Erindi Vinstri grænna eru mörg og brýn

Þegar ég var í fyrsta sinn kjörin til starfa á Alþingi árið 1983 var það sem sjöundi landskjörinn þingmaður eins og það var kallað. Það fannst mér mjög flott og ólíkt betra en uppbótarþingmaður og fannst landskjörin vísa til þess að ég væri fyrir landið allt og miðin, eins og ég sagði gjarna. Vissulega tilheyrði ég þó hópi þingmanna í Reykjaneskjördæmi sem þá var og hét. En mér hefur alltaf fundist mjög mikilvægt að þingmenn skynjuðu hlutverk sitt og starf í þágu allra landsmanna, þótt það sé að hinu leytinu hagkvæmt að ákveðnir hópar setji sig sérstaklega inn í staðbundin verkefni í kjördæmunum og sinni þeim. Slíkt má þó ekki leiða til þess að hagsmunir heildarinnar víkji úr fyrirrúmi.

Það er mjög ríkt í fólki úti um land að telja nauðsynlegt að hafa sinn eigin þingmann og helst að þekkja hann inn að beini. Það hefur t.d. heyrst mjög rækilega og grímulaust í tengslum við prófkjör undanfarinna vikna og nægir að minna á óánægju Suðurnesjamanna sem ekki hafa riðið feitum hesti frá samkeppninni um efstu sæti flokkanna að undanförnu. Á endanum bönkuðu Framsóknarmenn þar upp á hjá Hjálmari Árnasyni og skoruðu á hann að freista þess að velta Guðna Ágústssyni úr sessi sem leiðtoga Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi. Árangurinn kemur í ljós næstu daga.

Vinstri græn stigu merkilegt skref á suðvesturhorninu gegn þessum viðhorfum sem mörgum þótti nokkuð djarft, en fyrst og fremst forvitnilegt. Þau buðu upp á sameiginlegt forval í Suðvesturkjördæmi og jafnframt í báðum kjördæmum Reykjavíkur. Ljóst var frá upphafi að þar með réði heimilisfesti litlu um niðurstöður, og eigum við nú eftir að sjá hvort kjósendur setja það fyrir sig. Ég viðurkenni að ég hafði í upphafi nokkrar efasemdir um þetta fyrirkomulag, en þær efasemdir hafa minnkað verulega og það verður spennandi að fylgjast áfram með því starfi og þeim breyttu vinnubrögðum sem þetta fyrirkomulag kallar á.

Það er nú ljóst að Ögmundur Jónasson mun leiða lista VG í Suðvesturkjördæmi, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir skipar 2. sæti, Gestur Svavarsson 3., Mireya Samper 4. og Andrea Ólafsdóttir 5. sætið. Frábær hópur af skemmtilegu og bráðduglegu fólki sem gaman verður að fylgjast með. Framboðslistinn er ekki fullfrágenginn, en þessi fimm bíða að sjálfsögðu ekki boðanna, heldur eru strax farin að skipuleggja baráttuna og máta sig í kjördæminu. Vinstri græn á Seltjarnarnesi fengu þetta ágæta fólk í heimsókn og leyndi sér ekki eftirvæntingin og ánægjan á báða bóga.

Suðvesturkjördæmið er vissulega um margt sérstætt, en Vinstri græn beita sér þar fyrir sömu málum og alls staðar annars staðar á landinu. Það kom skýrt fram á fundinum með fimmmenningunum. Þar sem annars staðar setja Vinstri græn umhverfismál og náttúruvernd á oddinn, lýðræðislegt og réttlátt samfélag, kvenfrelsi og afnám kynbundins misréttis og sjálfstæða utanríkis- og friðarstefnu. Erindi Vinstri grænna eru mörg og brýn í íslenskum stjórnmálum, brýnni en nokkru sinni fyrr eftir alltof langa stjórnartíð núverandi valdaflokka.

Niðurstöður hins nýstárlega forvals Vinstri grænna lofa góðu, skoðanakannanir lofa góðu, bjartsýni og baráttugleði félaga um allt land lofa góðu. Ég bið ekki um meira í bili.

Abbababb – kona bæjarstjóri!

Sigrún Björk Jakobsdóttir er loksins sest í stól bæjarstjóra á Akureyri. Þar með hafa Akureyringar fengið sinn fyrsta bæjarstjóra úr röðum kvenna. Það er auðvitað hið besta mál og ástæða til að óska þeim til hamingju með það og svo Sigrúnu Björku gæfu og gengis í starfinu.

En hvers vegna er þetta svona mikið mál? Af hverju eru fjölmiðlarnir og þó sér í lagi Morgunblaðið að gera svona mikið úr þessum atburði? Þetta er ekki fyrsta konan á Íslandi sem tekur að sér stjórn bæjarfélags þótt þær hefðu sannarlega mátt vera fleiri á liðnum árum. Það voru vissulega stórfréttir fyrr á árum í hvert eitt sinn sem kona skipaði stjórnunarstöðu, en varla er fólk búið að gleyma því að m.a.s. höfuðborg landsins hefur nýlega lotið kvenlegri stjórn um árabil, fyrst Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og síðan Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur. Og víða hafa konur stjórnað bæjarfélögum vítt og breitt um landið af skörungsskap og gera enn.

Málið er kannski ekki flóknara en það að fyrri bæjarstjóri, Kristján Þór Júlíusson, þurfti með aðstoð fjölmiðla, aðallega Moggans, að breiða yfir eigin blekkingaleik og græðgi. Hann sór og sárt við lagði í kosningabaráttunni á síðasta ári að hann ætlaði sér ekki annað í pólitíkinni en að vera áfram bæjarstjóri Akureyringa, en sveik það svo við fyrsta tækifæri í prófkjöri til alþingisframboðs. Hann mun leiða framboðslista Sjálfstæðisflokksins í NA-kjördæmi og er búinn að tryggja sér sæti á Alþingi næstu árin, en finnst það greinilega ekki mikið mál því hann hyggst sitja áfram í bæjarstjórn á Akureyri, telur sig líklega ómissandi. Og ekki nóg með það, heldur ætlar hann að halda bæjarstjóralaununum næstu mánuðina og fór létt með að útskýra það fyrir landsmönnum. Lítillátur, ljúfur, kátur!

