Flugeldaskothríðin minnir á stórstyrjöld

Áramót bernsku minnar og allt fram á fullorðinsár voru harla ólík þeim sem nú tíðkast. Á fámennu heimili í norðlenskri sveit hlustuðum við á útvarpið og skynjuðum áramótin best þegar klukkur dómkirkjunnar hringdu í kjölfar hugvekju útvarpsstjóra sem hann endaði ævinlega á orðunum “í guðs friði”. Ekki var efnt til brennu í minni heimasveit og engir flugeldar kepptu við tunglið og stjörnurnar. Ég var komin vel yfir tvítugt þegar ég sá flugeld skotið á loft í fyrsta sinn.

Á nýársdag hlustuðum við svo á fréttir af áramótabrennum í þéttbýlinu, ólátum og sprengjufikti, sem stundum leiddi til slysa. Á höfuðborgarsvæðinu var um nokkurra ára skeið sífellt verið að sprengja “kínverja” og fannst mér það skuggaleg iðja þar til ég komst að því um hvað málið snerist. Ekki liðu svo áramót að fleiri en einn og fleiri en tveir yrðu ekki fyrir varanlegum augnskaða, misstu fingur eða brenndust illa, oftast í andliti.

Smám saman hefur þessi siður að fagna áramótum með skoteldum af ýmsu tagi færst verulega í aukana, enda geta fíklarnir friðað samviskuna með því að þykjast vera að styðja björgunarsveitir landsins og keypt sífellt fleiri og stærri flugelda. Og ekki duga áramótin lengur, heldur er farið að prófa eldfærin löngu fyrr og haldið áfram dögum saman. Flugeldasalar, björgunarsveitir, íþróttafélög og brennuhaldarar halda æ stórkostlegri sýningar og linna ekki látum fyrr en þrettándinn er yfirstaðinn. Sögur herma að fólk sem flúð hefur hingað undan stríðsástandi í heimalandi sínu fyllist skelfingu við fyrstu reynslu af áramótagleði Íslendinga sem minnir það óþægilega á stríðsátök.

Í minni fjölskyldu hefur þessi skoteldafíkn verið í algjöru lágmarki alla tíð, enda hafa oftast verið einhver hrædd börn eða ráðvillt dýr á heimilinu og a.m.k. ég því fegnust þegar þetta æði er yfirstaðið. Í næsta nágrenni eru miklir skoteldafíklar og keppnin þeirra á milli fer vaxandi með hverju árinu. Ég fer venjulega niður á sjávarbakkann og fylgist með keppninni þangað til farið er að súrna í augum af reykmekkinum.

Vissulega er gaman að sjá fallega flugelda, en fyrr má nú vera. Þessi dýrð hefur marga leiðinlega fylgifiska, rusl, mengun og ónæði. Verst fer hávaðinn með vesalings dýrin, sem mörg týnast út í buskann og finnast aldrei aftur eða verða óþægilega taugaveikluð. Árlega fælast hestar, sumir týnast dögum saman og lenda jafnvel í slíkum ógöngum að þeir lifa ekki af.

Í ár berast fréttir af stórum hópum hesta í Skagafirði sem æddu upp á reginfjöll undan flugeldaskothríðinni og tekur tímann sinn að ná þeim til byggða. Þeir eru örugglega ekki þeir einu. Og eigendur sífra í uppgjöf: “Þetta er nokkuð sem menn verða væntanlega að lifa með. Varla verður bannað að skjóta upp flugeldum á gamlárskvöld.” Spurningin er þó sú hvort þetta sprengjuæði getur margfaldast í það óendanlega. Þetta er farið að minna á stórstyrjöld.