Sundið hressir og bætir

Hænufet á dag kemur heilsunni í lag, tautaði ég mér til hughreystingar vikurnar í desember meðan ég þrammaði hring eftir hring á heimilinu milli þess sem ég gerði fyrirskipaðar æfingar í liggjandi stöðu og fannst satt að segja lítið ganga að fá skrokkinn í lag eftir liðskiptaaðgerðina 2. nóvember sl. Erfitt var að svara endalausum spurningum um hvernig gengi, því mér fannst þetta ekkert ganga. Vildi þó ekki vera neikvæð og kom mér upp stöðluðu svari um að þetta þokaðist í rétta átt. Og auðvitað gerði það svo, þótt þolinmæðin mældist niður undir núlli. Samt reyndi ég að leggja svolítið lið við undirbúning jólanna og vona hið besta um batnandi hag. Svona eru sjálfsagt margir sem taka góða heilsu sem sjálfsagðan hlut. Verst þótti mér að komast ekki út að ganga, en færðin var slík og fréttir af brotnu fólki eftir byltur á hálu svelli, að ég lagði ekki í nein slík ævintýri, fannst ekki á krömina bætandi.

Með hækkandi sól á nýju ári kom þorið og þrótturinn og nú var gerð tilraun til að aka bílnum og fara í sund. Og auðvitað sannaðist enn og aftur þvílík blessun það er allt þetta vatn sem við eigum hér á landi, ekki síst heita vatnið í sundlaugunum sem mýkir og styrkir. Eftir örfá skipti er ég farin að synda allar aðferðir og sparka duglega frá mér og finnst ég eflast með hverjum degi. Nú er þetta sko farið að ganga. Hver veit nema ég verði komin á hestbak eftir nokkrar vikur! Það er ekki ofsögum sagt af lækningamætti sundiðkunar í vel volgu vatni eins og tíðkast að hafa í sundlaugum hér, en ekki kalt og hart vatn eins og er víðast erlendis.

Íslenskar sundlaugar eru alveg sérstakar og heilla ekki aðeins okkur, heldur einnig útlendinga sem kynnast þeim. Íslensk-sænsk kunningjakona mín sem þekkir vel íslenskar sundlaugar og lætur ekki hjá líða að fá sér sundsprett þegar hún heimsækir landið, skipulagði eitt sinn sérstaka ferð fyrir sænskt áhugafólk um söfn og kallaði ferðina “Söfn og sund”. Hún fór með fólkið um landið, lét það gista á stöðum þar sem það gat kynnt sér íslensk söfn, borðað íslenskan mat, einkum fisk, og farið í sund á hverjum degi. Er skemmst frá því að segja að þátttakendur gátu ekki nógsamlega lofað reynslu sína. Þeim þótti gaman að skoða söfnin, enda sérstakt áhugamál þeirra, þau voru mjög ánægð með íslenska fiskinn, en mest af öllu lofuðu þau sundið og fannst stórmerkilegt að kynnast öllum þessum sundlaugum vítt og breitt um landið.

Líklega erum við mörg farin að líta á það sem sjálfsagðan hlut að hafa allar þessar sundlaugar. Svo er ekki, og man ég t.d. þegar litla sundlaugin á Laugum í Suður-Þingeyjarsýslu sem ég ólst upp við var sú eina á stóru svæði. Þar voru haldin námskeið vikum saman á hverju vori fyrir börn alls staðar að úr næstu sveitum og jafnvel frá Húsavík sem ekki kom sér upp sundlaug fyrr en mörgum árum seinna.

Við mættum oftar minnast þess hvílík forréttindi og munaður það er að hafa slíkar gnægtir vatns, bæði af góðu drykkjarvatni og heitu vatni til upphitunar og til að svamla í okkur til heilsubótar. Það á örugglega sinn stóra þátt í því “að bæta lífi við árin”.