Ráðið til að halda fjölmiðlum við réttu fréttirnar og gleyma þeim vitlausu er að gera sem allra mest úr bæjarstjóraskiptunum og birta mikið af fréttum og myndum af konunni Sigrúnu Björku Jakobsdóttur, sem fyrst kvenna sest í stól bæjarstjóra á Akureyri, en hefur satt að segja varla sést á mynd án Kristjáns Þórs.

Álver við Helguvík – ekkert mál!

Áberandi er í fréttum og umræðum um óbyggð álver og óreistar virkjanir að talað er um allt slíkt sem frágengið mál og framkvæmdir á næsta leiti. “Garður og Reykjanesbær skipta jafnt tekjum af álveri” er fyrirsögn á bls. 17 í Morgunblaðinu í dag, 9. janúar. Ekki er að sjá neina fyrirvara í langri frétt um málið, heldur eins og allt sé nánast klappað og klárt, enda eru bæjarstjórarnir í Garði og Reykjanesbæ búnir að skrifa undir samkomulag sín á milli. Er það nóg?

“Gert hefur verið ráð fyrir álveri með 120 til 150 þúsund tonna framleiðslugetu í fyrsta áfanga sem gæti verið tekið í notkun á árinu 2010. Fimm árum síðar verði framleiðslugetan komin upp í 250 þúsund tonn.” Svo segir í niðurlagi fréttarinnar eftir miklar upplýsingar um lóðamál og staðarval fyrir ker- og steypuskála, súrálsgeyma og skrifstofubyggingu. Oddný Harðardóttir, bæjarstjóri í Garði, segir að álverið fari betur þar í landinu en áður hafi verið í umræðunni. Og Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segir lausnina hagstæða út frá umhverfislegum sjónarmiðum! Það kemur svo enn betur fram í forsíðufrétt í Fréttablaðinu: “Umhverfið tekið fram yfir tugi milljóna”. Þessi hjartnæma umhyggja fyrir umhverfinu minnir á Álgerði í áramótaskaupinu sem hneykslaðist á manninum sem henti rusli á virkjanasvæðinu.

Ekkert er fjallað um orkuöflun vegna þessa álvers sem bæjarstjóraparið hefur komið sér svo rækilega saman um, aðeins að Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur vilji sjá um þann þátt málsins. Er þá komið að aðalatriði málsins sem furðulegt er að rétt nefna si svona til sögunnar eins og smámál sem varla taki að minnast á!

Stóra álitamálið er auðvitað hvar Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur ætla að taka þá orku sem afla þarf til að knýja 250 þúsund tonna álver, sem að sjálfsögðu kallar fyrr en síðar á stækkun á stækkun ofan.

Orkuveita Reykjavíkur hefur illu heilli liðist að spóla upp Hellisheiðina og eyðileggja hana með furðulegri röralagningu og a.m.k. þrenns konar háspennulínum um þvera og endilanga heiðina. Þar á bæ treysta menn sjálfsagt á að fáum þyki lengur taka því að reyna að bjarga því sem eftir er óraskað.

Hitaveita Suðurnesja horfir til Brennisteinsfjalla, þar sem er hið eina fjögurra eldfjallakerfa á Reykjanesi, sem ekki hefur verið spillt með borunum, vegagerð og línulögnum og má með sanni segja að þetta merkilega svæði hafi lengi verið eins og falinn fjársjóður við bæjardyr höfuðborgarsvæðisins. Verndargildi þessa svæðis er metið afar hátt, en mat virkjunarsinna byggist því miður á öðrum gildum en verndargildum.

Spennandi kosningaár framundan

Jæja, þá eru jól og áramót að baki og allt heldur litlausara orðið í kotum manna. En þótt jólaskreytingar og ljósadýrð hverfi smám saman úr gluggum, af trjám og handriðum, jafnvel skorsteinum og þökum, taka himnaljósin við og gleðja enn frekar. Daglega hænufetið er farið að skila sér og hressa upp á andann.

Árið 2007 er spennandi, ekki síst vegna komandi kosninga. Flokkarnir eru flestir langt komnir með undirbúning sinn, prófkjör og forvöl flest yfirstaðin og ljóst hverjir leiða munu lista þeirra, og nú dynja yfir fundir og fjölmiðlaumræður sem hlé varð á um hátíðarnar. Það er kominn vorhugur í Vinstri græn þrátt fyrir frost og kuldatíð og þau bjóða upp á fundi þessa dagana í öllum kjördæmum. Frjálslynd undirbúa landsfund af kappi og forvitnilegt hvernig þeim gengur að ná samstöðu eftir átökin í haust. Og svo er spurningin hvort Hjálmari tekst að leggja Guðna í forvalinu í Suðurkjördæmi á næstunni. Fáir hafa trú á því.

Þessa dagana og væntanlega næstu vikur er áhugaverðast að sjá hvernig málin þróast hjá eldri borgurum og ekki síður hjá Framtíðarlandinu. Talsverður áhugi virðist á framboði hjá hvorum tveggja hópum, en líka mikil andstaða og alls óvíst hvað verður ofan á. Minni spenna er þó í kringum eldri borgara og harla óljóst hvað þar er að gerast. En tíminn er svo sem nægur enn, framboð þarf ekki að tilkynna formlega fyrr en 15 dögum fyrir kjördag og enn langt í apríllokin.

Meiri eldur virðist kraumandi hjá félögum í Framtíðarlandinu og það raunar á báða bóga. Þar eru ákafir framboðssinnar, en þar er líka mjög mikil andstaða sem byggist ekki síst á því að sérstakt framboð kæmi hugsanlega verst við þá sem mest og best hafa staðið vörð um náttúruna og barist fyrir vernd hennar og virðingu á Alþingi. Það væri afar óheppileg og í rauninni sorgleg niðurstaða.

Mér er auðvitað málið skylt og þætti það afskaplega miður ef þessi yrði niðurstaðan. Vinstri græn hafa unnið af miklum heiðarleik og dugnaði og háð feiknarlega öfluga baráttu fyrir þeim hugsjónum sem hreyfing okkar byggist á og þar hefur græni þráðurinn styrkst með degi hverjum. Það er ekki hrist fram úr erminni að byggja upp stjórnmálahreyfingu, en við höfum verið mjög lánsöm með félaga, bæði í forystu og grasrót sem hafa af óeigingirni og elju lagt uppbyggingunni lið. Og nú blasir árangurinn við. Æ fleiri styðja málstað náttúruverndar og fylkja sér um hugsjónir og stefnu Vinstri grænna. Það væri synd ef þeim árangri væri spillt.

