Mannlífið í Reykjadalnum

Árleg dvöl í sveitinni minni fyrir norðan hressir og kætir og “gefur hraustlegt og gott útlit”, eins og segir í gömlu hallærislegu auglýsingunni um maltið. Yfirleitt er ég 3 – 4 vikur og fæ oftast marga góða veðurdaga sem tryggja þetta hraustlega og góða útlit, að ekki sé nú minnst á nýju sundlaugina neðan brekku. Það vantaði ekki sólina og sumarið í þetta sinn. Heitasta daginn, föstudaginn 4. ágúst, sýndi mælirinn við norðurgluggann í Varmahlíð heilar 26 gráður og dagana 16. – 23. ágúst var sólskin frá morgni til kvölds og hitamælirinn sýndi16 – 22 gráður hvern einasta dag. Eina bölið var mikil ásókn flugna sem bitu fast og ollu bæði bólgu og kláða, en blessuð blíðan bætti það allt saman upp.

Best af öllu er þó að finna aðeins fyrir rótunum og rifja upp gömlu dagana. Það tekst ágætlega þótt margt og mikið hafi breyst. Það er mikill uppgangur í Reykjadalnum sem nú er orðinn hluti af Þingeyjarsveit. Mér finnst alltaf jafn merkilegt að arka upp á stóra bæjarhólinn, horfa yfir sveitina, sjá hvað hefur bæst við af húsum eða öðrum mannvirkjum og rifja upp hvernig þetta var nú allt saman í mínum uppvexti. Í þetta sinn lenti ég í því að gerast leiðsögukona fyrir hóp fólks á landsmóti ungmenna um verslunarmannahelgina og þurfti að vanda mig svolítið við upprifjunina þarna af bæjarhólnum. Blessuðu fólkinu virtist ekkert leiðast, ekki einu sinni Ítölunum fjórum í hópnum. Reyndar er til vandræða að brekkurnar eru orðnar svo rækilega skógi vaxnar að maður sér ekki út úr augum fyrr en komið er upp að vörðunni á bæjarhólnum. Það er ótrúlega stutt síðan svipur dalsins var allur annar og munar þar mest um trén sem mér finnst eiginlega orðið meira en nóg af.

Mest um vert er þó að mannlífið er með miklum ágætum í Reykjadalnum. Ég spjallaði við mann sem hefur búið og starfað þar í 4 ár og er nýbúinn að festa kaup á húsi og ástæðan er sú að fjölskyldunni líður svo vel á þessum slóðum og vill búa þarna áfram. Þetta er svo gott umhverfi fyrir fjölskyldur og vel hlúð að börnum og unglingum, sagði þessi ágæti maður sem hefur búið víða um land vegna starfs síns. Hann sagðist hvergi hafa kynnst jafn góðu umhverfi og andrúmslofti fyrir uppvaxandi unglinga. Það eru nægir menntunarkostir, það er mikið og gott tónlistarlíf og það er leiklistarlíf þar sem íbúar sveitarinnar og nemendur fjölbrautarskólans vinna saman. Íþróttaaðstaða er með besta móti, nýuppgerður völlur sem stenst allar nútíma kröfur, stórt íþróttahús og glæsileg útisundlaug.

Krakkar hér hafa alltaf nóg við að vera, sagði þessi maður, þau mega ekkert vera að því að sitja og bíða eftir næsta fylliríi. Og ég fylltist stolti fyrir hönd minnar ágætu sveitar.-’

Sorg og sæla sitt á hvað á Löngufjörum

Við vorum að koma af fjörunum, þ.e.a.s. svonefndum Löngufjörum á sunnanverðu Snæfellsnesi. Við höfum svo oft riðið þessar fjörur að ég þyrfti að leggjast í mikla upprifjun til að nefna öll skiptin. Í þetta sinn var það 10 daga Fáksferð og farnir ýmsir skemmtilegir leggir umfram hefðbundna fjöruspretti. Við fórum í Hjörsey, þriðju stærstu eyju við Ísland, við fórum langt út á Gömlueyri, sem gefur heldur betur kost á löngum og skemmtilegum sprettum, og við riðum í 2 daga um eyjar, nes og fjörur út af Skógarnesi. Við lukum ferðinni á glampandi ljósri fjörulengjunni nær Búðum og nokkrir ferðafélaganna skemmtu sér við að sundríða í Búðaósnum.

