Góður árangur Vinstri grænna

Vinstri græn náðu mjög góðum árangri í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum og treystu sig verulega í sessi á landsvísu. Víða tvöfaldaði flokkurinn fylgi sitt frá því fyrir fjórum árum og fjórfaldaði það reyndar í Hafnarfirði þar sem Guðrún Ágústa náði góðri kosningu til bæjarstjórnar. Það skiptir miklu að rödd Vinstri grænna heyrist í bæjarstjórn Hafnarfjarðar þegar stækkun álversins kemur til umfjöllunar og sama er að segja um bæjarstjórn Norðurþings, þar sem Ásbjörn Björgvinsson fékk góða kosningu og mun tala máli náttúrunnar gegn álversáformum. Augu fólks hafa verið að opnast æ meira fyrir hrikalegum óafturkræfum spjöllum í náttúru landsins í þágu einsýnnar og skefjalausrar stóriðju- og virkjanastefnu ríkisstjórnarflokkanna. Sú hugarfarsbreyting sem orðið hefur skýrir að hluta gott gengi Vinstri grænna í sveitarstjórnarkosningunum sem vonandi skilar sér áfram inn í alþingiskosningarnar að ári.

Vinstri græn geta verið stolt af framgöngu sinni í nýliðinni kosningabaráttu. Auglýsingum var stillt í hóf, en þær voru svo sérstakar og fallegar að eftir var tekið. Útgefið efni var yfirleitt mjög vel gert og vakti verðuga athygli. Mikil vinnugleði og sannur baráttuandi ríkti hvarvetna á kosningaskrifstofum Vinstri grænna og frábært starf frambjóðenda og bakvarðasveita átti vissulega stærstan þátt í þeim árangri sem fagnað var að kosningum loknum. En nú sannast málshátturinn kunni að ekki er sopið kálið þótt í ausuna sé komið. Vinstri græn virtust eftirsótt til viðræðna um myndun meirihluta í nokkrum sveitarfélögum strax eftir kosningarnar og gengu af heilindum til þeirra viðræðna. Viðmælendurnir höfðu þó ekki alls staðar þolinmæði til að ræða málin til enda og hefur mátt sjá í iljar sumra þeirra stökkvandi í faðm stóra bróður til að tryggja sér valdastól. Þeir sem verst fóru út úr kosningunum eru fljótastir að hjúfra sig upp að þeim stærstu sem vantar aukastyrk. Óðagot og klækjabrögð viðmælenda skyggja óneitanlega á gleði Vinstri grænna með árangurinn í kosningunum sjálfum. Ekki er þó útséð með aðkomu okkar að meirihluta á nokkrum stöðum, en hvernig sem það fer allt saman dregur það ekki úr mikilvægi þess að eiga okkar góðu fulltrúa í bæjarstjórnum í minnihluta eða meirihluta eftir aðstæðum.

Ekki síðar en að ári verða kosningar til Alþingis. Sú barátta og árangur sem náðist í sveitarstjórnarkosningunum er mikilvægur upptaktur að kosningabaráttu komandi vetrar. Hreyfingin hefur eflst verulega í nýliðinni baráttu og þann styrk munum við nýta til áframhaldandi uppbyggingar og góðra starfa bæði á vettvangi bæjarmála og landsmála.

Flokkurinn bauð fram V-lista í 13 sveitarfélögum og fékk 14 fulltrúa kjörna af þeim listum. Boðið var fram í fyrsta sinn undir merkjum flokksins á 5 stöðum og náðist alls staðar athyglisverður árangur þrátt fyrir að ekki næðist inn fulltrúi á tveimur þeirra.

Árangur V-listaframboðanna er þessi:

Reykjavík:

13,47% og 2 fulltrúar, Svandís Svavarsdóttir og Árni Þór Sigurðsson.

Hafnarfjörður:

12,07% og 1 fulltrúi, Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir.

Kópavogur:

10,35% og 1 fulltrúi, Ólafur Þór Gunnarsson.

Mosfellsbær:

12,14% og 1 fulltrúi, Karl Tómasson.

Akranes:

14,33% og 1 fulltrúi, Rún Halldórsdóttir.

Dalabyggð:

29,23% og 2 fulltrúar, Þorgrímur E. Guðbjartsson og Halla S. Steinólfsdóttir.

Skagafjörður:

11,61% og 1 fulltrúi, Bjarni Jónsson.

Dalvík:

17,97% og 1 fulltrúi, Jóhann Ólafsson.

Akureyri:

15,9% og 2 fulltrúar, Baldvin H. Sigurðsson og Kristín Sigfúsdóttir.

Norðurþing (Húsavík, Kelduneshr., Öxarfj.hr., Raufarhafnarhr.):

13,59% og 1 fulltrúi, Ásbjörn Björgvinsson.

Árborg:

9,97% og 1 fulltrúi, Jón Hjartarson.

Hveragerði:

9,81%, en enginn fulltrúi.

Reykjanesbær:

5,31°%, en enginn fulltrúi.

Auk þessa átti flokkurinn beina aðild að nokkrum blönduðum framboðum, leiddi það starf sums staðar og fékk nokkra fulltrúa kjörna af þessum blönduðu listum. Má þar nefna Sigurð Magnússon og Kristínu Fjólu Bergþórsdóttur af Á-lista sem velti Sjálfstæðisflokknum úr meirihluta á Álftanesi, Finnboga Rögnvaldsson af L-lista í Borgarbyggð, Emil Sigurðsson af L-lista í Grundarfirði, Lárus Ástmar Hannesson af L-lista í Stykkishólmi, Jónu Benediktsdóttur af Í-lista á Ísafirði, Bjarkey Gunnarsdóttur af H-lista í Fjallabyggð (Ólafsfjörður, Siglufjörður) og Björn Halldórsson af N-lista í Vopnafirði.