Sóun og heimskulegt dekur

DV var nýlega með merkilega úttekt á eyðslu skólastelpna í föt og snyrtivörur. Talað var við átta 16 – 19 ára stelpur í Verzlunarskólanum sem spurðar voru um þennan mikilvæga þátt í lífi sínu auk þess sem þær voru spurðar hvað þær eyddu miklum tíma í morgunsnyrtinguna, hvernig þær kæmust í skólann, hvar þær versluðu og hvernig þær fjármögnuðu svo alla dýrðina. Niðurstaðan var býsna sláandi.

Þessar átta viðurkenna hikstalaust að eyða allt frá 18 þúsund og upp í 45 þúsund að meðaltali á mánuði í fatnað og snyrtivörur. Allar segjast versla langmest erlendis, ein segist t.d. vera nýkomin frá Flórída þar sem hún “náði að eyða 90 þúsund krónum á 2 dögum í mollinu”. Þær taka sér drjúgan tíma í morgunsnyrtinguna eða frá 20 mínútum upp í heilar 40 mínútur. Því miður voru þær ekki spurðar hvenær þær vöknuðu og hvað þær borðuðu á morgnana eða hvort þær hefðu yfirleitt tíma til þess.

Tvær af átta eru á eigin bíl, hinar segjast fá far og flestar nefna pabba til sögunnar í því efni. Og pabbarnir gera fleira en að koma dætrum sínum í skólann því þeir virðast taka fúslega upp budduna til að borga allan fatnaðinn og snyrtivörurnar. “Ég fæ peninga hjá pabba”, var algengasta svarið þegar dekurrófurnar voru spurðar hvernig þær hefðu efni á þessu öllu saman.

Mörgum finnst það sjálfsagt gamaldags og púkalegt að finnast eitthvað athugunarvert við þennan lífsstíl. Er ekki bara allt í lagi að stelpur á þessum aldri sæki rúmlega hálfa milljón on´í vasa pabba síns fyrir fötum og snyrtivörum ef hann hefur efni á því? Og óþarfa smámunasemi að blanda öðrum kostnaði inn í það mál eins og skólagjöldum, bókakostnaði og skemmtunum af ýmsu tagi.

Nei, fjandakornið að þetta sé í lagi. Í mínum huga er þetta sóun og heimskulegt dekur. Vissulega hefur þetta orð farið af stelpum í Verzló og vonandi er það fjarri því algengt að skólastelpur almennt geti baðað sig í dekri af þessu tagi. Það getur ekki verið gamaldags viðhorf að börn séu alin upp til þess að verða sjálfbjarga og kunna að fara með peninga.