Flest var skemmtilegt í þessari ferð, góðir ferðafélagar, hæfilegur fjöldi manna og hesta til að allt gengi nánast snurðulaust og veðrið lék við okkur. Einn stóran skugga bar þó á. Ég lenti í miklum erfiðleikum með minn allra besta fjöruhest gegnum tíðina, Prúð minn Sörlason, sem hefur skilað mér á slíku flugi um fjörurnar að mér hitnar um hjartarætur við tilhugsunina. Skrefdrýgri og mýkri hest hef ég ekki setið og man ekki til þess að aðrir hestar hafi tekið honum fram í þessum ferðum okkar, jafnvel skeiðhestar tóku hann ekki á töltinu. Nú er hins vegar eitthvað að hjá þessum góða vini mínum og við gátum ekki notið okkar saman í þessari ferð. Hann stakk sér illa hvað eftir annað og henti mér af sér þegar ég fór fyrst á bak honum, og þótt við næðum sæmilegum sáttum og kláruðum þann legg sem framundan var fann ég að hann var ekki sjálfum sér líkur. Það kom svo enn frekar í ljós þegar ég tók hann næst, og eftir tvær flugferðir í það skipti sannfærðist ég um að eitthvað meiriháttar væri að angra hann og gaf honum frí. Ég sá að hann hlífði sér á hlaupunum með lausu hrossunum. Hann gæti verið kominn með slæmsku í fót eða fætur, hann gæti verið með einhver bakmeiðsli eða eitthvað enn annað. Nú er hann kominn í Kaldbakshaga og hefur sína hentisemi þar til við flytjum hann til dýralæknis í allsherjar skoðun. Ég hef það á tilfinningunni að nú sé þessum dýrmæta kafla í minni hestamennsku lokið og ekki laust við sorg í sinni.

Hinir hestarnir voru allir í góðu formi og skiluðu sínu og leiddist greinilega ekki að teygja sig um grundir og fjörur. Gaukur er mjög góður, kröftugur og töltir vel. Kári er alltaf jafn viljugur og duglegur þótt orðinn sé tvítugur öldungur. Og sérlega skemmtilegt er að finna yngsta gæðinginn, hinn átta vetra Storm, eflast að kröftum og góðum gangi. Þannig skiptust á sorg og sæla á Löngufjörum að þessu sinni.

Nú hvíla öll hrossin sig vel og lengi á Kaldbak, en stór hluti mannfjölskyldunnar dvelst næstu vikur á æskustöðvunum norður í Reykjadal.

Dýrgripir glöddu augað í Skagafirðinum

Síðasti leikur HM er að baki og milljónir manna um víða veröld með fráhvarfseinkenni eftir margra vikna gláp. Sem betur fer verður ekki mikið vart þjáninga á mínu heimili enda heimilismenn þjálfaðir í æðruleysi. Sjálfri finnst mér ágætt að fá svona margar vikur af umfjöllunarefni í fjölmiðlum sem ég sé engan tilgang í að fylgjast með og get því með góðri samvisku tekið mér annað fyrir hendur.

Ég viðurkenni að geta ekki með nokkru móti skilið hvaða ánægju menn hafa af því að horfa vikum saman á fótbolta, en ég þarf heldur ekkert að skilja það. Margir þeirra botna áreiðanlega ekkert í þeim sem nenna að hanga í heila viku við misjafnar aðstæður yfir því hvernig þessi hesturinn og hin hryssan tekur sig út á skeiðvellinum. En það skil ég hins vegar mæta vel.

Landsmóti hestamanna á Vindheimamelum í Skagafirði lauk fyrir rúmri viku og ég er enn að orna mér við upprifjun þeirrar veislu. Karlpeningurinn á HM kemst ekki í hálfkvisti við dýrgripina sem glöddu augað í Skagafirðinum.

Efstu hryssurnar og efstu stóðhestarnir í öllum aldursflokkum eru að sjálfsögðu úrvalsgæðingar, 4 vetra Leista frá Lynghóli og Kraftur frá Efri-Þverá, 5 vetra Dögg frá Breiðholti og Vilmundur frá Feti, 6 vetra Ösp frá Hólum og Eldjárn frá Tjaldhólum, 7 vetra Hvíta-Sunna frá Sauðárkróki og Stáli frá Kjarri. Það var hrein unun að horfa á þessa gæðinga, en það mætti telja upp annan eins fjölda og reyndar miklu, miklu fleiri, sem hrifu hugann. Og sjálfsagt eru margir fleiri en ég sem horfa á sýningarhestana með ákveðin sjónarmið í huga og önnur en dómaforritin byggjast á, þ.e. hvort hesturinn virðist mjúkur, þægilegur og samvinnuþýður, hvort hann sýnir jafnvægi og skapgæði og hvort hann væri líklegur til að fara vel með ferðalanga um fjöll og fjörur. Það er nefnilega hreint ekki víst að þessir glæstu sýningargripir og keppnishestar dygðu í hestaferðum sem eru önnur hlið hestamennskunnar og ekki ómerkilegri.

Það merkilegasta við landsmótið 26. júní til 2. júlí var að sjá hvað hestakosturinn er orðinn góður og fyrst og fremst jafngóður. Mjög margir hestar, hvort sem er stóðhestar, geldingar eða hryssur, eru slíkir gæðingar að það er erfitt að sjá mikinn gæðamun og velja þá allra bestu. Og víst er að margir úrvals hestar náðu ekki inn í lokaúrslit þrátt fyrir frábær tilþrif í undanúrslitum. Það er hrein nautn að sjá gæðinga bæði í A-flokki, B-flokki og tölti keppa til úrslita og oft hlýtur þetta að vera spurning um smekk, en sjálfsagt sjá þaulvanir og lærðir dómarar einhver smáatriði sem brekkudómarar kunna ekki skil á og ráða úrslitum. Hvernig dómarar fara að því að dæma Hlý frá Vatnsleysu nokkrum kommum hærri en Rökkva frá Hárlaugsstöðum í B-flokknum er ofvaxið mínum skilningi. Og enn síður skil ég hvernig þeim tókst að velja á milli Geisla frá Sælukoti og Þórodds frá Þóroddsstöðum í A-flokknum, hvor tveggja algjörir snillingar.

