Tímamót í sögu stjórnmálanna

Nokkur tímamót urðu í íslenskri stjórnmálasögu í dag, 21. nóvember 2006, þegar nefnd fulltrúa allra þingflokka lauk störfum með sameiginlegri niðurstöðu um fyrirkomulag fjárhagsmálefna stjórnmálaflokkanna. Nefndin leggur fram skýrslu um starf sitt og drög að frumvarpi sem vonir standa til að verði að lögum á næstu dögum. Formaður nefndarinnar mun skila skýrslu og öðrum gögnum í hendur Geirs H. Haarde forsætisráðherra á morgun, 22. nóvember, og er nú ekki annað að gera en að óska þess að þingið taki vel á móti afrakstri mikillar vinnu nefndarinnar.

Nefndarstarfið hefur aldeilis tekið tímann sinn og verið nokkuð strangt á köflum. Á vordögum 2005 ákvað Halldór Ásgrímsson, þá forsætisráðherra, að skipa nefnd “til að fjalla um lagalega umgjörð stjórnmálastarfsemi á Íslandi”, eins og það var orðað í skipunarbréfi dagsettu 4. júlí 2005. Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, var formaður nefndarinnar og varaformaður Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, en aðrir voru Helgi S. Guðmundsson, formaður fjárlaganefndar Framsóknarflokksins, Einar K. Guðfinnsson, sem var formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, en Guðlaugur Þór Þórðarson tók svo sæti Einars þegar hann varð sjávarútvegsráðherra, Gunnar Ragnars, formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, Gunnar Svavarsson, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, Margrét S. Björnsdóttir, forstöðumaður stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála, tilnefnd af Samfylkingu, Eyjólfur Ármannsson, lögfræðingur, tilnefndur af Frjálslynda flokknum, og undirrituð, sem á þeim tíma bar þann virðulega titil framkvæmdastjóri Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Ritari nefndarinnar var Árni Páll Árnason, héraðsdómslögmaður.

Mælst var til þess að nefndin yrði nokkuð snör í snúningum og skilaði af sér fyrir árslok 2005. Sem betur fer fóru nefndarmenn ekki á taugum út af því, heldur tóku sér þann tíma sem nauðsynlegur reyndist til að ná þeirri niðurstöðu sem nú er fengin. Nefndin hélt marga fundi og suma langa og stranga á þessum tíma. Hún hafði frjálsar hendur um verklag og upplýsingaöflun og varði talsverðum tíma í að kynna sér tilhögun mála í fjölmörgum öðrum lýðræðisríkjum. Frá upphafi var lögð áhersla á samstöðu nefndarmanna um verklag og starfshætti, enda markmið vinnunnar að ná sameiginlegri niðurstöðu.

Lokaorð skýrslunnar tala sínu máli, en þau hljóða svo:

“Viðfangsefni nefndarinnar var umfangsmikið og mikilvægt og innan nefndarinnar voru uppi mjög ólík sjónarmið og skoðanir til viðfangsefnisins. Niðurstaða nefndarinnar er málamiðlun ólíkra viðhorfa. Nefndarmenn telja mikið til þess vinnandi að sem mest traust ríki um okkar lýðræðisfyrirkomulag og vonast nefndarmenn til að meiri sátt geti ríkt um þennan þátt mála verði frumvarpið að lögum.”

Mestur hluti tímans á öllum fundunum fór í að ræða fram og aftur og ná utan um hin ýmsu álitamál. Á tímabili blés ekki byrlega í störfum nefndarinnar og líklega áttu flestir nefndarmanna allt eins von á að niðurstaðan yrði 2, 3 eða jafnvel 4 mismunandi álit og niðurstöður. En vilji er allt sem þarf og öllu máli skipti að nefndin tók sér þann tíma sem þurfti. Endanleg textameðferð hefði e.t.v. mátt fá betri tíma, en nefndin var undir mikilli pressu síðustu daga að skila sínu verki og vonandi hefur tekist að setja fram skiljanlegar skýringar bæði í athugasemdum við frumvarpið og í skýrslu nefndarinnar. Á þeim stutta tíma sem í rauninni fékkst til að vinna skýrsluna var reynt að undirbyggja sem best þá niðurstöðu sem fram kemur í frumvarpinu og athugasemdum við það.

Meginatriðið var að fá fjármálaumsvif flokkanna upp á borðið og það tel ég nokkuð tryggt með þeim ákvæðum sem fram koma í frumvarpinu. Það er auðvitað athyglisvert og mjög mikilvægt að skv. frv. verður skylt að birta nöfn lögaðila sem veita fé til stjórnmálastarfsemi hver svo sem upphæðin er, en heimild til viðtöku framlags verður að hámarki 300 þús. kr. á ári. Sömu mörk eru sett á framlög einstaklinga, en nöfn þeirra verður ekki skylt að birta.