Framtíðarlandið er kraftmikill og spennandi kostur fyrir fólk sem vill vinna á uppbyggilegan hátt að umhverfismálum og náttúruvernd, eins og reyndar svo margar hreyfingar og félagasamtök sem hafa risið og hnigið á undanförnum árum. Það hefur verið hrein opinberun oft og tíðum að kynnast alls konar samtökum á þessu sviði, sem hafa skapað tækifæri til umræðna og skoðanaskipta, fræðslu og margs konar athafna, mótmæla og uppbyggjandi starfa. Mörg slík samtök hafa náð heilmiklum árangri þótt þau störfuðu stutt. En það er gríðarlega mikilvægt að hafa öflug samtök af þessu tagi sem láta vel í sér heyra þegar þörf er á.

Kristín Jóns og innri röddin

Það var sérstakt andrúmsloft í Norræna húsinu í hádeginu í gær. Kristín Jónsdóttir sagnfræðingur flutti þar erindi á vegum Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum, sem hún kallaði “Hlustaðu á þína innri rödd” og fjallaði þar um ákveðið tímabil í sögu Kvennaframboðs og Kvennalista. Kristín átti drjúgan þátt í mótun og starfi beggja greina á þessum meiði og sveik sannarlega ekki áheyrendur, sem voru reyndar að stórum hluta kvennalistakonur. Það var því fagnaðarfundur vinkvenna til margra ára og fortíðarþráin lá í loftinu.

Kristín hafði aðeins rúman hálftíma fyrir erindið, en hún nýtti tímann vel og dró upp heillega mynd af því sem gerðist á þessu árabili, þ.e. frá 1982 – 1987. Hún lýsti aðdragandum, stöðu kvennabaráttunnar og þörfinni fyrir breytingar, hvernig framboðshugmyndin fæddist og þróaðist og myndaði þann grundvöll sem dugði til að skila árangri. Allt það ferli gekk að sjálfsögðu ekki átakalaust, konur komu og fóru, og stundum var hurðum skellt. Hún lýsti uppbyggingu samtakanna og hugmyndafræðinni sem starfið byggðist á og hún sagði frá viðbrögðum fólks í gömlu stjórnmálaflokkunum. Loks lagði hún mat sitt á árangurinn, hverju allt þetta starf skilaði. Að erindinu loknu urðu líflegar umræður og auðheyrt á máli spyrjenda í salnum, að enn brennur margt á konum – karlar voru fáir – og enn er gælt við hugmyndir um sérframboð kvenna. Hvar veit nema efnt verði enn á ný til slíkra aðgerða fyrr en síðar.

Þessi stund í Norræna húsinu var bæði fróðleg og einstaklega skemmtileg. Hins vegar hefðu gjarna mátt vera fleiri í hópi áheyrenda, sem stóðu utan við þetta ævintýri þegar kvennabarátta þessa tíma stóð sem hæst, sum jafnvel ekki einu sinni fædd í þennan heim þegar ævintýrið hófst. Það er furðu fljótt að fenna í sporin og mætti oftar og meira halda á lofti því sem Kvennaframboðið og Kvennalistinn áorkaði. Það var ekki lítið. Að minni hyggju var tilkoma Kvennalistans, hugmyndafræðin, starfið allt og árangur þess það merkilegasta og áhrifamesta sem gerðist í íslenskum stjórnmálum á nýliðinni öld.

Tímamót í sögu stjórnmálanna

Nokkur tímamót urðu í íslenskri stjórnmálasögu í dag, 21. nóvember 2006, þegar nefnd fulltrúa allra þingflokka lauk störfum með sameiginlegri niðurstöðu um fyrirkomulag fjárhagsmálefna stjórnmálaflokkanna. Nefndin leggur fram skýrslu um starf sitt og drög að frumvarpi sem vonir standa til að verði að lögum á næstu dögum. Formaður nefndarinnar mun skila skýrslu og öðrum gögnum í hendur Geirs H. Haarde forsætisráðherra á morgun, 22. nóvember, og er nú ekki annað að gera en að óska þess að þingið taki vel á móti afrakstri mikillar vinnu nefndarinnar.

Nefndarstarfið hefur aldeilis tekið tímann sinn og verið nokkuð strangt á köflum. Á vordögum 2005 ákvað Halldór Ásgrímsson, þá forsætisráðherra, að skipa nefnd “til að fjalla um lagalega umgjörð stjórnmálastarfsemi á Íslandi”, eins og það var orðað í skipunarbréfi dagsettu 4. júlí 2005. Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, var formaður nefndarinnar og varaformaður Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, en aðrir voru Helgi S. Guðmundsson, formaður fjárlaganefndar Framsóknarflokksins, Einar K. Guðfinnsson, sem var formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, en Guðlaugur Þór Þórðarson tók svo sæti Einars þegar hann varð sjávarútvegsráðherra, Gunnar Ragnars, formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, Gunnar Svavarsson, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, Margrét S. Björnsdóttir, forstöðumaður stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála, tilnefnd af Samfylkingu, Eyjólfur Ármannsson, lögfræðingur, tilnefndur af Frjálslynda flokknum, og undirrituð, sem á þeim tíma bar þann virðulega titil framkvæmdastjóri Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Ritari nefndarinnar var Árni Páll Árnason, héraðsdómslögmaður.

Mælst var til þess að nefndin yrði nokkuð snör í snúningum og skilaði af sér fyrir árslok 2005. Sem betur fer fóru nefndarmenn ekki á taugum út af því, heldur tóku sér þann tíma sem nauðsynlegur reyndist til að ná þeirri niðurstöðu sem nú er fengin. Nefndin hélt marga fundi og suma langa og stranga á þessum tíma. Hún hafði frjálsar hendur um verklag og upplýsingaöflun og varði talsverðum tíma í að kynna sér tilhögun mála í fjölmörgum öðrum lýðræðisríkjum. Frá upphafi var lögð áhersla á samstöðu nefndarmanna um verklag og starfshætti, enda markmið vinnunnar að ná sameiginlegri niðurstöðu.

Lokaorð skýrslunnar tala sínu máli, en þau hljóða svo:

“Viðfangsefni nefndarinnar var umfangsmikið og mikilvægt og innan nefndarinnar voru uppi mjög ólík sjónarmið og skoðanir til viðfangsefnisins. Niðurstaða nefndarinnar er málamiðlun ólíkra viðhorfa. Nefndarmenn telja mikið til þess vinnandi að sem mest traust ríki um okkar lýðræðisfyrirkomulag og vonast nefndarmenn til að meiri sátt geti ríkt um þennan þátt mála verði frumvarpið að lögum.”

