Sorg og sæla sitt á hvað á Löngufjörum

Við vorum að koma af fjörunum, þ.e.a.s. svonefndum Löngufjörum á sunnanverðu Snæfellsnesi. Við höfum svo oft riðið þessar fjörur að ég þyrfti að leggjast í mikla upprifjun til að nefna öll skiptin. Í þetta sinn var það 10 daga Fáksferð og farnir ýmsir skemmtilegir leggir umfram hefðbundna fjöruspretti. Við fórum í Hjörsey, þriðju stærstu eyju við Ísland, við fórum langt út á Gömlueyri, sem gefur heldur betur kost á löngum og skemmtilegum sprettum, og við riðum í 2 daga um eyjar, nes og fjörur út af Skógarnesi. Við lukum ferðinni á glampandi ljósri fjörulengjunni nær Búðum og nokkrir ferðafélaganna skemmtu sér við að sundríða í Búðaósnum.

Flest var skemmtilegt í þessari ferð, góðir ferðafélagar, hæfilegur fjöldi manna og hesta til að allt gengi nánast snurðulaust og veðrið lék við okkur. Einn stóran skugga bar þó á. Ég lenti í miklum erfiðleikum með minn allra besta fjöruhest gegnum tíðina, Prúð minn Sörlason, sem hefur skilað mér á slíku flugi um fjörurnar að mér hitnar um hjartarætur við tilhugsunina. Skrefdrýgri og mýkri hest hef ég ekki setið og man ekki til þess að aðrir hestar hafi tekið honum fram í þessum ferðum okkar, jafnvel skeiðhestar tóku hann ekki á töltinu. Nú er hins vegar eitthvað að hjá þessum góða vini mínum og við gátum ekki notið okkar saman í þessari ferð. Hann stakk sér illa hvað eftir annað og henti mér af sér þegar ég fór fyrst á bak honum, og þótt við næðum sæmilegum sáttum og kláruðum þann legg sem framundan var fann ég að hann var ekki sjálfum sér líkur. Það kom svo enn frekar í ljós þegar ég tók hann næst, og eftir tvær flugferðir í það skipti sannfærðist ég um að eitthvað meiriháttar væri að angra hann og gaf honum frí. Ég sá að hann hlífði sér á hlaupunum með lausu hrossunum. Hann gæti verið kominn með slæmsku í fót eða fætur, hann gæti verið með einhver bakmeiðsli eða eitthvað enn annað. Nú er hann kominn í Kaldbakshaga og hefur sína hentisemi þar til við flytjum hann til dýralæknis í allsherjar skoðun. Ég hef það á tilfinningunni að nú sé þessum dýrmæta kafla í minni hestamennsku lokið og ekki laust við sorg í sinni.

Hinir hestarnir voru allir í góðu formi og skiluðu sínu og leiddist greinilega ekki að teygja sig um grundir og fjörur. Gaukur er mjög góður, kröftugur og töltir vel. Kári er alltaf jafn viljugur og duglegur þótt orðinn sé tvítugur öldungur. Og sérlega skemmtilegt er að finna yngsta gæðinginn, hinn átta vetra Storm, eflast að kröftum og góðum gangi. Þannig skiptust á sorg og sæla á Löngufjörum að þessu sinni.

Nú hvíla öll hrossin sig vel og lengi á Kaldbak, en stór hluti mannfjölskyldunnar dvelst næstu vikur á æskustöðvunum norður í Reykjadal.