Dýrgripir glöddu augað í Skagafirðinum

Síðasti leikur HM er að baki og milljónir manna um víða veröld með fráhvarfseinkenni eftir margra vikna gláp. Sem betur fer verður ekki mikið vart þjáninga á mínu heimili enda heimilismenn þjálfaðir í æðruleysi. Sjálfri finnst mér ágætt að fá svona margar vikur af umfjöllunarefni í fjölmiðlum sem ég sé engan tilgang í að fylgjast með og get því með góðri samvisku tekið mér annað fyrir hendur.

Ég viðurkenni að geta ekki með nokkru móti skilið hvaða ánægju menn hafa af því að horfa vikum saman á fótbolta, en ég þarf heldur ekkert að skilja það. Margir þeirra botna áreiðanlega ekkert í þeim sem nenna að hanga í heila viku við misjafnar aðstæður yfir því hvernig þessi hesturinn og hin hryssan tekur sig út á skeiðvellinum. En það skil ég hins vegar mæta vel.

Landsmóti hestamanna á Vindheimamelum í Skagafirði lauk fyrir rúmri viku og ég er enn að orna mér við upprifjun þeirrar veislu. Karlpeningurinn á HM kemst ekki í hálfkvisti við dýrgripina sem glöddu augað í Skagafirðinum.

Efstu hryssurnar og efstu stóðhestarnir í öllum aldursflokkum eru að sjálfsögðu úrvalsgæðingar, 4 vetra Leista frá Lynghóli og Kraftur frá Efri-Þverá, 5 vetra Dögg frá Breiðholti og Vilmundur frá Feti, 6 vetra Ösp frá Hólum og Eldjárn frá Tjaldhólum, 7 vetra Hvíta-Sunna frá Sauðárkróki og Stáli frá Kjarri. Það var hrein unun að horfa á þessa gæðinga, en það mætti telja upp annan eins fjölda og reyndar miklu, miklu fleiri, sem hrifu hugann. Og sjálfsagt eru margir fleiri en ég sem horfa á sýningarhestana með ákveðin sjónarmið í huga og önnur en dómaforritin byggjast á, þ.e. hvort hesturinn virðist mjúkur, þægilegur og samvinnuþýður, hvort hann sýnir jafnvægi og skapgæði og hvort hann væri líklegur til að fara vel með ferðalanga um fjöll og fjörur. Það er nefnilega hreint ekki víst að þessir glæstu sýningargripir og keppnishestar dygðu í hestaferðum sem eru önnur hlið hestamennskunnar og ekki ómerkilegri.

Það merkilegasta við landsmótið 26. júní til 2. júlí var að sjá hvað hestakosturinn er orðinn góður og fyrst og fremst jafngóður. Mjög margir hestar, hvort sem er stóðhestar, geldingar eða hryssur, eru slíkir gæðingar að það er erfitt að sjá mikinn gæðamun og velja þá allra bestu. Og víst er að margir úrvals hestar náðu ekki inn í lokaúrslit þrátt fyrir frábær tilþrif í undanúrslitum. Það er hrein nautn að sjá gæðinga bæði í A-flokki, B-flokki og tölti keppa til úrslita og oft hlýtur þetta að vera spurning um smekk, en sjálfsagt sjá þaulvanir og lærðir dómarar einhver smáatriði sem brekkudómarar kunna ekki skil á og ráða úrslitum. Hvernig dómarar fara að því að dæma Hlý frá Vatnsleysu nokkrum kommum hærri en Rökkva frá Hárlaugsstöðum í B-flokknum er ofvaxið mínum skilningi. Og enn síður skil ég hvernig þeim tókst að velja á milli Geisla frá Sælukoti og Þórodds frá Þóroddsstöðum í A-flokknum, hvor tveggja algjörir snillingar.

Enn eitt athyglisvert er hvað yngsta keppnisfólkið er farið að láta til sín taka á landsmótum og ber það vitni um markvisst starf í yngri aldurshópum. Á landsmótinu var keppt í barnaflokki 12 ára og yngri, unglingaflokki 13 – 15 ára og ungmennaflokki 18 – 21 árs. Og þessi ungu knapar – allt niður í níu ára – sýndu slík tilþrif á vellinum að unun var á að horfa. Þetta unga fólk er heldur ekki að sýna á neinum kerruhestum, heldur hinum ágætustu gæðingum, jafnvel myndarlegustu stóðhestum, sem óhætt var að hleypa á harðastökk ef svo vildi verkast. Og Fáksknapinn Ragnar á Hávarði sínum tók sér eldri og reyndari knapa til fyrirmyndar og lyfti vinningsbikar sínum hátt á loft, þótt sá virtist geta borið þann stutta ofurliði. Sú var tíðin að aðeins örfáir knapar hrifu hugann, en nú eru þeir margir. Árangur þeirra yngstu lofar góðu um framtíðina.