Mestur hluti tímans á öllum fundunum fór í að ræða fram og aftur og ná utan um hin ýmsu álitamál. Á tímabili blés ekki byrlega í störfum nefndarinnar og líklega áttu flestir nefndarmanna allt eins von á að niðurstaðan yrði 2, 3 eða jafnvel 4 mismunandi álit og niðurstöður. En vilji er allt sem þarf og öllu máli skipti að nefndin tók sér þann tíma sem þurfti. Endanleg textameðferð hefði e.t.v. mátt fá betri tíma, en nefndin var undir mikilli pressu síðustu daga að skila sínu verki og vonandi hefur tekist að setja fram skiljanlegar skýringar bæði í athugasemdum við frumvarpið og í skýrslu nefndarinnar. Á þeim stutta tíma sem í rauninni fékkst til að vinna skýrsluna var reynt að undirbyggja sem best þá niðurstöðu sem fram kemur í frumvarpinu og athugasemdum við það.

Meginatriðið var að fá fjármálaumsvif flokkanna upp á borðið og það tel ég nokkuð tryggt með þeim ákvæðum sem fram koma í frumvarpinu. Það er auðvitað athyglisvert og mjög mikilvægt að skv. frv. verður skylt að birta nöfn lögaðila sem veita fé til stjórnmálastarfsemi hver svo sem upphæðin er, en heimild til viðtöku framlags verður að hámarki 300 þús. kr. á ári. Sömu mörk eru sett á framlög einstaklinga, en nöfn þeirra verður ekki skylt að birta.

Búast má við að lögaðilar verði eitthvað tregari til að leggja fram fé til stjórnmálastarfsemi vegna upplýsingaskyldunnar, en einnig er vel hugsanlegt að þeir muni skipuleggja stuðning sinn við flokkana þannig að hann dreifist jafnar. Það álit kemur skýrt fram í skýrslu nefndarinnar og í athugasemdum við frv. að samhliða þeim breytingum sem verða á starfsumgjörð stjórnmálaflokkanna skv. frv. sé brýnt að hækka verulega framlög úr ríkissjóði til stjórnmálastarfsemi og m.a. þess vegna þurfti nefndin að hraða störfum sínum svo að tími gæfist til umfjöllunar um þau atriði í fjárlaganefnd, sem er þessa dagana að ganga frá fjárlögum næsta árs. Þá má benda á að í frumvarpinu er lagt til að Alþingi veiti þingflokkum í stjórnarandstöðu hærri framlög en stjórnarþingflokkum, eins og tíðkast sums staðar erlendis, með tilliti til mikils aðstöðumunar í þingstörfum.

Mikilvægt er að tekið er á fjárstuðningi vegna forsetakosninga, en frambjóðendur til forsetaembættisins hafa engan opinberan stuðning fengið hingað til, enda engar reglur um það fyrir hendi.

Leitast er við að styrkja starf að sveitarstjórnarmálum með því að skylda fjölmennari sveitarfélög til að leggja fé til þeirra samtaka sem í slíku standa og hvetja minni sveitarfélög til hins sama með ákvæði um heimild til þess. Í staðinn er lagt til að létt verði kostnaði af sveitarfélögunum vegna alþingiskosninga og forsetakosninga sem ríkið taki á sínar herðar.

Þá er leitast við að styrkja möguleika nýrra framboða með því að tryggja þeim, sem ná nokkrum árangri í kosningum, rétt til opinberra fjárframlaga og er sá réttur skilyrtur við mjög lágan þröskuld, þ.e. 2.5% atkvæða. Það er reyndar mín skoðun – eftir reynslu af þátttöku í tveimur nýjum framboðum um ævina – að það sé gulls ígildi að hafa eitthvað nýtt fram að færa í stjórnmálum. Ný framboð með eitthvað nýtt og merkilegt til málanna að leggja njóta gjarna þeirrar athygli fjölmiðla og áhuga almennings sem er þeim meira virði en hugsanleg fjárframlög.

Markmið alls þessa starfs var að auka traust á stjórnmálastarfsemi og efla lýðræðið með því að kveða á um fjármögnun stjórnmálastarfsemi, draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum flokkanna. Samkvæmt tillögum nefndarinnar eiga þeir þættir að vera uppi á borði og öllum ljósir. Erfiðast verður líklega að tryggja uppgjör og réttan frágang mála hjá einstökum félögum og því afar mikilvægt að tryggja þeim góðar leiðbeiningar að fara eftir. Hlutverk Ríkisendurskoðunar í framkvæmd laganna skiptir miklu máli, þaðan eiga að koma leiðbeiningar um það hvernig flokkum og ekki síst einstaklingum í prófkjöri beri að standa að uppgjöri.

Niðurstaða nefndarinnar var að leggja til lagasetningu um þá þætti sem lúta að fjármálum stjórnmálaflokkanna, en margt annað var rætt og gerð nokkur skil í lokaskýrslunni. M.a. er því beint til forsætisnefndar Alþingis að hún hlutist til um setningu siðareglna er skyldi þingmenn og ráðherra til að upplýsa um helstu atriði er varða tekjur þeirra og gjafir sem þeir hafi fengið. Það er afstaða nefndarinnar að óhjákvæmilegt sé að tryggja ákveðið gagnsæi í þessu efni líkt og tíðkast í nágrannalöndum okkar.

Nokkuð var rætt um auglýsinga- og kynningarmál og kostnað flokkanna af því, en ekki þótti eðlilegt að kveða á um slík atriði í löggjöf og varð að ráði að beina þeim tilmælum til flokkanna að ræða sín í milli um hvort og þá hvernig unnt væri að vinna að því sameiginlega að draga úr kostnaði flokkanna af því.

Þá var mikið fjallað um framkvæmd kosninga, undirbúning þeirra og kynningu af hálfu ríkisins, og var nefndin sammála um að ríkið þurfi að koma af meiri myndarskap að þeim málum. Huga þarf m.a. að merkingu og kynningu á kjörstöðum, fyrirkomulagi kosninga og ekki síst atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. Mikilvægt er að stuðla að því að góð kjörsókn haldi áfram að vera einkennandi fyrir íslensk stjórnmál og í rauninni sérstaklega mikilvægt nú þegar lagt er til að settar verði reglur sem breyta starfsumhverfi flokkanna og kunna að hafa áhrif á svigrúm flokka til kynningarstarfsemi í kosningabaráttu og þar með kynningu á kosningum í aðdraganda þeirra. Því leggur nefndin til að skipuð verði nefnd fulltrúa flokkanna sem þrói tillögur um eflingu kynningarstarfs á vegum hins opinbera um kosningar.