Enn eitt athyglisvert er hvað yngsta keppnisfólkið er farið að láta til sín taka á landsmótum og ber það vitni um markvisst starf í yngri aldurshópum. Á landsmótinu var keppt í barnaflokki 12 ára og yngri, unglingaflokki 13 – 15 ára og ungmennaflokki 18 – 21 árs. Og þessi ungu knapar – allt niður í níu ára – sýndu slík tilþrif á vellinum að unun var á að horfa. Þetta unga fólk er heldur ekki að sýna á neinum kerruhestum, heldur hinum ágætustu gæðingum, jafnvel myndarlegustu stóðhestum, sem óhætt var að hleypa á harðastökk ef svo vildi verkast. Og Fáksknapinn Ragnar á Hávarði sínum tók sér eldri og reyndari knapa til fyrirmyndar og lyfti vinningsbikar sínum hátt á loft, þótt sá virtist geta borið þann stutta ofurliði. Sú var tíðin að aðeins örfáir knapar hrifu hugann, en nú eru þeir margir. Árangur þeirra yngstu lofar góðu um framtíðina.

Góður árangur Vinstri grænna

Vinstri græn náðu mjög góðum árangri í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum og treystu sig verulega í sessi á landsvísu. Víða tvöfaldaði flokkurinn fylgi sitt frá því fyrir fjórum árum og fjórfaldaði það reyndar í Hafnarfirði þar sem Guðrún Ágústa náði góðri kosningu til bæjarstjórnar. Það skiptir miklu að rödd Vinstri grænna heyrist í bæjarstjórn Hafnarfjarðar þegar stækkun álversins kemur til umfjöllunar og sama er að segja um bæjarstjórn Norðurþings, þar sem Ásbjörn Björgvinsson fékk góða kosningu og mun tala máli náttúrunnar gegn álversáformum. Augu fólks hafa verið að opnast æ meira fyrir hrikalegum óafturkræfum spjöllum í náttúru landsins í þágu einsýnnar og skefjalausrar stóriðju- og virkjanastefnu ríkisstjórnarflokkanna. Sú hugarfarsbreyting sem orðið hefur skýrir að hluta gott gengi Vinstri grænna í sveitarstjórnarkosningunum sem vonandi skilar sér áfram inn í alþingiskosningarnar að ári.

Vinstri græn geta verið stolt af framgöngu sinni í nýliðinni kosningabaráttu. Auglýsingum var stillt í hóf, en þær voru svo sérstakar og fallegar að eftir var tekið. Útgefið efni var yfirleitt mjög vel gert og vakti verðuga athygli. Mikil vinnugleði og sannur baráttuandi ríkti hvarvetna á kosningaskrifstofum Vinstri grænna og frábært starf frambjóðenda og bakvarðasveita átti vissulega stærstan þátt í þeim árangri sem fagnað var að kosningum loknum. En nú sannast málshátturinn kunni að ekki er sopið kálið þótt í ausuna sé komið. Vinstri græn virtust eftirsótt til viðræðna um myndun meirihluta í nokkrum sveitarfélögum strax eftir kosningarnar og gengu af heilindum til þeirra viðræðna. Viðmælendurnir höfðu þó ekki alls staðar þolinmæði til að ræða málin til enda og hefur mátt sjá í iljar sumra þeirra stökkvandi í faðm stóra bróður til að tryggja sér valdastól. Þeir sem verst fóru út úr kosningunum eru fljótastir að hjúfra sig upp að þeim stærstu sem vantar aukastyrk. Óðagot og klækjabrögð viðmælenda skyggja óneitanlega á gleði Vinstri grænna með árangurinn í kosningunum sjálfum. Ekki er þó útséð með aðkomu okkar að meirihluta á nokkrum stöðum, en hvernig sem það fer allt saman dregur það ekki úr mikilvægi þess að eiga okkar góðu fulltrúa í bæjarstjórnum í minnihluta eða meirihluta eftir aðstæðum.

Ekki síðar en að ári verða kosningar til Alþingis. Sú barátta og árangur sem náðist í sveitarstjórnarkosningunum er mikilvægur upptaktur að kosningabaráttu komandi vetrar. Hreyfingin hefur eflst verulega í nýliðinni baráttu og þann styrk munum við nýta til áframhaldandi uppbyggingar og góðra starfa bæði á vettvangi bæjarmála og landsmála.

