“Aldrei fleiri jólabílar seldir” segir í fyrirsögn fréttar í DV í dag. Þar er svo vitnað í nokkra bílasala sem eru einróma um vænlegar horfur í sölu bíla til jólagjafa þetta árið. Enn ein sönnun þess að bilið milli ríkra og fátækra hefur breikkað hreint ótrúlega á undanförnum árum.
Nú man ég reyndar ekki ártalið, en ég man hvað mér hnykkti við þegar sagt var frá þeim fáheyrða atburði í blaðafrétt fyrir nokkrum árum að maður einn hefði keypt forláta bifreið handa eiginkonunni í jólagjöf og látið færa sér gripinn, skreyttan jólaslaufu, á aðfangadag. Ég velti þá fyrir mér hvort þessi ótrúlega jólagjöf væri til marks um mikla ást eða yfirbót vegna misgjörða eða kannski óviðráðanlega þörf fyrir að sýna mátt sinn og megin. Altént fannst mér hún ekki alveg í takt við tilefni jólanna og gæti varla verið á margra færi.
En tímarnir breytast hratt um þessar mundir og mennirnir með. Í tilvitnaðri frétt dagsins í dag er m.a. haft eftir einum bílasalanum: “Ég er handviss um að um þessi jól verður slegið met í því að fólk gefi hvert öðru bíl í jólagjöf”. Það þarf svo ekki að leita lengra en á næstu opnu blaðsins til að sjá hina hliðina á mannlífinu. “Atvinnulausar konur sliga lífeyrissjóð”, segir þar í fyrirsögn og talað við mann í Höfnum á Reykjanesi sem dregur fram lífið á ellilífeyri og greiðslum úr lífeyrissjóði og má nú sæta skerðingum á hvoru tveggja. Lækkun greiðslna úr lífeyrissjóðnum er skýrð með því að langvarandi atvinnuleysi kvenna á Suðurnesjum hafi komið svo illa niður á sjóðnum. Það verður varla mikið um jólabíla á bæjunum þeim.