Það er ekki í lagi að nauðga

Samfélag, félag framhaldsnema við félagsvísindadeild HÍ, efndi til hádegisfundar í gær undir yfirskriftinni “Nauðganir á Íslandi. Hvað getum við gert?”. Þar fjallaði Eyrún Jónsdóttir, deildarstjóri hjá Neyðarmóttöku vegna nauðgana, um tölfræðilega stöðu þessara mála og kallaði eftir aukinni áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir. Og Gísli Hrafn Atlason, fulltrúi karlahóps Femínistafélagsins, flutti áhrifamikla ræðu um þessi mál og kallaði sterkt eftir ábyrgð karla í þeim efnum. Stjórnmálaflokkarnir áttu hver sinn fulltrúa í pallborði pallborði og þekktu auðheyrilega misjafnlega vel til mála.

Upplýst var að rúmlega 1.400 þolendur nauðgana hafa leitað til Neyðarmóttökunnar á árabilinu 1993-2006. Þolendur eru á aldrinum 10-78 ára, en 67% þeirra eru yngri en 25 ára. 60-70% brotanna voru framin inni á heimilum. Árið 2005 fjölgaði fórnarlömbum mest í aldurshópnum 10-15 ára.

Þetta eru allt uggvænlegar tölur og upplýsingar, en það skelfilegasta er í rauninni að þær eru fjarri því að ná yfir öll brot og glæpi af þessu tagi. Vitað er að fjöldi slíkra glæpa er ekki kærður og hvergi skráður. Það sanna erlendar rannsóknir og engin ástæða til að ætla að ástandið hér á landi sé eitthvað betra í þeim efnum.

Á fundinum í gær var nokkuð rætt um nauðsyn þess að setja á laggirnar nefnd eða starfshóp til að fara yfir stöðu mála og móta tillögur til úrbóta. Varð mér þá hugsað til tillögunnar sem við kvennalistakonur fengum samþykkta fyrir rúmum 22 árum um nefnd til að kanna “…hvernig háttað er rannsókn og meðferð nauðgunarmála og geri tillögur til úrbóta í þeim efnum”.

Tillagan var samþykkt vorið 1984 og leiddi til þess að nefnd fagaðila vann mikið og gott starf næstu fimm árin. Nefndin skilaði ítarlegri skýrslu og lagði fram margar tillögur um lagabreytingar og úrbætur á meðhöndlun þessara mála. Minnist ég þess að einn nefndarmanna, Jónatan Þórmundsson prófessor, lýsti sérstakri ánægju með það hvernig staðið væri að málum við undirbúning breytinga og umbóta í löggjöf og meðferð mála.

Í framhaldi af þessu starfi hefur jafnt og þétt verið unnið að bættri meðferð nauðgunarmála og eitt stærsta framfaraspor í þeim efnum var stigið þegar Neyðarmóttöku vegna nauðgunar var komið á laggirnar árið 1993. Stærstan þátt í undirbúningi þess átti Guðrún Agnarsdóttir læknir og fyrrverandi þingkona Kvennalistans sem hafði síðan yfirumsjón með þessu starfi allar götur til ársins 2004 þegar stjórnendur LSH töldu ekki lengur þörf á 20% starfi yfirlæknis við Neyðarmóttökuna. Það var misráðið og í raun til vitnis um skilningsleysi ráðamanna í þessum efnum.

Það er ömurlegt að allt það góða sem hefur verið gert í þessum málum síðustu 20 árin skuli ekki hafa skilað sér eins og vonast var til. Meðferð mála er sannarlega betri, aðkoma lögreglu er allt önnur en var og jafnvel dómskerfið er talsvert skárra þrátt fyrir allt. Mestu munar um starfsemi Neyðarmóttökunnar sem hefur vakið alþjóðlega athygli og verið skilgreind sem fyrirmynd á alþjóðamælikvarða.

En nauðgunum hefur því miður ekki fækkað og þær virðast jafnvel hrottalegri en nokkru sinni fyrr. Klámi, ruddaskap og kvenfyrirlitningu er haldið að ungum strákum, hópnauðgunum hefur fjölgað og það þykir “kúl” að stæra sig af kynlífi í hvaða mynd sem er.

Þessi mál koma okkur öllum við. Aðgerðir hingað til hafa fyrst og fremst beinst að brotaþolum og bættri meðferð nauðgunarmála. Nú þarf að leggja áherslu á þá sem brotin fremja og þá sem eru í þeirri hættu að fremja slík brot. Ábyrgðinni verður að beina þangað sem hún á heima, til karla sem nauðga og til stráka á þroskaskeiði sem er í rauninni innrætt með ýmsu móti að það sé í lagi að nauðga.

Karlahópur Femínistafélagsins hefur rutt brautina í þessu efni og þeirra starf þarf að styrkja. Umræðuna þarf að færa til unga fólksins og senda þangað réttu skilaboðin: ÞAÐ ER EKKI Í LAGI AÐ NAUÐGA.

Hvalveiðirugl og þjóðremba

Þar kom að því: Nú á að bjarga þjóðarstoltinu og sýna umheiminum að Íslendingar kunni að veiða stórhveli og geri það ef þeim svo sýnist. Einar ráðherra og Kristján Loftsson hafa greinilega verið í nánu sambandi og Kristján treyst því að hann fengi veiðileyfi, því hann hefur varið miklum fjárhæðum í endurnýjun tóla og tækja og annan undirbúning veiðanna að undanförnu. Svo sigldi hann úr höfn um sæfexta dröfn stundu áður en Einar tilkynnti um útgefið leyfi sitt á Alþingi Íslendinga. Og á bakkanum stóðu nokkrar kempur sem steyttu hnefa og klöppuðu.

Það vekur nokkra furðu hvernig staðið er að málum því tímasetningin er ekki í nokkru samræmi við þá reynslu og þekkingu sem fyrir hendi er um hátterni langreyðar. Hún er nefnilega hreint ekki líkleg til að láta ná í sig á þessum tíma ársins. Kannski er tímasetningin einfaldlega í þeim tilgangi að koma í veg fyrir veiðar að þessu sinni, því skipin og tólin og mannskapurinn eru í rauninni alls ekki reiðubúin til veiða, allt heldur ryðgað og löngu úr þjálfun. Er þetta ekki bara sýning? “Sáuð þið hvernig ég tók hann, piltar”, sagði Jón sterki.