Flokkurinn bauð fram V-lista í 13 sveitarfélögum og fékk 14 fulltrúa kjörna af þeim listum. Boðið var fram í fyrsta sinn undir merkjum flokksins á 5 stöðum og náðist alls staðar athyglisverður árangur þrátt fyrir að ekki næðist inn fulltrúi á tveimur þeirra.

Árangur V-listaframboðanna er þessi:

Reykjavík:

13,47% og 2 fulltrúar, Svandís Svavarsdóttir og Árni Þór Sigurðsson.

Hafnarfjörður:

12,07% og 1 fulltrúi, Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir.

Kópavogur:

10,35% og 1 fulltrúi, Ólafur Þór Gunnarsson.

Mosfellsbær:

12,14% og 1 fulltrúi, Karl Tómasson.

Akranes:

14,33% og 1 fulltrúi, Rún Halldórsdóttir.

Dalabyggð:

29,23% og 2 fulltrúar, Þorgrímur E. Guðbjartsson og Halla S. Steinólfsdóttir.

Skagafjörður:

11,61% og 1 fulltrúi, Bjarni Jónsson.

Dalvík:

17,97% og 1 fulltrúi, Jóhann Ólafsson.

Akureyri:

15,9% og 2 fulltrúar, Baldvin H. Sigurðsson og Kristín Sigfúsdóttir.

Norðurþing (Húsavík, Kelduneshr., Öxarfj.hr., Raufarhafnarhr.):

13,59% og 1 fulltrúi, Ásbjörn Björgvinsson.

Árborg:

9,97% og 1 fulltrúi, Jón Hjartarson.

Hveragerði:

9,81%, en enginn fulltrúi.

Reykjanesbær:

5,31°%, en enginn fulltrúi.

Auk þessa átti flokkurinn beina aðild að nokkrum blönduðum framboðum, leiddi það starf sums staðar og fékk nokkra fulltrúa kjörna af þessum blönduðu listum. Má þar nefna Sigurð Magnússon og Kristínu Fjólu Bergþórsdóttur af Á-lista sem velti Sjálfstæðisflokknum úr meirihluta á Álftanesi, Finnboga Rögnvaldsson af L-lista í Borgarbyggð, Emil Sigurðsson af L-lista í Grundarfirði, Lárus Ástmar Hannesson af L-lista í Stykkishólmi, Jónu Benediktsdóttur af Í-lista á Ísafirði, Bjarkey Gunnarsdóttur af H-lista í Fjallabyggð (Ólafsfjörður, Siglufjörður) og Björn Halldórsson af N-lista í Vopnafirði.

Flugeldaskothríðin minnir á stórstyrjöld

Áramót bernsku minnar og allt fram á fullorðinsár voru harla ólík þeim sem nú tíðkast. Á fámennu heimili í norðlenskri sveit hlustuðum við á útvarpið og skynjuðum áramótin best þegar klukkur dómkirkjunnar hringdu í kjölfar hugvekju útvarpsstjóra sem hann endaði ævinlega á orðunum “í guðs friði”. Ekki var efnt til brennu í minni heimasveit og engir flugeldar kepptu við tunglið og stjörnurnar. Ég var komin vel yfir tvítugt þegar ég sá flugeld skotið á loft í fyrsta sinn.

Á nýársdag hlustuðum við svo á fréttir af áramótabrennum í þéttbýlinu, ólátum og sprengjufikti, sem stundum leiddi til slysa. Á höfuðborgarsvæðinu var um nokkurra ára skeið sífellt verið að sprengja “kínverja” og fannst mér það skuggaleg iðja þar til ég komst að því um hvað málið snerist. Ekki liðu svo áramót að fleiri en einn og fleiri en tveir yrðu ekki fyrir varanlegum augnskaða, misstu fingur eða brenndust illa, oftast í andliti.

Smám saman hefur þessi siður að fagna áramótum með skoteldum af ýmsu tagi færst verulega í aukana, enda geta fíklarnir friðað samviskuna með því að þykjast vera að styðja björgunarsveitir landsins og keypt sífellt fleiri og stærri flugelda. Og ekki duga áramótin lengur, heldur er farið að prófa eldfærin löngu fyrr og haldið áfram dögum saman. Flugeldasalar, björgunarsveitir, íþróttafélög og brennuhaldarar halda æ stórkostlegri sýningar og linna ekki látum fyrr en þrettándinn er yfirstaðinn. Sögur herma að fólk sem flúð hefur hingað undan stríðsástandi í heimalandi sínu fyllist skelfingu við fyrstu reynslu af áramótagleði Íslendinga sem minnir það óþægilega á stríðsátök.

Í minni fjölskyldu hefur þessi skoteldafíkn verið í algjöru lágmarki alla tíð, enda hafa oftast verið einhver hrædd börn eða ráðvillt dýr á heimilinu og a.m.k. ég því fegnust þegar þetta æði er yfirstaðið. Í næsta nágrenni eru miklir skoteldafíklar og keppnin þeirra á milli fer vaxandi með hverju árinu. Ég fer venjulega niður á sjávarbakkann og fylgist með keppninni þangað til farið er að súrna í augum af reykmekkinum.

