Árleg dvöl í sveitinni minni fyrir norðan hressir og kætir og “gefur hraustlegt og gott útlit”, eins og segir í gömlu hallærislegu auglýsingunni um maltið. Yfirleitt er ég 3 – 4 vikur og fæ oftast marga góða veðurdaga sem tryggja þetta hraustlega og góða útlit, að ekki sé nú minnst á nýju sundlaugina neðan brekku. Það vantaði ekki sólina og sumarið í þetta sinn. Heitasta daginn, föstudaginn 4. ágúst, sýndi mælirinn við norðurgluggann í Varmahlíð heilar 26 gráður og dagana 16. – 23. ágúst var sólskin frá morgni til kvölds og hitamælirinn sýndi16 – 22 gráður hvern einasta dag. Eina bölið var mikil ásókn flugna sem bitu fast og ollu bæði bólgu og kláða, en blessuð blíðan bætti það allt saman upp.
Best af öllu er þó að finna aðeins fyrir rótunum og rifja upp gömlu dagana. Það tekst ágætlega þótt margt og mikið hafi breyst. Það er mikill uppgangur í Reykjadalnum sem nú er orðinn hluti af Þingeyjarsveit. Mér finnst alltaf jafn merkilegt að arka upp á stóra bæjarhólinn, horfa yfir sveitina, sjá hvað hefur bæst við af húsum eða öðrum mannvirkjum og rifja upp hvernig þetta var nú allt saman í mínum uppvexti. Í þetta sinn lenti ég í því að gerast leiðsögukona fyrir hóp fólks á landsmóti ungmenna um verslunarmannahelgina og þurfti að vanda mig svolítið við upprifjunina þarna af bæjarhólnum. Blessuðu fólkinu virtist ekkert leiðast, ekki einu sinni Ítölunum fjórum í hópnum. Reyndar er til vandræða að brekkurnar eru orðnar svo rækilega skógi vaxnar að maður sér ekki út úr augum fyrr en komið er upp að vörðunni á bæjarhólnum. Það er ótrúlega stutt síðan svipur dalsins var allur annar og munar þar mest um trén sem mér finnst eiginlega orðið meira en nóg af.
Mest um vert er þó að mannlífið er með miklum ágætum í Reykjadalnum. Ég spjallaði við mann sem hefur búið og starfað þar í 4 ár og er nýbúinn að festa kaup á húsi og ástæðan er sú að fjölskyldunni líður svo vel á þessum slóðum og vill búa þarna áfram. Þetta er svo gott umhverfi fyrir fjölskyldur og vel hlúð að börnum og unglingum, sagði þessi ágæti maður sem hefur búið víða um land vegna starfs síns. Hann sagðist hvergi hafa kynnst jafn góðu umhverfi og andrúmslofti fyrir uppvaxandi unglinga. Það eru nægir menntunarkostir, það er mikið og gott tónlistarlíf og það er leiklistarlíf þar sem íbúar sveitarinnar og nemendur fjölbrautarskólans vinna saman. Íþróttaaðstaða er með besta móti, nýuppgerður völlur sem stenst allar nútíma kröfur, stórt íþróttahús og glæsileg útisundlaug.
Krakkar hér hafa alltaf nóg við að vera, sagði þessi maður, þau mega ekkert vera að því að sitja og bíða eftir næsta fylliríi. Og ég fylltist stolti fyrir hönd minnar ágætu sveitar.-’