Búast má við að lögaðilar verði eitthvað tregari til að leggja fram fé til stjórnmálastarfsemi vegna upplýsingaskyldunnar, en einnig er vel hugsanlegt að þeir muni skipuleggja stuðning sinn við flokkana þannig að hann dreifist jafnar. Það álit kemur skýrt fram í skýrslu nefndarinnar og í athugasemdum við frv. að samhliða þeim breytingum sem verða á starfsumgjörð stjórnmálaflokkanna skv. frv. sé brýnt að hækka verulega framlög úr ríkissjóði til stjórnmálastarfsemi og m.a. þess vegna þurfti nefndin að hraða störfum sínum svo að tími gæfist til umfjöllunar um þau atriði í fjárlaganefnd, sem er þessa dagana að ganga frá fjárlögum næsta árs. Þá má benda á að í frumvarpinu er lagt til að Alþingi veiti þingflokkum í stjórnarandstöðu hærri framlög en stjórnarþingflokkum, eins og tíðkast sums staðar erlendis, með tilliti til mikils aðstöðumunar í þingstörfum.

Mikilvægt er að tekið er á fjárstuðningi vegna forsetakosninga, en frambjóðendur til forsetaembættisins hafa engan opinberan stuðning fengið hingað til, enda engar reglur um það fyrir hendi.

Leitast er við að styrkja starf að sveitarstjórnarmálum með því að skylda fjölmennari sveitarfélög til að leggja fé til þeirra samtaka sem í slíku standa og hvetja minni sveitarfélög til hins sama með ákvæði um heimild til þess. Í staðinn er lagt til að létt verði kostnaði af sveitarfélögunum vegna alþingiskosninga og forsetakosninga sem ríkið taki á sínar herðar.

Þá er leitast við að styrkja möguleika nýrra framboða með því að tryggja þeim, sem ná nokkrum árangri í kosningum, rétt til opinberra fjárframlaga og er sá réttur skilyrtur við mjög lágan þröskuld, þ.e. 2.5% atkvæða. Það er reyndar mín skoðun – eftir reynslu af þátttöku í tveimur nýjum framboðum um ævina – að það sé gulls ígildi að hafa eitthvað nýtt fram að færa í stjórnmálum. Ný framboð með eitthvað nýtt og merkilegt til málanna að leggja njóta gjarna þeirrar athygli fjölmiðla og áhuga almennings sem er þeim meira virði en hugsanleg fjárframlög.

Markmið alls þessa starfs var að auka traust á stjórnmálastarfsemi og efla lýðræðið með því að kveða á um fjármögnun stjórnmálastarfsemi, draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum flokkanna. Samkvæmt tillögum nefndarinnar eiga þeir þættir að vera uppi á borði og öllum ljósir. Erfiðast verður líklega að tryggja uppgjör og réttan frágang mála hjá einstökum félögum og því afar mikilvægt að tryggja þeim góðar leiðbeiningar að fara eftir. Hlutverk Ríkisendurskoðunar í framkvæmd laganna skiptir miklu máli, þaðan eiga að koma leiðbeiningar um það hvernig flokkum og ekki síst einstaklingum í prófkjöri beri að standa að uppgjöri.

Niðurstaða nefndarinnar var að leggja til lagasetningu um þá þætti sem lúta að fjármálum stjórnmálaflokkanna, en margt annað var rætt og gerð nokkur skil í lokaskýrslunni. M.a. er því beint til forsætisnefndar Alþingis að hún hlutist til um setningu siðareglna er skyldi þingmenn og ráðherra til að upplýsa um helstu atriði er varða tekjur þeirra og gjafir sem þeir hafi fengið. Það er afstaða nefndarinnar að óhjákvæmilegt sé að tryggja ákveðið gagnsæi í þessu efni líkt og tíðkast í nágrannalöndum okkar.

Nokkuð var rætt um auglýsinga- og kynningarmál og kostnað flokkanna af því, en ekki þótti eðlilegt að kveða á um slík atriði í löggjöf og varð að ráði að beina þeim tilmælum til flokkanna að ræða sín í milli um hvort og þá hvernig unnt væri að vinna að því sameiginlega að draga úr kostnaði flokkanna af því.

Þá var mikið fjallað um framkvæmd kosninga, undirbúning þeirra og kynningu af hálfu ríkisins, og var nefndin sammála um að ríkið þurfi að koma af meiri myndarskap að þeim málum. Huga þarf m.a. að merkingu og kynningu á kjörstöðum, fyrirkomulagi kosninga og ekki síst atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. Mikilvægt er að stuðla að því að góð kjörsókn haldi áfram að vera einkennandi fyrir íslensk stjórnmál og í rauninni sérstaklega mikilvægt nú þegar lagt er til að settar verði reglur sem breyta starfsumhverfi flokkanna og kunna að hafa áhrif á svigrúm flokka til kynningarstarfsemi í kosningabaráttu og þar með kynningu á kosningum í aðdraganda þeirra. Því leggur nefndin til að skipuð verði nefnd fulltrúa flokkanna sem þrói tillögur um eflingu kynningarstarfs á vegum hins opinbera um kosningar.