Vissulega er gaman að sjá fallega flugelda, en fyrr má nú vera. Þessi dýrð hefur marga leiðinlega fylgifiska, rusl, mengun og ónæði. Verst fer hávaðinn með vesalings dýrin, sem mörg týnast út í buskann og finnast aldrei aftur eða verða óþægilega taugaveikluð. Árlega fælast hestar, sumir týnast dögum saman og lenda jafnvel í slíkum ógöngum að þeir lifa ekki af.

Í ár berast fréttir af stórum hópum hesta í Skagafirði sem æddu upp á reginfjöll undan flugeldaskothríðinni og tekur tímann sinn að ná þeim til byggða. Þeir eru örugglega ekki þeir einu. Og eigendur sífra í uppgjöf: “Þetta er nokkuð sem menn verða væntanlega að lifa með. Varla verður bannað að skjóta upp flugeldum á gamlárskvöld.” Spurningin er þó sú hvort þetta sprengjuæði getur margfaldast í það óendanlega. Þetta er farið að minna á stórstyrjöld.

Þegar Trölli stal jólunum á Seltjarnarnesi!

Jólahátíðin nálgast óðfluga með öllum sínum fylgifiskum, tilhlökkun og gleði, streitu og kvíða, angurværum minningum og kapphlaupi við tímann. Aldrei fyrr hefur jafn mikið borið á áhyggjum og gagnrýni á hamaganginn og búðarápið þar sem Mammon situr um sálirnar. Aldrei fyrr hafa jafn margir látið til sín heyra í fjölmiðlum og freistað þess að vekja fólk til umhugsunar um tilgang jólanna. Sparlega er farið með stóryrðin, en skilaboðin leyna sér ekki ef fólk þá finnur tíma til að hlusta eða lesa varnaðarorðin.

Kannski finna svo margir hvöt hjá sér til að tjá sig um síaukið kaupæði og hömlulausa neyslu vegna þess að nú æpa á okkur hörmungar fólks víða um heim, heimilisleysi, hungur og bjargarleysi eftir hamfarir af völdum náttúru og manna. Fólk reynir að friða samviskuna með því að gefa í safnanir, en það á erfitt með að vinda ofan af æ tryllingslegra hátíðahaldi. Bilið milli velmegunar og örbirgðar er sýnilegra en nokkru sinni fyrr.

En það er líka ótal margt sem gleður í aðdraganda jóla. Svo margt er í boði fyrir utan allar kynningarnar og sölumennskuna að það er vandi að velja. Og það er aðdáunarvert hve margir eru fúsir að leggja af mörkum til að gera góða hluti og gleðja bæði unga og gamla.

Sunnudaginn 4. desember sá ég t.d. jólasýningu fimleikadeildar Gróttu og KR í íþróttahúsinu á Seltjarnarnesi. Þar æfa börn og unglingar á Nesinu og í Vesturbænum fimleika undir stjórn fólks sem ég veit því miður engin deili á, en þessi skemmtilega sýning, eins konar sambland af leikriti og fimleikum, var til marks um dugnað þess og hæfni. Húsið var glæsilega skreytt og ótrúlega mikið hafði verið lagt í búninga. Þarna var skemmtilega fléttað saman fimleikum og því vel kunna ævintýri þegar Trölli stal jólunum. Sýnendur voru fjölmargir allt frá 5 ára til tvítugs, allir lögðu sig fram og sýndu ýmsar listir, fóru ótal kollhnísa og heljarstökk og léku álfa, púka og jafnvel hreindýr.

Ástæða þess að ég dreif mig á sýninguna var sú að átta ára sonardóttir mín, Auður Pálmadóttir, er sitt annað ár í fimleikum þarna og kom fram í sýningunni. Hana skorti ekki leiðgleðina í hlutverki eins hreindýranna með horn og rautt lýsandi nef. Fögnuður og leikgleði sýnenda smitaði áhorfendur sem troðfylltu íþróttahúsið og fengu þarna jólagleðina beint í æð.

Náttúran í gamla Hæstarétti

Boðað var til kvöldvöku í Dómsalnum í gamla Hæstarétti við Lindargötu í gærkvöldi, 1. desember, undir yfirskriftinni “Náttúran milli Hvergi og Disneylands”. Mér þótti efnið forvitnilegt sem og fundarstaðurinn og tilvalið að verja kvöldi fullveldisdagsins til að hlýða á þá sem nefndir voru til sögunnar. Ekki fannst mér þó fundarstaðurinn notalegur og greinilegt að ekki hafði þótt ástæða til að mylja undir þá sem erindi áttu að rækja í Hæstarétti hér áður fyrr hvernig sem því er svo háttað í nýja dómhúsinu handan götunnar nú til dags. Harðir trébekkirnir ollu því að mér fannst fundurinn alltof langur og reyndar sumt þar lítt áhugavert eins og gengur.

