Halldór brýst um í feninu

Hinir pólitísku umræðuþættir fjölmiðlanna hneigjast til að verða hver öðrum líkir, þ.e Sunnudagsþátturinn á Skjá einum og Silfur Egils á Stöð 2, enda iðulega fjallað um sömu málin sem hæst ber hverju sinni. Í dag voru það Íraksmálin og þó fyrst og fremst hver sagði hvað og hver braut lög, ef það voru þá brotin lög o.s.frv. Umbrot framsóknarmanna í sínu djúpa feni varpa ófögru ljósi á það hvert pólitísk hundstryggð getur leitt fólk, nú eða þá klaufaskapur gagnvart fjölmiðlungum sem eiga það til að ganga svo hart að viðmælendum sínum að þeir ugga ekki að sér og missa út úr sér orð og setningar sem þeir vilja svo ekki kannast við næsta dag – eða e.t.v. réttara sagt sem aðrir háttsettari vilja ekki að þeir hafi sagt.

Þessi þrætubók er orðin ansi löng og leiðigjörn og hefði fyrir löngu átt að leiða til niðurstöðu. Það þarf ekki mikla rökvísi til að lesa það út úr orðum allra sem eitthvað hafa komið nærri þessum málum, og þá fyrst og fremst ráðherra og þingmanna í utanríkismálanefnd Alþingis, að þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson bera ekki aðeins einir ábyrgð á því að þjóðin hefur mátt sitja undir því að vera yfirlýst vígfús og viljugur stuðningsaðili hernaðarins í Írak, heldur eru þeir orðnir berir að afglöpum í starfi sem í flestum lýðræðisríkjum yrðu til þess að þeir væru látnir segja af sér ráðherradómi.

Og nú situr Davíð utanríkisráðherra og sólar sig á Flórída á meðan Halldór forsætisráðherra brýst um í feninu og neitar að svara spurningum fjölmiðla, enda orðinn uppiskroppa með svör og kann e.t.v. ekki við að trufla Davíð í fríinu sínu. Þyrfti hann þó ekki að svara nema örfáum atriðum:

1. Finnst honum yfirlýstur stuðningur við hernað gegn öðru ríki vera meiriháttar málefni? JÁ eða NEI.

2. Ef honum finnst það vera meiriháttar málefni á þá ekki samkvæmt þingskapalögum að bera slíkan yfirlýstan stuðning undir utanríkismálanefnd Alþingis? (Halldór er með þingreyndustu mönnum og hlýtur að svara þessari spurningu einnig með einföldu JÁ-i.)

3. Skýrði hann utanríkismálanefnd Alþingis frá því að þeir Davíð hefðu ákveðið það sín á milli að þeir mundu að beiðni Bandaríkjamanna lýsa yfir stuðningi við árás á Írak þrátt fyrir að ekki hefði komið fram ný ályktun frá Öryggismálaráði Sameinuðu þjóðanna?

Án þess að nokkru hafi verið lekið í undirritaða bendir allt til þess að það sé mergurinn málsins, hann hafi hreint ekki borið þetta meiriháttar málefni undir utanríkismálanefnd og sé þar með orðinn ber að lögbroti. Bingó! Og ástæðan fyrir því að hann álpast ekki til að fara rétt að hlutunum er sú að þeir tveir, Halldór og Davíð, eru búnir að vera svo lengi við völd að þeir telja sig ekki þurfa að bera eitt né neitt undir aðra, þeir geti bara hringt hvor í annan og ákveðið hlutina sín á milli. Og það hvarflar ekki að þeim að axla ábyrgð gjörða sinna. Valdhrokinn yfirskyggir heilbrigða skynsemi. Þeir eru búnir að missa jarðsambandið.