Sigrún Björk Jakobsdóttir er loksins sest í stól bæjarstjóra á Akureyri. Þar með hafa Akureyringar fengið sinn fyrsta bæjarstjóra úr röðum kvenna. Það er auðvitað hið besta mál og ástæða til að óska þeim til hamingju með það og svo Sigrúnu Björku gæfu og gengis í starfinu.
En hvers vegna er þetta svona mikið mál? Af hverju eru fjölmiðlarnir og þó sér í lagi Morgunblaðið að gera svona mikið úr þessum atburði? Þetta er ekki fyrsta konan á Íslandi sem tekur að sér stjórn bæjarfélags þótt þær hefðu sannarlega mátt vera fleiri á liðnum árum. Það voru vissulega stórfréttir fyrr á árum í hvert eitt sinn sem kona skipaði stjórnunarstöðu, en varla er fólk búið að gleyma því að m.a.s. höfuðborg landsins hefur nýlega lotið kvenlegri stjórn um árabil, fyrst Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og síðan Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur. Og víða hafa konur stjórnað bæjarfélögum vítt og breitt um landið af skörungsskap og gera enn.
Málið er kannski ekki flóknara en það að fyrri bæjarstjóri, Kristján Þór Júlíusson, þurfti með aðstoð fjölmiðla, aðallega Moggans, að breiða yfir eigin blekkingaleik og græðgi. Hann sór og sárt við lagði í kosningabaráttunni á síðasta ári að hann ætlaði sér ekki annað í pólitíkinni en að vera áfram bæjarstjóri Akureyringa, en sveik það svo við fyrsta tækifæri í prófkjöri til alþingisframboðs. Hann mun leiða framboðslista Sjálfstæðisflokksins í NA-kjördæmi og er búinn að tryggja sér sæti á Alþingi næstu árin, en finnst það greinilega ekki mikið mál því hann hyggst sitja áfram í bæjarstjórn á Akureyri, telur sig líklega ómissandi. Og ekki nóg með það, heldur ætlar hann að halda bæjarstjóralaununum næstu mánuðina og fór létt með að útskýra það fyrir landsmönnum. Lítillátur, ljúfur, kátur!
Ráðið til að halda fjölmiðlum við réttu fréttirnar og gleyma þeim vitlausu er að gera sem allra mest úr bæjarstjóraskiptunum og birta mikið af fréttum og myndum af konunni Sigrúnu Björku Jakobsdóttur, sem fyrst kvenna sest í stól bæjarstjóra á Akureyri, en hefur satt að segja varla sést á mynd án Kristjáns Þórs.