á fundi og tryggja að þeim væri sinnt, svo og fyrirspurnum af margvíslegu tagi. Eftir kosningar var svo ótal margt að ganga frá sem virðist ætla að endast fram eftir sumri.

Þá var ekki síður merkilegt að kynnast því hvernig er að vera umboðsmaður framboðslista og vera viðstödd talningu atkvæða. Hingað til hefur ekki hvarflað að mér að vantreysta atkvæðatölum og að rétt og eðlilega sé staðið að formlegri hlið kosninga. Nú leyfi ég mér að efast um að nægilega vel sé staðið að málum.

Ekki síst virðist mér deginum ljósara að framkvæmd kosninga utan kjörfundar sé verulega ábótavant og nauðsynlegt að gera bragarbót þar á. Kosningarétturinn er hverjum manni mikilvægur og ber að tryggja að allir fái neytt þess réttar eins og frekast er unnt. Reyndin virðist önnur og verða bæði dómsmálaráðuneytið og utanríkisþjónustan að taka sig á í því efni. Íslendingar erlendis fá ekki nægilega góðar upplýsingar í tæka tíð og talsvert virðist á skorta að embættismenn kunni að ganga frá atkvæðum eins og lög bjóða. Hið sama á raunar við um embættismenn hér heima og eru þess dæmi að handvömm við frágang hafi orðið til þess að atkvæði hafi verið dæmd ógild.

Um eftirlit með talningu atkvæða hef ég ýmislegt að athuga og tel eftir þessa reynslu öldungis óhugsandi annað en að mistök verði og að tölum hljóti að skakka í einhverjum mæli. Því væri eðlilegt að setja einhvern þann varnagla í kosningalögin að skylt sé að endurtelja ef litlu munar á atkvæðatölum flokka, hvort sem er í kjördæmi eða yfir landið allt. Þá er satt að segja furðulegt að yfirkjörstjórnir hafi slíkt vald að þær geti úrskurðað á mismunandi hátt um gild og ógild atkvæði. Þannig hefur komið í ljós að ein aðferð var sums staðar úrskurðuð gild, en annars staðar ógild. Gilti það a.m.k. bæði um merkingar utan á kjörseðli og um bókstafinn V sem úrskurðaður var Vinsri grænum í 4 kjördæmum en ógildur í tveimur! Já, ekki er öll vitleysan eins.