Dagskráin var í samvinnu við Þjóðleikhúsið og hófst kl. 20. Fræðimenn, skáld og aðrir listamenn lásu upp og fluttu erindi, Pétur Gunnarsson, Þórunn Valdimarsdóttir, Edward H. Huijbens, Bragi Ólafsson, Kristín Ómarsdóttir, Jón Atli Jónasson, Andri Snær Magnason og Einar Garibaldi Eiríksson. Því miður voru sumir flytjendur svo lágmæltir að þeir drógu á köflum ekki frá “dómarasætum” sínum aftur til okkar sem sátum aftarlega, en margt var mjög skemmtilegt og vel sagt. Sigríður Þorgeirsdóttir átti svo að stjórna umræðum, en gekk heldur illa að hafa hemil á fólki sem var mikið niðri fyrir.

Umræðan var svolítið einkennileg og rétt eina ferðina fékk ég á tilfinninguna að viðstöddum þætti þeir vera að uppgötva stóra sannleik sem hingað til hefði legið í láginni. Aftur og aftur hef ég upplifað það að heyra fólk ræða Kárahnjúkamálið á þann veg að svo virðist sem það haldi að lítið hafi verið aðhafst til að reyna að koma í veg fyrir þau hrikalegu og óbætanlegu náttúruspjöll sem þar eru nú í gangi og hefði nú betur verið skeleggar barist. Ég sem hélt að a.m.k. drjúgur hluti þjóðarinnar hefði tekið eftir hinum ýmsu fundum, stórum og smáum, sem haldnir voru í Háskólabíói, á Austurvelli, á Grand Rokk, í Austurbæ, í Borgarleikhúsinu að ógleymdri fundaröðinni í Reykjavíkurakademíunni á sl. vetri. Eru nú gleymdar hálendisgöngur, útifundir og mótmælastöður á ótal stöðum? Og hvað með allar greinarnar, blaðaútgáfu og upplýsingabæklinga og ótal aðrar aðgerðir sem ráðist var í til að vekja athygli og umhugsun? Maður fyllist hálfgerðu vonleysi yfir því að fólk sem virðist hafa einlægan áhuga á náttúruvernd og óbeit á náttúruspjöllum skuli ekki þekkja þá baráttu sem háð hefur verið árum saman og vissulega skilað árangri þótt ekki hafi náðst sigur í Kárahnjúkamálinu illu heilli.

En hvað um það, svo virðist sem enn einn hópurinn sé að taka til sinna ráða og allt gott um það að segja svo framarlega sem hann sundri ekki samstöðu annarra hópa sem vinna að náttúruvernd. Í auglýsingum fyrir fundinn var sagt að hann væri á vegum HÆTTA-hópsins, en ekki gerð nein frekari grein fyrir þeim hópi. Vonandi skýrist það á næstu dögum, enda er hópurinn sagður standa fyrir stórtónleikum gegn virkjanastefnunni 7. janúar nk. í Laugardalshöll og ágóðanum skal varið til náttúruverndar.

Sóun og heimskulegt dekur

DV var nýlega með merkilega úttekt á eyðslu skólastelpna í föt og snyrtivörur. Talað var við átta 16 – 19 ára stelpur í Verzlunarskólanum sem spurðar voru um þennan mikilvæga þátt í lífi sínu auk þess sem þær voru spurðar hvað þær eyddu miklum tíma í morgunsnyrtinguna, hvernig þær kæmust í skólann, hvar þær versluðu og hvernig þær fjármögnuðu svo alla dýrðina. Niðurstaðan var býsna sláandi.

Þessar átta viðurkenna hikstalaust að eyða allt frá 18 þúsund og upp í 45 þúsund að meðaltali á mánuði í fatnað og snyrtivörur. Allar segjast versla langmest erlendis, ein segist t.d. vera nýkomin frá Flórída þar sem hún “náði að eyða 90 þúsund krónum á 2 dögum í mollinu”. Þær taka sér drjúgan tíma í morgunsnyrtinguna eða frá 20 mínútum upp í heilar 40 mínútur. Því miður voru þær ekki spurðar hvenær þær vöknuðu og hvað þær borðuðu á morgnana eða hvort þær hefðu yfirleitt tíma til þess.

Tvær af átta eru á eigin bíl, hinar segjast fá far og flestar nefna pabba til sögunnar í því efni. Og pabbarnir gera fleira en að koma dætrum sínum í skólann því þeir virðast taka fúslega upp budduna til að borga allan fatnaðinn og snyrtivörurnar. “Ég fæ peninga hjá pabba”, var algengasta svarið þegar dekurrófurnar voru spurðar hvernig þær hefðu efni á þessu öllu saman.

Mörgum finnst það sjálfsagt gamaldags og púkalegt að finnast eitthvað athugunarvert við þennan lífsstíl. Er ekki bara allt í lagi að stelpur á þessum aldri sæki rúmlega hálfa milljón on´í vasa pabba síns fyrir fötum og snyrtivörum ef hann hefur efni á því? Og óþarfa smámunasemi að blanda öðrum kostnaði inn í það mál eins og skólagjöldum, bókakostnaði og skemmtunum af ýmsu tagi.

