Síðan við fjölskyldan að meðtöldum okkar ástkæru hestum og í félagi við aðra hestamannafjölskyldu eignuðumst athvarf á vildarjörðinni Kaldbak í Hrunamannahreppi hefur skiljanlega fjölgað mjög ferðum fram og aftur Hellisheiði. Þaðan er víðsýnt og víða fallegt, en einnig margt sem ertir augað. Fyrir því finn ég mest eftir ferðir um óbyggðir landsins.
Á Hellisheiði er falleg og fjölbreytt náttúra, hraun og litríkar mosabreiður, hólar, lautir og fjöll, hverir og heitar laugar. En þetta landslag er nú orðið margsundurskorið af alls kyns manngerðu raski. Þar blasir við námugröftur og umfangsmikil vegagerð, rafstöðvarhús og jarðborar. En ömurlegastar eru raflínurnar sem lagðar hafa verið af ótrúlegri elju og smekkleysi um alla heiði. Ekki færri en þrjár raflínur með tilheyrandi misferlegum rafmagnsstaurum keppa um athyglina þegar farið er um heiðina.
Mannvist og þéttbýli kallar á margháttaða þjónustu, byggingarefni, vegi og rafmagn, og því vill fylgja ýmislegt rask. En ættum við ekki að vera ögn lengra komin í umgengni okkar við náttúruna en sjá má á Hellisheiðinni? Hún er auðvitað svipur hjá sjón með allt þetta manngerða drasl um sig þvera og endilanga þar sem tæknilegar lausnir virðast ekki einu sinni hafa hvarflað að mönnum. Ef hér væri um hernaðarmannvirki að ræða hefðu menn hugsað málið betur og ekki hikað við að grafa þessi ósköp í jörðu.
Kannski fær Hellisheiðin einhvern tíma andlitslyftingu, en hún verður aldrei nein náttúruperla, blessunin. Við eigum hins vegar ennþá stórkostleg ósnortin landssvæði sem brýnt er að vernda og friðlýsa. Á landsfundi Vinstri grænna var samþykkt eftirfarandi ályktun um það efni:
UM NÁTTÚRUVERND OG FRIÐLÝSINGU
Landsfundur Vinstri grænna haldinn 21. – 23. október 2005 minnir á þá staðreynd að ósnortið land, víðerni og villt náttúra er auðlind sem virða ber og varðveita á eigin forsendum. Sérstaða Íslands í samfélagi þjóðanna felst fyrst og fremst í einstæðri náttúru landsins, fjölbreytileika landslags, víðernum og víðsýni, og óvíða í heiminum sjást landmótunaröfl náttúrunnar jafn greinilega og í íslenskri víðáttu. Þessi sérstaða er stærsti þátturinn í þeirri ímynd sem við flest viljum að landið hafi. Til þess að vernda þessa auðlind og treysta ímynd Íslands sem óspillts lands með óspillta náttúru þarf að takmarka alla mannvirkjagerð og röskun á verðmætustu svæðum, friðlýsa þau og tryggja að hægt sé að njóta þeirra án þess að spilla þeim. Landsfundurinn leggur áherslu á friðun eftirtalinna svæða:
BRENNISTEINSFJÖLL
Í Brennisteinsfjöllum á Reykjanesi er sérstætt háhitasvæði, nánast ósnortið og með afar hátt verndargildi. Svæðið er hið eina fjögurra eldfjallakerfa á Reykjanesi, sem ekki hefur verið spillt með borunum, vegagerð og línulögnum. Í Brennisteinsfjöllum eru merkar gosminjar frá sögulegum tíma, umhverfið er stórbrotið með gígum, eldhraunum og hellum, og þar má rekja opnar jarðskjálftasprungur og misgengi. Eldvirkt svæði nær alveg frá sjó norður fyrir Sandskeið. Dýrmætt er að hafa aðgang að öræfakyrrð og svo fjölbreyttu landslagi í aðeins 20 km fjarlægð frá þéttbýlinu á suðvesturhorni landsins. Að Brennisteinsfjöllum steðjar nú hætta þar sem mikill þrýstingur er á stjórnvöld um að veita rannsóknarleyfi þeim aðilum er telja svæðið fýsilegt til orkunýtingar. Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs skorar á stjórnvöld að friðlýsa Brennisteinsfjöll, varðveita þau sem ósnortið víðerni og tengja þau friðlandinu í Herdísarvík eins og lagt er til í Náttúruverndaráætlun.
UM STÆKKUN VATNAJÖKULSÞJÓÐGARÐS OG FRIÐUN JÖKULSÁR Á FJÖLLUM
Landsfundur VG 2005 telur brýnt að hrinda sem fyrst í framkvæmd stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs er nái milli stranda í suðri og norðri og taki til alls áhrifasvæðis Vatnajökuls ásamt Vonarskarði og Tungnafellsjökli og til vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum ásamt þverám. Landsfundurinn harmar þau óbætanlegu náttúruspjöll sem unnin hafa verið á svæðinu með Kárahnjúkavirkjun, sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur fordæmt og reynt að koma í veg fyrir.
VERNDUM LANGASJÓ
Langisjór er ein dýrmætasta perla í náttúru Íslands sem varðveita þarf óskerta í þágu komandi kynslóða. Þetta næststærsta stöðuvatn landsins við suðvesturjaðar Vatnajökuls er umlukið stórbrotnum fjallgörðum, fágæt náttúrusmíð og óspillt af manna völdum. Langisjór og umhverfi hans ætti að vera sjálfsagður hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Nú eru hins vegar uppi áform um að veita Skaftá í þetta kristaltæra stöðuvatn og nýta það sem miðlunarlón fyrir virkjanir í Tungnaá og Þjórsá. Slíkum hugmyndum ber að hafna. Skaftárveita mundi auk þess valda miklum og ófyrirsjáanlegum breytingum á rennsli Skaftár, grunnvatni og ferskvatnsrennsli á láglendi og við byggð í Skaftárhreppi. Landsfundur Vinstri grænna skorar á stjórnvöld og heimamenn að friðlýsa Langasjó og umhverfi hans hið fyrsta.
STÆKKUN FRIÐLANDS Í ÞJÓRSÁRVERUM
Þjórsárver uppi undir Hofsjökli er sú gróðurvin á hálendi Íslands sem talin er hvað dýrmætust. Landslag er þar stórbrotið, vatnafarið einstaklega öflugur þáttur í lífríkinu og vistkerfi veranna óvenju tegundaríkt. Þjórsárver njóta sérstakrar verndar bæði sem friðland og sem Ramsar-svæði, sem staðfestir sérstöðu og mikilvægi þess sem votlendis á heimsvísu. Þrátt fyrir það hefur æ ofan í æ verið sótt að verunum með framkvæmdum til virkjunar vatnsafls í Þjórsá og þverám hennar.
Þessar aðgerðir hafa valdið spjöllum á Þjórsárverum, grónu landi hefur verið sökkt undir vatn og umtalsvert landsvæði hefur farið undir veituskurði. Landsfundurinn minnir á baráttu Vinstri grænna fyrir því að ekki verði frekar gengið á dýrmæta gróðurvin Þjórsárvera. Fundurinn hvetur eindregið til þess að mörkum friðlandsins í Þjórsárverum verði breytt og það stækkað þannig að allt gróðurlendi svæðisins lendi innan friðlýsingarmarka og einnig verði kannaðir möguleikar á friðlýsingu Þjórsár frá friðlandsmörkunum að Sultartangalóni.