Þegar Trölli stal jólunum á Seltjarnarnesi!

Jólahátíðin nálgast óðfluga með öllum sínum fylgifiskum, tilhlökkun og gleði, streitu og kvíða, angurværum minningum og kapphlaupi við tímann. Aldrei fyrr hefur jafn mikið borið á áhyggjum og gagnrýni á hamaganginn og búðarápið þar sem Mammon situr um sálirnar. Aldrei fyrr hafa jafn margir látið til sín heyra í fjölmiðlum og freistað þess að vekja fólk til umhugsunar um tilgang jólanna. Sparlega er farið með stóryrðin, en skilaboðin leyna sér ekki ef fólk þá finnur tíma til að hlusta eða lesa varnaðarorðin.

Kannski finna svo margir hvöt hjá sér til að tjá sig um síaukið kaupæði og hömlulausa neyslu vegna þess að nú æpa á okkur hörmungar fólks víða um heim, heimilisleysi, hungur og bjargarleysi eftir hamfarir af völdum náttúru og manna. Fólk reynir að friða samviskuna með því að gefa í safnanir, en það á erfitt með að vinda ofan af æ tryllingslegra hátíðahaldi. Bilið milli velmegunar og örbirgðar er sýnilegra en nokkru sinni fyrr.

En það er líka ótal margt sem gleður í aðdraganda jóla. Svo margt er í boði fyrir utan allar kynningarnar og sölumennskuna að það er vandi að velja. Og það er aðdáunarvert hve margir eru fúsir að leggja af mörkum til að gera góða hluti og gleðja bæði unga og gamla.

Sunnudaginn 4. desember sá ég t.d. jólasýningu fimleikadeildar Gróttu og KR í íþróttahúsinu á Seltjarnarnesi. Þar æfa börn og unglingar á Nesinu og í Vesturbænum fimleika undir stjórn fólks sem ég veit því miður engin deili á, en þessi skemmtilega sýning, eins konar sambland af leikriti og fimleikum, var til marks um dugnað þess og hæfni. Húsið var glæsilega skreytt og ótrúlega mikið hafði verið lagt í búninga. Þarna var skemmtilega fléttað saman fimleikum og því vel kunna ævintýri þegar Trölli stal jólunum. Sýnendur voru fjölmargir allt frá 5 ára til tvítugs, allir lögðu sig fram og sýndu ýmsar listir, fóru ótal kollhnísa og heljarstökk og léku álfa, púka og jafnvel hreindýr.

Ástæða þess að ég dreif mig á sýninguna var sú að átta ára sonardóttir mín, Auður Pálmadóttir, er sitt annað ár í fimleikum þarna og kom fram í sýningunni. Hana skorti ekki leiðgleðina í hlutverki eins hreindýranna með horn og rautt lýsandi nef. Fögnuður og leikgleði sýnenda smitaði áhorfendur sem troðfylltu íþróttahúsið og fengu þarna jólagleðina beint í æð.