Þar kom að því: Nú á að bjarga þjóðarstoltinu og sýna umheiminum að Íslendingar kunni að veiða stórhveli og geri það ef þeim svo sýnist. Einar ráðherra og Kristján Loftsson hafa greinilega verið í nánu sambandi og Kristján treyst því að hann fengi veiðileyfi, því hann hefur varið miklum fjárhæðum í endurnýjun tóla og tækja og annan undirbúning veiðanna að undanförnu. Svo sigldi hann úr höfn um sæfexta dröfn stundu áður en Einar tilkynnti um útgefið leyfi sitt á Alþingi Íslendinga. Og á bakkanum stóðu nokkrar kempur sem steyttu hnefa og klöppuðu.
Það vekur nokkra furðu hvernig staðið er að málum því tímasetningin er ekki í nokkru samræmi við þá reynslu og þekkingu sem fyrir hendi er um hátterni langreyðar. Hún er nefnilega hreint ekki líkleg til að láta ná í sig á þessum tíma ársins. Kannski er tímasetningin einfaldlega í þeim tilgangi að koma í veg fyrir veiðar að þessu sinni, því skipin og tólin og mannskapurinn eru í rauninni alls ekki reiðubúin til veiða, allt heldur ryðgað og löngu úr þjálfun. Er þetta ekki bara sýning? “Sáuð þið hvernig ég tók hann, piltar”, sagði Jón sterki.
Merkilegast finnst mér þó hversu margar raddir heyrast gegn þessu ráðslagi ríkisstjórnarinnar, misjafnlega skeleggar en fullar efasemda. M.a.s. Jónína umhverfisráðherra treystir sér til að láta í ljós efasemdir. Öðru vísi mér áður brá. Meðan á banni Alþjóðahvalveiðiráðsins stóð árin 1985-92 var ótal sinnum tekist á um þessi efni á Alþingi og annars staðar í samfélaginu og ævinlega af miklum hita og oft einkar ómálefnalega. Man ég margar snerrur á Alþingi og í ljósvakaþáttum og verður að segjast eins og er að ekki voru margir fúsir til að andmæla hvalveiðum opinberlega. Sjálfri fannst mér ekki erfitt að vera á þeirri línu og verja þann málstað, svo mörg voru rökin gegn hvalveiðum, söguleg, efnisleg, umhverfisleg og efnahagsleg. Þau rök eru enn í fullu gildi.
Hagsmunir af hvalveiðum eru sáralitlir í samanburði við hagsmuni í ferðaþjónustu og sjávarútvegi, þ.e. fyrst og fremst sölu sjávarafurða. Með því að hefja hvalveiðar er verið að setja mikla hagsmuni í hættu fyrir lítinn ávinning, jafnvel engan. Hver er líklegur arður af þessu brölti? “Það veit ég ekkert um”, segir Kristján Loftsson kokhraustur í Kastljósi, “það kemur bara í ljós!” Hvað á að gera við aflann, hverjum á að selja kjötið? Hverjir eiga að neyta kjötsins? Það vantar ekkert kjöt á markaði hér innanlands og heimurinn bíður ekki eftir hvalkjöti af Íslandsmiðum.
Ein rökin fyrir nauðsyn hvalveiða eru þau að hvalir éti svo mikinn fisk og séu þar af leiðandi í bullandi samkeppni við Íslendinga á fiskimiðunum. Þessi fullyrðing styðst ekki við nein vistfræðileg eða líffræðileg rök. Hvalir eru einfaldlega hluti af flóknu vistkerfi þar sem hver étur annan og það er ekki með neinum vísindalegum rökum hægt að fullyrða að sá fiskur sem hvalir innbyrða sé að stórum hluta tapaður fiskveiðiafli. Ef menn tryðu því í raun og veru að hvalveiðar væru nauðsynlegar á þessum forsendum, þ.e. til að hrinda þar úr vegi samkeppnisaðila um nýtingu sjávarfangs, þá værum við auðvitað að tala um meiri háttar styrjöld í sjónum umhverfis landið, það þyrfti sem sagt enga smávegis hvalaslátrun til þess að ryðja þessum keppinautum um fiskinn úr vegi.
Þjóðin hefur ekki umheiminn með sér í þessu máli og það vill bara svo til að þjóðin þarf á umheiminum að halda, ekki bara á sviði viðskipta, heldur ekki síður og í vaxandi mæli á sviði umhverfismála og þar liggja kannski stærstu hagsmunirnir í þessu efni. Því miður er hætt við því að orðstír þjóðarinnar hafi þegar beðið verulegan hnekki vegna stóriðju- og stórvirkjanastefnu undanfarinna ára. Stórhvalaveiðar bæta ekki þann orðstír, þá ímynd lands og þjóðar sem skiptir svo miklu máli fyrir okkur öll og ekki síst atvinnuvegina. Gleggsta dæmið um atvinnugrein sem vegið er að er ein af hliðargreinum ferðaþjónustunnar, hvalaskoðun, sem er í örum vexti og þróun og væri skaði ef úr henni drægi.
Þetta hvalveiðirugl er hið mesta óráð og þjónar engum tilgangi öðrum en þeim að ögra umheiminum. Það er heimskulegt að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Í húfi eru ekki aðeins dýrmætir markaðir fyrir íslenskar sjávarafurðir og stórkostlegir möguleikar í ferðaþjónustu, heldur samstarf við aðrar þjóðir í umhverfismálum og orðstír þjóðarinnar í vísindum og umhverfismálum.