Merkilegast finnst mér þó hversu margar raddir heyrast gegn þessu ráðslagi ríkisstjórnarinnar, misjafnlega skeleggar en fullar efasemda. M.a.s. Jónína umhverfisráðherra treystir sér til að láta í ljós efasemdir. Öðru vísi mér áður brá. Meðan á banni Alþjóðahvalveiðiráðsins stóð árin 1985-92 var ótal sinnum tekist á um þessi efni á Alþingi og annars staðar í samfélaginu og ævinlega af miklum hita og oft einkar ómálefnalega. Man ég margar snerrur á Alþingi og í ljósvakaþáttum og verður að segjast eins og er að ekki voru margir fúsir til að andmæla hvalveiðum opinberlega. Sjálfri fannst mér ekki erfitt að vera á þeirri línu og verja þann málstað, svo mörg voru rökin gegn hvalveiðum, söguleg, efnisleg, umhverfisleg og efnahagsleg. Þau rök eru enn í fullu gildi.

Hagsmunir af hvalveiðum eru sáralitlir í samanburði við hagsmuni í ferðaþjónustu og sjávarútvegi, þ.e. fyrst og fremst sölu sjávarafurða. Með því að hefja hvalveiðar er verið að setja mikla hagsmuni í hættu fyrir lítinn ávinning, jafnvel engan. Hver er líklegur arður af þessu brölti? “Það veit ég ekkert um”, segir Kristján Loftsson kokhraustur í Kastljósi, “það kemur bara í ljós!” Hvað á að gera við aflann, hverjum á að selja kjötið? Hverjir eiga að neyta kjötsins? Það vantar ekkert kjöt á markaði hér innanlands og heimurinn bíður ekki eftir hvalkjöti af Íslandsmiðum.

Ein rökin fyrir nauðsyn hvalveiða eru þau að hvalir éti svo mikinn fisk og séu þar af leiðandi í bullandi samkeppni við Íslendinga á fiskimiðunum. Þessi fullyrðing styðst ekki við nein vistfræðileg eða líffræðileg rök. Hvalir eru einfaldlega hluti af flóknu vistkerfi þar sem hver étur annan og það er ekki með neinum vísindalegum rökum hægt að fullyrða að sá fiskur sem hvalir innbyrða sé að stórum hluta tapaður fiskveiðiafli. Ef menn tryðu því í raun og veru að hvalveiðar væru nauðsynlegar á þessum forsendum, þ.e. til að hrinda þar úr vegi samkeppnisaðila um nýtingu sjávarfangs, þá værum við auðvitað að tala um meiri háttar styrjöld í sjónum umhverfis landið, það þyrfti sem sagt enga smávegis hvalaslátrun til þess að ryðja þessum keppinautum um fiskinn úr vegi.

Þjóðin hefur ekki umheiminn með sér í þessu máli og það vill bara svo til að þjóðin þarf á umheiminum að halda, ekki bara á sviði viðskipta, heldur ekki síður og í vaxandi mæli á sviði umhverfismála og þar liggja kannski stærstu hagsmunirnir í þessu efni. Því miður er hætt við því að orðstír þjóðarinnar hafi þegar beðið verulegan hnekki vegna stóriðju- og stórvirkjanastefnu undanfarinna ára. Stórhvalaveiðar bæta ekki þann orðstír, þá ímynd lands og þjóðar sem skiptir svo miklu máli fyrir okkur öll og ekki síst atvinnuvegina. Gleggsta dæmið um atvinnugrein sem vegið er að er ein af hliðargreinum ferðaþjónustunnar, hvalaskoðun, sem er í örum vexti og þróun og væri skaði ef úr henni drægi.

Þetta hvalveiðirugl er hið mesta óráð og þjónar engum tilgangi öðrum en þeim að ögra umheiminum. Það er heimskulegt að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Í húfi eru ekki aðeins dýrmætir markaðir fyrir íslenskar sjávarafurðir og stórkostlegir möguleikar í ferðaþjónustu, heldur samstarf við aðrar þjóðir í umhverfismálum og orðstír þjóðarinnar í vísindum og umhverfismálum.

Náttúruverndarbaráttan

Umræðan um náttúru Íslands er líkt og vatnið, stundum eins og hljóður lækur, stundum eins og harðfrosið heiðarvatn, stundum eins og ólgandi fljót í vorleysingum og einmitt þannig er umræðan um þessar mundir. Að miklu leyti getum við þakkað boðaföll síðustu vikna þeim Andra Snæ og Ómari sem eru hreinlega að springa af orku og hugmyndaólgu. Það er stórkostlegt að hafa fengið slíka liðsmenn í baráttuna því hún er óralangt frá endalokum. Framundan er áframhaldandi stríð við virkjanaöflin.

Jökulsárgangan niður Laugaveg 26. september sl. var ótrúleg reynsla, minnti á 24. október 1975 þegar konur fylltu miðbæinn. Veðrið var yndislegt, þátttakan margfalt meiri en nokkur bjóst við, samkenndin var beinlínis áþreifanleg. Mannfjöldinn var vel með á nótunum og lét til sín heyra. Heim var svo haldið með þakklæti í huga og von um að baráttan mundi vinnast að lokum.

Það angrar hins vegar huga minn þegar hver af öðrum talar eins og loksins núna hafi eitthvað gerst til verndunar íslenskrar náttúru, að í þessu máli hafi verið sofið á verðinum og gott ef ekki í náttúruverndarbaráttunni yfirleitt. Fólki hafi almennt ekki verið ljóst hvað var að gerast á hálendinu, það hafi ekki vitað um stærð verkefnisins og allan kostnaðinn, ekki vitað hvílíkar gersemar voru í húfi o.s.frv.

Það er vissulega rétt að það hefur tekið tímann sinn að ná eyrum fólks, en mikið hefur verið gert og mikið unnið og enginn hefði þurft að láta umhverfisspjöllin á víðernunum norðan Vatnajökuls koma sér á óvart. Þau voru ekki að hefjast 28. september sl., þau hafa staðið yfir hátt í 5 ár að undangenginni mikilli umræðu og baráttu á báða bóga. Og vegna allra þessara athugasemda “…sofið á verðinum…”, “…of seint við brugðist…”, “…ekki nægar upplýsingar…” o.s.frv. er bæði rétt og sanngjarnt að rifja upp nokkrar staðreyndir.

