Náttúran í gamla Hæstarétti

Boðað var til kvöldvöku í Dómsalnum í gamla Hæstarétti við Lindargötu í gærkvöldi, 1. desember, undir yfirskriftinni “Náttúran milli Hvergi og Disneylands”. Mér þótti efnið forvitnilegt sem og fundarstaðurinn og tilvalið að verja kvöldi fullveldisdagsins til að hlýða á þá sem nefndir voru til sögunnar. Ekki fannst mér þó fundarstaðurinn notalegur og greinilegt að ekki hafði þótt ástæða til að mylja undir þá sem erindi áttu að rækja í Hæstarétti hér áður fyrr hvernig sem því er svo háttað í nýja dómhúsinu handan götunnar nú til dags. Harðir trébekkirnir ollu því að mér fannst fundurinn alltof langur og reyndar sumt þar lítt áhugavert eins og gengur.

Dagskráin var í samvinnu við Þjóðleikhúsið og hófst kl. 20. Fræðimenn, skáld og aðrir listamenn lásu upp og fluttu erindi, Pétur Gunnarsson, Þórunn Valdimarsdóttir, Edward H. Huijbens, Bragi Ólafsson, Kristín Ómarsdóttir, Jón Atli Jónasson, Andri Snær Magnason og Einar Garibaldi Eiríksson. Því miður voru sumir flytjendur svo lágmæltir að þeir drógu á köflum ekki frá “dómarasætum” sínum aftur til okkar sem sátum aftarlega, en margt var mjög skemmtilegt og vel sagt. Sigríður Þorgeirsdóttir átti svo að stjórna umræðum, en gekk heldur illa að hafa hemil á fólki sem var mikið niðri fyrir.

Umræðan var svolítið einkennileg og rétt eina ferðina fékk ég á tilfinninguna að viðstöddum þætti þeir vera að uppgötva stóra sannleik sem hingað til hefði legið í láginni. Aftur og aftur hef ég upplifað það að heyra fólk ræða Kárahnjúkamálið á þann veg að svo virðist sem það haldi að lítið hafi verið aðhafst til að reyna að koma í veg fyrir þau hrikalegu og óbætanlegu náttúruspjöll sem þar eru nú í gangi og hefði nú betur verið skeleggar barist. Ég sem hélt að a.m.k. drjúgur hluti þjóðarinnar hefði tekið eftir hinum ýmsu fundum, stórum og smáum, sem haldnir voru í Háskólabíói, á Austurvelli, á Grand Rokk, í Austurbæ, í Borgarleikhúsinu að ógleymdri fundaröðinni í Reykjavíkurakademíunni á sl. vetri. Eru nú gleymdar hálendisgöngur, útifundir og mótmælastöður á ótal stöðum? Og hvað með allar greinarnar, blaðaútgáfu og upplýsingabæklinga og ótal aðrar aðgerðir sem ráðist var í til að vekja athygli og umhugsun? Maður fyllist hálfgerðu vonleysi yfir því að fólk sem virðist hafa einlægan áhuga á náttúruvernd og óbeit á náttúruspjöllum skuli ekki þekkja þá baráttu sem háð hefur verið árum saman og vissulega skilað árangri þótt ekki hafi náðst sigur í Kárahnjúkamálinu illu heilli.

En hvað um það, svo virðist sem enn einn hópurinn sé að taka til sinna ráða og allt gott um það að segja svo framarlega sem hann sundri ekki samstöðu annarra hópa sem vinna að náttúruvernd. Í auglýsingum fyrir fundinn var sagt að hann væri á vegum HÆTTA-hópsins, en ekki gerð nein frekari grein fyrir þeim hópi. Vonandi skýrist það á næstu dögum, enda er hópurinn sagður standa fyrir stórtónleikum gegn virkjanastefnunni 7. janúar nk. í Laugardalshöll og ágóðanum skal varið til náttúruverndar.