Nei, fjandakornið að þetta sé í lagi. Í mínum huga er þetta sóun og heimskulegt dekur. Vissulega hefur þetta orð farið af stelpum í Verzló og vonandi er það fjarri því algengt að skólastelpur almennt geti baðað sig í dekri af þessu tagi. Það getur ekki verið gamaldags viðhorf að börn séu alin upp til þess að verða sjálfbjarga og kunna að fara með peninga.

Jólabílakaup og tekjuskerðingar

“Aldrei fleiri jólabílar seldir” segir í fyrirsögn fréttar í DV í dag. Þar er svo vitnað í nokkra bílasala sem eru einróma um vænlegar horfur í sölu bíla til jólagjafa þetta árið. Enn ein sönnun þess að bilið milli ríkra og fátækra hefur breikkað hreint ótrúlega á undanförnum árum.

Nú man ég reyndar ekki ártalið, en ég man hvað mér hnykkti við þegar sagt var frá þeim fáheyrða atburði í blaðafrétt fyrir nokkrum árum að maður einn hefði keypt forláta bifreið handa eiginkonunni í jólagjöf og látið færa sér gripinn, skreyttan jólaslaufu, á aðfangadag. Ég velti þá fyrir mér hvort þessi ótrúlega jólagjöf væri til marks um mikla ást eða yfirbót vegna misgjörða eða kannski óviðráðanlega þörf fyrir að sýna mátt sinn og megin. Altént fannst mér hún ekki alveg í takt við tilefni jólanna og gæti varla verið á margra færi.

En tímarnir breytast hratt um þessar mundir og mennirnir með. Í tilvitnaðri frétt dagsins í dag er m.a. haft eftir einum bílasalanum: “Ég er handviss um að um þessi jól verður slegið met í því að fólk gefi hvert öðru bíl í jólagjöf”. Það þarf svo ekki að leita lengra en á næstu opnu blaðsins til að sjá hina hliðina á mannlífinu. “Atvinnulausar konur sliga lífeyrissjóð”, segir þar í fyrirsögn og talað við mann í Höfnum á Reykjanesi sem dregur fram lífið á ellilífeyri og greiðslum úr lífeyrissjóði og má nú sæta skerðingum á hvoru tveggja. Lækkun greiðslna úr lífeyrissjóðnum er skýrð með því að langvarandi atvinnuleysi kvenna á Suðurnesjum hafi komið svo illa niður á sjóðnum. Það verður varla mikið um jólabíla á bæjunum þeim.

Um náttúruvernd og friðlýsingu

Síðan við fjölskyldan að meðtöldum okkar ástkæru hestum og í félagi við aðra hestamannafjölskyldu eignuðumst athvarf á vildarjörðinni Kaldbak í Hrunamannahreppi hefur skiljanlega fjölgað mjög ferðum fram og aftur Hellisheiði. Þaðan er víðsýnt og víða fallegt, en einnig margt sem ertir augað. Fyrir því finn ég mest eftir ferðir um óbyggðir landsins.

Á Hellisheiði er falleg og fjölbreytt náttúra, hraun og litríkar mosabreiður, hólar, lautir og fjöll, hverir og heitar laugar. En þetta landslag er nú orðið margsundurskorið af alls kyns manngerðu raski. Þar blasir við námugröftur og umfangsmikil vegagerð, rafstöðvarhús og jarðborar. En ömurlegastar eru raflínurnar sem lagðar hafa verið af ótrúlegri elju og smekkleysi um alla heiði. Ekki færri en þrjár raflínur með tilheyrandi misferlegum rafmagnsstaurum keppa um athyglina þegar farið er um heiðina.

Mannvist og þéttbýli kallar á margháttaða þjónustu, byggingarefni, vegi og rafmagn, og því vill fylgja ýmislegt rask. En ættum við ekki að vera ögn lengra komin í umgengni okkar við náttúruna en sjá má á Hellisheiðinni? Hún er auðvitað svipur hjá sjón með allt þetta manngerða drasl um sig þvera og endilanga þar sem tæknilegar lausnir virðast ekki einu sinni hafa hvarflað að mönnum. Ef hér væri um hernaðarmannvirki að ræða hefðu menn hugsað málið betur og ekki hikað við að grafa þessi ósköp í jörðu.

Kannski fær Hellisheiðin einhvern tíma andlitslyftingu, en hún verður aldrei nein náttúruperla, blessunin. Við eigum hins vegar ennþá stórkostleg ósnortin landssvæði sem brýnt er að vernda og friðlýsa. Á landsfundi Vinstri grænna var samþykkt eftirfarandi ályktun um það efni:

UM NÁTTÚRUVERND OG FRIÐLÝSINGU

Landsfundur Vinstri grænna haldinn 21. – 23. október 2005 minnir á þá staðreynd að ósnortið land, víðerni og villt náttúra er auðlind sem virða ber og varðveita á eigin forsendum. Sérstaða Íslands í samfélagi þjóðanna felst fyrst og fremst í einstæðri náttúru landsins, fjölbreytileika landslags, víðernum og víðsýni, og óvíða í heiminum sjást landmótunaröfl náttúrunnar jafn greinilega og í íslenskri víðáttu. Þessi sérstaða er stærsti þátturinn í þeirri ímynd sem við flest viljum að landið hafi. Til þess að vernda þessa auðlind og treysta ímynd Íslands sem óspillts lands með óspillta náttúru þarf að takmarka alla mannvirkjagerð og röskun á verðmætustu svæðum, friðlýsa þau og tryggja að hægt sé að njóta þeirra án þess að spilla þeim. Landsfundurinn leggur áherslu á friðun eftirtalinna svæða:

BRENNISTEINSFJÖLL

Í Brennisteinsfjöllum á Reykjanesi er sérstætt háhitasvæði, nánast ósnortið og með afar hátt verndargildi. Svæðið er hið eina fjögurra eldfjallakerfa á Reykjanesi, sem ekki hefur verið spillt með borunum, vegagerð og línulögnum. Í Brennisteinsfjöllum eru merkar gosminjar frá sögulegum tíma, umhverfið er stórbrotið með gígum, eldhraunum og hellum, og þar má rekja opnar jarðskjálftasprungur og misgengi. Eldvirkt svæði nær alveg frá sjó norður fyrir Sandskeið. Dýrmætt er að hafa aðgang að öræfakyrrð og svo fjölbreyttu landslagi í aðeins 20 km fjarlægð frá þéttbýlinu á suðvesturhorni landsins. Að Brennisteinsfjöllum steðjar nú hætta þar sem mikill þrýstingur er á stjórnvöld um að veita rannsóknarleyfi þeim aðilum er telja svæðið fýsilegt til orkunýtingar. Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs skorar á stjórnvöld að friðlýsa Brennisteinsfjöll, varðveita þau sem ósnortið víðerni og tengja þau friðlandinu í Herdísarvík eins og lagt er til í Náttúruverndaráætlun.

UM STÆKKUN VATNAJÖKULSÞJÓÐGARÐS OG FRIÐUN JÖKULSÁR Á FJÖLLUM

Landsfundur VG 2005 telur brýnt að hrinda sem fyrst í framkvæmd stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs er nái milli stranda í suðri og norðri og taki til alls áhrifasvæðis Vatnajökuls ásamt Vonarskarði og Tungnafellsjökli og til vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum ásamt þverám. Landsfundurinn harmar þau óbætanlegu náttúruspjöll sem unnin hafa verið á svæðinu með Kárahnjúkavirkjun, sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur fordæmt og reynt að koma í veg fyrir.

VERNDUM LANGASJÓ

Langisjór er ein dýrmætasta perla í náttúru Íslands sem varðveita þarf óskerta í þágu komandi kynslóða. Þetta næststærsta stöðuvatn landsins við suðvesturjaðar Vatnajökuls er umlukið stórbrotnum fjallgörðum, fágæt náttúrusmíð og óspillt af manna völdum. Langisjór og umhverfi hans ætti að vera sjálfsagður hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Nú eru hins vegar uppi áform um að veita Skaftá í þetta kristaltæra stöðuvatn og nýta það sem miðlunarlón fyrir virkjanir í Tungnaá og Þjórsá. Slíkum hugmyndum ber að hafna. Skaftárveita mundi auk þess valda miklum og ófyrirsjáanlegum breytingum á rennsli Skaftár, grunnvatni og ferskvatnsrennsli á láglendi og við byggð í Skaftárhreppi. Landsfundur Vinstri grænna skorar á stjórnvöld og heimamenn að friðlýsa Langasjó og umhverfi hans hið fyrsta.

STÆKKUN FRIÐLANDS Í ÞJÓRSÁRVERUM

Þjórsárver uppi undir Hofsjökli er sú gróðurvin á hálendi Íslands sem talin er hvað dýrmætust. Landslag er þar stórbrotið, vatnafarið einstaklega öflugur þáttur í lífríkinu og vistkerfi veranna óvenju tegundaríkt. Þjórsárver njóta sérstakrar verndar bæði sem friðland og sem Ramsar-svæði, sem staðfestir sérstöðu og mikilvægi þess sem votlendis á heimsvísu. Þrátt fyrir það hefur æ ofan í æ verið sótt að verunum með framkvæmdum til virkjunar vatnsafls í Þjórsá og þverám hennar.

Þessar aðgerðir hafa valdið spjöllum á Þjórsárverum, grónu landi hefur verið sökkt undir vatn og umtalsvert landsvæði hefur farið undir veituskurði. Landsfundurinn minnir á baráttu Vinstri grænna fyrir því að ekki verði frekar gengið á dýrmæta gróðurvin Þjórsárvera. Fundurinn hvetur eindregið til þess að mörkum friðlandsins í Þjórsárverum verði breytt og það stækkað þannig að allt gróðurlendi svæðisins lendi innan friðlýsingarmarka og einnig verði kannaðir möguleikar á friðlýsingu Þjórsár frá friðlandsmörkunum að Sultartangalóni.