Vissulega er býsna langt síðan farið var að vinna að umhverfis- og náttúruvernd og erfitt að setja upphafspunkt þeirrar baráttu. En vegna þess sem nú er efst á baugi er rétt að minna á baráttufundinn í Háskólabíói í nóvember 1998. Í mínum huga markar hann ákveðið upphaf baráttunnar fyrir verndun víðernanna norðan Vatnajökuls. Tilefnið var áformin um Fljótsdalsvirkjun sem hefði kaffært hina dýrmætu Eyjabakka. Salurinn var troðfullur og andrúmsloftið tilfinningaþrungið og mynd Páls Steingrímssonar frá Eyjabökkum kallaði fram tilfinningaöldu. Höfuðkempa fundarins var Guðmundur Páll Ólafsson sem þá þegar hafði vakið marga til umhugsunar með táknrænum mótmælum gegn myndun Hágöngulóns á miðhálendinu. Hann hefur bæði þá og síðar lagt sitt lóð á vogarskálarnar, ekki síst í stórkostlegum bókum sínum um náttúru Íslands.

Ári síðar hófst svo barátta Umhverfisvina sem söfnuðu á 2 mánuðum undirskriftum ríflega 45 þúsund manns undir kröfuna um lögformlegt mat á umhverfisáhrifum vegna Fljótsdalsvirkjunar. Framkvæmdin var engu að síður samþykkt af meirihluta á Alþingi, en síðar blásin af og tók þá ekki betra við þegar stríðið um Kárahnjúkavirkjun hófst. Í þeirri baráttu lögðu margir sitt af mörkum af miklum eldmóði.

Umhverfisvinir voru ekki einu samtökin sem urðu til á þessum tíma og bættust þar með við náttúruverndarsamtök í öllum landshlutum, Landvernd, Fuglavernd og fleiri félög á sviði náttúruverndar. Þar má sérstaklega nefna Náttúruvaktina sem var mjög virk á þeim tíma og síðar urðu til fleiri hópar sem allir höfðu það að markmiði að upplýsa og hvetja til baráttu gegn náttúruspjöllum. Það er í rauninni aðdáunarvert hvílíkum árangri öll þessi barátta hefur skilað, barátta lítt skipulagðra fjárvana áhugasamtaka gegn virkjanaöflum í skjóli ríkisstjórnar og meirihluta Alþingis, barátta Davíðs við Golíat.

Það var svo margt sem þetta fólk gerði. Mér eru t.d. minnisstæðir hádegisfundirnir á Austurvelli hvern einasta virkan dag frá því í ágúst 2002 og fram eftir ári 2003. Við hittumst þar undir styttu Jóns og ræddum stöðuna, fengum heimsóknir manna sem uppfræddu og skemmtu, enduðum svo með söng sem var reyndar misjafnlega fagur eftir því hvort tenórinn okkar, Jón Rúnar Arason, var viðstaddur eður ei. Upp úr þessu hófst mikil fundaröð á Grand Rokk með fyrirlestrum fræðimanna um virkjunaráformin og frjálsum umræðum að þeim loknum. Þar má ætla að kviknað hafi hugmynd þeirra Óskar og Ástu í Augnabliki að skipuleggja ferðir um landið sem nú er verið að eyðileggja. Það ómetanlega starf opnaði mörgum sýn.

Tónleikar voru haldnir og sérstakt blað, Hálendisblaðið, gefið út með fræðandi lesefni og upplýsandi myndum. Síðar kom svo út kortið “Ísland örum skorið” sem ýtti við mörgum. Myndir vógu þungt í baráttunni, myndir sem margir okkar bestu ljósmyndara tóku og fengu birtar í blöðum og bókum, á kortum og á sýningum, m.a. í Kringlunni undir heitinu “Landið sem hverfur”. Þessar myndir eru orðnar vel þekktar sem bakgrunnur fjölda funda, m.a. útifunda á Austurvelli, sem eru orðnir margir.

Eftirminnilegur er baráttufundur í troðfullu Borgarleikhúsinu 15. janúar 2003 undir yfirskriftinni “Leggjum ekki landið undir – björgum þjóðarverðmætum.” Og daginn eftir söfnuðust mótmælendur hundruðum saman við Ráðhúsið til að sýna hug sinn vegna umræðu og atkvæðagreiðslu um ábyrgðir Reykjavíkurborgar vegna Kárahnjúkavirkjunar. Þar var heldur betur hiti í mannskapnum enda skynjaði fólk að þarna var gullið tækifæri til að koma í veg fyrir framkvæmdaáformin. Úrslit atkvæðagreiðslunnar urðu gífurleg vonbrigði sem drógu nokkurn þrótt úr baráttunni.

Hlutur fjölmiðla fólst að mestu leyti í aðsendum greinaskrifum sem voru sannarlega í gríðarlegu magni og buðu upp á gagnleg skoðanaskipti. Umfjöllun fjölmiðla var ekki markviss af þeirra hálfu, fremur fréttaflutningur líðandi stunda, með þeirri undantekningu að Morgunblaðið birti mjög góðan og upplýsandi greinaflokk í september og október 1998 um þau meginsjónarmið og þá kosti sem Íslendingar stæðu frammi fyrir í virkjanamálum og verndun hálendis Íslands. Ragna Sara Jónsdóttir vann textann og Ragnar Axelsson lagði til flestar myndirnar auk þess sem kort af helstu svæðum skýrðu málið.

Draumalandið hans Andra Snæs hefur hreyft við mörgum og örvað til umhugsunar. Eldmóður hans, hugmyndaflug og fljúgandi mælska valda því að hann er eftirsóttur fundargestur þar sem hefðbundin ræðuhöld blikna þegar hann fer á flug. Hann er örugglega ekki búinn að segja sitt síðasta um þessi mál frekar en önnur.

Engin spurning er að þrátt fyrir einbeitta viðleitni Ómars Ragnarssonar til að láta ekki hanka sig á hlutdrægni í sambandi við virkjanamálin þá hefur hann lagt mikið af mörkum til að upplýsa og fræða um áhrifin af framkvæmdum á hálendinu og sýna þau ómetanlegu svæði sem um er að ræða. Ótrúleg elja hans verður aldrei fullþökkuð, en hægt er að leggja honum lið og bæta honum að einhverju leyti þann gríðarlega kostnað sem hann hefur orðið fyrir í sínu hugsjónastarfi. Nú sýnir hann okkur myndir og segir fréttir á www.hugmyndaflug.is Þar má m.a. sjá undurfallega og táknræna mynd af litfögrum gróðri á og undir bakka Hálslóns.

Á Alþingi börðust Vinstri græn ein við ofureflið í Kárahnjúkamálinu og unnu þrotlaust að því innan og utan þings að varpa ljósi á alla þætti málsins. Þau reyndu m.a. að sannfæra stjórnvöld um réttmæti þess að landsmenn fengju að segja sitt um þessar framkvæmdir í þjóðaratkvæðagreiðslu, en fengu ekki einu sinni stuðning Samfylkingarinnar við þá tillögu. Þau hafa aldrei kvikað í baráttu sinni og eiga skilið bæði lof og stuðning. Vonandi skynja náttúruunnendur sinn vitjunartíma í þingkosningunum að vori.

Þannig hafa margir lagt hönd á plóg í baráttunni fyrir verndun náttúru Íslands. Sá hópur getur bara stækkað. Verkefnin eru ærin framundan. Jökulsárnar í Skagafirði, Langisjór, Skjálfandafljót, Brennisteinsfjöll, Grændalur. Hvað dettur mönnum næst í hug?

Hryllingurinn við Kárahnjúka má aldrei aftur eiga sér stað

Fyrir réttum áratug stóð ég í fyrsta sinn á barmi Dimmugljúfra og gleymi aldrei þeirri stundu. Ég vissi ekki um þessi gljúfur og var hreint agndofa yfir hrikalegri fegurð náttúrunnar sem þar birtist. Magnað, var eina orðið sem þá kom mér í hug. Á þeim tíma voru þessi einstæðu gljúfur fáum kunn. Nú vita allir um tilvist þeirra og fólk hefur streymt þangað nú síðustu árin að sjá þau og annað umhverfi Kárahnjúkanna sem nú standa hnípnir og sárir og bíða örlaga sinna.

Ég flaug með Ómari Ragnarssyni yfir svæðið um miðjan ágúst. Hrifning og reiði börðust um völdin í huga mér. Afleiðingar ofbeldisaðgerða virkjanasinna skera í augun þegar flugvélin sveimar yfir framkvæmdasvæðinu. Hver náttúruperlan af annarri gleðja hins vegar þegar vélin stingur sér niður í gljúfrin og flýgur yfir nágrennið. Öræfakyrrðin umlykur mann á göngu um Kringilsárrana þar sem sérstæðar náttúrumyndanir vekja furðu og hvert lítið blóm vekur aðdáun. Tilhugsunin um lónið mikla, sem innan skamms kaffærir ómetanlegt landsvæði, sker í hjartað. Það landsvæði verður aldrei endurheimt.

Það hefur verið bæði ótrúlegt og sárt að fylgjast með tilurð Kárahnjúkavirkjunar allt frá því byrjað var að kynna hugmyndina til þessa dags. Hópur andmælenda var ekki fjölmennur í upphafi og afl hans og aðgerðir máttu sín lítils gagnvart stjórnvöldum. Þar var í raun við algjört ofurefli að etja og minnisstæð eru orð Halldórs Ásgrímssonar í ágúst 2001 þegar Skipulagsstofnun hafði fellt þann úrskurð að virkjunaráformunum skyldi hafnað vegna mikilla óafturkræfra náttúruspjalla. “Það er stefna stjórnvalda að þessi virkjun verði byggð og þessi úrskurður Skipulagsstofnunar breytir engu þar um,” segir Halldór Ásgrímsson í DV 3. ágúst það ár.

Á Alþingi börðust Vinstri græn hetjulega gegn málinu og eru enn að. Þau eru í rauninni fyrst núna að uppskera árangur erfiðis síns og þrautseigju. Og þótt virkjunin verði að veruleika skilar sér til framtíðar ótrúleg elja mótmælenda við að draga upplýsingar fram í dagsljósið og vekja fólk til umhugsunar um það sem var að gerast, um umfang fyrirhugaðra framkvæmda, um landsvæðið sem skyldi sökkt og þannig fórnað um alla framtíð, um kostnaðinn og vafasama arðsemi framkvæmdanna, en fyrst og fremst um þetta ofbeldi mannsins gagnvart náttúrunni.

Kunningi minn lýsti því nýlega fyrir mér þegar hann fór fyrst upp að Kárahnjúkum og virti fyrir sér framkvæmdirnar af útsýnispallinum. Nákvæmlega á þeim stað er fátt sem hrífur hugann nema menn séu þannig innstilltir að hrífast af vinnuvélum og hrikalegu jarðraski. Hann sagðist hafa velt fyrir sér hverju í fjandanum andstæðingar virkjunarinnar væru eiginlega að mótmæla, þarna væri fátt merkilegt að sjá. Nú hefur hann kynnt sér umhverfið betur og er skelfingu lostinn yfir því sem er að gerast. Hann tilheyrir þar með sífellt stækkandi hópi fólks sem hefur verið að vakna til vitundar um náttúruspjöllin norðan Vatnajökuls, fólks sem hefur nú séð náttúruundrin með eigin augum, gengið um lónbotninn, séð fossana sem ýmist hverfa eða verða ekki svipur hjá sjón, tínt berin og séð gróðurinn sem virkjanasinnar hafa gert lítið úr.

Þökk sé öllum þeim sem hafa lagt sitt lóð á vogarskálarnar við að vekja og upplýsa, opna augu fólks fyrir ómetanlegum náttúruperlum öræfanna, gildi þess að eiga slíkar perlur ósnertar og hvernig þær geta verið okkur margfalt verðmætari óspjallaðar en sundurgrafnar og kaffærðar. Fjöldi fólks hefur kynnt sér víðernin norðan Vatnajökuls síðustu mánuði og ár, m.a. fyrir tilstilli hugsjónakvennanna Ástu og Óskar í Augnabliki og eldhugans Ómars sem hefur nánast rúið sig inn að skinni til að kynna og fræða og gera fólki kleift að sjá og skilja.

Einstæð náttúra Íslands hefur eignast mikinn fjölda vina sem munu verja hana fyrir vægðarlausri ágengni öfgafullra virkjanasinna í framtíðinni. Hryllingurinn við Kárahnjúka má aldrei aftur eiga sér stað